16.11.1965
Neðri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2544 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

63. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Á árinu 1958 var samþykktur viðauki við I. nr. 23 frá 27. júní 1921, um vátryggingarfélög fyrir fiskiskip, þar sem allir eigendur tréskipa, sem ætluð eru til fiskveiða við Ísland og hafa þilfar, eru skyldir til að vátryggja þau hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum gegn skemmdum af bráðafúa. Þessar tryggingar gegn bráðafúa í fiskiskipum tóku gildi 1. maí 1958, og eru þær sérstök deild innan Samábyrgðarinnar. Frá stofnun deildarinnar og til ársloka 1965 munu heildariðgjöld greidd til bráðafúadeildar nema um 112 millj. kr., en heildartjónbætur til ársloka 1965 munu verða um það bil 115 millj. kr., og hafa 157 bátar fengið greiddar tjónbætur vegna skemmda af völdum bráðafúa.

Það verður á engan hátt deilt um, að brýna nauðsyn bar til að stofna þessa tegund trygginga, en hins vegar var ekki liðinn langur tími frá því, að þær voru stofnaðar, að margir eigendur smærri báta og þá sér í lagi þeir, sem eiga skarsúðarbyggð skip, töldu það algeran óþarfa að skylda þau til að greiða til bráðafúadeildar, þar sem litlar eða engar líkur væru til þess, að upp í þeim kæmi bráðafúi. Enda hefur það komið á daginn, að enginn skarsúðarbyggður bátur hefur orðið fyrir skemmdum af völdum bráðafúa öll þau ár, sem deildin hefur starfað.

Með þessu frv. um breyt. á l. nr. 24 frá 29.apríl 1958 er lagt til, að allir skarsúðarbyggðir bátar verði undanþegnir þessari tryggingu. Ég hef borið þetta undir stjórn Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum, og er hún fyrir sitt leyti því meðmæli að þessi breyt. á l. verði gerð. Jafnframt þessari breyt. á l. er lagt til að gera nokkrar aðrar breytingar, m.a. að heimila að fella skip úr tryggingu, sem ekki hefur haft haffæriskírteini í eitt ár, en allmörg dæmi eru þess, að skip hafa staðið í landi jafnvel árum saman í óhaffæru standi og verið eftir sem áður í bráðafúatryggingum.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta mál, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.