06.12.1965
Neðri deild: 25. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

76. mál, vegalög

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þar sem sá fulltrúi Alþb., sem sæti átti í samgmn. við afgreiðslu þessa máls, á ekki sæti hér á þingi lengur, mun ég segja hér nokkur orð um þetta frv. og afstöðu okkar Alþýðubandalagsmanna til þess.

Við Alþb.-menn erum andvígir þessu frv., eins og það liggur fyrir. Við teljum, að það sé alveg augljóst, að með þessu frv. er fyrst og fremst verið að leggja á nýjan skatt fyrir ríkissjóð, vegna þess að þessi tekjuöflun á að koma í staðinn fyrir fast framlag frá ríkissjóði til vegasjóðs.

Það er enginn vafi á því, að út frá því hafði verið gengið, að ríkissjóður héldi áfram að leggja a.m.k. 47 millj. kr. á ári til vegasjóðs, og það leikur heldur enginn vafi á því, að samkomulag var um það á milli þingflokkanna, þegar gengið var frá vegalögunum í árslokin 1963. En nú sem sagt virðist það vera augljóst, að hæstv. ríkisstj. ætlar að halda þannig á málunum að fella niður framlög ríkissjóðs til vegamála, en leggja þess í stað á nýjan eða hækkaðan benzínskatt. Skv. frv. er gert ráð fyrir, að hinn nýi benzínskattur muni gefa vegasjóði á næsta ári í kringum 56 millj. kr., en á sama tíma tapar vegasjóður þessu 47 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði. Skv. áætluninni lítur þá dæmið þannig út, eins og vegasjóður muni hagnast um 9 millj. kr. út af fyrir sig á þessu. En það er mjög vafasamt, að svo verði, vegna þess að það er augljóst, að um leið og þetta frv. verður samþ. og þungaskattur aukinn á bifreiðum og benzínið hækkað í verði, þá vitanlega hækka einnig útgjöld vegasjóðs stórlega, því að vegagerðin þarf mjög að halda á bifreiðum og öðrum slíkum tækjum, og það má því telja alveg fullvíst, að einnig þessar 9 millj. tapast strax og geta vegasjóðs til þess að standa undir vegagerðarmálunum verður minni eftir en áður.

Eins og ég hef sagt áður í umr. um þetta mál, gat vissulega komið til greina að fallast á það að hækka gjöldin á bifreiðum eins og ráðgert er með þessu frv., ef tryggt hefði verið, að þessar nýju álögur á umferðina í landinu hefðu allar verið látnar renna til aukinna framkvæmda í vegamálum. En því er ekki að heilsa, eins og ég hef nú skýrt frá. Ætlunin er raunverulega að taka með nokkuð sérstökum hætti þennan nýja skatt inn í ríkissjóð.

Varðandi till., sem hér liggja fyrir á þskj. 138, frá 2. minni hl. n., vil ég segja það, að ég tel rétt að styðja fyrstu till. Það er mjög eðlilegt, að gerð sé skýr grein fyrir því í sambandi við grg. um vegaframkvæmdir, hvernig hefur verið háttað viðhaldskostnaði á helztu vegunum, og ég get því stutt þá till.

Ég get ekki fallizt á a-lið 2. till., sem fjallar um endurgreiðslu á benzínskatti af jeppabifreiðum sérstaklega, eins og till. liggur fyrir. Ég tel, að þessi till. fjalli um mesta vandræðamál, sem hefði þurft að leysa á allt annan hátt en gert hefur verið, og ég tel satt að segja, að þessi till. geri þar litlar bætur á. En ég mundi styðja b-lið sömu till. Þar er stefnt að því marki að slá föstu, hve miklu skuli nema það framlag, sem beinlínis er gert ráð fyrir að ríkið inni af höndum til vegasjóðs samkv. vegalögum.

Ég skal svo ekki frekar eyða tíma í sambandi við umræður um þetta mál. Afstaða okkar Alþb.-manna til málsins hefur komið skýrt fram áður í umræðum um málið, og hún er sú, að við getum ekki fallizt á frv. í þeim búningi, sem það er.