26.04.1966
Neðri deild: 78. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2541 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

174. mál, fiskveiðar í landhelgi

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. sjútvn. fyrir þá samstöðu, sem hefur tekizt í n. og þá viljayfirlýsingu, sem kemur fram í nál. á þskj. 574. Ég verð að segja það, að það er ekkert óeðlilegt, þó að svona breytingar komi fram við endurskoðun á frv„ og tel ég, að þær muni ekki draga neitt úr gildi frv.

Við 1. umr. frv. þessa rakti ég nokkuð ástand og horfur í atvinnumálum á Norðurlandi á svæðinu frá Raufarhöfn að Skagaströnd og benti þar á hversu geysilega miklir möguleikar væru þar hvað snerti verksmiðjukost og síldarsöltunarstöðvar. Verksmiðjukostur væri slíkur, að unnt væri að vinna úr 45 þús. málum síldar á sólarhring og mala gull, sem skipti tugum millj., ef hráefni og vinnukraftur væri fyrir hendi.

Ég tók það þá fram í þeim umr., að Norðlendingar, sem hvöttu til þess, að frv., efnislega líkt þessu, sem hér er á dagskrá, yrði fram borið, litu ekki svo á, að allur vandi væri leystur í atvinnumálum með því að fá samþ. slíkt frv. sem þetta. Hins vegar telur almenningur á Norðurl. og þeir, sem hafa fjallað um þetta mikla vandamál, að hér sé heiðarleg tilraun gerð til þess að bæta nokkuð úr þessum vandræðum í atvinnumálum nyrðra. Ég minnist þess, að ég sagði í minni ræðu, að ég teldi, að kálið væri ekki sopið þótt í ausuna væri komið, og ég er þeirrar skoðunar enn, og það getur farið svo, að þó að þetta frv. verði að lögum, sem ég vona fastlega að verði, verði það ekki til neins ávinnings fyrir verkamenn, atvinnurekendur og sveitarsjóðina fyrir norðan, en það er þá ekki hægt að saka Alþ. um það að hafa ekki gert tilraun til úrbóta í þessum efnum.

Ég vil ekki orðlengja þetta frekar, en sem einn fulltr. Norðlendinga á Alþ. vil ég þakka hv. sjútvn. fyrir undirtektir við málið og vænti þess fastlega, að hv. þdm. samþ. frumvarpið og það verði að lögum sem fyrst.