25.11.1965
Neðri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

76. mál, vegalög

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Máske einkum vegna þess, að ég átti nokkurn hlut að því að ná samkomulagi um afgreiðslu vegal., þykir mér ástæða til þess að segja nú fáein orð.

Ég verð að segja, að mér hnykkti við, þegar ég sá fjárlagafrv. að þessu sinni og uppgötvaði, að þær 47 millj., sem þar áttu að vera til vegaframkvæmda, voru þurrkaðar út. En það var einn liður í þeim samningum, sem gerðir voru um afgreiðslu vegal. á vegum allra flokka í þinginu, að framlag ríkissjóðs sjálfs til vegagerðanna skyldi ekki lækka niður úr 47 millj. kr. Það skyldi haldast a.m.k. þessi fjárhæð til veganna. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum, þegar ég sá, að þetta hafði fullum fetum verið strikað út af fjárlagafrv. og því var lýst yfir, að þetta skyldi niður falla.

Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, hvað gerðist, þegar samið var um vegal., því að það komu fram alveg skýrar yfirlýsingar frá hæstv. samgmrh. hér í þinginu, sem áðan voru lesnar mjög skilmerkilega, og það var ekkert smáræði, sem við var lagt af ráðh. hendi, enda á bak við þetta samkomulag, sem ég var að lýsa og aðrir hv. þm. hafa einnig upplýst. Hæstv. ráðh. tók líka þannig til orða, að það væri alveg útilokað, að ríkissjóðsframlag til veganna yrði lækkað, — alveg útilokað, endurtók hæstv. samgmrh. En nú á þessi sami hæstv. samgmrh., sem samdi um þetta fyrir hönd ríkisstj. við stjórnarandstöðuna og gerði þetta að lið í samningunum, hlut að því að svíkja þetta samkomulag alveg kalt og ákveðið og taka þessar 47 millj. út af fjárl.

Það er engin afsökun, að hæstv. ráðh. hafi skort siðferðisþrek til þess að standa við það, sem hann samdi um, og neita félaga sínum í ríkisstj., fjármálaráðherranum, um að láta hann hafa þessar 47 millj. Það er engin afsökun fyrir hæstv. samgmrh., og ég fullyrði, að í nálega öllum öðrum lýðræðislöndum hefði ráðh., sem væri orðinn uppvís að öðru eins og þessu. hreinlega orðið að segja af sér. Og það ber hæstv. samgmrh. að gera. Honum ber hreinlega að segja af sér eftir að hafa komið þannig fram.

Hér er nefnilega ekki um neitt hégómamál að ræða, því að þótt það sé stórmál að taka 47 millj. af vegafénu og stinga því í eyðsluhít ríkissjóðs, er þó hitt enn þá meira mál, að það skuli ekki vera hægt að treysta samningum, sem gerðir eru við hæstv. samgmrh., eins og nú er upplýst orðið, og hann skuli heldur beygja sig fyrir óskum í þessa átt en standa við þá samninga, sem gerðir hafa verið, og þær yfirlýsingar, sem hann hefur sjálfur gert í heyranda hljóði á hv. Alþ. Það er ekki hægt að slá þessu upp í grín, hér er ekki neinn hégómi á ferðinni.

Hæstv. fjmrh. segir í þessum umr., að hann þurfi að fá þessa peninga til að jafna hallann á fjárl. Maður hefur heyrt þetta núna undanfarið, að ef þeir fái skattana sína eins og vant er, muni þeir geta haldið áfram með ríkisbúskapinn í þessu horfi. Ef þeir fái t.d. allt vegaféð, ferðaskattinn og vegaskattinn og hækkaðar aukatekjurnar og hækkað raforkuverð og sitt hvað fleira, geti þeir haldið áfram með ríkisbúskapinn. En ég held, að það væri mjög þýðingarmikið fyrir hæstv. fjmrh. að gera sér grein fyrir því strax, af því að hann er nýlega tekinn við þessum málum, að þessi verðbólgubúskapur ríkissjóðs er vonlaus, og ekki aðeins, að það sé vonlaust að halda áfram svona með ríkisbúskapinn, heldur eru fjöldamörg fyrirtæki í landinu og stofnanir að lenda í sömu fordæmingunni og ríkissjóðurinn vegna þess, hvernig almennt horfir í fjárhagsmálum landsins. Það er verðbólgudraugurinn, sem étur jafnótt það, sem hæstv. fjmrh. skrapar saman, og það, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að skrapa saman á undanförnum árum og er nú komið upp í 4000 millj. En þrátt fyrir þessar 4000 millj. tekjur og þó að hæstv. fjmrh. fái hæstv. samgmrh. til þess að ganga á bak orða sinna til að láta sig fá 47 millj. af vegafénu, kemur þetta allt fyrir ekki. Þetta fer allt sömu leiðina að óbreyttum vinnuaðferðum.

Reynslan í þessu tilliti er ólygnust, þannig að um þetta þarf ekki að deila, því að nú er orðin svo hörmuleg myndin af þessum málum, eins og hér var skilmerkilega sýnt fram á við 1. umr. fjárl. og hæstv. fjmrh, gat vitaskuld ekki í neinu hnekkt og á eftir að koma fram í enn skýrari mynd við afgreiðslu fjárl., sem stendur fyrir dyrum á næstu dögum. Það fer sífellt lækkandi tiltölulega, sem hægt er að verja af þessu mikla fjármagni til verklegra framkvæmda í landinu. Og með þessu áframhaldi er hæstv. ríkisstj. með aðstoð verðbólgunnar vel á vegi með að þurrka verklegar framkvæmdir út af fjárl. Nú á allt vegaféð að fara út af fjárl. Og hver er þróunin í hafnarmálunum, þar sem ráðgert er að veita 700 þús. kr. sem hæsta framlag í eina hafnargerð, þó að þar séu framkvæmdir upp á 10–20 og allt upp í 30 millj. kr. og þannig komið, að ríkissjóður dregur þannig á eftir sér halann af óborguðum hafnargerðarframlögum? Það tekur kannske 10–15 ár með sama áframhaldi að standa við að borga upp það, sem búið er að gera, hvað þá heldur hitt, sem fram undan er að framkvæma. Og svo er farið að ráðgera, eins og hæstv. fjmrh. gerði í fjárlagaumr. hér í byrjun þings, að taka lán til þess að halda áfram með framlög t.d. til skólabygginga. M. ö. o.: það fer óðfluga í þá átt, að bróðurparturinn af ríkissjóðstekjunum fer í verðbólguhítina, en verklegar framkvæmdir þurrkast út af fjárl.

Á meðan almennt gengur í landinu um vöxt verðbólgunnar, eins og verið hefur á undanförnum missirum og undanförnum árum, er þessi búskapur vonlaus, og það hefur enga þýðingu að afhenda hæstv. fjmrh. vegaféð eða fara að samþykkja fyrir hann þessar nýju álögur. Það kemur allt í einn stað niður, því að það er ekki hægt að halda áfram á þennan hátt. Hér þarf að ráðast að rótum meinsins og leggja sig fram um að ná tökum á verðbólguvandamálinu, stöðva verðbólguna. Hitt er álíka viturlegt og það, ef hæstv. ríkisstj. ætlaði að fara að stöðva Þjórsá eða annað meiri háttar vatnsfall með því að standa fyrir henni eða með álíka þýðingarmiklum ráðstöfunum. Og rætur meinsins eru vitaskuld þær, að í landinu er í raun og veru engin stjórn á efnahagsmálum. Það veður allt áfram stjórnlaust og botnlaust, sem dæmin sýna, svo að segja hvert sem litið er. Afleiðingin verður svo magnað vantraust á stefnu ríkisstj. og henni sjálfri, sem leiðir til þess, að menn reyna að bjarga sér sem bezt þeir geta undan verðbólgunni með aðferðum, sem auka sjálfa verðbólguna sífellt meir og meir. Menn eru þannig á ofsafengnum flótta undan verðbólguholskeflunni, en hún magnast sífellt, því að flóttinn hefur í för með sér sífellt meiri og meiri þenslu. Ríkisstj. er að reyna að lækna þetta með því að auka álögurnar og með því að skora á fólk að hækka ekki kaupið og með því að láta bankana takmarka útlánin. En það verkar aftur á móti á þá lund, að mörg fyrirtæki, sem eru þýðingarmest í landinu, skortir rekstrarfé og lenda í vaxandi vandræðum eins og fjmrh. með sinn búskap.

Þessi vandi verður ekki leystur með þeim aðferðum, sem viðhafðar hafa verið. Það verður að finna aðrar leiðir, það verður að taka upp nýja stefnu, það verður að fara aðra leið, við getum kallað það „hina leiðina“, eins og ég gerði hér um daginn, af því að það virðist vera vinsælt og hafa fengið góðan hljómgrunn að kalla þetta einmitt „hina leiðina“. Það er ágætt nafn til aðgreiningar frá þeim slóðum, sem hæstv. ríkisstj. er á og hafa leitt hana út í þessa ófæru. En nýja stefnan verður vitaskuld fyrst og fremst að vera fólgin í því að snúa sér að kjarna málanna, gera sér grein fyrir, að það eru takmörk fyrir því, sem þjóðin getur tekið fyrir í einu. Það er ekki hægt að gera allt í einu, og ekki má reka stjórnlaust. Það verður að reyna að gera sér heilbrigða og skynsamlega grein fyrir því, hvað miklu framkvæmdaafli þjóðin ræður yfir, vinnuafli og vélaafli, framkvæmdaafli í heild, og hvernig það kemur heim við þau verkefni, sem fyrst og fremst þarf að vinna, síðan að reyna að raða verkefnunum niður og láta þau sitja fyrir, sem hafa mesta þýðingu, en hin sitja á hakanum, sem frekar mega bíða frá almennu sjónarmiði, til þess að þetta gangi ekki eins og nú, að þær framkvæmdir hafa framgang mestan og skapa ofþensluna, sem í raun og veru mættu helzt bíða, en öðrum er skákað til hliðar, sem fyrst og fremst þurfa að eiga sér stað, eins og t.d. þeim opinberu framkvæmdum, sem hæstv. ríkisstj. er að skjóta til hliðar, eins og skólaframkvæmdum, framlögum til vegamála og öðru slíku, sem hæstv. ríkisstj sker niður og þykist með því vera að vinna gegn verðbólgunni.

Ég get sagt ykkur dálítið dæmi um, hvernig þessi stefna, sem nú hefur verið haldið, verkar, sem sé að reyna að stjórna með þeim ráðstöfunum, sem ég var að lýsa, með skattaálögum og takmörkunum á útlánum. Það var verið að vinna að mjög nauðsynlegri vegagerð með stórri ýtu, og voru fáir menn við þá framkvæmd, mjög fáir, en þarna var á ferðinni þýðingarmikil vegagerð, og fólkið í byggðarlaginu var búið að afla sér lánsfjár til þess að standa undir þessum framkvæmdum, svo að þær gætu gengið með meiri hraða. En þá er það ákveðið einhvers staðar í „apparatinu“ á vegum hæstv. ríkisstj., að nú megi ekki eftir einhverja vissa dagsetningu vinna meira í vegagerðum fyrir lánsfé, — til þess að draga úr verðbólgunni! Og í landi frelsisins er þessi boðskapur látinn út ganga. Þá verða þeir, sem eru að vinna með þessa stóru og dýru ýtu, að hætta á stundinni, — til þess að draga úr verðbólgunni, — og það verður að hætta við vegagerðina, þar sem menn eru staddir, í stað þess að halda áfram fyrir það fé, sem hægt er að fá. Þeir verða að hætta til þess að draga úr verðbólgunni! Stóru ýtunni er lagt, og þar liggur hún. Þetta er í landi frelsisins, og þetta er aðeins lítið sýnishorn af því, hvernig þessar hagstjórnaraðferðir verka, sem nú eru kallaðar frelsi og hafðar eru við til þess að draga úr verðbólgunni, að sagt er, en ná ekki því marki á nokkurn hátt að draga úr verðbólgunni, en verða til þess sífellt og í æ ríkara mæli, að þau verkefni, sem þurfa að ganga fram, verða útundan, en annað hefur sinn gang.

Á sama hátt verkar þetta fyrir framleiðsluna. Það minnkar rekstrarfé framleiðslufyrirtækjanna. Þau lenda í stórkostlegum erfiðleikum, þau fá ekki vinnuafl, en vinnuaflið er á vegum þeirra, sem eru á flótta undan ríkisstj. til þess að koma peningum sínum í fast. Vinnuaflið er á vegum þeirra, sem hafa peningana, og þeir verða að vera frjálsir, en hitt verður að víkja.

Ég segi ykkur satt, að það er algerlega vonlaust að halda áfram með þessu móti, og þó að hæstv. fjmrh. fái vegaféð og þó að samþykktur verði farmiðaskatturinn og aðrar álíka viturlegar skattöflunaraðferðir ofan á hér í hv. Alþ., er þetta gersamlega vonlaust.

Það er sagt, að með því að benda á þetta og með því að halda því fram, að það þurfi að fara aðra leið, sem ég hef kallað hina leiðina, sé verið að prédika höft. En ég segi: það verða ekki meiri höft við framkvæmd þeirrar leiðar en þau höft, sem við búum við nú, og þó miklu minni, því að það er hægt með margvíslegu móti, ef framkvæmdunum er skynsamlega raðað, að koma því til leiðar, að þau verkefni séu tekin fyrir, sem mest nauðsyn er á að verði unnin. Það er hægt að gera það með ótalmörgum öðrum aðferðum en höftum eða bönnum. Það er t.d. sjálfsagður liður í slíkri stefnu, að ríkisvaldið hafi samvinnu við einkaframtakið í landinu og félagsframtakið um, að tekið sé fyrir á vegum þeirra sem allra mest af þeim verkefnum, sem þýðingarmest er að verði unnin. Það er þetta, sem verið er að gera í öðrum löndum, þar sem skynsamlegri stefna er framkvæmd en sú, sem hér hefur verið fylgt. Ríkisvaldið hafi þannig raunverulega forustu í þessum efnum og hafi raunverulega samvinnu við einkaframtakið og við félagsframtakið um, að það sé unnið, sem mest á ríður, — taki upp samstarf og samvinnu innan skynsamlegrar áætlunar, ekki pappírsáætlunar, sem gerð er í blekkingarskyni og síðan fleygt út í horn, eins og framkvæmdaáætluninni, sem ríkisstj. gerði hér um árið og aldrei hefur verið farið eftir, en þess í stað látið verða það öngþveiti, sem við nú búum við, — gerðar séu skynsamlegar áætlanir, menn setji sér markmið og verkefnunum verði raðað og síðan sett efst á blað að hafa forustu um, að þau verkefni séu tekin fyrir, sem mest á ríður. Þá kemur auðvitað sá liður að nota skynsamlega fjármagn bankanna og lánsstofnana í landinu til þess að greiða fyrir þeim fyrirtækjum, sem þýðingarmestu þjónustuna annast, t.d. framleiðsluna, í stað þess að nota bankana til að skera niður rekstrarfé framleiðslufyrirtækjanna og hefta þau í samkeppninni við hina, sem eru að flýja undan verðbólgu ríkisstj. með peninga sína í fast, eins og nú er gert, — nota bankana og þau ráð, sem ríkisvaldið hefur í bönkunum, hyggilega til þess að ýta undir, að það verði framkvæmt, sem nauðsynlegast er, og þau fyrirtæki geti notið sín, sem þýðingarmestu starfsþættina annast í þjóðfélaginu. Sama er að segja um samvinnu við bæjarfélög og sveitarfélög um þeirra verkefni, og þá kemur inn í þetta sjálfur ríkisbúskapurinn og fjárveitingar á vegum ríkisins til þess að greiða fyrir því, sem ríkið þarf að taka að sér.

Það er náttúrlega fjöldamargt fleira, sem kemur til greina í þessu sambandi, eins og t.d. heilsteypt og skynsamleg áætlun um aukna tækni í öllum greinum, auknar rannsóknir og um skólamál, þar sem m. a. væri gerð áætlun um, hversu mikið af tæknimenntuðu fólki þjóðin mundi þurfa á að halda á næstu árum, og reynt að haga undirbúningi æskunnar undir verkefnin í nokkru samræmi við það.

Marga fleiri þætti mætti nefna, sem yrðu að koma inn í þessi mál, en ég skal ekki fara að tefja hér tímann með því að nefna fleiri þætti. En ég mundi vilja setja aftast á þann lista ráðstafanir til þess að fresta framkvæmdum, ef það sýndi sig, að þau verkefni, sem menn vilja vinna að, eru meiri en hægt er að ráða við. Þá má kalla slíkt höft, ef menn vilja, en slíkar ráðstafanir væru ólíkt viturlegri en þær ráðstafanir, sem nú eru frammi hafðar til þess að draga úr framkvæmdahraðanum og koma niður þar, sem sízt skyldi, eins og margbúið er að sanna í umr. síðustu missirin.

Þessi fáu orð vildi ég segja í sambandi við þetta, vegna þess að hér er um að ræða tekjuöflunarfrv. fyrir ríkissjóð.

Hér er um það að ræða að láta ríkissjóð hafa vegaféð í venjuleg útgjöld, en hér er ekki um það að ræða að afla nýrra fjármuna til vegagerðarinnar í landinu. En það er alveg víst, að það er ekki til neins að halda áfram þessum leik, að samþykkja nýjar álögur eða taka framkvæmdaféð til þess að kasta í verðbólguhítina. Það leiðir ekki til neinnar niðurstöðu.

Ég endurtek loks, að þýðingarmesti eða alvarlegasti þátturinn í sambandi við þetta mál er þó sá, að það er verið að svíkja samkomulagið, sem gert var um vegal. Ég held, að það sé ekki giftusamleg leið fyrir hæstv. fjmrh. að vera að reyna að jafna hallann á fjárl. með svikum ríkisstj. Ég held, að það muni ekki reynast heppileg leið fyrir hæstv. fjmrh. að knýja slíkt fram.

Ég vil svo skora á hæstv. samgmrh. að gera annaðhvort, ganga fram í því, að 47 millj. kr. framlagið til veganna sé sett aftur inn á fjárl., eða segja af sér að öðrum kosti.