03.05.1966
Neðri deild: 86. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2560 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

168. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Keflavíkurkaupstaðar

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft þetta mál til athugunar um skeið. Hún sendi Sambandi ísl. sveitarfélaga og sýslunefnd Gullbringusýslu málið til umsagnar. Umsagnir liggja fyrir frá báðum aðilum, sem eru í skemmstu máli á þá leið, að þeir telja málið ekki nægilega vel undirbúið, vegna þess að samningaviðræður eða samningatilraunir hafi ekki farið fram milli Keflavíkurkaupstaðar og Gerðahrepps, sem þarna eiga hlut að máli. Ég sé ekki ástæðu til þess að lesa þessar umsagnir upp, nema sérstaklega verði óskað eftir því, en meðan þessir aðilar höfðu málið til meðferðar hefur það gerzt, að félmrn. hefur kvatt málsaðila til sín og reynt að koma á samkomulagi milli þeirra. Niðurstaðan af þeirri sáttatilraun liggur fyrir í bréfi frá félmrn., sem er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Með vísun til bréfs ráðun., dags. 27. f. m., til hv. heilbr.- og félmn. Nd. Alþ., sem fylgdi endurriti úr fundargerðarbók bæjarráðs Keflavíkur dags. 28. f.m., vill ráðun. taka fram, að það telur fullreynt, að ekkert samkomulag geti tekizt milli bæjarstjórnar Keflavíkur og hreppsnefndar Gerðahrepps um breytingu á mörkum milli Keflavíkurkaupstaðar og Gerðahrepps á grundvelli frv. til l. um stækkun lögsagnarumdæmis Keflavíkurkaupstaðar, sem lagt hefur verið fram á yfirstandandi þingi.“

Í sjálfu frv. kemur fram, hvað þarna er um að ræða. Keflavíkurkaupstaður er landþröngur kaupstaður, og hefur verið þrengt að honum, m.a. með ráðstöfunum ríkisvaldsins og möguleikarnir til stækkunar kaupstaðarins takmarkast mjög af því, að hann er í nálægð flugbrautanna á Keflavíkurflugvelli, þar sem er mikil umferð og mikill hávaði, þannig að landið næst flugbrautunum er ekki talið byggilegt af þeim sökum. Er gerð grein fyrir því í frv., að eini möguleikinn til stækkunar á landssvæði kaupstaðarins sé sá, að hann fái hluta af því landi, sem nú er í Gerðahreppi, en er þó ekki eign hreppsins, heldur ríkisins og fyrirtækis, sem heitir Keflavík h.f.

Ég lét þess getið hér fyrr á þessu þingi, þegar svipað mál og þetta kom fyrir hv. d., að ég teldi, að áður en Alþ. gerðist úrskurðaraðili í málum sem þessum, þyrfti á vegum ríkisstj. eða viðkomandi ráðun. að reyna samkomulag til fullnustu milli aðila, sem hlut eiga að máli.

Í þessu tilfelli virðist það nú loksins liggja fyrir, að þetta samkomulag hafi verið reynt en ekki tekizt, og þess vegna var það, að á fundi heilbr.- og félmn. í gær samþykktu allir nm., sem þar voru viðstaddir — ég hygg, að það hafi aðeins vantað einn nm. — að freista þess, þó langt sé liðið þings, að koma málinu í gegn, en okkur er það ljóst, að það getur ekki tekizt nema með velvild og góðri fyrirgreiðslu hv. deildarforseta.

Meiri hl. hv. heilbr.- og félmn., eða allir þeir, sem mættu á fundinum í gær, mæla með því, að málið verði afgreitt. En ég tel skylt, áður en ég lýk þessum orðum, að upplýsa, að n. hefur borizt enn þá eitt bréf, sem er frá oddvita Gerðahrepps og hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

P. T. Reykjavík, 2. maí 1966.

Í tilefni af þeirri staðhæfingu, sem sett er fram í bréfi félmrn., um að fullreynt sé, að ekkert samkomulag geti tekizt milli bæjarstjórnar Keflavíkur og hreppsnefndar Gerðahrepps um breytingar á mörkum milli Keflavíkurkaupstaðar og Gerðahrepps, vil ég fyrir hönd hreppsnefndar Gerðahrepps taka fram, að slíkt er síður en svo fullreynt, þar sem boðið hefur verið upp á umr. um afhendingu lands til Keflavíkur, að því tilskildu, að fram komið frv. um breytingu á fyrrgreindum mörkum verði stöðvað.

F.h. hreppsnefndar Gerðahrepps

Björn Finnbogason, oddviti.

Til heilbr.- og félmn. Nd. Alþ.“

Þetta bréf barst til n. í gær, eftir að hún hafði haldið fund sinn. Ég segi fyrir mitt leyti, að bréfið breytir ekki minni afstöðu til málsins. Ég mæli með því, herra forseti, að frv. nái fram að ganga.