04.05.1966
Efri deild: 82. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2574 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

168. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Keflavíkurkaupstaðar

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða frv. efnislega að þessu sinni að minnsta kosti, en vil ítreka það, sem raunar hefur verið bent á hér við þessa umr., hvernig málið liggur fyrir þessari hv. d. Það kemur til hv. Ed. síðdegis í gær. Það er þegar í stað tekið á dagskrá til 1. umr. og henni lokið Síðan er hv. heilbr.-og félmn. kvödd á skyndifund og skal þá þegar gert út um þetta mál. Það var ljóst á þeim fundi, að ágreiningur var ekki verulegur um afstöðu til frv. efnislega, heldur varð sá ágreiningur, sem í ljós kom, eingöngu um meðferð málsins, og þess vegna klofnaði n. Nú er málið komið til 2. umr. hér í dag, og það kemur í ljós í þeirri umræðu, að hv. Ed. er mjög klofin í afstöðu sinni til málsmeðferðarinnar og með því til frv., eins og það liggur fyrir nú. Það er því ekki aðeins um að ræða klofningu í málinu í hv. n. heldur og í hv. d. Nú hygg ég, að ætlunin sé að knýja þetta mál áfram, þrátt fyrir deildar meiningar á tveim fundum í dag, afgreiða þetta mál á 2 dögum með einum skyndifundi í þeirri n., sem um það á að fjalla. Þetta tel ég gjörsamlega óhæf vinnubrögð, vinnubrögð, sem eru langt fyrir neðan virðingu þessarar hv. d. Hér er um að ræða mál, sem er viðkvæmt deilumál tveggja sveitarfélaga í landinu. Hér er um að ræða mál, sem ekki hefur verið bent á, að sé mjög brýnt að afgreiða núna á þessu vori. Þvert á móti, allar líkur benda til þess, að það komi engum að sök, þótt málið bíði afgreiðslu hér á Alþ. til næsta hausts. Með tilliti til þessa finnst mér sök hv. Ed. enn meiri, ef hún hespar þetta mál af á þann veg, sem fyrirhugað virðist vera, gegn mótmælum svo og svo margra hv. þdm. Ég hef orð á þessu í því skyni að skora hér með á hæstv. forseta, sem á að sjá um, að mál séu athuguð nægilega í þessari hv. d. og ber ábyrgð á því að vissu leyti, að málefnum séu gerð skil af fullri sanngirni, ég skora á hæstv. forseta að íhuga það, hvort ekki sé rétt, að hann noti sitt vald, hver sem afstaða hans er til málsins persónulega, að hann noti sitt vald til þess að boða ekki til sérstaks fundar í dag um þetta mál til 3. umr.