21.03.1966
Efri deild: 53. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2504 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

104. mál, sala hluta úr landi ríkisjarðarinnar Vorsabæjar og eignarnámsheimild á lóðum

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér er til 2. umr., er, eins og tekið var fram við 1. umr. þess, flutt af landbn. að beiðni hæstv. landbrh. og að ósk hreppsnefndar Hveragerðishrepps.

Í 1. gr. frv. segir: „Ríkisstj. er heimilt að selja Hveragerðishreppi í Árnessýslu allt það land jarðarinnar Vorsabæjar, sem liggur austan hamarsins og línu frá Litla-Hamri skemmstu leið í Varmá.“ Þá er einnig í l. gr. kveðið á um, hvernig fara skuli með, ef ekki næst samkomulag um söluverð landsins, og einnig um það, að andvirði landsins skuli hreppnum heimilt að greiða á 25 árum. Þá segir enn fremur í I. gr., að „þarfnist ríkið eða ríkisstofnanir byggingalóða úr landinu undir opinberar byggingar, skal því heimilt að kaupa þær og þá á sama verði hlutfallslega og Hveragerðishreppi verði gert að greiða fyrir landið, en óheimilt er hreppsnefnd Hveragerðishrepps að selja öðrum land eða lóðir úr umræddu landi.“ Þá er einnig tekið fram, að jarðhitaréttindi fylgi ekki hinu selda landi.

Í 2. gr. er hreppsnefnd Hveragerðishrepps heimilað að taka eignarnámi lóðir í einkaeign og með erfðafesturéttindi úr landi jarðarinnar Vorsabæjar, er liggja innan takmarka þeirra, er um ræðir í I. gr., ef nauðsyn krefur vegna skipulags hreppsins.

Landbn. hefur athugað frv. milli umr. og fengið Sveinbjörn Dagfinnsson á sinn fund til að fá hjá honum upplýsingar, sem óskað var eftir, og var það þá sérstaklega viðvíkjandi jarðhitanum og notkun hans.

Í Hveragerði er sem kunnugt er risin upp töluvert mikil byggð. Í byrjun reis þessi byggð upp í landi Vorsabæjar í Ölfushreppi á hinu mikla hvera- og jarðhitasvæði, sem þar er. Reis þar brátt upp mikil gróðurhúsarækt og byggð í sambandi við jarðhitann, og voru öll hús hituð upp með heitu vatni eða gufu. Sú breyting varð 1946, að Hveragerðishreppi var skipt úr Ölfushreppi og lagt til hins nýja hrepps allt land jarðarinnar Vorsabæjar vestan Varmár og auk þess spildur úr jörðunum Öxnalæk og Reykjum. Öll byggð Hveragerðis er nú og verður í framtíðinni á landi Vorsabæjar eða á því svæði, sem hreppurinn óskar nú eftir að fá keypt. Hreppurinn fer ekki fram á, að ríkissjóður selji það land, er liggur ofar en Hamarinn, það land liggur í dalnum innan við byggðina, og þar hafa farið fram hinar miklu jarðboranir á vegum ríkisins til rannsóknar á jarðhitanum. Og það má gera ráð fyrir því, eins og segir í greinargerð frv., að raforkumálastjórnin þurfi á þessu landi að halda vegna frekari rannsóknar og mannvirkjagerðar til nýtingar jarðhitans, sem þar er, enda ekki gert ráð fyrir, að þar rísi upp byggð svo neinu nemi nema þá í sambandi við nýtingu jarðhitans, sem þar er. Eins og ég gat um, þá verða jarðhitaréttindi á hinu selda landi áfram í eigu ríkisins. Afnotarétt jarðhitans, þ.e.a.s. þess hluta hans, sem virkjaður hefur verið innan núverandi byggðar, hafa íbúar Hveragerðis nú eftir þörfum. Þeir hafa byggt hitaveitukerfi og lagt um hið byggða svæði, auðvitað á sinn kostnað, og annast boranir þær, sem þurft hefur að framkvæma. Það er almennt viðurkennt, að m.a. vegna skipulagsmála og almenningsþarfa sé nauðsynlegt, að bæjar- og sveitastjórnir hafi fullan umráðarétt yfir þeim lóðum og löndum, sem á hverjum tíma er ætlað til bygginga og annarrar mannvirkjagerðar, og að þeir geti með nokkurri framsýni unnið að heildarskipulagi byggðarinnar. Má í þessu sambandi minna á það, að nú fyrir nokkru höfðu Eyrarbakki og Stokkseyri fengið keypt þau lönd, sem þeirra byggð stendur á, keyptu það af ríkissjóði, en þau lönd voru áður í eign ríkisins. Hveragerði er ört vaxandi þorp með mikla möguleika til aukins atvinnurekstrar vegna hinnar miklu jarðhitaorku í nágrenninu, og er því nauðsynlegt, að af framsýni sé unnið þar að skipulagsmálum og öðrum almenningsmálum.

Landbn. var sammála um að mæla með samþ. frv., en flytur við það tvær smávægilegar brtt. á þskj. 306 og 321.

Brtt. á þskj. 306 hljóðar svo:

„Námur og jarðhitaréttindi fylgja ekki hinu selda landi. Seljandi skal jafnan án endurgjalds eiga umferðarrétt og rétt til annarra landsnota, sem þörf kann að vera á vegna hagnýtingar jarðhitans.“

Í frv. er þessi málsgr. aðeins þannig: „Jarðhitaréttindi fylgja ekki hinu selda landi.“

Landbn. þótti rétt að hafa þessa mgr. heldur fyllri og taka fram t.d. um umferðarrétt á þessu landi, sem hreppurinn fær nú keypt, sem nauðsynlegur verður vegna starfsemi ríkisins við jarðboranir þar í nágrenninu. Þessi brtt. er flutt í samráði við deildarstjóra jarðeignadeildar ríkisins, Sveinbjörn Dagfinnsson, og eflir hans tillögu.

Brtt. á þskj. 321 er aðeins um það, að aftan við 3. gr. bætist nýr málsliður við,svohljóðandi:„Jafnframt eru úr gildi numin í. nr. 25 18. apríl 1964 um heimild fyrir ríkissjóð til lóðakaupa í Hveragerði.“ Þessi lög voru sett 1964 af sérstöku tilefni að beiðni hreppsnefndarinnar vegna skipulags, sem þá fór fram og ekki var hægt að fullgera nema að fá landspildu, sem var í einkaeign. En nú að þessu frv. samþ., kemur þessi heimild að öllu leyti í hendur hreppsnefndarinnar, svo að ekki þótti ástæða til annars en að nema þessi l. úr gildi um leið og frv. væri samþ.

Herra forseti. Landbn. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem ég nú hef skýrt frá.