02.05.1966
Sameinað þing: 43. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2601 í B-deild Alþingistíðinda. (2081)

Almennar stjórnmálaumræður

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Fyrir 6 árum lofaði ríkisstj. þjóðinni því, að hún myndi stöðva verðbólguna. Hún lét sér ekki nægja að lofa þessu í ræðum á Alþ., í blaðaskrifum og á fundum víðs vegar um landið. Hún gaf út heila bók með loforðum, bókina „Viðreisn“, sem hún sendi inn á hvert heimili í landinu og lét svo þjóðina borga. En bókin Viðreisn er nú orðin athyglisvert heimildarrit. Hún sýnir þjóðinni fyrirheit ríkisstj., að hún ætli að koma atvinnu- og efnahagslífi landsins á traustan og öruggan grundvöll. Hún nefnir að vísu þær verðlagshækkanir, sem leiða muni af viðreisnarráðstöfunum sínum í bili, meðan hún er að skapa þennan örugga grundvöll, en hún segir, að t.d. 13% hækkun framfærslukostnaðar hlyti að sjálfsögðu að verða öllum almenningi afar þungbær, eins og það er orðað í bókinni, svo hún ætli að sjá um, að hækkunin verði ekki nema 3%. Önnur fyrirheit í bókinni eru þessu lík, t.d. að byggingarkostnaður hækki ekki nema um 10–11%. Ríkisstj. hefur nú fengið 6 ár til að efna fyrirheitin sín. Fyrirheitin um stöðvun verðbólgunnar. Fyrirheitin um traustan og öruggan grundvöll atvinnu- og efnahagslífs, án þess að framfærslukostnaður hækki nema um 3%. Og efndirnar eru nú m.a. þessar: Togaraútgerð er haldið uppi með styrkjum. Fiskiðnaðurinn varð að fá 80 millj. kr. fjárhagsaðstoð í einu lagi fyrir stuttu síðan til að stöðvast ekki. Iðnaðurinn dregst saman og landbúnaðurinn er þannig settur, að bændurnir eru tekjulægsta stéttin í landinu. Þannig er hinn öruggi grundvöllur atvinnulífsins. En verðbólgan, hefur hún nokkuð vaxið upp fyrir þessi 3%? Á réttum 6 árum hefur vísitala framfærslukostnaðar hækkað, ekki um 3%, heldur um 83%, en þetta er ekki að marka, ríkisstj. breytti útreikningi þessarar vísitölu þannig, að hún sýnir miklu minni hækkun en annars hefði orðið. En við höfum annan og réttari mælikvarða á dýrtíðina. Það er verðlagið á lífsnauðsynjunum, sem við verðum allir að kaupa. Og hvaða hækkanir hafa orðið á þeim á undanförnum 6 árum? Rafmagn, hiti og þess háttar hefur hækkað um 67%, fatnaður um 72%, ýmsar vörur og þjónusta um í 14% og matvörurnar um 136%, og er þá síðasta bjargráðið ekki með talið, hækkunin á fiski og smjörlíki. Fyrir 6 árum voru ársútgjöld meðalfjölskyldu fyrir nauðsynjar sínar, þegar húsnæðiskostnaður var ekki með talinn, um 51 þús. kr. Nú kosta þessar sömu nauðsynjar fjölskyldunnar yfir 100 þús. kr. Þær hafa hækkað um meira en helming á þessum fáu árum og þó er ástandið í húsnæðismálum enn alvarlegra. Fyrir 6 árum kostaði meðalíbúð um 455 þús. kr. Nú kostar jafnstór íbúð um 967 þús. kr. Hún hefur hækkað í verði um meira en 1/2 millj. á 6 árum. Allt lánið, sem húsnæðismálastjórn veitir, 280 þús. kr., dugir ekki fyrir 21/2 árs verðhækkun á íbúðinni. Í ofanálag er svo ríkisstj. búin að vísitölubinda vexti og afborganir af íbúðarlánunum. Árlegar greiðslur lántakenda geta því margfaldazt á komandi árum, ef viðreisnarstefnan heldur áfram.

Ársútgjöld meðalfjölskyldu fyrir nauðsynjar sínar, að meðtöldum húsnæðiskostnaði, ef fjölskyldan býr í nýlegri íbúð, eru áreiðanlega ekki undir 160–200 þús. kr. eins og nú er komið. Þannig hafa þá efndirnar á fyrirheitunumorðið. Lífsnauðsynjar manna áttu ekki að hækka nema um 3%, en þær hafa nú hækkað á 6 árum um 112%.

Byggingarkostnaður íbúða átti ekki að hækka nema um 10–11%, en hann hefur á þessum sömu árum hækkað um 113%. Og það má reyndar bæta því við, að því var heitið að afnema skatta af almennum launatekjum, en álögur á þjóðina skv. fjárlögum í formi margs konar skatta og tolla hafa hækkað á 6 undanförnum árum úr 1500 millj. í 3800 millj., eða um 153%.

Nú er ekki á það minnzt, að hækkun framfærslukostnaðar verði öllum almenningi afar þungbær, eins og sagði í Viðreisn. Ríkisstj. mun ekki eiga heitari ósk en að fá að halda völdunum áfram og stefnubreyting kemur henni ekki til hugar. Hvernig mundi þá verða umhorfs í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar eftir 6 ár, ef sama verðbólguþróun heldur áfram eins og hún hefur verið undanfarin 6 ár? Þá mundu ársútgjöld meðalfjölskyldu verða um 350 þús. kr. Þá mundi meðalíbúð kosta nokkuð á 3. millj. Þá mundi meðalfiskibátur kosta 25–30 millj. og ýsuflök í soðið mundu kosta um 50–60 kr. kílóið. Þetta á þjóðin í vændum, ef áfram verður fylgt viðreisnarstefnunni. Hvernig ætli þá yrði ástatt um sölu íslenzkra afurða á erlendum mörkuðum? Fiskvinnslustöðvar geta ekki selt afurðir sínar nú á erlendum mörkuðum fyrir kostnaðarverð vegna verðbólgunnar innanlands, nema með styrkveitingum, þrátt fyrir geysimiklar verðhækkanir erlendis á undanförnum árum. Hvað þá ef vinnslukostnaðurinn tvöfaldast? Og hér er um meira en 90% af útflutningsafurðum landsmanna að ræða. Það er því ekkert smáræði, sem hér er í húfi. En hvað segir ríkisstj. um þessa óðaverðbólgu? Hefur hún engar áhyggjur af henni? Nei, engar verulegar áhyggjur. Hún segir sem svo, að allar ríkisstj. hafi átt við verðbólgu að stríða undanfarin 25 ár, en engin ráðið við hana. Hér séu allir Jónar jafnir, hvaða flokkar, sem farið hafa með völd. Og núv. ríkisstj. sé síður en svo lakari en aðrar í þessum efnum.

Þessar staðhæfingar ríkisstj. eru stórkostlegar blekkingar. Til eru skýrslur um verðlagsþróunina allt frá 1914, að vísu ekki nógu nákvæmar skýrslur fram til 1939, en öruggar skýrslur eftir þann tíma. Þessar skýrslur sýna það ótvírætt, að í hálfa öld hefur aldrei verið ríkjandi slík óðaverðbólga hér á landi eins og undanfarin 6 ár. Síðustu 26 árin hefur verðbólguþróunin verið þessi: Nauðsynjar manna, sem kostuðu 1.000 kr. 1939, þær hækkuðu um 450 kr. að meðaltali á ári í 20 ár, fram til 1959, og kostuðu þá um 10.000 kr., en næstu 6 árin, fram til 1965, hækkuðu þessar nauðsynjar um 1.600 kr. á ári að meðaltali og kostuðu á síðastliðnu ári tæplega 20 þús. kr. Vöxtur verðbólgunnar er því nærri því fjórfaldur síðustu 6 árin miðað við það, sem hann var á ári að meðaltali 20 árin á undan.

Ólafur Thors leit öðrum augum en núverandi ríkisstjórn á þann háska, sem óðaverðbólgunni fylgir. Hann sagði í einni áramótagrein sinni, að hann játaði, að ríkisstj. hefði ekki tekizt að ráða niðurlögum verðbólgunnar, en ef það tækist ekki, þá væri allt annað unnið fyrir gýg og beinn voði fyrir höndum.

Núv. ríkisstj. er ekki hrædd við voðann, sennilega af því, að hún sér hann alls ekki. Framsóknarmenn hafa þráfaldlega sýnt fram á, að hrein óstjórn er ríkjandi í efnahagsmálum þjóðarinnar, en hæstv. ríkisstj. þykir þetta ósvífinn dómur. Um þetta liggur nú fyrir vitnisburður þess manns, er ekki verður sakaður um ósvífni í garð ríkisstj., en það er sjálfur hæstv. viðskmrh. Gylfi Þ. Gíslason. Í ræðu á þessu þingi, 31. marz, sagði hann m.a.:

„Hvarvetna í veröldinni munu menn telja 10% verðbólgu mikla verðbólgu, og ég hygg, að langflestir séu sammála um það, að svo mikil verðbólga hljóti að teljast skaðleg. Hagnaðurinn fellur í skaut aðilum, sem ekkert hafa til hans unnið. Hagnaðurinn er afleiðing af óstjórn í þjóðfélaginu. En mikil verðbólga hlýtur að teljast óstjórn, þegar til lengdar lætur.“

Þetta voru orð ráðherrans. Hann talar hér skilmerkilega um óstjórn, ef verðbólgan fer yfir 10%. En hver hefur hún þá verið undanfarin 6 ár? Neyzluvöruvísitalan hefur hækkað úr 101 í 214 stig, eða um 112%, en það eru um 18.6% að meðaltali á ári. Byggingarvísitalan hefur hækkað úr 132 í 281 stig, eða um 113%. En það er um 18.8% að meðaltali á ári.

Ég veit, að hæstv. ráðherra reiknar verðbólguna fyrir eitt og eitt ár í senn, til þess að fá út lægri tölu, en það stoðar heldur ekki. Vöxtur verðbólgunnar er samt langt fyrir ofan 10% á ári.

Hæstv. viðskmrh. hefur þannig staðfest þann dóm framsóknarmanna, að óstjórn sé ríkjandi í efnahagsmálum þjóðarinnar. En ætli hann breyti þá um stefnu, þegar hann hefur nú loksins komizt að þessari niðurstöðu? Það held ég ekki.

Að lokum vil ég minna á þessi orð úr 1. maí-ávarpi Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík í gær, með leyfi hæstv. forseta:

„Verkalýðssamtökin líta það mjög alvarlegum augum, að margítrekuð loforð ríkisstj. um stöðvun verðbólgunnar hafa reynzt marklaus, og má þar minna á síðustu verðhækkanir á brýnustu lífsnauðsynjum almennings, sem bitna harðast á tekjulágum barnafjölskyldum.“

Þetta segja forustumenn verkalýðssamtakanna, þ. á m. stuðningsmenn ríkisstj. — Góða nótt.