29.04.1966
Efri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2440 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

195. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Sunnl. hefur óskað hér eftir ákveðinni yfirlýsingu ráðh. um alveg tiltekið atriði. Hann hefur óskað eftir yfirlýsingu hans um það, að í þessum samningum, sem fyrir dyrum standa, verði svo um samið, að þetta fyrirtæki, sem hér er um að ræða, hinn útlendi aðili, lúti í einu og öllu íslenzkum l. og íslenzku dómsvaldi.

Fyrra atriðinu hefur hæstv. ráðh. svarað, en hann hefur ekki svarað síðara atriðinu á fullnægjandi hátt. Þess vegna er það ósk okkar, sem mundum vilja láta afstöðu okkar til þessa máls ráðast af því, hver svör fást við þessu, að hann gefi alveg skýr og greinileg svör við þessu. Þetta er mjög ákveðin og einföld spurning, sem hægt er að gefa alveg skýr svör við.

Því miður var yfirlýsing hæstv. fjmrh. heldur ekki fullnægjandi, af því að hann skýrði svo frá, að hann teldi líklegt eða nokkum veginn öruggt, að samkomulag mundi nást um gerðardóm, sem hann talaði um. En hann gat ekki fullyrt það. Það, sem á vantar, er yfirlýsing um, að það verði ekki samið á annan hátt en hann gerði líklegt, að samningar mundu takast um. Og vitaskuld er það, að ef um slíkan gerðardóm verður samið, eins og hann gerði ráð fyrir, þá verður þetta fyrirtæki að öllu leyti undir íslenzku dómsvaldi og þýðir ekki að vera með neinn samanburð um það við hina íslenzku álbræðslu.

Ég óska eftir því, að hæstv. ráðh. gefi alveg skýr og ótvíræð svör við þessu atriði.