25.11.1965
Efri deild: 20. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2484 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

53. mál, sinubrennur og meðferð elds á víðavangi

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Ég get vel fyrir hönd n. fallizt á það, að athuga þetta atriði betur, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði hér að umræðuefni, en mín skoðun er, að það muni vera mjög örðugt að láta sinubrennur fara fram síðar en um miðjan maí, ef þá á annað borð á að fyrirbyggja það, að slíkar brennur grandi hreiðrum, eftir að fuglar fara að verpa. Það er að vísu alveg rétt, að svo seint getur vorað norðanlands, að sinubrennu verði alls ekki komið við fyrir 15. maí. En ég held, að það verði mjög hæpið, að henni verði þá við komið á því vori, vegna þess, að undireins og snjóa leysir eftir þann tíma er fuglinn setztur og jafnvel áður en snjóa leysir og einhvers staðar er auður blettur, ég þekki það vel. Ég bar þetta atriði undir nokkra bændur áður en við gengum frá þessari brtt., og einn bóndi að norðan sagði mér, að þetta ákvæði væri ekki viðunandi fyrir sig, því ef hann þyrfti að brenna sinu, ef hún yrði á annað borð brennd að vori til, þá gæti hann ekki mörg ár brennt fyrr en um miðjan júní. Og það er að sjálfsögðu allt of seint, ef á annað borð á nokkuð að taka tillit til varps. Og ég held, að brennum verði tæplega við komið seinna en þetta að vori. Hitt er svo annað mál, að í þeim landshlutum, þar sem svona seint vorar, er venjulega hægt að brenna seint að hausti eða minnsta kosti snemma vetrar, í des., jan. eða febr., ef ekki eru því meiri snjóalög. Þá hagar oft þannig til, að þá er mjög auðvelt að brenna, ef auð er jörð, og sú brenna er minnst af öllu skaðleg, því að þá er brennt á frosinni jörð. Engin hætta er þá á, að eldur fari í jörð eða lyng eða neitt annað til skemmda. En sem sagt, ég er fús á það, að þetta sé athugað betur með breytingu fyrir augum. Ég er til með að hafa nefndarfund um þetta og athuga málið. Það liggur ekki það á þessu, og þá má taka þessa till. til baka til 3. umr.