04.05.1966
Neðri deild: 88. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2457 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

195. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Hjörtur E. Þórarinsson:

Herra forseti. Þar sem hér er um að ræða mál, sem snertir fólkið á Norðurlandi og Norðausturlandi öðru fólki fremur, vil ég leyfa mér að leggja nokkur orð í belg.

Ég veit, að það mun vera óhætt að fullyrða það, að almenningur þar nyrðra fylgist af mjög miklum áhuga og athygli með afdrifum þessa máls hér í þinginu og yfirleitt óskar það málinu framgangs. Ég veit það af viðtölum við margt fólk fyrir norðan, að það er mikill áhugi á þessu máli, og menn vilja, að það komist í höfn, því að þó að hér sé ekki beinlínis um stórmál að ræða frá atvinnulegu sjónarmiði eða mundi a.m.k. ekki þykja það hér við Faxaflóa, ber þess þó að gæta, að þar norður frá eru menn óvanir því, að nýstárlegir hlutir gerist á atvinnusviðinu, allra sízt að það gerist fyrir atbeina ríkisvaldsins, en þegar það gerist, glæðir það vonir manna um fleiri og meiri atvinnutækifæri og traustari byggð. Þess vegna taka menn fegins hendi öllu því, sem getur stuðlað að slíku. Og sérstaklega er nú ástæða til að taka vel öllum heiðarlegum tilraunum til stofnunar atvinnutækja norðanlands, þegar sá landshluti hefur einmitt, ef svo mætti segja, misst af stóra vinningnum, sem er álbræðslan, því að hvað sem um það mál má annars segja verður því ekki neitað, að þar er um að ræða fyrirtæki, sem hlýtur að verða feiknaleg atvinnulyftistöng, hvar sem það er sett niður. Atvinnujöfnunarsjóður er auðvitað spor í rétta átt, þó að það sé stutt spor, en ég vil aðeins líta á hann sem litla byrjun á meiri, ákveðnari og markvissari lagasetningu, sem miði að því að skipuleggja byggð þjóðarinnar í landinu. Ég er að minnast á Atvinnujöfnunarsjóðinn hér, þó að það komi ekki beinlínis þessu máli við, af því að mig langar til að skjóta inn þeirri till., að hann verði ávaxtaður og honum stjórnað t.d. frá Akureyri. Ég sé ekki neitt, sem mælir gegn því, en allt, sem mælir með því.

En svo að ég snúi mér að kísilmálinu, virðist svo sem að í fyrra hafi allir flokkar hér á hv. Alþ. verið þolanlega sammála um afgreiðslu málsins, eins og það lá fyrir þá, og þar á meðal um aðild útlendinga að fyrirtækinu, en það er náttúrlega grundvallaratriði. En eins og málið liggur nú fyrir, eins og frv. liggur nú fyrir þessu þingi, þá er náttúrlega um mjög verulegar breytingar að ræða frá því, sem áður var, og sumar reyndar til bóta frá mínum bæjardyrum séð en aðrar að sjálfsögðu nokkuð athugaverðar, a.m.k. á pappírnum. Lakast er þó það, að samningamönnum okkar hefur ekki unnizt tími til að ganga það mikið frá samningum, að unnt væri að leggja fyrir hv. Alþ. samningsuppkast. Það verður að sjálfsögðu að telja mjög miður farið, einkanlega nú, eftir að alúminíummálið hefur verið til lykta leitt og hefur verið fjallað um það hér á þinginu, en sporin þaðan hræða að sjálfsögðu.

Með tilliti til þeirra skýringa, sem nú hafa fengizt frá samninganefndarmönnum okkar, þ. á m. hæstv. fjmrh., sem talaði nú rétt áðan og er formaður nefndarinnar, formaður Kísiliðjunnar, að ég held, þá vil ég álíta, að þm. verði að taka þær góðar og gildar, a.m.k. geri ég það og lýsi því yfir hér með fyrir mitt leyti, að ég tel, að rétt sé að samþykkja frv., eins og það liggur fyrir.