28.04.1966
Neðri deild: 80. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2520 í B-deild Alþingistíðinda. (1933)

196. mál, aðstoð við vangefið fólk

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft þetta frv. til athugunar, og hefur n. orðið sammála um að leggja til. að frv. verði samþ., og var það samþ. af 6 nm., en einn nm., Hannibal Valdimarsson, var fjarstaddur við afgreiðslu málsins.

Eins og fram kemur í nál., þá bendir n. á það, að nauðsynlegt sé, að fram fari endurskoðun á lagaákvæðum um fjárhagsaðstoð, sem látin er í té ýmsum stofnunum og félögum í svipuðu formi og gert er ráð fyrir í þessu frv., með það fyrir augum, að heildarlöggjöf verði sett um aðstoð við þessa aðila.

Mér þykir rétt að geta þess, að n. barst erindi frá stjórn Geðverndarfélags Íslands, þetta erindi kom 22. apríl, en þar fer félagið fram á það, að það fái einhvern ákveðinn tekjustofn til þess að standa undir sinni starfsemi, og sendir með afrit af bréfi, sem það skrifar til landlæknis 27. marz og afrit af bréfi landlæknis til dómsmrn.

Vegna þess hversu seint þetta erindi kom fram og að Ed. var búin að afgreiða þetta mál, þá taldi n. ekki rétt, þar sem ekki var meiri tími til stefnu, að verða við erindi Geðverndarfélags Íslands að þessu sinni, en það er ekki af því, að n. líti síður á starfsemi þess félags en hinna tveggja félaganna, sem hér eiga hlut að máli.