26.04.1966
Neðri deild: 78. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2538 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

174. mál, fiskveiðar í landhelgi

Davíð Ólafsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir margt af því, sem hv. 5. þm. Austf. sagði um þetta mál, og þó sérstaklega það, sem hann lagði mikla áherzlu á, að fara bæri með fullri gát í framkvæmd þessara undanþáguheimilda, sem þarna væru veittar samkv. þessu frv., ef það verður að l. Þetta er mikið vandamál, sem þarna er um að ræða, sem er búið að þvælast fyrir mörgum um langa hríð. Menn hafa lengi séð þörfina á því að hægt væri að opna þann möguleika að afla hráefnis til fiskvinnslustöðva umfram það, sem okkar skip gætu afkastað, einkum hefur þetta átt við á vissum stöðum í sambandi við síldveiðarnar, en það hefur þó alllaf orðið yfirsterkara eða þau rök hafa alltaf orðið yfirsterkari, sem hafa mæli á móti því. Eins og hv. 5. þm. Austf. sagði, var fyrst og fremst á það litið að halda burtu erlendum veiðiskipum frá fiskimiðunum við Ísland, sem við höfðum ekki talið vera það rúm, að æskilegt væri að efla þar samkeppni við okkar eiginn fiskiflota. Þetta hefur verið, eins og hann réttilega sagði, meginástæðan fyrir því, að menn hafa ekki hingað til viljað fara þessa leið. Nú hefur breytzt nokkuð viðhorfið á seinni árum. Mér er óhætt að segja, að eftir að búið var að færa fiskveiðitakmörkin út í 12 mílur með þeim breytingum, sem gerðar hafa verið á því einnig með grunnlínubreytingum, þá hefur viðhorfið breytzt nokkuð að því leyti, að við erum að minnsta kosti búnir að losna við öli erlend veiðiskip af öllu því svæði, og það er alinokkuð atriði.

Það hefur líka komið til, að afkastageta vinnslustöðvanna, bæði síldarverksmiðjanna og frystihúsanna, hefur aukizt mjög mikið á seinni árum, þannig að þörfin fyrir hráefni hefur aukizt meira heldur en okkar fiskifloti hefur getað afkastað, jafnvel þrátt fyrir það að hann hafi fengið mjög myndarlega stækkun á seinni árum, þannig að þetta er líka nokkuð breytt viðhorf.

Nú er hins vegar rétt að benda á það, að það er fleira, sem kemur þarna til, sem breytir viðhorfum okkar. Til skamms tíma mátti gera ráð fyrir því, að hér við land væru eingöngu fiskiskip, ekki mjög stór, þó allt upp í allstóra logara. En um vinnslu á aflanum í fiskiskipunum sjálfum eða öllu heldur þó í móðurskipum eða verksmiðjuskipum hefur ekki verið að ræða fyrr en nú á allra síðustu árum á þessu hafsvæði hér í kringum okkur. En nú er svo komið, að hjá stórum fiskveiðiþjóðum, sem stunda veiðar hér um Norður-Atlantshaf, gætir þess æ meira, að þær senda ekki aðeins fiskiskipin til veiða, heldur einnig skip til þess að vinna aflann. Þetta á við sérstaklega um Sovétríkin, sem hafa komið upp mjög stórum flota veiði- og verksmiðjuskipa og líka verksmiðjuskipa, sem ekki veiða, heldur taka við aflanum úr veiðiskipunum. Þetta mun vafalaust einnig koma í vaxandi mæli hjá öðrum fiskveiðiþjóðum, þó að þær hafi ekki orðið eins fljótar til að breyta sínum útgerðarháttum og raunin varð með Sovétríkin. Nú mun t.d. á síðastliðnu ári hafa verið, að því er ég held, breytt stóru hvalveiðiskipi norsku í síldarvinnsluskip. Það mun ekki hafa verið sett í rekstur enn þá, en mér er nær að halda, að breytingin sé þegar gerð, og gert er ráð fyrir því, að það skip verði notað til þess að taka síld af norska flotanum við Noreg, í Norðursjónum og jafnvel við Ísland, ef svo ber undir. Það má vafalaust gera ráð fyrir því, ef sú tilraun tekst vel, og það er engin ástæða til þess að ætla annað en að sú tilraun takist vel, og það getum við sennilega dæmt betur um heldur en þeir jafnvel eftir okkar reynslu, sem við höfum fengið af því að flytja síldina á milli veiðiskipa og flutningaskipa nú sérstaklega á síðastliðnu ári. En það hefur verið eitt af þeim vandamálum, sem er við að glíma í sambandi við þetta mál. þannig að við hljótum að gera ráð fyrir því, að áður en langt um líður verði hér í kringum okkur ekki aðeins veiðiflotar, heldur líka vinnslustöðvar fljótandi, sem taka við aflanum af þessum skipum.

Þá er að minnsta kosti að nokkru leyti horfin burtu ein aðalástæðan fyrir því, að við höfum verið svona íhaldssamir um breytingar á þessu fyrirkomulagi, sú ástæða að reyna að halda veiðiskipunum erlendu burtu, þannig að það komi ekki til óeðlilegrar samkeppni við okkar skip á miðunum. Þá getum við ekki ráðið neinu um það lengur, hvort þessi skip koma til veiða á þessu svæði, þá er aðeins spurning um það, hvort við eigum að reyna að notfæra okkur þann möguleika, sem er í því að fá aflann hjá þessum skipum, eða hvort við eigum að láta þá um að vinna sjálfa aflann um borð í sínum verksmiðjumóðurskipum.

Það er líka rétt, sem hv. 5. þm. Austf. benti á, að markaðsvandamálið er ekki til lengur að því er þetta snertir. Það er enginn vandi fyrir okkur að taka við allmiklu magni af fiski hér til vinnslu og eiga þó trygga sölu á afurðunum.

Þetta vildi ég láta koma fram núna, svo að menn geri sér það ljóst, að það hafa hér orðið breytingar, sem einnig hefur verið bent á áður. Og ég vildi sérstaklega benda á það í sambandi við þá athugun, sem ákveðið er að fari fram á þessu máli nú á næstunni.

Ég hefði getað fylgt frv. óbreyttu eins og það kom upphaflega fram. Hv. sjútvn. þessarar d. hefur séð ástæðu til þess að gera á því nokkra breytingu, frekari lakmarkanir. Ég tel það nú ekki út af fyrir sig skipta miklu máli fyrir þetta eina ár, sem um er að ræða. Málið þarf allt miklu nákvæmari athugunar við, áður en við stígum sporið til fulls, áður en við ákveðum til fulls. hvað við gerum í málinu. Ég vil bara aðeins benda á það, að þetta, sem segir hér í brtt., „þar sem brýn þörf er á atvinnuaukningu“, það getur náttúrlega verið mjög erfitt að meta það. Þarna mun Norðurland aðallega haft í huga, og það er sjálfsagt rétt, en það má benda á það, að það getur veríð þörf á því víðar, því að vinnslustöðvarnar, frystihúsin sérstaklega, sem ég er að hugsa um í þessu sambandi, þau eru ekki bara á Norðurlandi, heldur svo að segja alls staðar á landinu, svo langt frá því að vera nýtt að því marki sem æskilegt væri. Það er svo langt frá því, að það mun ekki vera nema kannske milli 20 og 30% af afkastagetunni, sem er notuð víðast hvar á landinu. Þetta gerir það að verkum, að það fjármagn, sem er bundið í þessum iðjuverum, nýtist illa, og það er erfitt að fá verkafólk til þess að stunda stopula vinnu í frystihúsunum, vegna þess að þau skortir svo oft hráefni, og þetta kemur þannig niður, að frystihúsin verða að borga lægra verð vegna þessara ástæðna, sem ég gat um, lægra fiskverð en æskilegt væri.

Eins og ég segi, þá er þetta bráðabirgðalausn, sem þarna er. Ég er alveg sammála því, sem kemur fram hjá n. og gert var grein hér fyrir, að við skulum fara mjög varlega í þessu, og ég mun geta fellt mig við þessa brtt., sem hér hefur verið flutt, þó að ég hefði líka getað samþ. frv. óbreytt, en ég legg mikla áherzlu á það, að þetta mál verði nú athugað mjög gaumgæfilega og áður en sá tími er útrunninn, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að undanþáguheimild verði notuð eða verði veitt, sá tími verði vel notaður til þess að fá einhverja skynsamlega framtíðarlausn á þessu máli.