29.04.1966
Efri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2436 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

195. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. meiri hl. fjhn., sem mælir með frv., með fyrirvara, og fyrirvari minn er þess eðlis, að það er nauðsynlegt, að ég geri grein fyrir honum.

Í gildandi lögum, sem eru frá 1964, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn voru mjög litlar undanþágur frá þágildandi löggjöf. Það var að vísu heimild fyrir ríkisstj. til þess að lækka tolla á vörum til stofnunar verksmiðjunnar, og það var enn fremur heimild um frávik frá hlutafélagalögunum, sem þó voru fyrst og fremst sett fyrir íslenzka ríkið, en ekki fyrir þann erlenda aðila, sem um er að ræða, vegna þess að hann átti að eiga minna en 20% í fyrirtækinu, eftir því sem yfirlýst var. Framleiðslufélagið var þá sem sagt innlent að 80%. Efni þess samnings, sem þá var ráðgert að gera við hinn erlenda aðila, lá fyrir Alþ. sem fskj. með frv. til þessara laga.

Samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir um breytingu á þessum lögum, horfir málið nokkuð öðruvísi við. Í fyrsta lagi eru í því heimildir fyrir ríkisstj. til þess að semja við erlendan aðila, sem eru mjög almennt orðaðar. Í öðru lagi er gerð grein fyrir því, að það sé gert ráð fyrir meiri þátttöku erlends aðila í framleiðsunni en áður var. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir alerlendu félagi, sem starfar á Íslandi að sölu þessarar framleiðslu. Og í fjórða lagi eru settar sérstakar reglur í frv. um, hvernig skattleggja skuli ekki aðeins hið erlenda félag sem sölufélag, heldur einnig hið íslenzka framleiðslufélag. Ég vil í þessu sambandi taka það fram, að mér virðist og ég held, að um það sé nægileg samstaða hér á Alþ. Ég man ekki betur en hæstv. iðnmrh. hafi einhvern tíma og kannske oftar en einu sinni látíð slíka skoðun í ljós, að samningar við erlenda aðila um starfsemi á Íslandi, sem fela í sér frávik frá íslenzkri löggjöf, skuli lagðir fyrir Alþ. til staðfestingar, þannig að þeir fái lagagildi. Ég held, að þetta eigi að vera meginreglan, og þó að Alþ. vildi gjarnan gera frávik frá þessum reglum í sérstökum tilfellum, þar sem alveg sérstaklega virðist standa á, þá sé a.m.k. nauðsynlegt, að Alþ. sé fyllilega ljóst, hvað í þeim heimildum felst, sem það veitir hæstv. ríkisstj. til slíkra samninga.

Í öðru lagi nefndi ég, að það er gert ráð fyrir meiri þátttöku hins erlenda aðila í framleiðslufyrirtækjum en áður var. Í því sambandi er þó ástæða til að benda á það, að enn er gert ráð fyrir, að ríkissjóður skuli eiga a.m.k. 51% af hlutabréfum framleiðslufélagsins, og má því segja, að umráð íslenzka ríkisins séu allvel tryggð. En hins vegar leiðir þetta til þess, að menn, þar á meðal ég, fara kannske frekar að óttast að áhrif hinna erlendu aðila á tæknilega framvindu á þessum sviðum kunni að verða meiri en ella og áhrif hinna íslenzku manna, sem hafa unnið að þessum málum um árabil af miklum dugnaði og myndarskap, kunni að fara minnkandi, kunni að vera minni en ella, sem ég tel óæskilegt.

Um skattreglurnar vildi ég segja það, að vissulega er það heldur ógeðfellt að þurfa að gera frávik frá íslenzkum skattreglum í einstökum tilfellum, en mér virðist þó, að vel komi til greina, að Alþ. meti hverju sinni fyrirliggjandi hugmyndir um slíkt, og eftir að hafa athugað þau ákvæði, sem þetta frv. gerir ráð fyrir um þetta efni, virðist mér, að út af fyrir sig sé kannske ekki óeðlilegt að fallast á þau. En ég kem þá að því, að þetta frv. felur í sér þá breytingu, að nýr erlendur aðili, nefnilega erlent félag, verði sett upp á Íslandi til þess að annast söluna á þessu.

Ég er þeirrar skoðunar, að ef leyfa á starfsemi erlends félags á Íslandi, þá þurfi að leggja á það þann mælikvarða, sem ég og við framsóknarmenn höfum áður gert grein fyrir að leggja beri á slíkt félag. Við þurfum að athuga, hvort uppfyllt eru þau skilyrði, sem við teljum æskilegt, að uppfyllt séu og nauðsynlegt, að uppfyllt séu til þess að slíkt komi til greina. Við höfum um rekstur erlendra manna á Íslandi talið nauðsynlegt að setja skilyrði eins og þau, að starfsemi þeirra sé eðlilegur liður í skipulegri framkvæmd heildaráætlunar um atvinnurekstur á Íslandi og þar með, að þau séu eðlilegur liður í því, einnig frá sjónarmiði þeirrar byggðaþróunar, sem við óskum að verði í landinu.

Nú er hér um að ræða fyrirtæki, sem ekki hefur framleiðslu eða starfrækslu af þessu tagi, af því tagi að þessi skilyrði eigi hér raunverulega við. En það kemur þá annað skilyrði, sem við höfum talið nauðsynlegt, að uppfyllt sé í sambandi við það að leyfa rekstur erlendra á Íslandi, og það er það, að þau lúti í öllum atriðum íslenzkum lögum og þá um leið íslenzku dómsvaldi og réttarvenjum. Auk þess teljum við æskilegt og nauðsynlegt, að það liggi fyrir, til hve langs tíma slíkur samningur er gerður.

Í önnum, sem Alþ. er nú í seinustu dagana fyrir þinglausnirnar, hefur ekki verið tækifæri til þess að skoða hinn nýja fjárhagslega og tæknilega grundvöll fyrir rekstri þessum. Enda má segja sem svo, að þar sem l. frá í hitteðfyrra gera ráð fyrir, að ráðizt yrði í slíkan rekstur, þá hljóti það þaðan í frá að vera hlutverk þeirra, sem hafa framkvæmd málsins með hendi, að tryggja eðlilega fjárhagslega og tæknilega framvindu málsins. Auðvitað væri það fróðlegt fyrir Alþ. að setja sig inn í, hvernig þau mál horfa við, og sjálfsagt, ef tími hefði verið til.

Út af ummælum hv. 4. þm. Norðurl. e. hér áðan vil ég taka það fram, að í sjálfu sér væri líka æskilegt fyrir Alþ. að gera sér grein fyrir því, hvernig viðhorf náttúruverndarmanna til þessara hluta standa, en á hinn bóginn er þess að minnast, að strax fyrir tveimur árum var gert ráð fyrir því, að slík verksmiðja yrði sett upp. Þó að hún yrði sett upp eftir þeim breyttu l., sem hér er gert ráð fyrir, mundi það í sjálfu sér ekki valda neinni breytingu á áhrifum hennar á náttúru Mývatns, svo að það er í sjálfu sér ekki nein nauðsyn að taka það mál upp í sambandi við þær breytingar, sem hér liggja fyrir. Spurningin, sem Alþ. verður að taka afstöðu til, er hins vegar sú, hvort lagagrundvöllurinn er eðlilegur, og í mínum augum veltur það á því, hversu rúmt eða þröngt þær heimildir eru túlkaðir og framkvæmdar, sem í lögunum felast.

Ég hefði talið æskilegt og vil fara fram á það við hæstv. ráðh., að þeir lýstu því yfir við þessar umr., að þeir mundu ekki nota heimildir þessara laga til þess að gera samninga við sölufélagið eða hina erlendu aðila. sem fælu annað í sér en það, að þessi starfsemi á Íslandi lúti í einu og öllu íslenzkri löggjöf og dómsvaldi. Í öðru lagi, að samningur verði ekki gerður til lengri tíma en 20 ára og í þriðja lagi, að lögð verði áherzla á það í samningunum, að íslenzkir tæknimenn hafi með höndum stjórn framleiðslunnar, eftir því sem frekast er kostur.

Í viðtölum fjhn. við hæstv. fjmrh., sem jafnframt er formaður Kísiliðjunnar og þeirra samningan., sem um þetta hefur fjallað, kom það fram, að hann hugsar sér málið þróast þannig, að þessi atriði, sem ég nefndi, verði uppfyllt. En ég óska þess, að það komi skýrt fram af hálfu hæstv. ráðh. hér í umr., og fyrirvari minn er fólginn í því, að stuðningur minn við þetta mál er háður því, að fullnægjandi yfirlýsingar fáist um þetta mál.