02.05.1966
Sameinað þing: 43. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2583 í B-deild Alþingistíðinda. (2078)

Almennar stjórnmálaumræður

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. S.l. laugardag var endanlega samþ. á Alþ. að hleypa inn í landið erlendum auðhring með risavaxinn atvinnurekstur. Það er ekki ætlun mín hér að rökræða, hve fráleit þessi ákvörðun er frá sjónarmiði íslenzkra raforkumála og efnahagsmála. Við Alþb.-menn höfum frá upphafi staðið öndverðir gegn þessari samningsgerð, heilir og óskiptir, enda er það skoðun okkar allra, að jafnvel þótt auðhringurinn byði beztu kjör, sem völ væri á, en ekki þau lökustu, sem þekkjast, væri það mjög varhugavert fyrir þjóðina að leyfa honum stóriðjurekstur í landinu.

Við teljum það ranga stefnu í atvinnumálum, að þjóðin leyfi útlendum auðmönnum að hreiðra um sig í landinu, veiti þeim margs kyns þjónustu, jafnvel fríðindi umfram íslenzka atvinnurekendur og selji þeim dýrmætt vinnuafl, en láti þá síðan flytja allan ágóða af rekstrinum út úr landinu. Innlendur atvinnurekstur byggður á erlendum lánum er margfalt dýrmætari fyrir þjóðina, því að verulegur hluti af arðinum rennur þá til frekari uppbyggingar atvinnulífsins. En mestu máli skiptir, að erlend stóriðja er ósamrýmanleg íslenzkum aðstæðum vegna smæðar þjóðfélagsins. Að þessu leyti er fjarstæða að vitna í fordæmi Norðmanna. Þó að Norðmenn hafi leyft erlendan atvinnurekstur í landi sínu, hafa þeir þó vandlega gætt þess, að útlent auðmagn yrði aldrei nema brot af heildarfjárfestingu í iðnaði. Nú eru 98 erlend fyrirtæki starfandi í norskum iðnaði. En samanlögð fjárfesting þeirra er þó innan við 10% af öllum iðnaði Noregs. En með þessu eina erlenda félagi á Íslandi verða yfir 30% af fjárfestingu í íslenzkum iðnaði í höndum útlendinga. Norðmenn eru tuttugu sinnum fleiri en Íslendingar og iðnaður þeirra á. langtum hærra stigi. Þar er erlend alúmínbræðsla smáfyrirtæki, sem engum úrslitum ræður um sjálfstæði norskra atvinnuvega. Hér er sama stóriðja tröllvaxið áhrifaafl, sem jafnast á við helminginn af öllum þeim iðnaði, sem fyrir er í landinu.

Við Alþb.-menn teljum þó ískyggilegast, að valdamenn landsins ræða gjarnan um alúmínsamninginn sem upphaf að öðru meira. Í opinberum skýrslum hefur hvað eftir annað verið hreyft við þeim möguleika, að önnur jafnstór alúmínbræðsla verði reist hér á landi eftir nokkur ár. Þá yrði erlent auðmagn í iðnaði orðið jafnmikið að krónutölu og öll iðnaðarfjárfesting landsmanna sjálfra. Auk þess á nú að rísa kísilgúrverksmiðja við Mývatn, sem sennilega verður að hálfu leyti í eigu útlendinga, og stöðugt er rekinn áróður í Morgunblaðinu fyrir útlendri olíuhreinsunarstöð.

Um seinustu aldamót voru Íslendingar að stíga fyrstu sporin á sviði bankamála. Landsbanki Íslands var þá eini banki landsins og mjög fátækur að fé. Þá fengu Íslendingar girnilegt tilboð frá dönskum fjármálamönnum. Þeir buðust til að stofna voldugan banka á Íslandi með miklu fjármagni. En böggull fylgdi skammrifi, útlendingarnir settu það skilyrði, að ríkisbanki Íslendinga yrði lagður niður og þeim yrði jafnframt veitt einkaleyfi á seðlaútgáfu í 30 ár. Þetta var mjög freistandi tilboð, en eftir harðar og langvinnar deilur höfnuðu Íslendingar þeim skilyrðum, sem sett voru með tilboði útlendinganna. Þeir, sem þá voru reiðubúnir að fórna Landsbankanum fyrir erlent gull. höfðu það sér til afsökunar, að atvinnulíf landsins var í molum, peningaleysið yfirþyrmandi. En þeir skildu það seinna, hve hrapallegt slys hefði orðið, ef ríkisbanki þjóðarinnar hefði verið kæfður í fæðingu og útlendingum veittur einkaréttur til seðlaútgáfu í 30 ár.

Alúminsamningurinn einn sér jafnast auðvitað ekki á við bankamálið. En sú stefnubreyting, sem í samningnum felst, á þó e.t.v. eftir að verða jafn örlagarík. Hins vegar er sá meginmunur á, að þeir, sem nú vilja leiða erlend auðfélög til hásætis í íslenzku atvinnulífi, eiga sér enga afsökun. Þjóðin hefur byggt upp atvinnulíf sitt af eigin rammleik og með undraverðum hraða. Landsmenn búa nú við þriðju hæstu þjóðartekjur í Evrópu. Og samt — samt gerast þau undur, að vanmetakenndin reynist í meiri hl. á Alþ. Íslendinga, vantrúin á getu landsmanna til að standa á eigin fótum.

Það er ótvírætt eitt mesta vandamál Íslendinga, að sífellt stærri hluti þjóðarinnar er að hrúgast saman á litlu svæði í kringum Faxaflóa. Valdaaðstaðan í höfuðborginni, fjöldinn og fjármagnið, allt leggst á eitt að knýja áfram þá dælu, sem sogar fólkið suður á bóginn með vaxandi hraða. Byggðir í öðrum landshlutum eflast ekki með eðlilegum hætti og margar skreppa saman, vegna þess að vaxtarbroddurinn, unga kynslóðin, hverfur jafnóðum á brott í stórum hópum. Eins og kunnugt er, hefur núv. ríkisstj. verið skilningssljórri á þessi vandamál en nokkur fyrirrennari hennar og lítið sem ekkert aðhafzt að eigin frumkvæði. Að undanförnu hefur verið mikið atvinnuleysi víða á Norðurlandi og Vestfjörðum, enda þótt seinustu ár séu mestu góðæristímar, sem nokkurn tíma hafa gengið yfir þjóðina. Auðvitað margfaldast byggðavandamálið og fólksflóttinn, þegar atvinnuleysið ríkir. En allar umbótatill. stjórnarandstæðinga á Alþ. hafa annaðhvort verið drepnar eða svæfðar. Norðlendingum mun verða það lengi minnisstætt, að það var ekki fyrr en norðlenzk verkalýðshreyfing beitti afli sínu undir róttækri forustu og krafðist aðgerða, að ríkisstj. fékkst loksins til þess að lofa nokkrum úrbótum í atvinnumálum. En svo harðsótt var ríkisstj. í þessu máli, að verkamenn á Norðurlandi urðu í staðinn að slá af sanngjörnum kaupkröfum sínum og semja um lægri laun en verkalýðsfélög í öðrum landshlutum.

Hver er þá ástæðan til þess, að ríkisstj. hefur haldið að sér höndum, þrátt fyrir hin miklu atvinnuleysis- og byggðavandamál? Skýringuna er auðvitað ekki að finna í illgirni ráðandi manna. Hún er fyrst og fremst fólgin í lífsskoðun ráðh., stefnu ríkisstj. Það er stefna Sjálfstfl. frá gamalli tíð, að ríkisvaldið skuli hafa sem minnst afskipti af atvinnumálum. Lögmál gróðans á að ráða og önnur sjónarmið hverfa í skuggann. Þessi stefna kemur engum á óvart. Hitt er öllu furðulegra, að Alþfl., sem eitt sinn var flokkur verkalýðsins, er nú orðinn gegnsýrður af þessum hugsunarhætti. Gróðalögmálið er grundvallarboðorðið í langflestum athöfnum ríkisstj. Fjárfestingin er skipulagslaus og atvinnuvandamál einstakra byggða sitja á hakanum. Einstaklingar telja það oftast borga sig betur að reisa fyrirtæki sín við Faxaflóa, þar sem fjármagnið er og langstærsti markaðurinn, en aðrir landshlutar eru dæmdir til að dragast aftur úr, nema eitthvað sérstakt komi til eins og landburður af síld. Það er einmitt ein helzta krafa Alþb., að skipt verði tafarlaust um stjórnarstefnu. Gróðasjónarmið einstaklinga víki fyrir þörfum þjóðfélagsins, fjárfestingin sé skipulögð og sérstaklega sé reynt að beina framkvæmdum og fjármagni með samræmdum ráðstöfunum til landshluta, sem þurfa þess með.

Nú er ástandið þannig hér við Faxaflóa, að vinnumarkaðurinn er yfirspenntur og hvarvetna vantar fólk til starfa. Á sama tíma eru að hefjast geysimiklar byggingarframkvæmdir við alúmínbræðslu í Straumsvík og bandaríska flotastöð í Hvalfirði. Engum getur dulizt, að á næstu árum mun vinnuafl í þúsundatali sogast utan af landi inn í hringiðuna við Faxaflóa.

Ríkisstj. þekkir byggðavandamálið, gerþekkir það eins og kokkteilglösin í bandaríska sendiráðinu. En hún hikar ekki við að gera þær ráðstafanir, sem eiga eftir að magna þetta mikla vandamál um allan helming. Samt væri alls ekki rétt að segja, að ríkisstj. væri áhyggjulaus. Það, sem hún óttast, er reiði fólksins úti á landi, reiði kjósendanna. Einmitt þess vegna datt henni í hug það snjallræði í fyrravetur að láta það boð út ganga, að verulegum hluta af þeim tekjum, sem Íslendingar hefðu af alúmínbræðslunni, yrði varið til að efla atvinnulíf úti um land, þar sem þörfin væri brýnust. Lausnin var sem sagt fundin. Nú áttu allir að vera ánægðir. Enginn mundi græða meira á byggingu alúmínbræðslunnar en einmitt þeir staðir, þar sem atvinnuleysi hefur herjað.

Þeir, sem lesa Morgunblaðið að staðaldri, munu hafa tekið eftir því í sumar, að á héraðsmótum sjálfstæðismanna var það yfirleitt helzta dagskráratriðið, að forustumenn Sjálfstæðisflokksins þreyttu með sér keppni um það, hver væri snjallastur að blása út blöðrur. Keppnin fólst í því, að sá sigraði, sem fyrstur varð til þess að láta blöðruna springa. Nöfn sigurvegaranna voru síðan birt í Morgunhlaðinu með frásögn af héraðsmótunum. Mér er sagt, að hæstv. ráðh. hafi haft mikla ánægju af þessu gamni í sumar, en yfirleitt voru þeir þó hættir að taka sjálfir þátt í keppninni, þegar líða tók á haust. En þegar Alþ. kom saman nú í október, kom í ljós, að einn var sá í hópi ráðh., sem ekki gat hætt að leika sér. Það var iðnmrh. Jóhann Hafstein. Hann blés og blés í litríku alúmínblöðruna sína og úr hans munni urðu tekjur þjóðarinnar af þessum framkvæmdum alltaf meiri og stórfenglegri. Á tímabili voru gjaldeyristekjurnar taldar á 3. hundrað millj. Seinna voru þær komnar á 4. hundrað millj. Hvílíkur happafengur fyrir dreifbýlið, ef verulegur hluti þessa fjár rynni á hverju ári til að reisa nýtízku framleiðslutæki á atvinnulitlum stöðum. Í marzlok tíndi dagblaðið Vísir þá fullyrðingu upp úr áróðri ráðh., að álbræðslan mundi auka tekjur þjóðarinnar um hvorki meira né minna en 1200 millj. kr. Á því augnabliki hljóta ýmsir aðdáendur ráðh. úti um land að hafa grátið af fögnuði yfir þeim gífurlegu fjármunum, sem nú yrðu veittir í hinn margumtalaða atvinnujöfnunarsjóð dreifbýlisins.

En svo gerðist loks það, sem alltaf gerðist líka á héraðsmótunum í sumar. Blaðran sprakk. Sannleikurinn kom í ljós, samanskroppinn, slitinn og tættur. Eða hvað skyldu eiga að renna margar millj. frá alúmínbræðslunni í hinn nýstofnaða atvinnujöfnunarsjóð? Fyrstu 3 árin, meðan vinnuaflið sogast af hvað mestum hraða suður á bóginn og þörfin verður brýnust fyrir atvinnubætur til mótvægis, fær sjóðurinn engar tekjur af alúmínbræðslunni. En næstu 3 árin er upphæðin rúmar 11 millj. á ári og 3 árin þar á eftir 17 millj. á ári. Að vísu mun sjóðurinn lána meira en þessum upphæðum nemur, enda kemur hann í staðinn fyrir atvinnubótasjóð, og að nokkru leyti Framkvæmdabankann. En þetta eru viðbótarframlögin, hinn mikli gróði dreifbýlisins af alúmínbræðslunni.

Árið 1970 leggur vélbátur af stað úr Reykjavík og stefnir til Vestfjarða. Þetta er lítill og laglegur koppur, tæplega nógu stór til að fara á síld, verðmæti í 1 millj., — viðbótarframlag ríkisstj. vegna alúmínbræðslunnar miklu, lánveiting til að stöðva fólksflóttann frá Vestfjörðum.

Næsta ár, 1971, leggur annar bátur af stað úr Reykjavík, verðmæti 11 millj. Sá siglir norður fyrir Horn, framlag ríkisstj. til Norðlendinga til að vega upp á móti mörg þús. millj. kr. fjárfestingu útlendinga við Faxaflóa. Það er víst þetta, sem þeir kalla jafnvægi í byggð landsins.

Nú mun kannske einhver segja, að eins dauði sé annars brauð. Í rauninni sé allt þetta byggðavandamál aðeins ómerkileg hreppapólitík. Það megi vel vera, að stefna ríkisstj. leiði mikla hættu yfir einhver byggðarlög úti um land. En hitt skipti bara meira máli, að hér við Faxaflóa búi margfalt fleira fólk og það muni njóta góðs af hinum gífurlegu framkvæmdum útlendinga, t.d. muni eftirvinna og yfirborganir stóraukast á næstunni. En ég vil minna á, að þessar aðgerðir ríkisstj. munu jafnframt stórauka verðbólguna á öllum sviðum. Verðbólgan er versti óvinur landsmanna, hún étur upp stóran hluta af tekjum þjóðarinnar og skerðir þannig kaup hins vinnandi manns. Og skyldi alþýða manna í Reykjavík hafa einhvern hag af því, að hin gífurlegu húsnæðisvandræði, sem nú eru ríkjandi í Reykjavík, aukist enn verulega, þegar verkamenn verða reknir í þúsundatali hingað suður í atvinnuleit?

Nú er húsaleigan í Reykjavík komin upp í 7–8 þús. kr. fyrir meðalíbúð og byggingarbraskið stendur með einstökum blóma. Þrátt fyrir lánveitingar húsnæðismálastjórnar er næstum því útilokað fyrir ung hjón með meðaltekjur að eignast íbúð. Þau eru ofurseld hinu miskunnarlausa húsaleiguokri. Hver ber sökina? Þetta ástand á sér margar orsakir; vaxtaokur, verðbólgustefna, sinnuleysi um byggingu leiguhúsnæðis. Allt ber því að sama brunni. Það er stefna íhaldsins í borgarstjórn og ríkisstj., sem verður að víkja fyrir hagsmunum almennings.

Að undanförnu hefur verkalýðshreyfingin unnið hvern sigurinn af öðrum í átökum við íhaldssama ríkisstj. Á Norðurlandi fengust úrbætur í atvinnumálum, í Reykjavík og nágrenni mikilvægar aðgerðir í húsnæðismálum. Í báðum tilfellum var þó aðeins um hálfan sigur að ræða. Alþb. er forustuaflið í verkalýðshreyfingunni, pólitíski armurinn á samtökum launþega. Við skulum minnast þess, að fullur sigur í þessum miklu hagsmunamálum vinnst hvergi nema við kjörborðið.