04.05.1966
Neðri deild: 88. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2476 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

195. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil einungis vekja athygli á því, að ég tel, að það, hvort slíkur samningur sé heimilaður í löggjöf eða hvort löggjöfin segi beint, að þetta eigi að vera svo og svo, skipti engu máli. Hitt er annað mál, að ef tilteknum aðila er veittur ákveðinn réttur, heldur hann honum, nema því aðeins að sá réttur sé felldur löglega burtu aftur. Hvaða skilyrði þurfi að vera til þess, er aftur á móti svo margþætt mál, að því verður ekki svarað til hlítar. Við skulum segja, að varðandi Íslandsbanka liggur dæmið alveg ljóst fyrir. Við skulum halda okkur að því dæmi. Hann missir þau hlunnindi, sem honum eru veitt, ekki aðeins skattahlunnindin, heldur er hann búinn að missa mörg hlunnindi áður, eftir því sem tímar liðu, vegna þess að breyttar aðstæður gerðu það að verkum, að samningar komust auðveldlega á milli aðila um að fá nauðsynlegar breytingar fram. Við skulum segja, að ef Sambandið hefði á sínum tíma fengið slík allsherjarskatthlunnindi, eins og hv. þm. gerði ráð fyrir og Alþ. hefði ákveðið þau, þá er auðvitað alveg víst, að aðrar aðstæður í þjóðfélaginu hefðu leitt til þess, að það hefði verið hægt að koma þessu í skaplegt horf, alveg eins og aðrar aðstæður í þjóðfélaginu gera það að verkum, að ég efast ekki um, að mörg ákvæði þess samnings, sem nú er verið að fjalla um, og mörg ákvæði álsamningsins verða endurskoðuð áður en samningstími er búinn. Þannig er lífið ætíð, hefur verið og verður. Þetta fæst með góðu samkomulagi aðila á milli, jafnvel þó að ekki verði farið í þá stóru kennslustund hjá hv. 3. þm. Reykv. um byltinguna.