04.05.1966
Neðri deild: 88. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2473 í B-deild Alþingistíðinda. (1671)

195. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér í deilur hv. 3. þm. Reykv. og hæstv. fjmrh., en vegna þess að hv. 3. þm. Reykv. beindi fsp. til mín sérstaklega í fundarlokin áðan og þar sem hann er svo vanur að vera kennari okkar hér í d. og fræða okkur, þá fannst mér ekki nema eðlilegt, að ég reyndi að endurgjalda honum, þegar hann leitaði til mín með ákveðna spurningu.

Ég hygg, að það sé alger misskilningur hjá hv. þm., að slík skatthlunnindaákvæði séu algert nýmæli í íslenzkum l. Ég fór og fletti upp ákveðnu dæmi, sem ég þóttist muna, og rakst strax á. Það var að vísu umdeilt fyrirtæki, ég skal geta um það á eftir, að hve miklu leyti þær deilur eru réttmætar, en það er í l. nr. 11 frá 7. júní 1902 um heimild til að stofna hlutafélagsbanka á Íslandi, þ.e.a.s. um Íslandsbanka. Þar segir í 12. gr.:

„Aldrei má íþyngja Íslandsbanka með nokkru gjaldi eða skatti, öðrum en þeim, sem nefndur er í 14. gr., meðan hann hefur heimild til seðlaútgáfu samkv. l. þessum“.

Og skv. I. er í inngangi þeirra heimilt að veita honum einkarétt um 30 ára tímabil til að gefa út seðla, svo að þarna felst 30 ára heimild til skatthlunninda samkv. ákvæðum 1. sjálfra, sem að vísu taka ekki gildi almennt, nema samkomulag verði milli hinna erlendu fésýslumanna og þáverandi handhafa ríkisvalds á Íslandi, sem var danska stjórnin, eins og við vitum, á árinu 1902. Það er enginn vafi á því, að skattálagning umfram það, sem segir í þessuml., mundi hafa verið óheimil á þessu 30 ára tímabili. Ég hygg, að lögfræðinga geti ekki greint á um það, að íslenzkum löggjafa mundi vera óheimilt að breyta þessu ákvæði, nema þá því aðeins, að bætur kæmu til gagnaðila.

Við sjáum svo aftur, að einmitt þetta dæmi sýnir, að slík löggjöf langt fram í tímann stenzt oft miður en ráðgert hafði verið. Íslandsbanki sjálfur varð að hætta störfum, eins og við vitum, strax 1930, og raunar löngu áður hafði hann sökum vanefnda skuldbindinga af sinni hálfu orðið að undirgangast ýmsar kvaðir gagnvart íslenzka ríkinu, sem ekki voru ráðgerðar í þessum fyrstu l. Ég er einungis að rifja upp sögu, ég er ekkert að spá, hvernig fara muni fyrir öðrum fyrirtækjum, en svona var það í þessu tilfelli, og út af fyrir sig held ég, að þó að Íslandsbanki yrði til að valda miklum deilum í íslenzkum stjórnmálum, hafi aldrei verið fundið að þessu skattahlunnindaákvæði sérstaklega, eða a.m.k. rekur mig ekki minni til þess, og hef ég þó ekki getað sannreynt það á þessum stutta tíma.

Ég hygg, að það væri hægt við nánari skoðun að finna ýmis fleiri ákvæði í íslenzkum l. um skattahlunnindi tiltekinn tíma. Sum af þeim ákvæðum hafa komizt í framkvæmd, að því er ég hygg, önnur hafa ekki komizt í framkvæmd, vegna þess að ekki varð úr samningum, sem gert hafði verið ráð fyrir, þegar tilsvarandi I. voru sett. Auðvitað er heimilt að breyta almennum skattalögum án þess að nokkrar skaðabætur komi til þess, sem una hefur orðið þeim almennu skattlagningarákvæðum. Aftur á móti, ef tilteknum aðila eru veitt skatthlunnindi, hvort heldur samkv. beinu lagaákvæði eða skv. samningi, sem byggist á beinu lagaákvæði, er ekki heimilt að afnema það að mínu viti, nema með bótum til gagnaðila. Við skulum taka ákveðið dæmi. Ég hygg, að það hafi legið fyrir á þessu þingi a.m.k. þáltill. um, að það yrði athugað, að fyrirtækjum, sem sett væru upp, þar sem atvinnuskortur er, yrðu veitt tiltekin skatthlunnindi. Þetta er t.d. með fordæmi frá Noregi, eins og við vitum. Þetta er einföld regla, en getur verið erfið í framkvæmd. Það er enginn vafi á því, að ef einstök fyrirtæki væru sett upp samkv. lagaboði, þar sem sagt væri, að þau fyrirtæki, sem fullnægðu þessum og þessum nákvæmu skilyrðum, og sagt væri síðan, að þau ættu að njóta skattfríðinda í 20–30 ár, væri óheimilt að breyta því, nema bætur kæmu til, ef þannig er um tiltekin skilyrði að ræða, staðbundin, en ekki almenna reglu. Það fer eftir því, hvort talið verður um almenna reglu að ræða eða ekki.

Svo er allt annað mál, sem ég veit, að hv. 3. þm. Reykv. getur frætt mig mikið betur um en ég kann, hvernig á þetta verður litið, ef bylting er gerð, og skal ég ekki fara út í þá sálma. Þá viðurkenni ég hann tvímælalaust betur að sér og miklu hæfari kennara en ég þykist vera í þessum fræðum.

Svona hygg ég, að málið horfi við lögfræðilega, og ætti það í raun og veru að róa hv. þm., að þau ákvæði, sem nú er verið að setja, eru engin nýjung. Þetta hefur verið sett öðru hvoru, án þess að það skapaði nokkur þau fordæmi hér,sem kollsteyptu okkar skattakerfi,eða gerði það að verkum, að hér kæmi nokkur aðalsstétt ríkisbubba, sem heimtaði að vera skattlaus. Það hefur staðið svo sérstaklega á í þeim tilfellum, þegar slík ákvæði hafa verið sett, að aðrir hafa ekki talið sig geta sótt fordæmi til þeirra. Hitt skulum við svo játa, að það er allt annað mál, hvort slík ákvæði hverju sinni þykja heppileg eða heppileg ekki.

Það var deilt um Íslandsbanka á sínum tíma. Það var svo um Íslandsbanka eins og um ýmis fleiri mál oft vill verða, að deilurnar snerust nokkuð. Fyrst voru þeir með Íslandsbanka, sem síðan urðu á móti honum, og þeir að lokum með honum, sem áður höfðu barizt harðast á móti. Slíkt er engin sérstök nýjung í stjórnmálum nú og hefur oft skeð áður. Það var getið um það, og það var til lofs, hér í umr. í hv. d. fyrr á þessu þingi, að Magnús heitinn Stephensen landshöfðingi fékk því ráðið að Landsbankinn var lagður niður. Við skulum þó ekki gleyma því, og það vil ég, að komi alveg skýrt fram, — ég hef raunar heyrt, að hv. samþingsmaður minn, 8. þm. Reykv., Ólafur Björnsson, hafi bent á það í umr. í Ed., — að það er enginn vafi á því, að fáar stofnanir hafa orðið Íslandi hollari á þessari öld en Íslandsbanki. Það mátti deila ákaflega mikið um margar fjármálaráðstafanir, sem Íslandsbanki gerði, og það var hart um þær deilt, og það var eðlilegt, að þegar Íslendingum óx fiskur um hrygg vildu þeir ekki una því, að Íslandsbanki væri aðalfjármálastofnun landsins, en óhlutdræg sögukönnun hlýtur að sannfæra alla, sem henni vilja kynnast, um það, að Íslandsbanki átti mjög verulegan þátt í því, að fiskveiðar urðu höfuðatvinnuvegur Íslands og verzlunin fluttist inn í landið, þannig að þegar saga Íslandsbanka er skoðuð í heild, varð hún Íslandi til mikillar gæfu. Það er rétt, að þetta komi einnig hér fram. Það skiptir ekki máli um deiluefni okkar nú, en mér þótti rétt að geta þess, úr því að ég hafði tilefni til þess að svara spurningu hv. 3. þm. Reykv.