02.05.1966
Sameinað þing: 43. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2577 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

Almennar stjórnmálaumræður

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Heiðruðu hlustendur nær og fjær. Ég leyfi mér við upphaf þessara eldhúsumr. frá Alþ. að fylgja aldagömlum, þjóðlegum sið og óska þeim, sem á mig hlýða, gleðilegs sumars.

Hæstv. ríkisstj. sendi líka inn á hvert heimili landsins sína sumarkveðju. Það var einmitt við sumarkomuna. Sumaróskin sú var efnislega á þessa leið: Ríkisstj. hefur neyðzt til að taka af matarpeningum almennings, sérstaklega fátæka fólksins, um 80 millj. kr. til styrktar útgerðinni í landinu í mesta aflaári, sem yfir landið hefur komið. Fiskur hækkar nú um allt að 79%. Saltfiskkílóið kemur til með að kosta 36 kr., fiskfars hækkar úr 19 í 26 kr., nýr þorskur hækkar úr 7 kr. í 12,50 kr. kg og ekki höfum við heldur gleymt viðbitinu, smjörlíkið hækkar úr 24 kr. í 35.50 kr. Húsfreyja góð, þú, sem keyptir fiskmáltíð handa fjölskyldunni í vetrarlokin fyrir 35 kr., verður nú að búa þig út til fiskkaupanna 1. sumardag og framvegis með 60 kr. í buddunni þinni. Gleðilegt sumar með kveðju ekki frá Gregory, heldur frá ríkisstj. Íslands. Ný dýrtíðarskriða var sumargjöf stjórnarflokkanna.

Það er sagt, að flestar húsfreyjur landsins hafi orðið bálreiðar sumargjöfinni, 79% verðhækkun á fiski, og lái þeim það hver, sem vill. En það er ekki nóg að reiðast. Fiskurinn hækkaði ekki vegna þess, að fiskverð ætti að hækka til sjómanna. Nei, alls ekki. Stjórnin hætti bara niðurgreiðslu á fiski, og til niðurgreiðslunnar hafði stjórnin innheimt skatta. Nú sleppir hún niðurgreiðslunni, heldur sköttunum og lætur verðhækkunina bitna á öllum landsins lýð, mest þeim fátækari. Þessi fiskverðshækkun er því liður í stjórnarstefnunni, henni á því ekki að bölva í nokkra daga, hennar á að minnast við kjörborðið. Svona atburðir hefðu getað leitt til húsmæðrauppreisnar, t.d. í Bretlandi og orðið þar jafnvel stórmál í kosningum.

Ég minnist þess, að hæstv. verðlagsmálaráðh., Gylfi Þ. Gíslason, setti eitt sinn í útvarpsumr. upp fína eldhússvuntu og talaði blíðlega til húsmæðranna. Í þessum eldhúsdagsumr. finnst mér hann eiga brýnt erindi við húsfreyjurnar á ný og nú má hann alls ekki láta undir höfuð leggjast að sýna þeim og sanna, hve frækilega hann hafi barizt gegn dýrtíðinni öll undanfarin ár, í fyrra, hitteðfyrra og í ár og sérstaklega nú seinast gegn fiskverðshækkuninni. Ráðh. kemur vafalaust fram í þessum umr. og bið ég nú alla að taka vel eftir því, þegar hann fer að telja upp allar þær aðgerðir og ráðstafanir, sem, hann og stjórnin hafi gert til þess að stöðva dýrtíðarófreskjuna. Það verður sennilega langur lestur skyldi maður ætla. En við sjáum nú, hvað setur um það.

Ég hef enga löngun til að sverta eða afflytja hæstv. ríkisstj. á nokkurn hátt. Það verður því enginn ofstækislestur, sem ég flyt hér í kvöld, það verða aðeins orð í fullri alvöru. Ég þekki ráðh. persónulega og veit, að þeir eru mætir menn og velviljaðir, en það ruglar ekki mat mitt á því, að þeir hafa reynzt duglitlir, reikulir og raunalega ófarsælir stjórnendur, og því er komið sem komið er. Ég leyfi mér að segja, að stjórninni hafi gengið það vel, sem henni var ósjálfrátt, en því miður flest illa, sem henni var sjálfrátt um. Mundi það ekki vera flestra mál, að það sé jafnauðvelt að stjórna hér á landi sæmilega í góðæri eins og það getur verið erfitt í hallæri. Og það væri sannarlega vanþakklát mannskepna, sem kvartaði undan árferðinu nú seinustu árin, góðærinu frá náttúrunnar hendi er svo lýst í texta og tölum í nýútkominni ársskýrslu Seðlabanka Íslands:

Á árinu 1965 varð enn ör aukning á þjóðarframleiðslu og þjóðartekjum. Samkv. bráðabirgðaáætlun Efnahagsstofnunarinnar varð vöxtur þjóðarframleiðslunnar 5%, en var 5,5% árið á undan. Þar sem viðskiptakjör bötnuðu verulega á árinu, varð aukning þjóðartekna mun örari eða milli 8 og 9% (takið eftir, aukning þjóðartekna varð á milli 8 og 9%), en það mun vera ein mesta aukning þjóðartekna, sem orðið hefur hér á landi á einu ári.“

Ég ætla, að óhætt sé að skjóta hér inn í, einhver mesta aukning þjóðartekna, sem um getur í nokkru öðru landi og þá spillir það ekki fyrir, að árið 1964 var litlu lakara. Þá var vöxtur þjóðarteknanna 8.4%. Og hver var orsök þessara miklu þjóðartekna? Jú, árbók Seðlabankans svarar og segir:

Ástæðurnar voru tvær, meiri uppgripasjávarafli en nokkru sinni áður í sögu þjóðarinnar og síhækkandi verð afurðanna á heimsmarkaðinum. Þetta tvennt hélzt í hendur. Árgæzkan gat því naumast verið meiri. Heildaraflinn var 1.166 þús. tonn og hafði að magni aukizt um 20% frá árinu áður, sem einnig var metár. Síldaraflinn jókst með eindæmum eða um 38%. Verðhækkun varð á síldarlýsi, saltfiski og ísfiski, en mest á síldarmjöli, freðfiski og saltsíld. Telur Seðlabankinn, að viðskiptakjörin við útlönd hafi batnað um allt að 10% á árinu og verðhækkun útflutningsvara okkar hafi orðið a.m.k. um 12%. Enn játar seðlabankastjórinn, að heildarverðmæti útflutningsins hafi aukizt, takið eftir, hér er bara nefnd aukningin, ég segi aukizt um 783 millj. kr. miðað við árið áður eða um full 16%. Í viðbót við þetta jukust svo birgðir útflutningsafurða í landinu að verðmæti um 444 millj. kr. Hækkunin er því raunar alls rúmar 1200 millj. kr. Þvílíkt einstakt veltiár, uppgripaár var árið 1965.

Allar þessar játningar verða vantrúarmennirnir á íslenzkan sjávarútveg nú að gera sannleikans vegna. En þegar flett var blaði í skýrslu Seðlabankans brá mér í brún. Þar stóð, að vöruskiptajöfnuðurinn á árinu 1965 hafi orðið óhagstæður um 342 millj. kr. og þó enn þá óhagstæðari árið áður, en þá var hann óhagstæður um 860 millj. Og enn segir þar: Stutt erlend vörukaupalán hækkuðu um 141 millj. kr. á árinu 1965 og heildarskuldir þjóðarbúsins í formi fastra lána hækkuðu einnig um 160 millj. kr. á árinu 1965. Eina huggunin og þó fremur haldlítil er sú, að skuldaaukningin í föstu lánunum varð enn þá meiri, miklu meiri í góðærinu 1964, þá var hún 510 millj. kr., hálfur milljarður takk. Ber þetta nú góðri stjórn vitni, hlustendur góðir? Nei, auðvitað er þetta skýr vitnisburður furðanlegrar óstjórnar. Hugsið ykkur, ein mesta aukning þjóðartekna, sem orðið hefur á einu ári og þó bæði aukning lausra skulda og fastra lána erlendis. Ofan á allt þetta halli á rekstri ríkissjóðs seinustu tvö árin. Hvílík fjármálastjórn, hvílík óstjórn efnahagsmála!

Hvernig vegnar þá undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveginum, á þessum uppgripaaflaárum undir viðreisnarstjórninni? Jú, þannig, að togaraútgerð hefur þurrkazt út bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum og hangir á horrim í Reykjavík og Hafnarfirði, og á Akureyri. Ef stjórnað væri af nokkrum skilningi á þörfum sjávarútvegsins, ættu Íslendingar nú vafalaust marga nýtízku skuttogara, en sennilega væru þá verzlunarhallirnar við Suðurlandsbrautina eitthvað færri. En skuttogararnir eru engir, en hallirnar ærið margar. Og nú virðist einnig línuútgerðin, sem lengstum lagði hraðfrystiiðnaðinum til bezta hráefnið, einnig vera að leggjast niður. Sannleikurinn er sá, að síðan Ólaf Thors leið, er enginn maður í forustuliði Sjálfstfl., sem nokkurn skilning hefur á sjávarútvegi eða gildi hans fyrir þjóðina. Eftirminnileg er kenning hæstv. núv. forsrh., Bjarna Benediktssonar, um að valt sé mjög að byggja á sjávarafla og fiskinum syndandi um hafdjúpin. En e.t.v. treysta menn á leiðsögn Alþfl. í þessum efnum, hann hefur um langt skeið lagt til sjútvmrh. og gerir það enn. Um þá forustu skal ég vera fáorður, því að fæst orð hafa minnsta ábyrgð, en ég vitna í Þorstein Erlingsson og segi aðeins: Sæktu hana í Hafnarfjörð, söguna þá, þeir segja hana betur en ég.

Hvenær skyldu annars augu útgerðarmanna opnast fyrir því, að þeir eiga miklu fremur samleið með sjómönnum og verkafólki en með stjórnmálaflokki, sem setur hagsmuni stórkaupsýslunnar ávallt öllu öðru ofar? Já, og hvenær skyldi smákaupmönnum skiljast það, að þeir eiga allt sitt undir almennri kaupgetu fjöldans, en ekki undir auðsöfnun nokkurra heildsala í Sjálfstfl. Og enn spyr ég: Hvernig halda menn, að núv. stjórnarstefna hefði dugað í hallæri? Og hvernig halda menn, að núv. ríkisstj. hefði gengið að stjórna landinu, ef aflaleysi hefði hrjáð þjóðina nokkur ár í röð, eins og oft hefur hent og allra helzt, ef því hefði einnig fylgt verðhrun á erlendum mörkuðum? Menn sjá í hendi sér, að dýrtíðarholskeflan væri fyrir löngu búin að stöðva alla útgerð, þó að aflauppgripin hefðu verið þau sömu, aðeins ef verðlagsþróunin erlendis hefði verið eitthvað óhagstæðari. Meira þarf nú ekki til, til þess að þessi stjórnarspilaborg hrynji.

Stærstu loforðin gaf þessi ríkisstj. við upphaf göngu sinnar og helztu eiðana sór hún um það, að stöðva skyldi verðbólgu og dýrtíð. En það hefur hún svo sannarlega ekki gert. Á þessu sviði liggja hennar stærstu svik. Eiðarnir um að stöðva verðbólgu og dýrtíð hafa allir verið rofnir og einskis virtir. Þó er þetta svo mikilsvert atriði íslenzkra stjórnmála og efnahagsmála, að Ólafur Thors játaði, að tækist ekki að stöðva dýrtíðina, væri raunar allt annað unnið fyrir gýg. Þessi orð þýða, að þótt ríkisstj. takist sitthvað dável, sé það samt svo sem ekkert að reikna á móts við eyðandi eld óðaverðbólgu og dýrtíðar. Orðin þýða, að ríkisstj., sem missir tök á dýrtíðarmálunum, hafi misst allan tilverurétt og verði því að segja af sér, og vitanlega er það hárrétt.

Ég hygg, að það hafi engan glatt meira en mig, að verkalýður og launastéttir Reykjavíkur báru einhuga fram kröfur sínar í gær, 1. maí, á hálfrar aldar afmæli Alþýðusambands Íslands og strengdu þess heit, eins og sagði í ávarpi dagsins, að vinna heils hugar að aukinni einingu innan íslenzkrar verkalýðshreyfingar. Og þegar einhuga verkalýðshreyfing lætur til sín heyra, er fyllsta ástæða, jafnvel fyrir ríkisstj., að leggja við hlustir. Í 1. maí-ávarpinu sagði, að verðbólgan færði sífellt til fjármuni í þjóðfélaginu verkafólkinu í óhag, að hún raskaði í sífellu öllum kjarasamningum og síðan orðrétt:

„Verkalýðssamtökin líta það mjög alvarlegum augum, að margítrekuð loforð ríkisstj. um stöðvun verðbólgunnar hafa reynzt marklaus og það má minna á síðustu verðhækkunina á brýnustu lífsnauðsynjum almennings, sem bitnar harðast á tekjulágum barnafjölskyldum.“ Í niðurlagi 1. maí-ávarpsins sagði enn fremur um verðbólguna: „En meginforsenda þess, að unnt sé að gera samninga, sem standast, á þessum sviðum og öðrum er að verðbólgan verði heft með stjórnarstefnu, sem miðist við hagsmuni almennings, en engra sérréttindahópa.“ Hér er talað skýru máli til viðskipta- og verðlagsmálaráðh. Alþfl., Gylfa Þ. Gíslasonar. Í 7 ár hafa sem sé fjármunir verið færðir til í þjóðfélaginu verkafólkinu í óhag og að þessu hefur Alþfl. átt hlut. Það er orðið næsta tímabært, að menn fái að vita, hvort hann ætlar að halda slíku áfram og þurrkast út eða að hætta því og lifa. Loforðin um stöðvunina hafa reynzt marklaust hjal. Gildi kjarasamninga hefur verið riftað. Krafizt er því stjórnarstefnu, er stöðvi verðbólguæðið og sé miðuð við hagsmuni almennings, en engra sérréttindahópa.

Um það er ekki að villast, að Alþfl.-fólkið í verkalýðshreyfingunni krefst nú efnda á loforðum og krefst einnig annarrar stefnu, því að undir þessi ávarpsorð rituðu Alþfl.-maðurinn Óskar Hallgrímsson og Alþfl.-konan Jóna Guðjónsdóttir, formaður verkakvennafélagsins Framsóknar. Og svo er að sjá, að sjálfstæðismenn í forustuliði verkalýðsfélaga séu sama sinnis, því að undir þetta ritaði einnig Guðjón Sigurðsson, formaður Iðju í Reykjavík. Stöðvun verðbólgu og dýrtíðar og ný stjórnarstefna er því orðin allsherjarkrafa sameinaðrar verkalýðshreyfingar. Því ber mjög að fagna.

Með júní-samkomulaginu svonefnda var stefnt að stöðvun dýrtíðar. Á hátíðlegum fyrirheitum um það byggðist þetla samkomulag. Með því lofaði ríkisstj. í fyrsta lagi að leggja fram 250 millj. kr. til að mæta óafgreiddum umsóknum hjá húsnæðismálastjórn. Þá var húsnæðismálastofnuninni tryggður sem tekjustofn 1% launaskattur, sem nú gefur um 90 millj. kr., sem árlegt eigið fé stofnunarinnar. Auk þess skyldi ríkisstj. tryggja byggingarsjóðnum 40 millj. kr. nýtt stofnframlag á ári hverju. Með þessu gerbreyttist húsnæðismálastofnunin, enda eru nú öll byggingarlán afgreidd eftir hendinni í tvennu lagi. Lánsupphæðin hækkaði við þetta samkomulag úr 150 þús. í 280 þús. Lánstími lengdist úr 15–20 árum í 26 ár. Vaxtalaust fyrsta árið, en siðan með 4% vöxtum og jöfnum ársgreiðslum vaxta og afborgana. En algert skilyrði þess, að ríkisstj. tæki á sig þessar skuldbindingar var það, að full vísitöluuppbót reiknaðist á þessa ársgreiðslu. Það var hennar ófrávíkjanlega skilyrði og hygg ég, að það hafi verið gefið í því, að hún treysti því eins og við, að verðbólgan yrði stöðvuð með samstarfi. Í samkomulaginu er fram tekið, að tilgangurinn með þessu sé sá að létta efnalitlum fjölskyldum að eignast íbúðir. Á öðrum stað í samkomulaginu segir, að uppbygging lánakerfisins miðist við það, að hægt verði að lækka vexti og haga lánskjörum í samræmi við greiðslugetu alþýðufjölskyldna. Náist þessi höfuðtilgangur ekki, et samkomulagið auðvitað vanefnt, og nú er svo komið, að ekki tjáir að neita því, að byggingarkostnaður meðallbúðar hefur hækkað um 200 þús. kr. síðan samkomulagíð var gert, en lánin hækkuðu þá aðeins um 130 þús. kr. Greiðslubyrðin af húsnæðislánunum verður því áður en varir óviðráðanleg með öllu, ef verðbólgan æðir áfram eins og verið hefur. Þess vegna er það orð í tíma talað, sem fram var sett um húsnæðismálin í 1. maí-ávarpi verkalýðsfélaganna í Reykjavík, en þar segir:

„Verðbólgan grefur undan félagslegum ráðstöfunum. Með áframhaldandi verðbólguþróun verða húsnæðislánin með vísitöluákvæðunum ekki aðstoð, heldur baggi, sem launafólk getur ekki tekið á sig, og verður því tafarlaust að afnema þau ákvæði.“

Alúminíummálið var afgreitt sem lög frá Alþ. núna 30. apríl með 1 atkv. mun. Komi til ágreinings milli Íslenzka álfélagsins og Hafnarfjarðarbæjar eða Landsvirkjunar, skal deila þessi fara fyrir erlendan gerðardóm. Þetta er smánarákvæði, og samningurinn allur er hinn óhagstæðasti ókjarasamningur. Hann mun leiða af sér stóraukinn innflutning erlends verkafólks og hann mun verka líkt eins og benzíni væri hellt á verðbólgubálið. Hví var þjóðardómi hafnað í þessu máli? Vissi stjórnin kannske, að hún hefði þjóðina á móti sér? Daginn eftir sögðu forustumenn reykvísku verkalýðsfélaganna í 1. maí-ávarpi sínu:

„Íslenzk verkalýðssamtök vilja á þessum baráttu- og hátíðisdegi sínum nú sem fyrr strengja þess heit, að standa trúan vörð um sjálfstæði íslenzku þjóðarinnar, vernda þjóðerni og menningu hennar og tryggja, að Íslendingar einir hafi óskoraðan eignar- og yfirráðarétt yfir auðlindum landsins og hafsins umhverfis það, svo og framleiðslutækjum. Stofnun erlendra stórfyrirtækja á Íslandi mun leiða stórfelldan vanda yfir landsmenn og einkanlega verkalýðssamtökin, sem verða nú að etja kappi við nýjan og voldugan stéttarandstæðing í kjarabaráttu sinni. Alúmínsamningurinn er því síður en svo fagnaðarefni íslenzkri verkalýðshreyfingu, enda var það áður kunnugt af aðvörunum og mótmælum Alþýðusambands Íslands. Og svo er þá kísilgúrsamningurinn rétt ólögfestur af Alþ. Þetta er því bara byrjunin, ef þessi ríkisstj. heldur velli. Og nú eru samningar um kaup og kjör verkafólks framundan. Dýrtíðin hefur fært flest úr skorðum síðan seinast var samið, og nú er vitað, að slegizt verður um hverja vinnandi hönd. E.t.v. er verkafólki því hagfelldast í augnablikinu að hafa sem lausast um alla samninga, en verkalýðshreyfingin vill skipulagðan vinnumarkað og vinnur að því. Eru það þó eins og nú standa sakir atvinnurekendurnir, sem mest eiga á hættu, ef ekki takast samningar um kaup og kjör. Þó vildi ég vona, að friðsamlegir samningar tækjust sem allra fyrst. En augljóst er það, að verkafólk á kröfu á eðlilegri hlutdeild í hinum mikla vexti þjóðarteknanna liðið ár. Það verður að gera verkamönnum kleift að lifa af dagvinnutekjum einum saman. 12–14 og upp í 16 klst. Vinna á sólarhring er áþekkust því ástandi, sem ríkjandi var á togurunum, þegar vökulögin voru sett og víst er um það, að slík vinnuþrælkun hefnir sín, þegar til lengdar lætur. Vinnuverndarlöggjöf verður því að koma og ég segi, að það sé smánarblettur á meiri hl. Alþ. að standa gegn lagasetningu, sem banni vinnuþrælkun barna.

Herra forseti. Að lokum þetta. Sveitarstjórnarkosningar fara nú í hönd. Hér í Reykjavík er sérstök áherzla lögð á að fá menn til að gleyma dýrtíðinni. Fundir eru haldnir til að sýna snotra menn og varast er að nefna Sjálfstfl. á nafn. En þessar kosningar hafa þó mikið pólitískt gildi. Það er ekki hvað sízt um það kosið, hvort menn vilja þola áframhaldandi verðbólgustefnu. Aukið fylgi við Sjálfstfl. og Alþfl. mundi tákna skriðuföll aukinnar dýrtíðar. Fylgistap þeirra nú mundi knýja til viðnáms gegn dýrtíð. Nú þurfa því launastéttirnar allar ásamt öðrum góðum Íslendingum að standa fast saman og knýja fram með atkvæðaseðlinum nýja stefnu í dýrtíðarmálum. Alþb.-menn um land allt, atkvæðaseðillinn er eina vopnið, sem dugar. — Ég þakka þeim, sem hlýddu. Verið þið sæl.