02.05.1966
Sameinað þing: 43. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2587 í B-deild Alþingistíðinda. (2079)

Almennar stjórnmálaumræður

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Í upphafi þessa þings á s.l. hausti gaf ég fyrir hönd ríkisstj. yfirlit um hin helztu úrlausnarefni, sem þá blöstu við. Þó að allt sé breytingum undirorpið og ætíð vakni ný vandamál, mun ég nú haga orðum mínum með hliðsjón af því, að menn eigi hægara með að átta sig á efndum þess, sem í haust var lofað.

Af þeim málum, sem ríkisstj. og Alþ. hafa á valdi sinu, hafa flest nú hlotið afgreiðslu eða verið hrundið vel á veg. Mál þessi eru að sjálfsögðu ólík í eðli. Um sum eru allir eða a.m.k. flestir sammála. Um þessar mundir veldur það t.d. ekki ágreiningi, að endurskoða þurfi skólalöggjöfina í því skyni að laga námsefni og skipulag skólanna að breyttum þjóðfélagsháttum og að við þessa endurskoðun þurfi að beita vísindalegri starfsaðferðum en hér hafa áður tíðkazt. Til slíkrar endurskoðunar hefur nú verið efnt frá lægsta skólastigi til hins æðsta. Á sjálfu þinginu hefur verið sett ný löggjöf um iðnfræðslu, sem margir ætla, að marka muni tímamót. Nú þegar tækni og vísindi skipta meira máli um allar framfarir og þar með afkomu almennings en nokkurn hefði grunað, jafnvel fyrir fáum árum, ræður hagkvæm menntun æskulýðs úrslitum, jafnt fyrir hvern og einn sem þjóðarheild.

En því meiri árangur sem verður af menntun og starfi uppvaxandi kynslóðar, því eðlilegra er, að vel sé búið að þeim, sem lokið hafa ævistarfi sínu. Þess vegna er ánægjulegt, hversu vel var tekið till. ríkisstj. um samstarf að undirbúningi lífeyrissjóðs fyrir alla landsmenn. Vonandi tekst heilshugar samvinna um þá lagasetningu, sem skila mun okkur langt áleiðis í velfarnaðarsögu Íslendinga, þó að svo mikilli réttarbót verði að sjálfsögðu ekki komið á fyrr en eftir rækilegan undirbúning.

Enn eitt mál, sem enginn ágreiningur varð um að meginstefnu, voru þær lagabreytingar, sem þurfti að gera til að hrinda í framkvæmd ráðagerðum um aðstoð við húsbyggingar og ákveðnar voru með samráði við verkalýðsfélögin, í yfirlýsingu ríkisstj. frá 9. júlí s.l. Í sambandi við þetta mikla hagsmunamál bólaði raunar nokkuð á yfirboðum, sem menn heyrðu í ræðunum hér á undan. Annars vegar var látið svo, sem ekki væri nóg gert fyrir hagsmuni þeirra, sem á húsnæði þurfa að halda, og hins vegar eins og ógnað væri velfarnaði húsbyggjenda. Við þvílíkum hráskinnsleik verður ætíð að búast, enda má segja, að hann sé einungis skuggahlið valdabaráttunnar í lýðræðisþjóðfélagi.

Svipað hefur raunar reynzt í sambandi við þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til að herða á tolla- og skattaeftirliti í því skyni, að skatta- og tollheimta gangi jafnt yfir alla. Í almannaáheyrn er ríkisstj. enn skömmuð fyrir of mikla linkind í þessum efnum. Samtímis hafa svo nokkrir litlir karlar laumast á milli og brýnt fyrir þeim, sem telja sig hafa orðið illa úti vegna aukins eftirlits, að mjög sé nú breytt frá því, sem áður var. Að vonum vill enginn ábyrgur maður kannast við slíkan málflutning, enda er hér um það að tefla, hvort halda beri uppi lögum og rétti á landi okkar með svipuðum hætti og í öðrum siðmenntuðum þjóðfélögum tíðkast. Hitt er sjálfsagt, að lagfærðar hafa verið misfellur í einstökum atriðum hinna nýju reglna eftir því, sem reynslan hefur sagt til um. Þvílík leiðrétting lagaframkvæmdar liggur í hlutarins eðli, jafnt í þessu sem öðru.

Þá eru einnig flestir sammála í meginatriðum um þá margþættu löggjöf, sem ríkisstj. bar fram um eflingu fjárfestingarsjóða atvinnuveganna, þ. á m. algera nýjung um stofnlánadeild verzlunarfyrirtækja, stórefling iðnlánasjóðs, þ. á m. með nýjum tegundum hagræðingarlána, sameiningu Stofnlánadeildar sjávarútvegsins og Fiskveiðasjóðs Íslands og breytingu Framkvæmdabankans í framkvæmdasjóð, er verði einfaldari í rekstri og þar með kostnaðarminni en Framkvæmdabankinn var. Með sömu löggjöf eru einnig sett ákveðin fyrirmæli um Efnahagsstofnunina. Þrátt fyrir nokkur hnotabit efast enginn kunnugur lengur um hið mikla gagn, sem Efnahagsstofnunin hefur gert. Allir skilja, að við margslungin vandamál efnahagslífsins verður ekki ráðið nema að fengnum öruggum upplýsingum um staðreyndir og fræðilegum skýringum á samhengi þeirra. Áætlunargerðir, bæði fyrir þjóðarheildina og framkvæmdir í einstökum landshlutum, eru mikilsverð verkefni, sem þegar hafa sýnt þýðingu sína. Þá felst það nýmæli í þessari sömu löggjöf, að stofnað er hagráð, þar sem fullrúar stjórnvalda, atvinnuvega og stéttarsamtaka geta haft samráð og skipzt á skoðunum um meginstefnuna í efnahagsmálum. Efnahagsstofnunin skal leggja fyrir ráðið skýrslur um þróun þjóðarbúskaparins og horfur í þeim efnum. Sömuleiðis skal leggja þjóðhags- og framkvæmdaáætlanir ríkisstj. fyrir ráðið.

Ekki var ágreiningur um, að löggjöfin um eignarrétt og afnotarétt fasteigna væri til bóta, þó að einnig þar örlaði á yfirboðum. Miklu eru skoðanir skiptari um kísilgúrverksmiðjuna og þó einkum álbræðsluna. Er engum blöðum um það að fletta, að hið síðara er með mestu ágreiningsmálum, sem lengi hafa legið fyrir Alþ., enda tvímælalaust með hinum afdrifaríkustu lagaboðum, sem Alþ. hefur sett. Allt orkar tvímælis þá gert er, segir spakmælið og hefur svo reynzt, ekki sízt um ýmis hin mestu þjóðþrifamál. Reynir þá á ríkisstj. og meiri hl. Alþ., hvort horfið er frá nauðsynlegum ákvörðunum af ótta við deilur og stundum óvinsældir í bili, ef reynt er að gera það, sem valdhöfunum sýnist rétt, hvort sem öllum líkar betur eða verr.

Að þessu sinni fór eins og oft áður, þegar stórmál hefur þurft að útkljá, að Framsfl. varð ekki sammála. Skömmu fyrir jól í vetur var raunar gefin yfirlýsing af flokksins hálfu, sem flestir skildu á þá leið, að fastmælum væri bundið, að allir þm. flokksins skyldu greiða atkv. á móti samþykkt álbræðslusamningsins. Sú yfirlýsing þótti þá því meiri tíðindum sæta, sem vitað var, að sumir helztu forustumenn Framsóknar höfðu þangað til verið meðal eindregnustu talsmanna þvílíkrar samningsgerðar og einmitt tæpu ári áður hafði formaður þess flokks rækilega útskýrt fyrir landslýð, að litlu skipti, þótt fylgjendur Framsóknar væru ósammála í mikils háttar þjóðmálum, einungis ef þeir sameinuðust um að stuðla að valdatöku Framsóknar og hnekki íhaldsins, sem svo er nefnt í þeim herbúðum. Þá hefur á þessu þingi sundrungin í liði Framsóknar ekki farið leynt. Um hin mikilsverðustu mál hefur lið hennar oft verið þríklofið, þm. hennar ekki einungis verið ýmist með eða á móti, heldur sumir setið hjá. Má þó segja, að sú afstaða sé furðulegust, því að verst mundi fara, ef þeir yrðu ofan á, sem enga ákvörðun fást til að taka um hin þýðingarmestu mál. Betra er að veifa röngu tré en öngu. Þessi varð samt raunin um tvo þm. Framsóknar í álmálinu, en meginflokkurinn fylgdi þeim fyrirmælum að vera á móti málinu, að vísu með þvílíkum rökstuðningi, að ekki þyrftu aðstæður að breytast stórlega til að allur hópurinn gæti skyndilega snúizt með málinu. En því haldminni sem rökfærslan var, því stóryrtari varð glumrugangurinn.

Tómahljóðið í því glamri heyra nú allir, enda hafa andstæðingar málsins verið hraktir úr einu víginu eftir annað við umr. að undanförnu. Um skeið var því t.d. haldið fram, að það væri fáheyrt hneyksli að leggja fyrir Alþ. frv. til l. um lagagildi samnings. Hver einasti verkamaður þekkir það þó úr kjarabaráttu sinni, að ýmist er samninganefnd falið fullt umboð til samningsgerðar, án þess að fyrir félagsfund komi eða samningur er borinn upp í heild til samþykktar eða synjunar. Andstæðingar álmálsins hafa ekki enn sýnt, hvernig unnt hefði verið að hafa á þessu annan hátt en hafður var og hefði þeim þó verið í lófa lagið að flytja brtt. um ný skilyrði fyrir samningsgerðinni, ef þeir hefðu viljað. En einnig það létu þeir undan fallast, enda er sannleikurinn sá, að fulltrúar allra þingflokka hafa nú í heilt ár fylgzt með samningsgerðinni í smáu sem stóru og átt kost á að koma að öllum sínum aths. Er mér ókunnugt um nokkurt þingmál, sem hafi að því leyti verið vendilegar undirbúið.

Ekki er það síður furðulegt, þegar talað er um það sem einsdæmi, að sum atriði þessa samnings séu hagkvæm gagnaðilanum, Swiss Aluminium. Hvenær halda menn, að samningur um viðskiptamál milli óvandabundinna aðila komist á, nema báðir aðilar sjái sér hag í samningsgerðinni? Aldrei hefur verið farið leynt með, að ástæðan til þess, að hinn svissneski gagnaðili kaus heldur að reisa nýja álbræðslu hér heldur en í Noregi, þar sem honum stóð slíkt opið, er sú, að hér fær hann lægra rafmagnsverð. Ef svo væri ekki, mundum við hafa orðíð af viðskiptunum.

Eins er um samningstímann. Ef við hefðum mælzt einir við, mundi hann vafalaust hafa verið ákveðinn skemmri. En hvað eru 25 eða 35 og jafnvel 45 ár í lífi þjóðarinnar? Nú, þegar byrjað er að þrátta um það á Alþ., hvort segja eigi upp Atlantshafssamningnum eftir 20 ára gildistíma hans að þremur árum liðnum, eiga þar enn í fullu fjöri sæti flestir þeir, sem á sínum tíma deildu harðast um, hvort Ísland skyldi gerast aðili að samningnum.

Sumir setja gerðardómsákvæðið mjög fyrir sig. Allur er sá málflutningur þó meira en hæpinn. Til eru ótal dæmi þess, að ríki afsali dómsögu í deilum sínum við aðra, hvort heldur ríki eða einstaklinga, til dómstóla utan sinnar eigin lögsögu. Er sannast sagt háborin skömm að heyra þá, sem betur ættu að vita, þrástagast á gagnstæðum fullyrðingum. Við því verður samt ekki gert, því að eins og sagt hefur verið er eitt af einkennum lýðræðisins það, að menn hafa leyfi til að hafa rangt fyrir sér. Jafnvel hinum hálærðustu þm. er heimilt að gera sjálfa sig að viðundri, ef þeir endilega vilja. En kjósendanna er að sjálfsögðu að ákveða, hvaða viðurlög þeir vilja leggja við því, þegar slíkt hendir þm. æ ofan í æ.

Það er einnig óskaplegt að heyra hv. alþm. halda því fram, að Íslendingar hafi afsalað sér rétti eða gengið undir einhvers konar jarðarmen með því að semja um það við Breta 1961, að hugsanlegur ágreiningur út af útfærslu íslenzkrar fiskveiðilögsögu yfir allt landgrunnið eða nokkurn hluta þess skuli borinn undir alþjóðadómstólinn í Haag. Sannleikurinn er þvert á móti sá, að með þessum samningi tryggðu Íslendingar sig gegn hugsanlegri valdbeitingu af hálfu mörg hundruð sinnum mannfleiri og voldugri þjóðar. Hið ímyndaða afsal Íslendinga er fólgið í því einu, að við skuldbindum okkur til að hlíta úrskurði hlutlauss dómstóls um það, hvort við höfum næga heimild til hugsanlegra aðgerða. Hingað til hefur þó enginn gerzt talsmaður þess, að án slíkrar heimildar væri ráðizt í þessa framkvæmd, sem vel gæti verið einhliða, ef næg réttarheimild til slíkra einhliða aðgerða er fyrir hendi, eins og við töldum um aðgerðir okkar 1950, 1952 og 1958.

Hlálegt er að heyra menn láta svo sem óþolandi lítilsvirðing sé í því fólgin, að við föllumst á, að hlutlaus gerðardómur dæmi um deilur okkar við hinn svissneska gagnaðila, ef ekki verður samkomulag um annað. Er þó skýrt tekið fram, að eftir íslenzkum í. á að dæma og ber gerðardómnum vitanlega að kynna sér þau. Jafnfráleitt er að láta sér til hugar koma, að slíkur dómur mundi láta það undir höfuð leggjast, eins og hitt, að íslenzk stjórnvöld muni gera nokkuð gagnvart viðsemjendum okkar, sem ekki standist samkv. ákvæðum samningsins, ísl. l., þjóðarétti og þeim grundvallarreglum laga, sem almennt eru viðurkenndar af siðmenntuðum þjóðum. Nei, Íslendingar eru enginn löglaus uppþotslýður og kunna þm. litlar þakkir fyrir, að á þann veg sé hér talað um þjóðina við meðferð hinna mikilsverðustu mála.

Á meðal helztu ástæðna til þess, að efnahagsþróun hefur orðið með allt öðrum hætti á því 21 ári, sem nú eru liðin frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar, en var á jafnmörgum árum, sem liðu milli heimsstyrjaldanna tveggja; er stórum aukin samvinna, bæði milli ríkja og einstaklinga í ólíkum ríkjum. Hér eiga ótal alþjóðlegar stofnanir hlut að máli og telja ýmsir, að engin hafi orðið árangursríkari en Efnahagsbandalag Evrópu. Íslendingar eru sammála um, að full aðild þess bandalags eða annars ámóta komi ekki til greina fyrir Ísland, vegna þess að við mundum ekki vilja fá neinum alþjóðlegum samtökum þvílík úrslitavöld yfir okkar málum, sem stærri og nátengdari þjóðir hafa talið fært að afsala sér. En ef við viljum ekki dragast aftur úr, er ólíklegt, að við einir komumst hjá samvinnu við aðra, m.a. til öflunar fjármagns og stórframkvæmda, sem allir sækjast eftir. Ef við getum náð slíkri samvinnu og þó tryggt sjálfum okkur þau úrslitaráð, er við viljum með engu móti afsala, höfum við vissulega séð hag okkar borgið svo sem bezt má verða.

En við megum þá ekki undrast, þótt gagnaðili vilji einnig tryggja sinn rétt með því, að alþjóðlegur gerðardómur skeri úr um, hvort að réttum l., fyrst og fremst íslenzkum, sé farið. Gegn slíku stoða ekki bollaleggingar um, að gagnaðili sé í rauninni íslenzkur, bollaleggingar byggðar á því, að dótturfélagið ÍSAL sé að formi íslenzkt. Hér sker efni máls úr. ÍSAL er eign hins svissneska viðsemjanda, sem ber gagnvart íslenzku ríkisstj. ábyrgð á skuldbindingum þess og er þess vegna hinn eiginlegi gagnaðili. Öll hin flókna samningsgerð miðast einmitt við það, að hér er í raun og veru um erlendan réttaraðila að ræða, aðila búsettan suður í Sviss, sem ber fulla ábyrgð á skuldbindingum síns íslenzka dótturfélags.

Andspyrnan gegn samningnum byggist einmitt á því, að það sé erlendur aðili, sem fái þau réttindi, sem þar eru talin. Því er haldið fram, að hann verði svo sterkur vegna fjármagnsins, að hann muni yfirþyrma hér allt. En einmitt vegna þess, að hann fjárfestir geypimikið fé hér og það verður háð okkar lögsögu, þ. á m. eignarnámsheimild eftir ákvæðum íslenzku stjórnarskrárinnar, sem ákvæði samningsins eru í samræmi við, verður hann okkur miklu háðari en við honum. Í framkvæmd verður þetta ekki sízt svo vegna þess, hversu tiltölulega lítill mannafli verður bundinn við starfrækslu þessara miklu mannvirkja, því að það er fjarstæðara en um það þurfi að fjölyrða, að þegar til lengdar lætur, taki álbræðslan til sín svo mikinn mannafla, að öðrum atvinnuvegum stafi hætta af. Ráðgert er, að þegar full starfræksla álbræðslunnar er hafin, þurfi til hennar 450–500 manns. Það er mun færra fólk en starfar nú hjá nokkrum einstökum íslenzkum fyrirtækjum og allmörg slaga hátt upp í þá tölu. Þegar á það er lítið, að þegar hér er komið, munu hafa bætzt við á vinnumarkað 16–17 þús. manns, sjá allir, hversu haldlaus þau rök eru, að það sé einhver ógæfa fyrir Ísland, að þessi fjöldi, og jafnvel þótt nokkrum hundruðum meiri væri, fengi þarna fasta og örugga vinnu áratugum saman. Þeir, sem muna eftir því, þegar meira en 10. hvert heimili í Reykjavík átti að staðaldri ár eftir ár við atvinnuleysi að búa, geta trauðla hugsað á þessa leið.

Miklu fremur mætti segja, að úr því að ekki fái fleiri en þetta þarna fasta vinnu, sé þess vegna hæpið að standa í stórfelldu stímabraki til þess að hrinda þessari framkvæmd áleiðis. Að mínu viti sker það úr, að með þessu er opnuð leið til hagnýtingar þeirra auðlinda, sem okkur munu verða drýgstar til ágóða fyrir þjóðarheildina með notkun hins minnsta mannafla. Vegna hinnar fastbundnu sölu á rafmagni til langs tíma verður okkur fært að virkja mun meira vatnsafl og með hagkvæmara verði en ella. Hagkvæm virkjun og lágt verð er ekki til niðurdreps fyrir aðra atvinnuvegi, hvorki landbúnað, sjávarútveg né iðnað. Allir þurfa þeir á rafmagni að halda. Á öllum bitnar hátt verð og skortur á rafmagni. Sú gernýting sjávarafla, sem sumir setja fram sem andstæðu álbræðslu, hvílir ekki sízt á nógu og sem ódýrustu rafmagni. Íslenzkur landbúnaður á allt undir öruggum innlendum markaði. Rafmagnið er lífæð alls íslenzks iðnaðar, og ef að fordæmi frænda okkar í Noregi fer, mun sú tæknimenntun og framleiðsla, sem álbræðslunni fylgir, skapa hér ýmsa möguleika, sem menn ekki geta nú þegar gert sér grein fyrir til neinnar hlítar.

En allt þetta safnar fólkinu saman á eitt landshorn, kveður við æ ofan í æ. M.a. höfum við heyrt það þegar í umr. hér í kvöld. Jafnvel sú fullyrðing fær ekki staðizt. Þvert á móti munu tekjurnar, sem fyrir milligöngu atvinnujöfnunarsjóðs renna frá álbræðslunni til eflingar á jafnvægi í byggð landsins, verka í þveröfuga átt. Enn meira er þó um það vert, að þéttbýlið er forsenda stórframkvæmda. Svo hefur ætíð reynzt í okkar framfarasögu og svo mun enn fara. Þéttbýlið hér með þeirri aflþörf og margháttaða öryggi, sem því fylgir, gerir mögulega stórvirkjun og stóriðju. Frá þeim rótum munu síðar vaxa greinar um allt land. Þá mun koma sú tíð, ef allt fer að óskum fyrr en varir, að í tengslum við þessa stórvirkjun skapast möguleikar fyrir virkjun Dettifoss og annarra meiri háttar vatnsfalla með tilheyrandi stóriðju, ef landsmenn þá vilja. Og einmitt um þær mundir, þegar að því líður, að allt vatnsafl landsins verði fullvirkjað, ef hraðinn verður svipaður og með þeim iðnaðarþjóðum, sem taka má dæmi af, verður samningstíminn við Svisslendingana liðinn, svo að við ráðum einnig einir yfir því rafmagni, sem þeir skuldbinda sig til að kaupa og greiða þar með fyrir upphafi nýrrar tæknialdar á okkar ástkæra en erfiða landi. Þá mun starfræksla þeirra hafa gert þjóðarheildina þús. millj. kr. ríkari og stuðlað að vaxandi tækniþekkingu og almennri iðnþróun og Þjórsá hætt að vera einungis farartálmi og velta jökulgrá til sjávar, engum til gagns, eins og hún hingað til hefur gert.

Látum allt þetta gott heita, segja e.t.v. sumir, en er það þó ekki rétt hjá andstæðingunum, að bygging álbræðslu á næstu árum muni stórauka á þenslu og þar með verðbólgu? Óumdeilt er, að á meðan á byggingartímanum stendur, mun þurfa fleiri menn til framkvæmdanna en eftir að sjálf starfrækslan hefst og fyrirsjáanlegt framboð vinnuafls verður minna næstu ár en síðar. En hér á móti kemur strax, að óhagkvæmari virkjanir mundu þurfa svipað vinnuafl og hin stærri og hagkvæmari, sem álbræðslan gerir mögulega. Þá verðum við og að játa, að því miður höfum við þekkt mun meiri sveiflur á mannaflaþörf til íslenzkra atvinnuvega en hér um ræðir. Úr atvinnuleysi millistríðsáranna var ekki bætt fyrr en með setuliðsvinnunni 1940, úr atvinnuleysinu, sem skapaðist vegna þess að síldarleysið gerði verulegan hluta nýsköpunarframkvæmdanna 1945–1947 gagnslausan, bættist fyrst með varnarliðsvinnunni 1953. Við skulum vona, að slíkir erfiðleikar verði ekki aftur á vegi okkar, en of seint væri þá fyrst að fara að þreifa fyrir sér um slíkar stórframkvæmdir, þegar þvílíkar hörmungar væru skollnar á. Aldrei skaðar að muna eftir draumi Faraós um feitu og mögru kýrnar. Við skulum ekki einungis vona hið bezta, heldur og gera okkar til, að vel fari. Og er þá hætta á því, að t.d. verkalýðsfélögin muni neita að veita atbeina sinn til þess að hindra, að þessar framkvæmdir leiði til óæskilegrar þenslu? Það má hindra með því að heimila innflutning erlendra verkamanna, sem e.t.v. gætu búið í skipi í eða við Straumsvík, á meðan á þeim þyrfti að halda við mannvirkjagerð þar. Auðvelt ætti að vera að búa svo um, að þeir yrðu ekki til truflunar íslenzku þjóðlífi. Hver varð t.d. var við þá erlendu iðnaðarmenn, sem fengnir voru til þess að vinna við Loftleiðahótelið síðustu vikur?

Núverandi forráðamenn verkalýðshreyfingarinnar greinir um margt á við ríkisstj. En ekki segjast þeir vera okkur síðri í áhuga fyrir baráttu á móti verðbólgunni, eins og menn þegar hafa heyrt í kvöld. Þeir tala meira að segja öðru hverju um verðbólgustefnu stjórnarinnar. Um slíkar orðahnippingar er ekki að fást, og væri þó vert að kanna það til hlítar af aðila, sem enginn gæti vefengt, að væri bæði hlutlaus og hefði næga þekkingu, hverjar orsakir verðbólgunnar hér eru í raun og veru. Hér hefur ýmsum löngum þótt gott að dependera af dönskum og nú hafa dönsk stjórnvöld tekið sér frest til ákvörðunar um úrræði gegn verðbólgunni þar í landi, á meðan sérfræðingar kanni orsakir hennar. Af þessu mættum við gjarnan læra. Raunar blasa frumorsakir verðbólgunnar hér á landi við öllum og hverfa þær ekki, þó að sumir tali svo sem þeir sjái þær ekki. Svo tala börn sem vilja. En fullorðnir menn ættu að hafa lært, að slíkt stoðar lítt. Sífellt kapphlaup stéttanna hverrar um sig og allra í hóp um að heimta sem mest til sín — og þar eru þeir sízt sanngjarnastir, sem bezt eru settir — gerir stöðvun verðbólgunnar óviðráðanlega, á meðan svo fer fram. Við þessu verður lítt gert, meðan svo fullkominn glundroði ríkir innan stéttarfélaganna og þeirra í milli sem nú. Sá glundroði á einnig verulega sök á því, að Alþýðusambandið hefur enn ekki látið uppi álit sitt um framkomnar till. um styttingu vinnutíma og hefði forseti þess gjarnan mátt minna á það áðan, þegar hann talaði um þá ávirðingu, að ekki skyldi hafa verið sett löggjöf um vinnuvernd.

Bændastéttinni er og lítill greiði gerður með því að láta svo sem erfiðleikar hennar um samkeppni á erlendum mörkuðum stafi eingöngu af verðbólgunni, en þegja um þau áhrif, sem veðurfar og landshættir hafa til að skapa bændum hér erfiðari aðstöðu en stéttarbræðrum þeirra í nágrannalöndunum. Vitanlega eiga þessar aðstæður meginþátt í því, hversu hátt verðlag þarf að vera á íslenzkri búvöru. Gegn þessu stoðar ekki að vitna til þess, eins og við heyrðum hér í dag, að sum erlend ríki styrki landbúnað sinn hlutfallslega meira en hér er gert. Verðlagið, sem innlendir neytendur þurfa að greiða, til þess að bændur fái sambærileg kjör við aðra, sker úr. Víxlverkanirnar auka síðan á erfiðleikana eins og oft ella. Landbúnaður er okkur lífsnauðsyn, en skilyrði velfarnaðar hans er, að menn dylji ekki sjálfa sig og aðra þess, hver úrlausnarefnin í raun og veru eru.

Eitt af því, sem ríkisstj. hefur tekizt nú, er að fá samkomulag um áframhald á starfi Sexmannanefndar til ákvörðunar búvöruverðs. Alþb.-menn hafa þar raunar skorizt úr leik og tilkynnt, að A.S.Í. muni ekki tilnefna þann fulltrúa, sem því er ætlaður. Oft er furðanlegt ósamræmi í gerðum mætra manna. Haustið 1959 fullyrtu framsóknarmenn, að sjálfstæðismenn hefðu getað stöðvað setningu brbl. um búvöruverð, sem ríkisstj. Alþfl. setti þá, af því að hún sat með stuðningi sjálfstæðismanna. Á s.l. hausti neitaði stjórn A.S.Í. að tilnefna fulltrúa sinn í Sexmannanefnd og varð þess þá ekki vart, áð framsóknarmenn, sem réðu úrslitum um val núv. Alþýðusambandsstjórnar, settu samstarfsmönnum sínum stólinn fyrir dyrnar. Slíks verður ekki heldur vart nú né heldur þess, að það hvarfli að Alþb.-mönnum, sem láta sér mjög tíðrætt um heimildarskort meiri hl. Alþ. til að taka löglegar ákvarðanir í álmálinu, að meira en hæpinn sé lýðræðislegur réttur þeirra einna til að tala fyrir hönd meiri hl. A. S. Í. eða afsala því löglegum rétti í þessum efnum, og hafa þeir þó engan meiri hl. einir í Alþýðusambandinu.

Hins vegar er ánægjulegt að heyra, hversu mikla áherzlu forseti A.S.Í. leggur nú á þýðingu rannsóknar og þekkingar, þegar taka skal ákvarðanir í kjaramálum, svo sem um ákvörðun búvöruverðs. Hér lýsir sér reynsla hans af nytsemi hlutlausra upplýsinga í sambandi 4ið kjarasamninga verkalýðsins, enda á hann ásamt nánustu samstarfsmönnum sinum góðan þátt í stofnun og starfi kjararannsóknarnefndar. Hin aukna fræðsla og þekking, sem menn hafa aflað sér hin síðari ár á verulegan þátt í þeirri stefnubreytingu, sem leiddi til júnísamkomulagsins 1964 og samninganna sumarið 1965, og urðu þeir þó vegna margháttaðrar sundrungar verkalýðshreyfingarinnar henni og þjóðinni í heild mun óhagstæðari en árið áður, þar sem þeir torvelduðu mjög að halda verðlagi í skefjum.

Engu að síður hefur nú þegar sá árangur náðst, að á tæpum tveimur árum óx kaupmáttur tímakaups verkamanna í lægstu flokkum Dagsbrúnar um 15–25 af hundraði. Þó að tilvitnanir í rýrnun þess kaupmáttar stundum áður fyrri hafi verið mjög villandi, þá er þessi breyting út af fyrir sig mjög ánægjuleg. Er þess að vænta, að sviptibyljir stjórnmálanna verði ekki til þess að af þessari heillaríku braut verði nú horfið.

Í þeim efnum mun ríkisstj. ekki láta sitt eftir liggja né láta á sig fá, þó að hún verði fyrir köpuryrðum fyrir það að gera sitt til að halda verðbólgunni í skefjum með því að tryggja greiðsluhallalaus fjárl. og stuðla að hóflegri útlánastarfsemi fjármálastofnana. Hvorugt þessa er líklegt til vinsælda í bíli, en hvort tveggja prófsteinn á það, hvort mönnum er í raun og veru alvara með það að hamla á móti verðbólgunni. Greiðsluhalli á fjárl. og lánsfjárþensla er af öllum fróðum mönnum talið víst til að valda hættu á verðbólgu. Er og ekki góðs að vænta, af sýnt er það kjarkleysi að leggja útgjöld á ríkissjóð, en þora ekki að afla tekna á móti eða skera niður óþarfa útgjöld, hvað þá þau, þar sem vitað er um beina misbeitingu.

Vegna þess að ríkisstj. lætur sér ekki nægja að berjast á móti verðbólgunni með orðum einum, þá hikar hún ekki við að tryggja, að hófs sé gætt í framkvæmd fjárl. og bankaútlána. Af sömu ástæðu vill stjórnin efla traust á krónunni með fullnaðarathugun á möguleikum til verðtrygginga fjárskuldbindinga, þ.e. sparifjár og langvinnra lána.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, þá er allt breytingum undirorpið, en þó að sumt hafi farið öðruvísi en ætlað var, verður það ekki vefengt, að hingað til hefur ríkisstj. fylgt þeirri stefnu, sem Ólafur Thors markaði hinn 20. nóv. 1959, þegar núv. samstjórn Alþfl. og Sjálfstfl.-manna tók við völdum. Þá sagði hinn mikli og margreyndi foringi það vera „meginstefnu stjórnarinnar að vinna að því, að efnahagslíf þjóðarinnar komist á traustan og heilbrigðan grundvöll, þannig að skilyrði skapist fyrir sem örastri framleiðsluaukningu, allir hafi áfram stöðuga atvinnu og lífskjör þjóðarinnar geti í framtíðinni enn farið batnandi“. Þetta sagði Ólafur Thors 20. nóv. 1959, að væri meginstefna stjórnarinnar.

Á þeim árum, sem síðan eru liðin, hefur stöðugt verið að þessu stefnt, enda meira á unnizt en nokkru sinni áður eða nokkurn gat þá órað fyrir. Svo mikil breyting til bóta er á orðin, að hætt er við, að sumum gleymist ástandið, sem áður var, og ætli, að það, sem áunnizt hefur, sé sjálfsagt og haldist án atbeina almennings, en vilji menn áfram efla heill og hag, frelsi og framtak þjóðar og einstaklinga, er hollast að fylgja sömu stefnu og til góðs hefur leitt hin undanfarin ár. Hin leiðin er einnig til, leið ófarnaðar, afturhalds, hafta og ofstjórnar. Kjósendur skera úr, hvor leiðin skuli valin. Við sveitarstjórnarkosningarnar, sem nú fara í hönd, er að vísu kosið um annað, en að sjálfsögðu hljóta þær að hafa áhrif á stjórnmálaþróunina í heild. Ég treysti því, að sjálfstæðismenn um land allt skilji, hvað í húfi er, ekki aðeins fyrir heimabyggðir þeirra, heldur og fyrir holla stjórnarhætti, gæfu og gengi íslenzku þjóðarinnar nú og á komandi árum. — Góða nótt.