26.04.1966
Neðri deild: 78. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2542 í B-deild Alþingistíðinda. (1975)

174. mál, fiskveiðar í landhelgi

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Af þeim stuttu ræðum, sem haldnar hafa verið um þetta mál, má sjá, að hér er um margþætt vandamál að ræða, en vegna þess að ég varð þess ekki var, að það kæmi fram í ræðum þeirra hv. þm., sem sæti eiga í sjútvn. d., vil ég geta þess, að flm. þessa frv. í Ed. eru jafnframt meðflm. að þáltill. um endurskoðun lagaákvæða um löndun erlendra fiskiskipa í íslenzkum höfnum, og einnig það, að við tökum undir það, að slík endurskoðun þurfi að fara fram. Við vorum einmitt sammála um þetta atriði í sjútvn. d., og ég held, að mér sé óhætt að segja það, að við höfum verið það allir. Og kannske meðfram vegna þess, að við teljum málið, eins og hér hefur komið fram, vera miklu víðtækara en kannske hefur komið fram hér og kemur fram í þessu frv. og þurfi miklu nánari skoðunar við, eins og við höfum þegar heyrt, þá höfum við þrengt frv. eins og það kom frá Ed. meðfram vegna þess ótta, sem sumir okkar hafa af vissum afleiðingum, sem geta orðið af því að gefa þetta frjálsara en við þó ætlumst til með frv. — eins og það væntanlega verður eftir þær brtt., sem við höfum lagt fram.

Ég get tekið í flestu undir það, sem hv. 5. þm. Austf. sagði um þetta mál, en ég get líka tekið undir orð hv. 6. landsk. þm., sem mér finnst þó einmitt sýna bezt, að hér er um þannig vandamál að ræða, að full ástæða er til að fela Sþ. eða ríkisstj., þinginu eða ríkisstj., að láta fara fram mjög nána rannsókn á þessu viðkvæma vandamáli, á meðan þau l. eru í gildi, sem við væntanlega samþ. með samþ. þessa frv.

Ég tek undir það líka með síðasta ræðumanni, að ég er ekki sammála því, að landanir erlendra fiskiskipa hér á Íslandi geti eða verði sú lausn atvinnuvandamálsins á Norðurlandi, sem margir halda. Auðvitað getur verið um tímabundna lausn að ræða, en við skulum hafa það í huga, að þessi skip koma ekki til með að landa á þessum stöðum nema á meðan það er þeirra hagur, og ég er mjög vantrúaður á það, að slíkar landanir erlendra veiðiskipa veiti nema ákaflega takmarkað atvinnuöryggi á þessum stöðum.

Hitt er annað mál eins og hv. 6. landsk. þm. benti á, að það er sama vandamálið, sem við blasir í sambandi við nýtingu þeirra framleiðslutækja, sem eru á þessum stöðum, og einnig alvinnuleysisvandamálið, sem er fyrir fólk á þessum stöðum, en ég held einmitt að hafandi það vandamál í huga, þá sé tímabært fyrir hv. alþm. að taka þessi mál til mjög nákvæmrar endurskoðunar eins og þegar hefur verið lögð fram till. um í Sþ., og ég vil enn undirstrika, að allir nm. í sjútvn. þessarar hv. d. eru samþykkir, að verði framkvæmd.