14.12.1965
Efri deild: 27. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

76. mál, vegalög

Frsm. 2. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Þetta frv. sýnir í skýru ljósi aðferðir hæstv. ríkisstj. Efni þessa frv. er það, að hækka skuli frá næstu áramótum benzínskatt, sem nemi 90 aurum á hvern benzínlítra, jafnframt skuli hækka þungaskatt á dísilbifreiðum og sú hækkun nemi 30–35%. Þetta er ekki í fyrsta sinn á valdaferli þeirrar ríkisstj., sem nú situr, eða réttara sagt þeirra flokka, sem nú fara með meirihlutavald á Alþ., sem þessi skattur er hækkaður. Þegar þeir flokkar, sem nú fara með meirihlutavaldið, mynduðu ríkisstj. 1959, var benzínskatturinn 1.13 kr. á hvern lítra. Með efnahagsmálalöggjöfinni 1960 var þessi skattur hækkaður um 34 aura á lítra. Með vegal. 1963 er þessi skattur enn hækkaður um 1.30 kr. á lítra. Og nú með þessu frv. á enn að hækka þennan sama tekjustofn um 90 aura á lítra. Þetta er því í þriðja sinn á valdaferli núv. stjórnarflokka, sem vegið er í þennan sama knérunn, og fyrir atbeina þeirra hefur þessi skattur meira en þrefaldazt, eða hækkunin frá 1959 er 222%.

Þetta frv. varpar einnig ljósi á þá starfsaðferð að skattleggja sömu vöruna á marga vegu. Það er ekki svo, að þessi benzínskattur, sem hér er til umr., sé einu gjöldin eða álögurnar, sem lagðar eru á benzínið. Af benzíni er greiddur 50% tollur, og árið 1964, ætla ég, að sú tollgreiðsla af benzíni einu hafi numið um 28 millj. kr. Af benzínsölu er síðan innheimtur — söluskattur eins og öðrum varningi, og ef miðað er annars vegar við það magn af benzíni, sem flutt var inn 1964, — tölur fyrir þetta ár hef ég ekki við höndina, — og hins vegar við þann gjaldstofn, sem söluskatturinn er, má ætla, að söluskattur af benzíni nemi yfir 20 millj. kr. á árinu 1964.

Þannig eru aðferðir ríkisstj. við að reyta saman álögur, að sama varan er skattlögð á marga vegu. Þessi hækkun, sem á að ákveða samkv. þessu frv., á að renna í vegasjóð og ganga til samgöngumála. En samt er svo um hnúta búið í þessu kerfi hæstv. ríkisstj., að við þessa skatthækkun, sem hér á að ákveða, mun söluskatturinn af benzíni einnig hækka og drjúpa þannig nokkuð í sjóð þann, sem hæstv. fjmrh. hefur umsjá með nú í bili, í sambandi við þá hækkun, sem hér er verið að lögfesta. Þannig er þetta álögunet hæstv. ríkisstj., sem hún dregur utan um skattborgara landsins, orðið svo þéttriðið, að þar á enginn að sleppa í gegn.

Um leið og þessu fer fram, er umferðin í landinu höfð að allgildum tekjustofni fyrir ríkissjóð sjálfan. Má í því sambandi nefna leyfisgjald af bifreiðum eða það, sem er í fjárl. 10. liður í tekjuáætluninni, gjald af bifreiðum og bifhjólum samkv. 16. gr. l. nr. 4 1960. 124 millj. kr. Þessi skattur er tekinn af umferðinni beint til almennra þarfa ríkissjóðs, og það er minnt á það í sjálfum fjárl., af hvaða rótum megi rekja þennan skatt, því að þar er vitnað réttilega í efnahagsmálalöggjöfina 1960, sjálfa viðreisnarlöggjöfina. Jafnframt því, að svona er farið að, er mjög mikið af framkvæmdum í samgöngumálum unnið fyrir lánsfé. Það á að velta því á framtíðina að standa straum af þeim kostnaði, og þegar málin horfa svona, þykir hæstv. ríkisstj. það tímabært og viðeigandi að fella niður úr fjárl. einar 47 millj. kr., beint framlag úr ríkissjóði til samgöngumálanna.

En þetta frv. sýnir einnig þá hliðina, sem snýr að hæstv. ríkisstj. sjálfri, þó að hún kannske sé blind í sjálfs sín sök, því að hún er sjálf orðin í nokkurri hættu af sinu eigin álöguneti. Í grg. þessa frv, er sagt, að með þeirri hækkun, sem hér á að lögfesta, sé benzínverð hér á landi fært upp í það, sem tíðkast eða menn vita að sé í nágrannalöndunum. Þegar svo er komið, hlýtur að verða erfitt um vik framvegis að vega oft og með jafnstuttu millibili í þennan knérunn, eins og gert hefur verið á valdaferli núv. stjórnarflokka. En samt sem áður er augljóst og viðurkennt af öllum, að í samgöngumálum er þörf stórframkvæmda, og sú þörf eykst með hraðvaxandi umferð, stækkandi ökutækjum, breyttum atvinnuháttum og vaxandi fólksfjölda hér á landi. Einhvern tíma kemur líka að því, að það verður að fara að borga lánin, sem nú er unnið fyrir í samgöngumálum.

Dýrtíðin er ógnvaldur ríkissjóðs, heyrði ég hæstv. fjmrh. segja í hv. Sþ. fyrir nokkrum dögum. Ég tek alveg undir þetta. En þetta mál er einn þáttur, þó að hann sé ekki mjög stór, er það þáttur í því að auka enn dýrtíðarvöxtinn, að gera erfiðleikana enn meiri á því sviði en verið hefur og gera ógnvald ríkissjóðs, sjálfa dýrtíðina, enn óviðráðanlegri en hún hefur verið til þessa, því að vitanlega færist sá skattauki, sem hér á að lögfesta, yfir í verðlagið eftir ýmsum leiðum. Flutningsgjöldin hækka og sennilega milliliðakostnaður eða dreifingarkostnaður landbúnaðarvara í sambandi við það. Þjónusta, sem veitt er, bæði með langferðabifreiðum og bifreiðum frá bifreiðastöðvum, leigubifreiðum, hlýtur einnig að hækka, og þannig verður hinn almenni skattborgari eftir ýmsum leiðum var við þá hækkun, sem hér á að lögfesta.

En þetta mál er ekki eingöngu fjárhagsmál, þótt ég hafi nú um sinn gert þá hliðina eða þann þáttinn að umræðuefni. Þetta mál hefur einnig sérstöðu meðal þingmála. Þegar vegal. voru sett 1963, var gert um það víðtækt samkomulag hér á hv. Alþ. að ganga frá vegal. í því formi, sem þau eru úr garði gerð. Ég taldi það mjög ánægjulegt, — ég átti þá sæti í þeirri n., sem fjallaði mest um þessa lagsetningu og raunar gekk frá því samkomulagi, sem gert var. — og ég taldi það mjög ánægjuleg vinnubrögð að mörgu leyti, hvernig þá var staðið að afgreiðslu þess máls, og ég hygg, að það megi með fullum rétti segja, að það sé óvanalegt, að stjórnarandstaða taki á sig ábyrgð á því að standa að álögum um 100 millj. kr. á þjóðina, en þetta gerði stjórnarandstaðan á þingi 1963, vegna þess að það er almennur skilningur á því meðal allra þm. og þingflokka, að stórátök þurfti og þarf enn að gera í samgöngumálum þjóðarinnar. Þetta samkomulag var staðfest, ég leyfi mér að segja: bæði í vegal., fjárlögum og vegáætlun, því að í 89. gr. vegal. segir, að til greiðslu kostnaðar samkv. l. þessum skal auk þeirra gjalda, sem um getur í 85. og 87. gr. og fjallað er um í þessu frv., veita árlega sérstakt framlag í fjárl. Þetta sérstaka framlag í fjárl. var því algerlega einn þátturinn í tekjuöfluninni til vegamálanna. Nú stendur þessi grein, þrátt fyrir samþykkt þessa frv., eftir í vegal. Ef ákvæði hennar eru svo borin saman við fjárl., sem verið var að samþykkja fyrir nokkrum mínútum, er á greininni um vegamál, 13. gr. A í fjárl., einungis styrkur til að halda uppi byggð og gistingu handa ferðamönnum og í öðru lagi framlag til nýbýlavega 160 þús. kr. Mér er það ekki ljóst, hvort hæstv. ríkisstj. telur sig fullnægja ákvæðum vegal. um sérstakt framlag ríkissjóðs til vegamála með þessari lágu fjárhæð til nýbýlavega, sem nú er í fjárl. næsta árs. Mér er það ekki ljóst, en e. t. v. fást skýringar á því. Í samræmi við vegal. hefur verið í fjárl., t.d. þess árs, sem nú er að líða, ákveðin 47 millj. kr. greiðsla í þessu skyni. Þetta var enn fært inn í vegáætlunina, sem gildir fyrir árin 1965–1968, þannig að í tekjuhlið vegáætlunarinnar öll þessi ár er þetta sérstaka framlag úr ríkissjóði, 47 millj. kr. En þetta allt þótti þó ýmsum þm. ekki nóg, og það var því rætt, þegar vegal. voru sett, að það þyrfti að setja í löggjöfina aukna tryggingu fyrir því, að frá þessu yrði ekki hvikað. Þetta var bæði rætt í n. þeirri, sem fjallaði um vegal., og það mun hafa komið bein till. fram um það í hv. Nd.

En í sambandi við það gaf hæstv. samgmrh. yfirlýsingu, og þá fórust honum þannig orð:

„Engin hætta er á því og alveg útilokað, að ríkissjóðsframlag til veganna verði lækkað. Það er alveg útilokað. Þörfin fyrir aukið vegafé frá ríkissjóði verður fyrir hendi, þótt vegamálunum hafi verið tryggt fé með benzíngjaldi, þungaskatti og gúmmígjaldi.“

Þetta voru svo skýr og afdráttarlaus ummæli, að þm., sem stóðu að þessari lagasetningu með samkomulagi, hlutu að taka þessi ummæli gild. Og ég segi það, — ég vil ekki hafa nein stór orð hér uppi um þetta mál, — en ég segi það, að ég harma það, að reynslan skuli nú sýna, að þessum ummælum mátti ekki treysta. Það hefur ávallt með þessari þjóð verið mikils metið, að menn stæðu við orð sín. Eitt sinn var svo að orði komizt, að sá væri mikill maður, sem hagaði sér þannig, að heit hans væru betri en handsöl annarra manna. Ráðherraloforð, hygg ég, að hafi ávallt haft sérstakt, ákveðið gildi. Ég veit ekki til og get ekki vitnað til þess, að um það standi ákvæði í stjórnarskrá eða lögum. En það eru í þingvenjum og stjórnarfari ýmis óskráð lög, sem menn vilja gjarnan hafa í heiðri. Og ég hygg, að í framkvæmdinni hafi það verið svo, að ef ráðh. einhvern tíma hafi gefið loforð um lausn ákveðins máls eða ákveðna fyrirgreiðslu, hafi jafnvel eftirmaður hans ógjarnan viljað hvika frá því, þó að mannaskipti verði. Hvað skyldi þá um mann, sem situr í sama stól, þegar ákveðin yfirlýsing er gefin og til þess kemur svo að ráða framkvæmdinni?

Þetta frv. er því auk þess að vera fjárhagsmál vottur þess, að yfirlýsingar þær, sem hæstv. samgmrh. gaf í sambandi við vegal., hafa því miður lítið gildi. Með þessu frv. er stefnt að því, í bili a.m.k., að greiða fyrir hinni hröðu hringferð ríkisstj. á dýrtíðarbrautinni, en sú för hæstv. ríkisstj. er öll ákaflega óheillavænleg. Og þáttur hæstv. samgmrh. í þessu máli, sem ég hef lítils háttar vikið að, er með þeim hætti, að hann ætti að dómi okkar, sem stöndum að nál. 2. minni hl., að vera til viðvörunar og Alþ. ætti af þeim sökum að synja ríkisstj. um samþykkt þessa frv. Við, sem stöndum að nál. 2. minni hl., viljum því ekki samþykkja þetta mál, eins og það er vaxið, en leggjum til, að frv. verði fellt.