25.04.1966
Efri deild: 71. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2429 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

195. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breyt. á I. um kísilgúrverksmiðju við Mývatn er nú flutt af hálfu ríkisstj. vegna ýmissa breytinga, sem fram hafa komið og orðið í sambandi við þetta mál frá því, að Alþ. á sínum tíma samþykkti l. um kísilgúrverksmiðju við Mývatn á árinu 1964. En eins og hv. þm. rekur minni til, var gert ráð fyrir því í þeim l., að samvinna yrði höfð um þessa kísilgúrverksmiðju og sölu kísilgúrs við hollenzkt fyrirtæki, AIME. Síðar urðu á þær breytingar, að þetta fyrirtæki dró sig í hlé og óskaði ekki eftir lengur að vera aðili að byggingu verksmiðjunnar, og upp úr því hófust viðræður við annan aðila, amerískt fyrirtæki, Johns Manville Corporation í New York, eins og gert er grein fyrir í grg. frv. Það var stofnað, eins og gert var ráð fyrir í eldri l., undirbúningsfélag, Kísiliðjan h.f., og þar voru þeir hluthafar í, þetta hollenzka fyrirtæki, en ríkisstj. hefur nú leyst til sín þeirra hluta og gert ráð fyrir, að hlutafé ríkisins, sem lagt var fram í því, gangi svo inn í verksmiðjufyrirtækið, ef verksmiðjan yrði reist. Það þótti vera komið á það stig, þetta mál, á s.l. ári, að ég skipaði í aprílmánuði nefnd til þess að semja eða gera tilraun til þess að semja við Johns Manville um samvinnu í kísilgúrmálinu, og eins og stendur í grg. voru nm. Magnús Jónsson fjmrh., sem hafði verið formaður í Kísiliðjunni, hann var formaður n., og með honum þeir dr. Jóhannes Nordal bankastjóri, Kári Kristjánsson alþm. og Pétur Pétursson forstjóri.

Svo segir í grg., að viðræður við Johns Manville hafi frá því fyrsta verið jákvæðar og eru nú taldar vera komnar á lokastig af hálfu nm. Þeir telja sig hafa líkur fyrir því, að samningar gætu tekizt við þetta ameríska fyrirtæki og þá með þeim hætti, að það yrði hluthafi að vissu marki í sjálfri verksmiðjunni og tæki að sér með samningum sölu á kísilgúrnum. En þetta fyrirtæki er með stærstu kísilgúrframleiðendum og mjög ráðandi á heimsmarkaðinum, en það hefur frá upphafi verið talið mjög þýðingarmikið í sambandi við þetta mál að reyna að tryggja í samvinnu við erlenda aðila söluna á heimsmarkaðinum, sem annars kynni að reynast okkur nokkuð erfið.

Ég tel, að breytingarnar, sem í þessu frv. felast frá eldri l., séu næsta eðlilegar og eingöngu miðaðar við það breytta viðhorf, sem fram hefur komið og þá breytingu, sem orðið hefur á skipun mála, að í stað hollenzka fyrirtækisins kemur þetta ameríska fyrirtæki, sem gert er ráð fyrir, að hafi söluumboð fyrir verksmiðjuna. Það hefur verið gert ráð fyrir, eins og n. gerði grein fyrir, að þetta fyrirtæki mundi staðsetja sitt sölufyrirtæki á Húsavík, sem í sjálfu sér er mjög hagkvæmt fyrir okkur. Það munu aldrei vera nema fáeinir menn þar starfandi, en ef það væri ekki staðsett þar, mundi sennilega söluumboð fyrirtækisins í Evrópu, eitthvað af þeirra umboðum þar, taka að sér söluna og við þá missa þann spón úr aski okkar, sem okkur gæti áskotnazt þarna í sambandi við greiðslu skatta og annað af hálfu þessa fyrirtækis.

Ég vil aðeins nefna, að það var beint til mín fsp. út af þessu máli í sameinuðu þingi í sambandi við náttúruvernd og hugsanleg spöll í hinni fögru Mývatnssveit, og svaraði ég því þá. Það var frá hv. 4. þm. Norðurl. e., sem þessi fsp. kom fram. Ég veit, að mörgum er það viðkvæmt mál, og ég hef nýlega móttekið frá þeim mönnum, sem hafa undirbúið þetta mál. bréf hér að lútandi, sem ég tel nú rétt, að hv. þd. sé gerð grein fyrir. En það er svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. og stjórn Kísiliðjunnar h.f. hafa lagt mikla áherzlu á að tryggja sem bezta fjölbreytni náttúrunnar við Mývatn, hún geti haldið sér, þótt kísilgúrnáman í botni vatnsins sé nýtt. Hefur Baldur Líndal verkfræðingur verið fulltrúi stjórnarinnar að því er þetta atriði snertir.

Með tilliti til þeirra umr., sem orðið hafa um þetta mál, þykir rétt að gefa nánari upplýsingar um þær öryggisráðstafanir, sem gert er ráð fyrir að framkvæma. Fyrirhugaðir erlendir sameignaraðilar hafa sama áhuga á þessu máli og Íslendingar. Í allri mannvirkjagerð í sambandi við fyrirhugaða kísilgúrvinnslu við Mývatn hefur það sjónarmið ríkt, að náttúrudýrð þessa staðar sé í engu spillt. Þannig er verið að byggja verksmiðjuna langt frá vatninu í eyðilegu hrauni 3 km austan norðurhluta Mývatns. Það eru smávægilegar byrjunarframkvæmdir, sem hafa átt sér stað. Svo háttar þarna til, að staðurinn sést ekki frá Mývatni, og ætti því verksmiðjan að engu leyti að spilla augnayndi manna og nautn af fegurð Mývatns og nágrennis þess. Kísilgúrleðjunni úr Mývatni er dælt um granna leiðslú alla leiðina að verksmiðjunni. Við Mývatn eru rafknúnar dælur ásamt leðjugeymi, sem lítið mun bera á, eftir að gengið hefur verið frá staðnum, enda leggur Kísiliðjan hér enn höfuðáherzlu á, að upprunalegt umhverfi haldi sér. Leðjunámið mun að sinni fara fram í aðeins litlum hluta Mývatns. Meðfylgjandi kort sýnir þann hluta vatnsins, sem fyrirhugað er að dæla úr næstu 20 ár eða lengur. Yfirferðin er lítil, og dæluskipið á vatninu er mjög staðbundið, engin skaðleg gruggun á sér stað og tækin máluð þannig, að lítið ber á þeim. Kísiliðjan hefur leitað álits Náttúruverndarráðs auk annarra sérfræðinga, svo sem dr. Finns Guðmundssonar fuglafræðings, Þórs Guðjónssonar veiðimálastjóra og Hjálmars Bárðarsonar skipaskoðunarstjóra viðvíkjandi fyrirhugaðri kísilgúrvinnslu við Mývatn. Ekki hefur komið fram uggur um, að kísilgúrnám úr Mývatni væri skaðlegt lífi í vatninu. Flestir álíta á móti, að gott væri að dýpka vatnið, sökum þess að Mývatn er óðum að fyllast af kísilgúr. Sá hluti vatnsins, sem námið mun ná til á næstunni, er þó langgrynnstur, svo að þar vill vel til. Náttúruverndarráð hvetur að sjálfsögðu til varúðar við framkvæmd verksins. Öll meðferð olíu við verksmiðjuna og í samhandi við leðjudælinguna úti á vatninu verður á þann veg, að olíumengun getur tæpast átt sér stað. Meðal þeirra ráðstafana, sem ákveðnar hafa verið, eru lekavarnargarðar við olíugeymana, bæði við verksmiðjuna og við kísilolíugeymi niðri við Mývatn. Áætlaðar verða enn fremur tiltækar olíugildrur til varnar því, að olíubrák geti breiðzt út í sambandi við hugsanleg mistök við áfyllingu dæluskipsins. Þó er þar aðeins um venjulega dísilolíu að ræða, sem ekki er talin það skaðleg, að hún heyri undir reglugerðir um olíumengun hér á landi eða alþjóðareglur þar um.

Stjórn Kísiliðjunnar hefur mjög góða samvinnu við eigendur Reykjahlíðar og hreppsnefnd Skútustaðahrepps. Gerir stjórnin sér vonir um áframhaldandi góða samvinnu varðandi byggingu verksmiðjunnar og væntanlegs þorps í samhandi við verksmiðjureksturinn.“

Þetta bréf er undirritað af einum nm., Pétri Péturssyni. En kísilgúrvinnslan samkv. þessu meðfylgjandi korti er á örlitlu svæði af vatninu, aðeins örlitlum hluta þess. eins og sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, getur kynnt sér nánar um næstu 20 árin.

Í samræmi við þetta nál. eru ákvæði 7. gr., sem ekki voru í eldri l., og fram hefur komið ábending frá þm. þessa kjördæmis o.fl. þess eðlis, eins og þar stendur, að framleiðslufélagið skuli gera allar þær varúðar- og öryggisráðstafanir, sem við verður komið til þess að koma í veg fyrir, að dýralíf og gróður við Mývatn bíði tjón af starfsemi kísilgúrverksmiðjunnar. Einnig skal hafa gerð mannvirkja þannig, að þau fari sem bezt í umhverfinu. Þetta er í 7. gr. þessa frv.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn. þessarar d.