09.11.1965
Neðri deild: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2479 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

58. mál, innflutningur á hvalveiðiskipi (leyfi til Hvals hf.)

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Þetta litla frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 66, er flutt af sjútvn. hv. d. samkv. beiðni samgmrn. Frv. felur það í sér, að hlutafélaginu Hval verði leyfður innflutningur á einu hvalveiðiskipi, þótt eldra sé en 12 ára, en eins og kunnugt er, eru ákvæði í 35. gr. I. nr. 50 frá 1959, sem banna innflutning á skipum, sem eldri eru en 12 ára. Þegar hvalveiðiskip hafa verið flutt til landsins á undanförnum árum, hefur sams konar undanþága og í þessu frv. felst jafnan verið veitt. Það skip, sem nú á að kaupa, er 13 ára gamalt, og það mun koma í stað elzta hvalveiðiskipsins, sem nú er í notkun og er 26 ára gamalt. Það skip verður ekki lengur notað við veiðarnar. Nýja skipið er um 600 brúttórúmlestir, en það gamla, sem lagt verður upp, er um 400 rúml. Norsku hvalveiðiskipunum er nú sem óðast breytt í fiskiskip, og er þetta eins og sakir standa eina tækifærið til að kaupa hvalveiðiskip til landsins af þeirri stærð, sem okkur hentar. Fyrsta greiðsla fyrir skipið þarf að fara fram 15. þ. m. en getur ekki átt sér stað fyrr en það leyfi er fengið, sem felst í frv.

Eins og fram kemur á fskj. með frv., hefur Skipaskoðun ríkisins fengið þetta mál til umsagnar og mælir með því, að umbeðið leyfi verði veitt. Ég vil svo mælast til þess við hæstv. forseta, að afgreiðslu þessa máls verði hraðað, helzt þannig, að það hljóti afgreiðslu í þessari hv. d. í dag, ef mögulegt er.