18.11.1965
Efri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

69. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Með afnámi skerðingarákvæðanna í l. um almannatryggingar, sbr. l. nr. 86 28. des. 1960, var opinberlega staðfest, að efnahagur bótaþega skyldi sem meginregla ekki hafa áhrif á upphæð bóta.

Með þessu frv. er einnig lagt til, að efnahagsviðmiðun verði felld niður í sambandi við ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla. Þá er enn fremur lagt til með frv., að úr þessum l. verði fellt ákvæði um styrki til þeirra, er þarfnast gervilima, umbúða og annarra þess háttar tækja, svo og þá styrki til sömu aðila, sem frá var greint í framsögu fyrir næsta dagskrármáli hér á undan, um breyt. á l. um almannatryggingar. Þess í stað er nú samhliða þessu frv. flutt það frv. og gert ráð fyrir því, að Tryggingastofnun ríkisins greiði framvegis umrædda styrki og þá aðstoð, sem þar er frá greint.

Upphaflega var ríkisframfærslunni ætlað að aðstoða einungis í baráttunni við berklaveiki. Með árunum var starfssvið hennar stækkað, vegna þess að sjúkratryggingar voru annaðhvort engar eða mjög ófullnægjandi. Endanlegt mark í þessum efnum hlýtur hins vegar að vera það, að sjúkrasamlögin taki alveg að sér hjálp vegna sjúkra og sú verkefnaskipting, sem ríkt hefur í þessum málum, verði afnumin. Með því mætti væntanlega spara vinnu og óþarfa skriffinnsku án þess að skerða í raun og veru aðstoðina við hina sjúku, nema síður sé.

Síðari breyt. frv. er varðandi hina svonefndu gervilimastyrki og styrki vegna æfingameðferðar. Tryggingastofnun veitir lífeyri og styrki til öryrkja, og virðist jafnframt eðlilegt, að hún sjái um styrkveitingar í þessu skyni, svo sem frá var greint í framsögu fyrir breyt. á l. um almannatryggingar.

Á árinu 1965 voru áætlaðir gervilimastyrkir taldir nema um 2.5 millj. kr. Það er nú með frv. þessu gert ráð fyrir að létta þessum útgjöldum beint af ríkissjóði. Sú styrkjaaukning, sem kann að leiða af tilfærslum þessum, á því ekki að þurfa að auka útgjöld ríkissjóðs, nema síður sé.

Svo sem fram er tekið í grg. fyrir frv., hefur ríkisstj. nú til athugunar, að ríkisframfærslan sem slík verði lögð niður, a.m.k. í því formi sem hún nú er. Þess í stað verði Tryggingastofnun ríkisins falið að hefja undirbúning að því, að sjálfar sjúkra- og lífeyristryggingarnar geti tekið við hlutverki ríkisframfærslunnar ekki síðar en á árinu 1967. Ef það þætti þó eftir þá endurskoðun betur henta, mætti áfram greiða kostnað vegna berklasjúklinga, geðveikra og fávita af ríkisframfærslunni.

Ég legg til, herra forseti, eða það er ósk mín, að afgreiðslu þessara frv. beggja verði hraðað svo sem unnt er, þannig að það megi hljóta endanlega afgreiðslu hér á hv. Alþingi fyrir n. k. áramót. Ég ætla að gera það að till. minni, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.