29.04.1966
Efri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2435 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

195. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Hjalti Haraldsson:

Herra forseti. Ég gat þess í sambandi við afgreiðslu þessa máls í fjhn. þessarar hv. d., að ég mundi gera grein fyrir afstöðu minni, annaðhvort í sérstöku nál. eða þegar málið yrði tekið fyrir á deildarfundi. Og þar sem ég gaf ekki út nál., vil ég í stuttu máli gera grein fyrir þeirri afstöðu minni.

Á fundi Sþ. nú í vetur hafa orðið umr. um þetta mál í sambandi við fsp. á þskj. 9 í, er 4. þm. Norðurl. e. beindi til hæstv. iðnmrh., og þar sem hæstv. ráðh. gefur þau svör, að Alþ. muni að sjálfsögðu fá að fjalla um væntanlega samninga, sem gerðir kynnu að verða við hið erlenda félag um vinnslu og sölu kísilgúrs úr Mývatni.

Eins og nú er komið, virðast þessi loforð hafa verið gefin upp í ermina, þar sem hér liggur ekki fyrir uppkast af neinum slíkum samningum og ekki einu sinni rekstraráætlun fyrir væntanlega verksmiðju.

Með samþykkt þessa frv., sem hér liggur fyrir, á að gefa hæstv. ríkisstj. víðtæka heimild til þess að semja við erlent félag um verksmiðju við Mývatn og einkasölu á framleiðslu hennar. Enn fremur á að veita heimild til frávika frá íslenzkum skatta- og útsvarslögum, og tel ég, að fordæmi til hvorstveggja sé illt að gefa og eigi ekki að gera.

Þá vil ég benda á, að 7. gr. þessa frv.,,en hún fjallar um ráðstafanir til verndar náttúru Mývatnssveitar, ég tel, að hún sé ekki nógu fast orðuð, og vil því gera væntanlegu félagi skylt að fara í öllu hvað þetta snertir eftir þeim fyrirmælum, sem Náttúruverndarráð Íslands mælir fyrir um, og varði það missi réttar til vinnslu, ef út af sé brugðið. Ég hef í gær og í dag átt tal um þetta við ýmsa hér í borginni og sérfróða á sviði náttúrurannsókna, og í gegnum þær viðræður hef ég komizt að því, að það má telja víst, að með tilkomu þessa fyrirtækis og tilfæringa í sambandi við það, missi Mývatnssveit sumt af því, sem hún á dýrmætast og fær sennilega aldrei aftur. Það verður þess vegna aldrei nógu vel brýnt, að farið skuli að með fullri gát og gengið með varúð að. Mývetningar sjálfir munu nú líka vera að vakna til meiri skilnings á þessu en verið hefur, því að nú þann 9. þ.m. samþykkti ungmennafélag Mývatnssveitar áskorun á sveitárstjórn Skútustaðahrepps, en sveitarstjórnin er eini aðilinn, sem haft hefur verið samband við í Mývatnssveit, þar sem áskorun er samþykkt um það, að kallaður skuli saman almennur sveitarfundur og á hann boðuð stjórn Kísiliðjunnar og Náttúruverndarráð.

Þetta þykja sennilega ekki þung rök á metaskálunum, þegar hagnaðarvonin metin í milljónum er annars vegar, enda ekki hægt að setja upp í tölum dæmið um viðskiptin við móður náttúru, ef taka ætti spöll á henni með í reikninginn. En eftir því sem tæknin hefur vaxið og áhöldin orðið stórvirkari, höfum við orðið borubrattari og borubrattari í aðförunum, og þótt slysi hafi verið valdið stingum við allri tilfinningasemi undir stól og ég og þú höfum fengið verkalaunin greidd, já, kannske vel það, og rentan af fjármagninu unnizt, og megum við þá ekki vera ánægðir?

Þótt ég hafi minnzt á þetta nú, geri ég mér það ljóst, að of seint mun vera um að tala, og skal ég því ekki lengja umr. um þetta frekar. Ég vil hins vegar taka það fram, að þótt ég hafi gert þessar aths., þýðir það ekki sama og það, að ég sé á móti málinu í sjálfu sér. Ég vil hins vegar á það benda, að það eru þegar til lög um kísilgúrvinnslu við Mývatn, og verð ég að segja, að mér hefði fundizt þau geðfelldari að vinna eftir, ef hægt hefði verið, en þessum, sem hér liggja fyrir.

Herra forseti, ég hef lokið máli mínu. Þökk fyrir.