23.04.1966
Efri deild: 69. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2517 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

196. mál, aðstoð við vangefið fólk

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. flytur þetta frv. til l. um breyt. á I. nr. 43 29. maí 1958, um aðstoð við vangefið fólk, og er efni þess það, að 30 aura gjald, sem nú er greitt af hverri öl- og gosdrykkjarflösku, sem framleidd er og seld hér á landi og runnið hefur til Styrktarsjóðs vangefinna, skuli nú hækkað í 60 aura gjald, sem skiptist þannig, að 3/4 hlutar eða 45 aurar renni til Styrktarsjóðs vangefinna, en 1/4 hluti eða 15 aurar skuli renna til Hjartaverndar, samtaka hjarta- og æðaverndarfélaga á Íslandi.

Tildrög þess, að frv. þetta er flutt nú, þegar svo áliðið er þingtíma, sem raun ber vitni, eru þau, að n. hafa alveg nýlega borizt erindi frá Styrktarfélagi vangefinna og Hjartavernd, sem fara þess eindregið á leit, að þeim verði liðsinnt fjárhagslega á þann hátt, sem frv. ráðgerir.

Styrktarfélag vangefinna hefur unnið þjóðnýtt starf um nokkur ár, og er það hv. dm. kunnugt að meira eða minna leyti. Á s.l. ári voru félagar 666 talsins, og hefur félagið nú skrifstofu hér í borginni. Félagið hefur aflað sér fjár með margvíslegum hætti til starfsemi sinnar svo sem með happdrætti, merkjasölu, sölu minningarspjalda, gjöfum og áheitum. Þá hafa ýmis sveitarfélög og þó einkum Reykjavíkurborg látið fé af hendi rakna til félagsins. Frá 1958 hafa svo Styrktarsjóði vangefinna verið tryggðar tekjur með 1. nr. 43 það ár, 30 aura gjald það, sem þar ræðir um.

Fé sjóðsins hefur jafnótt verið varið til bygginga og endurhóta dvalar- og vistheimila fyrir vangefið fólk, en slík heimili eru nú í Kópavogi, þar sem um 140 vistmenn dveljast, í Skálatúni, þar sem 28 vistmenn dveljast, í Sólheimum, en þar eru um 40 vistmenn, og að Tjaldanesi, þar sem einnig eru fáeinir vistmenn. Auk þess er dagheimilið Lyngás með yfir 40 börnum og unglingum. Um hið síðastnefnda heimili, Lyngás, má geta þess sem dæmi um, hve umfangsmikil og kostnaðarsöm þessi starfsemi er, að þar starfa 6 fóstrur, forstöðukona, matráðskona, einn kennari í bóklegum greinum, tveir handavinnukennarar, sjúkraþjálfari svo og læknir og sálfræðingur.

Vistmenn á hælum fyrir vangefna eru nú 214 og verða væntanlega nokkru fleiri, þegar lokið er byggingum og viðgerðum á vistheimilum, sem nú er unnið að. Hins vegar vantar enn hælisvist fyrir hátt á annað hundrað manns, sem engin leið er að sinna fyrr en aflað hefur verið nýrra vistheimila eða þau hæli stækkuð. sem nú eru til.

Í erindi, sem yfirlæknir Kópavogshælis, frú Ragnhildur Ingibergsdóttir, hefur flutt og n. hefur verið sent, segir svo m.a.:

„Nú í dag liggja fyrir um 80 umsóknir um hælisvist í Kópavogi. Margar þessar umsóknir eru mjög aðkallandi, og margar eru þær mjög gamlar, en að sjálfsögðu verða þeir, sem mesta hafa þörfina, að ganga fyrir, eftir því sem frekast er unnt. Reynt hefur verið að sinna þeim, sem lakasta hafa heilsuna, andlega og líkamlega, og verstar heimilisástæður, en það er ógaman að eiga að vega og meta vandkvæði þeirra, sem til hælisins leita. því að undantekningarlaust er um mikið persónulegt og félagslegt vandamál að ræða og víða hreina neyð. Hingað til hefur aðeins verið hægt að sinna umsóknum þeirra, sem vonlaust var að útskrifa aftur, en margir eru þeir, sem hægt væri að hjálpa til meiri þroska, ef hægt væri að vista þá á hæli um tíma til læknismeðferðar, uppeldis eða kennslu. Þetta hlutverk verður ekki hægt að rækja hér á landi til fullnustu, fyrr en komnar eru nægjanlega margar vistmannadeildir fyrir karla og konur og börn á aðalhæli ríkisins og þar er komin viðhlítandi aðstaða fyrir hvers konar þjónustu aðra. hvað viðvíkur læknismeðferð og uppeldi, svo sem vinnu-, kennslu- og lækningastofur og aðstaða til fræðilegra rannsókna. Auk þess þarf að vera aðstaða til að taka fólk til dagvistar, m.a. á vinnustofur. Þá þurfa að rísa hér upp fleiri heimangöngustofnanir fyrir vangefna, þar sem þéttbýli er nóg, svo að sem flestir þeirra, sem möguleika hafa á að ná þeim andlega þroska, geti séð fyrir sér að einhverju leyti og slitni ekki úr tengslum við heimili sín og umhverfi.“

Þetta var kafli úr erindi yfirlæknis Kópavogshælis. Af þessu er ljóst, að hér er um mikið og alvarlegt vandamál að ræða, sem Alþ. getur ekki látið hjá líða að láta til sín taka og í ríkara mæli en enn hefur átt sér stað. Skylt er að geta þess, að Styrktarfélag vangefinna fór fram á 20 aura hækkun á flösku, úr 30 upp í 50 aura, en með tilliti til þess, að í fleiri horn er að líta, eins og ég brátt mun koma að, hefur n. ekki treyst sér til þess að fara hærra en í 45 aura gjald í Styrktarsjóð vangefinna.

Mér er tjáð, að af slíku gjaldi mundu safnast um 15 millj. kr. á ári.

Er þá komið að Hjartavernd, samtökum æða- og hjartaverndarfélaga. Þessi félagssamtök eru tiltölulega ung, þau eru stofnuð í des. 1964, og mun prófessor Sigurður Samúelsson yfirlæknir hafa verið driffjöður um stofnun þeirra samtaka ásamt fleiri góðum mönnum og látið jafnan til sín taka fyrir samtökin og unnið þeim ærið starf. Er hann formaður stjórnar samtakanna og hefur sótt alþjóðafundi um þessi efni, og eins og allir vita er hann sérfræðingur á þessu sviði.

Í grg. frv. er skýrt frá tilgangi samtakanna og þess getið, að þau hafa með ærnum dugnaði safnað fé til kaupa á húsnæði að Lágmúla 9 hér í borg til þess að koma á fót hjartarannsóknarstöð í Reykjavík. Húsnæði þetta er tvær hæðir í fyrrnefndu húsi, hvor hæð 383 fermetrar að stærð, en af því má sjá, að hér er um talsvert stóra stofnun að ræða. Þá vantar Hjartavernd fé til þess að koma upp hæfum rannsóknartækjum og til reksturs stöðvarinnar. Til hjartarannsókna úti á landsbyggðinni þarf félagið að eignast stóra bifreið, búna röntgentækjum og öðrum nauðsynlegum tækjum og búnaði til þess háttar rannsókna. Talið er, að rannsóknarstöðin muni geta tekið til starfa á þessu ári, ef ekki brestur fé til reksturs hennar. Þetta er tilefni þess, að Hjartavernd hefur farið þess á leit við heilbr.- og félmn., að hún flytti frv. um 15 aura gjald af öl- og gosdrykkjarflöskum, er renni til Hjartaverndar í ofangreindu skyni. N. hefur orðið við þessum tilmælum, enda er henni ljóst, að hér er um brýnt vandamál að ræða. Og hún hefur ekki komið auga á aðra tiltækari fjáröflunarleið. Því má að vísu halda fram, að hér sé verið að seilast inn á fjáröflunarsvið vangefinna, en á það má benda, að frv. gerir ráð fyrir 50% hækkun á gjaldinu til Styrktarsjóðs vangefinna, þótt vissulega hefði það mátt vera meiri hækkun, og einnig hitt, að engan veginn er einsdæmi, að tvö eða fleiri félög eða sjóðir fái tekjur í sama formi af sölu eins og sama hlutar. Er þess skemmst að minnast, að með l. nr. 9 1965 var svo ákveðið, að 1/4 af fé því, sem aflað er samkv. I. nr. 25 1962, um aðstoð við fatlaða, skuli varið til aðstoðar við blinda. Fleiri dæmi ætla ég að nefna mætti samsvarandi.

Heilbr.- og félmn. væntir þess, að hv. dm. taki frv. þessu at skilningi og mælist til þess við hæstv. forseta, að hann greiði fyrir hraðari afgreiðslu málsins í d., þar sem senn líður að þinglausnum og ella gæti verið hætta á, að frv. dagi uppi. Frv. er flutt af n. og því ekki gerð till. um að vísa því til n., en ég legg til, að því verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr.