04.05.1966
Efri deild: 82. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2567 í B-deild Alþingistíðinda. (2063)

168. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Keflavíkurkaupstaðar

Frsm. meiri hl. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Efni þessa frv. er í sem stytztu máli það, að tiltekið landssvæði, sem er innan Gerðahrepps og er að nokkru leyti eign ríkisins, mundi, ef frv. yrði samþ., verða innan lögsagnarumdæmis Keflavíkur. Ef samkomulag næst ekki innan 6 mánaða um þessi atriði, mundi gerðardómur kveða á um málalok. Í dóminn mundi hver aðili tilnefna einn mann og Hæstiréttur oddamann.

Frv. var flutt af þm. úr öllum þingflokkum í hv. Ed. eftir beiðni bæjarstjórnar Keflavíkur.

Helztu rök fyrir þessari beiðni virðast mér vera þessi: Í fyrsta lagi, að mestallt land innan lögsagnarumdæmis Keflavíkur er nú þegar svo til uppbyggt. Í öðru lagi má nefna það, að 5/7 hlutar af landi Keflavíkur voru á sínum tíma teknir undir Keflavíkurflugvöll, enda þó nokkrum hluta þess lands hafi verið skilað aftur, en hann er líka að mestu leyti fullbyggður. Að fá meira af landsvæði flugvallarins er talið óhugsandi vegna hávaða frá flugvélum, og hefur flugmálastjórnin sent bréf þar að lútandi, sem er prentað með frv., fskj. 2.

Það landsvæði, sem hér er um að ræða, er um 350 ha, og af því eru 300 ha eign ríkissjóðs og óbyggt, en um 50 ha eru eign Keflavíkur h.f., og þar eru um 70 íbúar, sem eru þó í mestum tengslum við Keflavík vegna legu þess svæðis. Skortur landsvæðis í lögsagnarumdæmi Keflavíkur virðist því hefta vöxt bæjarins, og forsvarsmenn málsins telja, að þetta yrðu mjög alvarleg höft innan fárra ára.

Fskj. 1. með frv. er bréf frá skipulagsstjóra ríkisins dags. 7. marz s.l. Hann segir m.a. í þessu bréfi sínu, með leyfi hæstv. forseta:

„Að gefnu tilefni skal tekið fram, að af skipulagslegum ástæðum hefur lengi verið þörf á að rýmka um mörk Keflavíkurkaupstaðar, sem síðan 1945 hefur verið landþrengsti kaupstaður á öllu landinu. Hafa þessi landþrengsli m.a. orsakað það, að ekki hefur verið unnt að gera skynsamlegar skipulagsáætlanir nokkra áratugi fram í tímann, svo sem lög mæla þó fyrir um.“

Síðan rökstyður hann, hvers vegna ekki er hægt að stækka með öðrum hætti en ganga inn á land Gerðahrepps, og hann segir:

„Núverandi stærð Keflavíkurkaupstaðar er um það bil 200 ha, og mundi sú landsstærð vart leyfa nema 6–7 þús. manna byggð miðað við hóflega nýtingu. Með þeim stækkunum á lögsagnarumdæmi Keflavíkur, sem hér er mælt með, verður stærð kaupstaðarins alls rúmlega 660 ha, og mundi sú landsstærð með hóflegri nýtingu nægja fyrir um 15–20 þús. manna byggð. Tel ég ekki goðgá með hliðsjón af vexti Keflavíkur undanfarna áratugi, að hún nái þessari stærð á næstu 50–60 árum, og því tel ég nauðsynlegt, að kaupstaðnum séu tryggðir þessir stækkunarmöguleikar sem fyrst, svo unnt sé að miða skipulagsáætlanir við það mark.“

Þetta segir skipulagsstjórinn.

Frv. þetta kom til þessarar hv. d. í gær. Heilbr.- og félmn. hefur því eðlilega haft ósköp lítinn tíma til að grandskoða þetta mál, eins og hefði þó þurft að gera. Hins vegar hefur málið verið alllengi til meðferðar í hv. Nd., og n. hefur kynnt sér eftir því sem tök hafa verið á, þau gögn, sem þar hafa komið fram í málinu. Hér er um mikið ágreiningsmál að ræða milli Keflavíkurkaupstaðar og Gerðahrepps. Keflavíkurkaupstaður telur sér bráðnauðsynlegt að fá þetta aukna landrými, en hreppsnefnd Gerðahrepps hefur enn ekki séð sér fært að koma til móts við þær óskir með því að láta af hendi neitt af sínu landi. Þeir vilja mótmæla algerlega, að málið sé afgr. hér á hv. Alþ.

Sýslunefnd Gullbringusýslu og Samband ísl. sveitarfélaga hafa sent umsagnir til heilbr.- og félmn. Nd. og telja sig ekki geta mælt með frv. Mér virðist það aðallega vera vegna þess, að þessir aðilar telja það ekki þrautreynt, hvort unnt sé að ná samkomulagi. En raunar finnst mér það ósköp skiljanlegt, að þessir aðilar hiki nokkuð við það að taka ákveðna, ótvíræða afstöðu í máli, sem hlýtur að vera mjög viðkvæmt bæði fyrir Gullbringusýslu og Samband ísl. sveitarfélaga. Og því er það, að þeir telja báðir í sínum umsögnum, þeir mótmæla frv. ekki, en telja sig ekki geta mælt með því. Hæstv. Alþ. getur hins vegar, held ég, tæpast skotið sér undan að taka afstöðu til málsins með þeirri einföldu aðferð að fresta því.

Hv. Nd. afgreiddi þetta mál í gær með 24:1 atkv.hv. d. hefur þannig orðið svo til alveg sammála um afgreiðslu málsins, og þar hafa talsverðar athuganir og umræður átt sér stað í heilbr.- og félmn. þeirrar d. En heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. gat hins vegar ekki náð samkomulagi um að afgreiða málið nú, og töldu þeir hv. þm., sem standa að minni hl., rétt að fresta afgreiðslu málsins og reyna að gera enn frekari tilraunir til samkomulags. Við sem stöndum að áliti meiri hl. á þskj. 695, að vísu tveir með fyrirvara, teljum hins vegar ósennilegt og raunar vonlaust, að áframhaldandi sáttaumleitanir muni bera árangur.

Þann 2. þ. m. skrifaði félmrn. bréf til heilbr.- og félmn. Nd., og vil ég leyfa mér að lesa það, með leyfi hæstv. forseta.

„Með vísun til bréfs ráðun. dags. 27. f.m. til hv. heilbr.- og félmn. Nd. Alþ., sem fylgdi endurriti úr fundargerðarbók bæjarráðs Keflavíkur dags. 22. f.m., vill ráðun. taka fram, að það telur fullreynt, að ekkert samkomulag geti tekizt milli bæjarstjórnar Keflavíkur og hreppsnefndar Gerðahrepps um breytingu á mörkum milli Keflavíkurkaupstaðar og Gerðahrepps á grundvelli frv. til l. um stækkun lögsagnarumdæmis Keflavíkurkaupstaðar, sem lagt hefur verið fram á yfirstandandi þingi.“

Hér fer ekki á milli mála, að félmrn. telur vonlaust, að samkomulag milli þessara aðila geti tekizt. Fyrst rn. tekur svona tvímælalausa afstöðu í þessu máli, þykir mér afar ósennilegt, að hægt sé yfirleitt að þoka þessu máli í samkomulagsátt milli aðila. En hér við bætist, að í fundargerð þess fundar, sem ég nefndi áðan og hefur verið eins konar sáttafundur í ráðun., í þessari fundargerð bæjarráðs Keflavíkur segir svo:

„Hallgrímur Dalberg spurðist fyrir um, hvort hreppsnefnd Gerðahrepps gæti fallizt á fyrirhugaða stækkun, ef bætur kæmu fyrir, sem hreppsnefndin gæti sætt sig við. Björn Finnbogason lagði til, að afgr. frv. yrði frestað, en viðræður færu fram í sumar um málið. Hins vegar taldi hann hreppsnefndina ekki reiðubúna til að svara, hvort landið færi falt, ef viðunandi bætur fengjust fyrir. Bæjarráð getur ekki fallizt á, að afgr. frv. verði frestað né heldur, að landsvæði það, sem fyrirhugað er að leggja undir lögsagnarumdæmi Keflavíkur, verði minnkað. Þá ítrekar bæjarráð fyrri samþykkt sína um að gerðardómur verði látinn kveða á um bætur fyrir tekjurýrnun, sem leiða kann af útfærslunni. Fulltrúar Gerðahrepps lýstu yfir, að enginn grundvöllur væri fyrir samkomulagi um málið á grundvelli frv. þess, sem nú liggur fyrir Alþ. Enn fremur gæti hreppsnefnd Gerðahrepps ekki fallizt á, að gerðardómur kvæði á um bæturnar. Sýslumaður lýsti yfir, að hann hefði kallað saman aukafund í sýslunefnd til að afgreiða fsp. heilbr.- og félmn. Alþ., sem sendi sýslunefndinni frv. til athugunar.“ Undir þetta hafa skrifað: Alfreð Gíslason, Valtýr Guðjónsson, Ragnar Guðleifsson, Sveinn Jónsson, og mættir á fundinum: Hallgrímur Dalberg, Þórður Guðmundsson, Björn Finnbogason, Einar Ingimundarson.

Mér virðist þessi fundargerð bera það ótvírætt með sér, að það séu litlar vonir til þess og raunar engar að ná um þetta mál samkomulagi. Og þá er ekkert annað eftir en að hv. Alþ. taki hér af skarið, og það leggur meiri hl. heilbr.- og félmn. til að gert sé með samþykkt þessa frv.