30.04.1966
Neðri deild: 84. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2446 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

195. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil nú þakka hæstv. iðnmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur hér gefið, var kannske varla von á því, að það yrði meira en hér kom fram af hans hálfu, þar sem hann hafði heldur ekki gert ráð fyrir því, að málið yrði hér til l. umr. í dag. Ég verð nú að játa, að ég náði nú engan veginn öllu því, sem hann sagði, en þó ýmsum atriðum og þóttist heyra það greinilega, að hann gæti auðveldlega veitt mér þær upplýsingar, sem ég var hér að biðja um, og ég geri þá ráð fyrir, að þær geti legið fyrir n. til athugunar.

Ég hjó sérstaklega eftir því í þeim upplýsingum, sem hann gaf hér, að gert er ráð fyrir því, að hið erlenda sölufélag eða hinn erlendi aðili, sem á að eiga sölufélagið, fái í söluþóknun frá 10 og mér skildist upp í 31% af verðmæti vörunnar í sinn hlut. Ég veit, að það mun vera nokkuð algeng regla hjá amerískum fyrirtækjum, að þau taka býsna háa prósentu í sinn hlut fyrir það að annast söluumboð, en mér sýnist líka, að í þessu tilfelli tryggi hinn erlendi aðili sér býsna álitlega fjárhæð. Ég veit, að það er rétt, að það er eflaust miklum mun erfiðara og meira verk að annast sölu á þeirri framleiðslu, sem hér um ræðir, en t.d. á framleiðslu alúmínverksmiðjunnar, en það þótti ýmsum nóg, að gert var ráð fyrir því, að Swiss Aluminium mátti taka 11/2% í sölulaun, en hér er gert ráð fyrir því, að hinn erlendi aðili megi reikna sér frá 10–31% af verði. Það er rétt, að mikið af alúmínframleiðslunni er auðvitað selt í stórsölu til þess að gera, en þetta hins vegar selt í heldur smáum einingum og til margra aðila, en mér sýnist nú, að hinn erlendi aðili tryggi sig nú allvel að þessu leyti.

Ég skal svo ekki fara frekar út í það að ræða málið hér á þessum fundi, en vænti, að upplýsingar fáist greiðlega um málið í fjhn., þar sem ég á sæti, og dreg það ekki sízt af þeim orðum, sem hér komu fram hjá hæstv. iðnmrh., sem stendur fyrir flutningi málsins. Ég treysti á það, að þar fáist þær upplýsingar, sem eiga að koma fram í þessu máli, og skal þá ekki ræða frekar um málið hér að þessu sinni.