22.04.1966
Neðri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2532 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

174. mál, fiskveiðar í landhelgi

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Frv. það til I. um breyt. á I. nr. 33 frá 1922, sem hér er til umr., á þskj. 421 og flutt er af 4 hv. Ed.-þm., sem eru úr öllum stjórnmálaflokkunum, er að mínum dómi hið athyglisverðasta. Ég mun styðja þetta frv. við atkvgr. og vona, að það verði samþ. hér í hv. d.

Með tilliti til hinnar lélegu afkomu síldarverksmiðjanna og síldarsöltunarstöðva á svæðinu frá Raufarhöfn til Skagastrandar á undanfarandi árum virðist það vera fyllilega tímabært, að hæstv. ríkisstj. láti fram fara sem fyrst athugun á því, hvort ekki sé tími til kominn að láta endurskoða gildandi lagaákvæði um löndum fiskafla úr erlendum skipum í íslenzkum höfnum sbr. þáltill. á þskj. 401 og, að til bráðabirgða verði umrætt frv, samþ.

Það er alþjóð kunnugt, að hráefnisskortur hefur svo þjakað eigendur síldarsöltunarstöðva og síldarverksmiðja á því svæði, sem ég nefndi, að til vandræða horfir. Síldarflutningar frá Austurlandi til Norðurlandshafna hafa þó nokkuð hjálpað til, sérstaklega s.l. sumar, en þó hvergi nærri nóg, og því virðist full þörf á, að fleiri spjót séu úti höfð. Á svæðinu frá Raufarhöfn til Skagastrandar að þessum stöðum báðum meðtöldum eru 10–11 verksmiðjur, sem vinna úr síld og síldarúrgangi. Sólarhringsafköst þessara verksmiðja eru um 45 þús. mál. Þar af eru sólarhringsafköst Síldarverksmiðja ríkisins á þessum stöðum um 30 þús. mál. Það þýðir, að það er unnt að framleiða í þessum verksmiðjum á Norðurlandssvæðinu um 1000 tonn af lýsi á sólarhring miðað við 17–18% feita síld, og unnt er á sólarhring að framleiða 1200 tonn af mjöli. Miðað við meðalverð á lýsi og mjöli á árinu 1965, en það var sem næst 72 pundum cif pr. tonn, er framleiðsluverðmæti á sólarhring á þessum stöðum um 16 millj. kr. Þar af er framleiðsluverðmæti Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði eitt sér rúmar 10 millj. kr. Ef hráefnið er fyrir hendi og hægt er að vinna frátafalítið í 25 daga í mánuði, nemur útflutningsverðmætið bara hjá verksmiðjunum hvorki meira né minna en um 400 millj. Það þótti nú eitt sinn ekki nein goðgá að tala um 50 daga vinnslu á Norðurlandi og þá mundi nú framleiðsluverðmætið á þessum stöðum verða um 800 millj. miðað við afurðaverð 1965. Ég get ekki hér fullyrt, hversu mikið verðmæti þessara verksmiðja er í dag, ef miða á við núverandi byggingarkostnað. Sjálfsagt er létt verk að reikna það út miðað við það, sem þær verksmiðjur kosta, sem nú er verið að byggja, en án efa skiptir það hundruðum millj. eða milljörðum.

Það er rétt að rifja hér upp í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, að flestar þessar síldarverksmiðjur eða þær stærstu a.m.k. voru byggðar af íslenzka ríkinu til mikilla hagsbóta fyrir ríkissjóð, fyrir útvegsmenn, fyrir sjómenn og fyrir verkamenn. Hinir síðasttöldu fluttu búferlum margir hverjir til þeirra staða, sem verksmiðjurnar voru byggðar á. Þeirra von var, að þarna væri tryggur iðnaður að rísa upp, örugg framtíð; og svo var líka víða á þessum stöðum um árabil. En svo fór, að síldin, sá duttlungafulli fiskur, hvarf af næstu miðum, frá Norðurlandi, og hélt á mið þeirra Austfirðinga, og það sorglega skeði, að hjólin í hinum afkastamiklu verksmiðjum Norðlendinga stöðvuðust og hávaðinn hvarf, og stærstu síldarverksmiðjur í Evrópu, sem eru á Siglufirði, lömuðust. Verksmiðjuverkamennirnir, sem voru hinir bjartsýnustu, urðu að sjá fram á nauðþurftatekjur, og var það svo á tímabili, og sveitarsjóðir viðkomandi staða hafa goldið mesta afhroð.

Sú mynd, sem ég hef dregið hér upp af möguleikum síldarvinnslu á Norðurlandi, kallar á aðgerðir alveg tvímælalaust. Hjólin þurfa með góðu eða illu að hefja gang sinn á ný, og á þessum stöðum fyrir norðan þarf verksmiðjureyk sem allra fyrst að bera við himinn. Þessa mynd, sem ég hef nú leitazt við að draga upp af möguleikunum, má stækka með því að minna á möguleikana í sambandi við síldarsöltun á þessum stöðum. Ég held, að ég fari rétt með það, að á þessum stöðum séu um 30–40 síldarsöltunarstöðvar og þar af á Siglufirði 22. Á þessum stöðum, þegar hráefni er fyrir hendi og nægilegur vinnukraftur, er unnt að salta hundruð þúsunda tunna. Þess má hér geta, að útflutningsverðmæti af 390 þús. tunnum, sem seldar voru úr landi 1965, nam um 480 millj. kr. brúttó. Tölur þær, sem ég hef núna nefnt, tala sínu máli. Ég hef ekki handbærar tölur yfir það, hvað kosta mundi að byggja allar þessar síldarsöltunarstöðvar á þessum stöðum og hvað kostaði að byggja hús yfir það fólk, sem þarna þarf að vinna o.s.frv., en sjálfsagt mun það kosta hundruð millj. Síldarverksmiðjur ríkisins unnu á s.l. ári á nefndu svæði úr rúmum 450 þús. málum síldar. Það svarar til vinnslu 15–20 daga. En aðrar verksmiðjur á þessu svæði unnu úr rúmum 330 þús. málum. Ef maður ætlar nokkrar stundir eða jafnvel daga fyrir vélabilanir og upphreinsanir, sýnir það sig, hefði verið um samfellda veiði að ræða og samfellt hráefnismagn, að það hefur verið unnið í sem svarar 20 daga í þessum verksmiðjum á árinu 1965. Í sambandi við síldarsöltunina má geta þess og rifja hér upp, að á þessu svæði, sem skiptist um Langanes, voru saltaðar af 400 þús. tunnum aðeins 87 þús. tunnur og þar af á Siglufirði, sem hefur 22 söltunarstöðvar, aðeins 19 þús. tunnur. Það eru ekki þús. tunnur á stöð. Beri nú hver saman þessar tölur við söltunarmöguleikana. Mér virðist, að það muni allir vera sammála um það, að hér blasi við hörmuleg staðreynd, staðreynd, sem hv. Alþ. þarf að breyta. Fram komið frv., sem hér er á þskj. 421, og fram komin þáltill. á þskj. 401 miða í þá átt.

Það er gamalt máltæki, sem segir, að það sé ekki sopið kálið, þótt í ausuna sé komið, og það eru orð að sönnu. Mér er það fullljóst, að þótt þetta frv. verði samþ. og þótt samþ. verði sú þáltill., sem er nokkuð knýtt inn í efni þessa frv., og þó að ríkisstj. láti fara fram athugun samkv. ályktuninni og niðurstaðan verði sú að þeim athugunum fengnum, að l. um löndun erlendra fiskiskipa verði breytt á þann veg, að þeim verði heimilað að selja afla sinn í íslenzkum höfnum, er ekki fullvist, að ferð sú, sem hér er farin, verði eða hafi verið farin til fjár. Það er engin sönnun fyrir því, að erlend skip eða eigendur erlendra skipa telji sér til verulegra hagsbóta að selja okkur fiskafla sinn, heldur kjósi þeir að fara til heimahafnar, þótt fjörður sé á milli frænda. Til að fyrirbyggja misskilning skal það að sjálfsögðu tekið fram, ef úr því yrði, að leyfð yrði löndun afla úr erlendum skipum í íslenzkum höfnum, að það er álit flestra þeirra, sem um þessi mál fjalla, og kemur það fram í grg. flm. í Ed., að löndunarleyfin yrðu bundin við þá staði eina, sem hafa nægan síldarverksmiðjukost og síldarsöltunarstöðvar, og þá að sjálfsögðu, þegar þangað vantar hráefni hverju sinni.

Þó að ég sé, eins og ég sagði í upphafi máls míns, fylgjandi frv. á þskj. 421 og telji það tímabært með tilliti til þeirrar litlu vinnslu, sem varð í síldarverksmiðjum norðanlands s.l. sumar og ég hef lýst, og vegna hinnar takmörkuðu síldarsöltunar, er mér ljóst, að viss áhætta og ábyrgð fylgir að gera þær breyt. á umræddum l., sem nauðsynlegar reynast til að ná settu marki í þessu efni. Það er að sjálfsögðu ill nauðsyn, sem liggur á bak við samþykkt þessa frv., en ég vona fastlega, að það verði samþ. hér í hv. d., en ég endurtek, það er ill nauðsyn, sem hvetur til umræddra athugana og væntanlegrar lagabreytingar. En eitthvað þarf að aðhafast til að auka hráefni þeirra síldarverksmiðja og söltunarstöðva, sem svelta og búa við aðeins 20 daga vinnslu, og aðgerðarleysið er þar ríkjandi í 340–345 daga. Samþykkt frv. þess, sem hér er á dagskrá, og samþykkt ályktunartill. á þskj. 401 er tilraun í þá átt.