06.12.1965
Neðri deild: 25. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

76. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Samgmn. hefur haft til athugunar frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 76, um breyt. á vegal. Varð n. ekki sammála um afgreiðslu málsins, og hefur minni hl. n. skilað séráliti á þskj. 132 frá 1. minni hl. og þskj. 139 frá 2. minni hl.

Breyting sú, sem hér er lagt til að gerð verði á vegal., er þess efnis, að innflutningsgjald af benzíni verði hækkað um 90 aura á hvern litra, og einnig, að þungaskattur af þeim bifreiðum, sem nota annað eldsneyti en benzín, verði hækkaður um 30–35%. Eins og fram kom hjá hæstv. samgmrh. og einnig hjá hæstv. fjmrh. við 1. umr. um frv. í þessari hv. d., er gert ráð fyrir, að tekjur þær, sem frv. gerir ráð fyrir, renni óskertar til vegaframkvæmda samkv. vegal. og komi í stað þeirra 47 millj. kr., sem verið hafa á fjárl. til vegamála, en ekki eru teknar inn á fjárl. fyrir árið 1966. Samkv. grg. frv. er gert ráð fyrir auknum tekjum til vegamála, 64.2 millj. kr. árið 1966, ef frv. verður samþ. Þó er ekki reiknað með, að meira en 56.5 millj. kr. innheimtist af þessari upphæð á árinu 1966, þar sem tekjur af innflutningsgjaldi af benzíni síðustu tvo mánuði ársins munu ekki innheimtast fyrr en í ársbyrjun 1967. En þrátt fyrir þetta er ljóst, að hér er um auknar tekjur að ræða til vegaframkvæmda þegar á næsta ári, þótt ekki sé reiknað með sérstöku framlagi á fjárlögum til vegamála, og fyrirsjáanlegt er, að aukning verður enn meiri þegar á árinu 1967. Hlýtur þetta að vera aðalatriði, en minna máli skipta, hvort fé til vegaframkvæmda er tekið inn á fjárlög eða aflað eftir öðrum leiðum, eins og frv. þetta gerir ráð fyrir. Munu allir hv. þm. sammála um, að aukið fé til vegaframkvæmda sé spor í rétta átt og undirstaða aukinna framkvæmda í vegamálum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til lengri framsögu um málið, þar sem hæstv. samgmrh. gerði ýtarlega grein fyrir því í framsöguræðu sinni, er hann fylgdi frv. úr hlaði við 1. umr. þess hér í þessari hv. d., en eins og fram kemur á þskj. 125, leggur meiri hl. samgmn. til, að frv. verði samþ. óbreytt.