29.04.1966
Efri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2545 í B-deild Alþingistíðinda. (1994)

63. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Þetta frv., sem komið er frá Nd., er þmfrv. Upphaflega fól þetta frv. í sér tvær veigamiklar breyt. á skilmálum um þurrafúatryggingar. Önnur breyt. er í því fólgin, að öll súðbyggð skip eru samkv. frv. undanþegin skyldutryggingu vegna þurrafúa. Í grg. fyrir frv. segir, að ekki séu dæmi til þess, að nokkur skarsúðabátur hafi orðið fyrir skemmdum vegna þurrafúa og því sé ekki ástæða til að skylda eigendur þeirra til að hafa báta sína í slíkri tryggingu.

Þá er það hin breytingin, sem fram kemur í frv., en það er vegna þeirra báta, sem ekki fá haffæriskírteini endurnýjuð, að heimilt sé að fella niður trygginguna eftir að eitt ár er liðið frá því haffæriskírteini rann út. Fái skipið hins vegar haffæriskírteini að nýju að þeim tíma liðnum, skal það fá að nýju fulla fúatryggingu og þá að undangenginni fúaskoðun.

Þessa breyt. á l. er talið, að sé nauðsynlegt að gera. Reynslan er sú, að gamlir bátar, sem af einni og annarri ástæðu missa sitt haffæriskírteini, standa oft árum saman á þurru landi án þess að vera teknir af skipaskrá, og það enda þótt vitað sé, að þeir muni aldrei fara á flot aftur, nema þá fyrir gífurlegan viðgerðarkostnað, sem ekkert vit sé í. Á meðan slíkt á sér stað eru bátar þessir allan tímann í fúatryggingu. Bátar, sem þannig standa árum saman á þurru landi og oft eru í óhirðu, geta fyrr eða síðar, þó að þurrafúi hafi ekki fundizt í þeim, þegar þeir misstu haffæriskírteinið, orðið þurrafúanum að bráð, en þá koma eigendur bátanna með kröfu á trygginguna, sem segja má, að í alla staði sé ósanngjarnt og óheilbrigt, að minnsta kosti frá tryggingarlegu sjónarmiði.

Við 2. umr. um málið í hv. Nd. var gerð breyt. á þessari gr. frv., og hljóðar hún svo:

„Eigi er skylt að vátryggja gegn bráðafúa skip, sem vegna ágalla hefur ekki haffæriskírteini, enda leiði skoðun í ljós, að ekki sé útlit fyrir, að gert verði við skipið, ef viðgerð hafi ekki hafizt innan eðlilegs tíma. Þegar svo stendur á, skal Samábyrgðin segja tryggingu skipsins upp, en tilkynna skal það veðhöfum með 14 daga fyrirvara.“

Það var einnig gerð sú breyt. á frv. við afgreiðslu málsins í Nd., sem var þess efnis, að niður var felldur síðari málsliður 3. gr. l., en það er varðandi ákvörðun um iðgjaldið, og hljóðar hún svo, með leyfi forseta: „Þau skulu ákveðin árlega og miðast við áhættu, samkv. reynslu þriggja næstliðinna ára. Þess í stað hljóðar I. mgr. 3. gr. l. svo samkv. till. n: „Ráðh. ákveður iðgjöldin í samráði við Samábyrgðina.“ Þessi breyt. er talin óhjákvæmileg. Orsök þess er sú, að á síðasta ári hafa tjónbætur farið langt fram úr þeim tekjum, sem þessi deild Samábyrgðarinnar hefur, og er vitað, að svo verður einnig með árið 1966 að óbreyttu iðgjaldi. Það er því sýnilegt, að Samábyrgðin muni komast í greiðsluþrot, ef ekki verður ráðin hér bót á.

Þurrafúi í íslenzkum fiskibátum hefur um nokkurt skeið verið mikið og vaxandi áhyggjuefni. Þó að bátaeigendur eigi þess kost að tryggja sig nokkuð fyrir þeim skaða, sem þessu fylgir, fer ekki hjá því, að þeir verða fyrir verulegu tjóni til viðbótar í flestum tilfellum. Ég held, að allir séu sammála um það, að hér sé um mikið vandamál að ræða og til viðbótar því, sem sjálfsagt er, að tryggja sig fjárhagslega gegn þessum bölvaldi, verður einnig að leita ráða til þess að komið verði í veg fyrir það, ef þess er nokkur kostur, að umræddur þurrafúi eigi sér stað. Í Noregi er þetta vandamál ekki minna en hér. Þeir hafa því látið fara fram ýtarlegar rannsóknir og athuganir, sem miða í þá átt að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir meinsemdina. Með hliðsjón af þessu hefur nú að undanförnu dvalið hér á landi norskur sérfræðingur á vegum Samábyrgðarinnar til þess að veita Íslendingum upplýsingar og leiðbeiningar í þessum efnum og skýra íslenzkum skipaskoðunarmönnum frá þeim aðgerðum, sem þeirra reynsla hefur kennt þeim, að bezt dugi. Mér skilst af viðræðum, sem ég hef átt við forstöðumenn Samábyrgðarinnar, að þeir vænti sér góðs af þeim upplýsingum, sem hinn norski sérfræðingur hefur þegar látið þeim í té, og hyggja gott til samstarfs við Norðmenn um þetta sameiginlega vandamál.

Herra forseti. Eg sé ekki svo ástæðu til að orðlengja frekar um mál þetta. Sjútvn. mælir einróma með samþykkt frv. eins og það liggur hér fyrir, og ég legg til, að því verði vísað til 3. umr. að lokinni þessari umr.