29.11.1965
Efri deild: 21. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

69. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. 1. gr. frv. felur í sér þá breyt. á l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla, að niður verði felldur 3. tölul. 1. gr. l. nr. 78 1936, um ríkisframfærsluna, sem kveður svo á, að styrkur skv. l. skuli veittur örkumla mönnum, sem þarfnast gervilima, umbúða og annarra þess háttar tækja. Er þetta í samræmi við frv. um breyt. á l. um almannatryggingar, sem var hér til 2. umr. næst á undan þessu frv., þar sem gert er ráð fyrir, að sjúkratryggingarnar taki að sér þetta hlutverk.

Í grg. frv. er þess getið, að ríkisstj. hafi nú ákveðið að vinna að því, að Tryggingastofnun ríkisins taki að sér að mestu eða öllu leyti hlutverk l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla, og er þetta þá spor í þá átt, sem hér er verið að stíga.

Í 2. gr. frv. felst sú meginbreyt., að afnema skuli efnahagsviðmiðun í sambandi við ríkisframfærsluna, og er það í samræmi við þá meginreglu, sem upp var tekin í l. um almannatryggingar, nr. 86 28. des. 1960, að efnahagur bótaþega skuli ekki skipta máli í sambandi við greiðslur frá tryggingunum.

3. gr. frv. gerir ráð fyrir breyt. á 3. gr. l. til samræmis breyt. á 2. gr. um niðurfellingu efnahagsviðmiðunar. Af því leiðir m. a., að ekki verður lengur þörf fyrir efnahagsskýrslur sjúklinga, sem þeir verða að láta í té skv. gildandi lögum.

4., 5. og 6. gr. fjalla um nauðsynlegar breyt. á 6., 7. og 8. gr. l. til samræmis við meginbreyt í 1. og 2. gr. frv.

Í 7. gr. er ákveðið, að 9. gr. l. falli niður, en í því felst það, að framfærslusveit styrkþega skv. l. um ríkisframfærslu svo og ríkissjóður skuli ekki eiga rétt á endurgreiðslu úr dánarbúi þeirra, sem ríkisframfærslu hafa notið, en slíkan rétt eiga þessir aðilar nú í vissum tilfellum.

8. gr. fjallar um gildistöku l., sem er 1. jan. 1966, og gegnir því sama máli um þetta frv. og það, sem var hér síðast til 2. umr., að æskilegt er, að það fái greiða meðferð hér í Alþ., vegna þess að tími til gildistöku er stuttur.

Heilbr.- og félmn. hefur athugað frv., borið það saman við l. og leggur til einróma, að það verði samþ. Einn nm., hv. 4. þm. Vestf., var fjarstaddur, þegar n. afgreiddi málið.