30.04.1966
Neðri deild: 84. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2442 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

195. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Breyt. á kísilgúrlögunum, sem hér eru lagðar fram, eiga rót sína að rekja til þess, að eftir að I. um kísilgúrverksmiðju við Mývatn voru samþ. hér á sínum tíma og ráðgerð samvinna við hollenzkt fyrirtæki um þá verksmiðju, kom það á daginn, að það dró sig út úr eða óskaði eftir að draga sig út úr samvinnunni við kísilgúrverksmiðjuna af sérstökum ástæðum, sem þetta fyrirtæki gerði grein fyrir. Skömmu síðar hófust svo viðræður við annað fyrirtæki, amerískt fyrirtæki, Johns Manville, um þátttöku í hlutafélagi með ríkinu til þess að reisa og reka kísilgúrverksmiðju við Mývatn. Ríkisstj. skipaði í apríl á s.l. ári, eins og kemur fram í grg., sérstaka n. til þess að annast samningaviðræður við Johns Manville, og n. telur, að málið sé nú komið á það stig, að það séu líkur til þess eða líklegt, að samningar geti tekizt, en áður hafa farið fram rannsóknir af hálfu þessa fyrirtækis á botnleðjunni í Mývatni og gæðum hráefnisins, sem í heild hafa reynzt mjög jákvæðar.

Það er með nokkuð öðrum hætti, sem samvinnan er nú ráðgerð. Í öllum aðalatriðum er hún eins í sambandi við kísilgúrverksmiðjuna, en það var gert ráð fyrir því áður, að mynduð yrðu sölufyrirtæki erlendis og Íslendingar jafnvel yrðu aðilar að, en hér er gert ráð fyrir, að Johns Manville, sem er einn stærsti kísilgúrframleiðandinn og eitt stærsta sölufyrirtækið á þessu sviði, staðsetji sölufyrirtæki, sem það á, hérlendis, og þarf að veita heimild til þess. Einnig eru nokkrar nýjar heimildir teknar inn í l. í sambandi við skattgreiðslurnar, eins og fram kemur í 6. gr., sem í samningaviðræðunum hafa verið lagðar til grundvallar af hálfu n. Það þarf þess utan að veita ríkisstj. heimildir til þess að ganga frá samningunum, en ef það væri ekki gert eins og hér er lagt til, mundi þetta mál, eins og nú er komið, tefjast, og er lögð áherzla á þessa afgreiðslu málsins nú, til þess að framkvæmdir gætu hafizt af fullum krafti á þessu ári, ef samningar takast, sem mundi þá á reyna sennilega strax í júnímánuði.

Ég vil taka það fram, að það eru sett hér inn í þetta frv. ákvæði, sem eiga að kveða frekar á um en áður var, að gerðar séu nægjanlegar öryggisráðstafanir til verndunar fuglalífi við Mývatn og einnig náttúrufegurðar þar. Um þessi atriði hefur n. átt samráð við Náttúruverndarráð, og það er að dómi þeirra, sem um málið hafa fjallað, alveg öruggt, að það sé hægt að ganga nægilega tryggilega frá því, að hvorki fuglalíf né náttúrufegurð þurfi að spillast eða skerðast af völdum þessara framkvæmda. Að öðru leyti held ég, að ég þurfi ekkí að hafa fleiri orð um þetta mál að þessu sinni og legg til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.