14.02.1966
Efri deild: 35. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2494 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

103. mál, sala eyðijarðarinnar Litla-Gerðis í Grýtubakkahreppi

Flm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Að ósk bóndans að Skarði í Grýtubakkahreppi, sem heitir Skírnir Jónsson, er þetta frv. flutt um sölu ríkisjarðarinnar, eyðijarðarinnar Litla-Gerðis í sama hreppi. Hugmynd þessa bónda er að sameina þessa jörð, sem er lítil og svo sem ekkert nýtt nú orðið og hefur verið í eyði í allmörg ár, að sameina hana Skarði og nytja hana með sinni jörð, en þetta er ungur og atorkusamur bóndi, sem vili auka sauðfjárrækt sína. Það er talið nauðsynlegt að bera svona mál undir Alþ., því að ekki mun vera heimild í lögum fyrir ríkisstj. að selja ríkisjarðir án þess, ef um eyðijarðir er að ræða. En öðru máli gegnir aftur, að það er heimilt að selja ábúendum ríkisjarðir án sérstakrar lagaheimildar.

Þess ber að geta, að það hefur tvisvar sinnum áður verið flutt frv. um að selja þessa jörð, en í hvort tveggja skiptið var málið ekki útrætt á þingi. Það mun hafa verið 1962 og aftur 1963. Í grg. fyrir frv. 1963 segir m.a., að landbn. Ed. hafi leitað álits Landnámsins, umráðamanns ríkisjarða og hreppsnefndarinnar í Grýtubakkahreppi, og allir þessir aðilar hafi verið því hlynntir og talið, að eðlilegt væri að selja þessa jörð.

Nú er að vísu annar umsækjandi um söluna, en það munu ekki vera neinir árekstrar á milli þess, sem áður hugsaði sér að kaupa hana, og þess, sem nú óskar að fá hana keypta.

Ég geri ráð fyrir, að þetta mál fari eðlilega leið og verði lagt fyrir landbn., og legg því til, að frv. verði vísað þangað.