04.05.1966
Efri deild: 82. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2571 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

168. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Keflavíkurkaupstaðar

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð í tilefni af því frv., sem hér liggur fyrir.

Ég ætla ekki að gera það að umtalsefni, sem er efnisatriði þessa máls, sjálfsagt mæla ýmis rök með því, að Keflavíkurkaupstaður fái aukið landrými, þar sem hann getur skipulagt framtíðarbyggð, en það, sem ég vil gera að umtalsefni, er aðeins málsmeðferðin.

Það liggur nú þegar fyrir eftir framsöguræðu meiri og minni hl., að hér er um verulegt ágreiningsmál að ræða milli stjórnenda Keflavíkurkaupstaðar annars vegar og hreppsnefndar Gerðahrepps hins vegar, og ég vil taka eindregið undir það, sen frsm. minni hl. heilbr.- og félmn. sagði, að ég tel af þeim gögnum, sem fram eru komin í málinu, að þá skorti enn á þann undirbúning, sem eðlilegur og æskilegur má teljast: Undirbúningurinn er að mínu viti og ekki heppilegur. Ég tel það engan veginn fullreynt, og það kemur raunar fram í bréfi, sem hér var lesið frá oddvita Gerðahrepps, ég tel það engan veginn fullreynt, að ekki geti náðst samkomulag í þessu máli. Mér virðist, að forráðamenn Keflavíkurkaupstaðar sæki þetta mál af helzt til miklu kappi, og ég vil aðeins segja það, að mér finnst, að þó að fjölmenni sé í Keflavík, sem á að fá þarna aukið landrými, en miklu færra fólk í Gerðahreppi, sem ætlunin er að svipta þarna allstóru landssvæði, þá má það ekki verða til þess, að Alþ. hrapi að því að knýja fram úrslit í þessu máli án þess að til þrautar hafi verið reynd sú eðlilega málsmeðferð, að samninga sé til þrautar leitað á milli aðila.

Mér þykir það satt að segja miður farið, að þetta mál skuli bera að með þeim hætti, sem það hefur borið hér að. Það var í sjálfu sér ekkert við því að segja, þó hér væri lagt fram frv. um málið til að kynna það og koma því á aukna hreyfingu, fyrst forráðamönnum Keflvíkinga virtist, að það væru nokkrir erfiðleikar á því að ná samkomulagi við Gerðahrepp. En að ætla að knýja þetta mál fram, ég vil segja með nokkru offorsi núna í þinglok, knýja það fram með margföldum afbrigðum, jafnvel sérstökum þingfundum um þetta eina mál, finnast mér miður heppileg vinnubrögð. Ég held, að það sé ekkert, sem þrýstir á um úrslit endilega nú. Það er, held ég, einsætt, að þetta mál ætti að bíða, til þess að enn gefist tóm til að reyna samningaleiðina til þrautar, og ég vil vara við því, að þetta mál sé knúið fram hér á hv. Alþ. með hálfgerðu offorsi. Með slíkum hætti sýnist mér, að til þess kunni að verða stofnað jafnvel að þarflitlu, að þessi skipting landa á milli Keflavíkur og Gerðahrepps valdi sárindum og jafnvel úlfúð milli tveggja nágrannasveitarfélaga, sárindum, sem ef til vili þyrfti ekki til að koma, ef samningaleiðin tækist. Sambúð þessara sveitarfélaga hefur yfirleitt verið góð, að því er ég bezt veit, og það er ekki gott verk að vera valdur að því, að hún spillist að þarflausu. Slíkt getur vissulega orðið varanlegt, og það getur lengi eymt eftir af sárindum, sem gjarnan verða, þegar sá, sem er minni máttar og á kannske formælendur færri en hinn stærri, telur á hlut sinn gengið að ósekju. Ég held, að það liggi ekkert á í þessu máli. Það gerist ekkert stórvægilegt, þó að því verði ekki ráðið til lykta fyrr en til að mynda á næsta þingi, og þess vegna tel ég rétt, að afgreiðslu þess verði frestað nú.

Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða það, að það er ekki neinn sérstakur áhugi almennt hjá Keflvíkingum nú fyrir því, að þetta frv. verði endilega samþ., áður en þessu þingi lýkur. Ég held, að þeir líti ekki svo á almennt, að það sé nein knýjandi nauðsyn fyrir sitt bæjarfélag. Mér virðist, að sá ákafi, sem fram hefur komið í sambandi við afgreiðslu þessa máls og birtist til að mynda með því, að það er verið að reyna að drífa það hér í gegn án þess að eðlileg athugun fáist í n. og með margföldum afbrigðum nú í þinglok, sá ákafi sé sprottinn af einhverjum metnaði fáeinna ráðamanna í Keflavík um það, að þetta þurfi endilega að komast í gegn nú á þinginu.

Það er vissulega miður farið, að ekki skuli hafa náðst samkomulag um málið milli Keflavíkur og Gerðahrepps, áður en það kom til kasta Alþ. Ég er þó engan veginn vonlaus um, að slíkt samkomulag geti náðst og kunni að nást, ef nægilegt tóm væri gefið til að kanna það til þrautar. Þetta á að reyna enn í sumar að mínum dómi. Á næsta Alþ. er svo að sjálfsögðu hægt að taka afstöðu til þessa máls, eins og það þá liggur fyrir. Ég held, að frestun málsins nú sé í rauninni affarasælust fyrir báða aðila, og þess vegna mun ég greiða þeirri rökstuddu dagskrá atkvæði, sem nú hefur komið fram frá minni hl. hv. heilbr.- og félmn.