04.05.1966
Efri deild: 82. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2574 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

168. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Keflavíkurkaupstaðar

Frsm. minni hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Út af ummælum hv. frsm. meiri hl. um það, að hann vilji ekki líta svo á, að það sé pottþétt, eins og hann orðaði það, að samkomulag náist um þetta mál, svo sem á er bent í bréfi oddvitans í Gerðahreppi, vil ég segja það, að ég tel það alls ekki heldur vera, að það sé pottþétt, en ég tel, að það séu möguleikar á því og þá leið á að reyna, og ég vil einnig taka fram, að í sjálfu sér er ég ekki beint á móti málinu. Ég hygg, að þarna verði e.t.v. að taka eitthvert land, ef ekki næst samkomulag, þá með l. til handa Keflavík, þó ég telji, að í það eigi að fara ákaflega varlega jafnan að taka lönd undan sveitarfélögum og leggja undir önnur. Þó eitt sveitarfélag græði á slíku, þá er hitt eins víst, að annað sveitarfélag tapar á því. En sem sagt, það geta verið þau málefni, að þetta sé nauðsynlegt að gera.

Þetta frv. var lagt fram snemma á þessu þingi og hefur verið til meðferðar í hv. Nd. lengi. Ég tel, að nú hafi það gegnt miklu hlutverki, sem sé að kynna málið og koma af stað samningatilraunum um það, sem ekki hafa enn tekizt. Full rök eru fyrst fyrir að knýja málið fram, þegar það er alveg útséð, að ekki næst samkomulag, en það er ekki útséð enn. Af þessum orsökum álít ég, að það sé öllum fyrir beztu, að dagskrártill. verði samþykkt og málið fái að hvíla sig, þangað til fram hafa farið frekari umr. milli hlutaðeigandi sveitarfélaga. Þá fyrst er ástæða fyrir Alþ. að taka til valdboðs, þegar samningaumleitanir eru fullreyndar.