02.05.1966
Sameinað þing: 43. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2603 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

Almennar stjórnmálaumræður

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Háttvirtu áheyrendur. Núverandi stjórnarsamvinna milli Alþfl. og Sjálfstfl. hefur staðið í 7 ár, eða frá des. 1958, þegar Alþfl. myndaði sína minni-hlutastjórn og til þessa dags.

Nokkrar breyt. hafa að vísu orðið og mannaskipti í ýmsum ráðuneytum, en það hefur í engu breytt samstöðu flokkanna, stefnu þeirra og starfi í ríkisstj. Þetta samstarf tveggja flokka um ríkisstj. er því orðið það lengsta, sem hér hefur átt sér stað. Starfstími íslenzkra ríkisstj. hefur yfirleitt verið stuttur, með fáum undantekningum, þetta eitt, tvö eða þrjú ár. það hefur verið það venjulega.

Þegar ríkisstj. situr aðeins stuttan tíma, er henni meiri vandi á höndum heldur en ef hún hefur langan tíma til umráða. Þegar ein ríkisstj. hefur mótað stefnu sína, þarf hún, eins og gefur að skilja, nokkurn tíma til þess að koma henni í framkvæmd. Og oft hefur það farið svo, að þegar stjórnin hefur gefizt upp og orðið að hætta, þá hefur henni ekki tekizt að koma stefnumálum sínum í framkvæmd. Þó að ásetningur hafi verið góður í upphafi, sem ég efast ekki um, að hafi verið hjá öllum, hefur hinn skammi tími, sem verið hefur til umráða, ekki nægt til að framkvæma hinn góða ásetning. Hinn langi starfstími núv. stjórnarflokka hefur hins vegar skapað þeim möguleika til að ná meiri og betri árangri en flestar aðrar ríkisstj. hafa náð, fyrr og síðar. En þar kemur að vísu líka nokkuð fleira til, eins og fastmótuð stefna í upphafi, sem fylgt hefur verið eftir, eftir því sem möguleikar hafa verið til.

Ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar á árunum 1958–1959 var ekki gott, eða kannske réttara sagt, það var mjög slæmt. Gjaldeyriseign bankanna var engin, eða minni en engin og komst niður í 200 millj. kr. skuld, en hafði verið neikvæð allt frá 1957. Þetta hefur tekizt að bæta smátt og smátt, svo að gjaldeyriseignin í dag er yfir 2000 millj. kr., sem bankarnir hafa til ráðstöfunar, sem telja verður mjög sæmilegan gjaldeyrisforða.

Að þetta hefur tekizt, þ.e.a.s., að tekizt hefur að forða frá algjöru gjaldeyrisþroti, viðskilnaðinn frá vinstri stjórninni, má fyrst og fremst þakka því, að sparifjárbinding var upp tekin til að standa á bak við gjaldeyrisöflunina.

Á hallæristímanum 1958–1959 var komið svo, að tæpast var hægt að vera tryggur um, að hægt væri að leysa inn erlendar kröfur fyrir nauðsynlegasta innflutningi. Allt þetta hefur breytzt mjög til hins betra með söfnun gjaldeyrisvarasjóðsins. En eftirtakanlegt er það, að eitt höfuðádeiluefni stjórnarandstöðunnar á ríkisstj. allt þetta tímabil hefur verið það, að ríkisstj. skuli hafa átt hlut að því, að sparifjáreignin var bundin að nokkru leyti, sem þó var nauðsynlegt til þess að söfnun gjaldeyrissjóðsins gæti átt sér stað.

Sýnir afstaða stjórnarandstöðunnar til þessa máls eitt af tvennu, annaðhvort algjört skilningsleysi á því, sem var að gerast, eða furðulegt ábyrgðarleysi, ef henni hefur verið ástandið ljóst. Vitanlega hefur sparifjárbindingin orðið til þess að draga úr lánamöguleikum banka og sparisjóða og þess vegna komið óþægilega við sums staðar. En þegar um það var að ræða að koma viðskiptum þjóðarinnar út á við á heilbrigðan grundvöll, mátti ekki láta þetta atriði koma í veg fyrir farsæla lausn.

Þetta er eitt af þeim atriðum, sem stjórnarandstaðan hefur reynt að notfæra sér til að gera tortryggilega stefnu ríkisstj., en ég tel alveg víst, að þjóðin hafi gert sér þetta mál ljóst, þannig að árangurinn hafi ekki orðið sá, sem til var stofnað.

Hv. 1. þm. Austf. (EystJ) og hv. 5. þm. Vestf. (HV) lýstu áhyggjum sínum yfir því hér áðan, að föst erlend lán hefðu vaxið árið sem leið um nokkra upphæð. En í sambandi við það má spyrja, hvernig stendur á því, að þessar skuldir hafa myndazt? Það stendur þannig á því, að bæði þetta ár og önnur fleiri ár á undan hefur verið keyptur til landsins mikill fjöldi fiskiskipa og raunar einnig annarra skipa líka og enn fremur flugvélar, sem kosta samtals hundruð millj. kr. árlega. Kaupverð þessara fiskiskipa er lánað erlendis að 2/3 hlutum, venjulega til 7 ára, og á sama hátt er mikill hluti kaupverðs annarra skipa og enn fremur flugvéla lánaður. Þannig er aukning föstu lánanna tilkomin og skuldaaukningin þó lítill hluti af kostnaðarverði þessara nauðsynlegu tækja. Ríkisstj. hefur stutt að því eins og hún hefur getað, að þessi yrði þróunin, að skipin og flugvélarnar yrðu keypt, þó að þau yrðu ekki greidd að fullu á fyrsta ári.

Vegna hagstæðs atvinnuástands í landinu hefur vöxtur sparifjárinnlána líka orðið miklu meiri heldur en nokkru sinni áður. Sparifjárinnlánin voru árið 1958 orðin samtals um 1.100 millj. kr. Þau hafa farið stöðugt vaxandi og eru nú, 1. apríl s.l. talin 6. 406 millj. kr., eða nærri sexfölduð frá því, sem þau voru fyrir átta árum. Sýnir þetta í raun og veru tvennt. Í fyrsta lagi, að afkoma almennings í landinu hefur verið góð, svo góð, að þjóðin hefur getað lagt þetta fjármagn til hliðar frá daglegum nauðsynlegum innkaupum. Og í öðru lagi, að þrátt fyrir allt verðbólgutal stjórnarandstöðunnar hefur almenningur trú á því, að gjaldmiðill íslenzku þjóðarinnar sé ekki í þeirri hættu, sem þeir hafa viljað vera láta. Og kemur þetta nokkuð öfugt við það, sem hér hefur verið lýst m.a. í kvöld.

Sparifjársöfnun er, eins og allir vita, frá almenningi komin, frá launþegunum og tekjuminni hluta þjóðarinnar. Sparifjáreignin er grundvallaratriði í fjármálakerfinu og skapar möguleika til lánveitinga og styrktar atvinnuvegunum og er raunar sá styrkur, sem allt efnahagskerfið byggist á, því að útlánin í heilbrigðu efnahagskerfi byggjast á því, að ekki sé lánað meira en innistæður eru fyrir. Heildarupphæð spariinnlána og veltuinnlána voru 1. apríl s.l. samtals 8. 326 millj. kr., en heildarútlán voru á sama tíma 8.308 millj. kr., og sýnir það vel ástandið í þessum málum í dag, að það er ekki eins óheilbrigt og stjórnarandstaðan vill vera láta.

Á þennan hátt hefur ríkisstj. tekizt að koma á traustum og eðlilegum viðskiptum við útlönd og öruggri útlánastarfsemi til styrktar atvinnuvegunum innanlands. Stjórnarandstaðan segir að vísu, að ekkert af þessu sé ríkisstj. að þakka. Góðæri og óvenjulegur fiskafli sé ástæðan. Við þetta má þó bæta því, að fiskaflinn er til kominn vegna þess, að fjöldamargra nýtízku fiskiskipa hefur verið aflað með hinum fullkomnasta veiðiútbúnaði og því, að fjöldamargar vinnslustöðvar hafa risið í landi, allt með góðri aðstoð ríkisstj. Fiskveiðasjóður hafði verið stórlega efldur og Stofnlánadeild sjávarútvegsins sömuleiðis, sem hafa stutt með lánastarfsemi viðleitni útvegsmanna til skipakaupa og stórstígra framkvæmda þeirra, sem í landi taka við aflanum til vinnslu. Þessar lánastofnanir hafa nú verið sameinaðar og er þess að vænta, að þær eflist þannig til frekari útlánastarfsemi fyrir atvinnurekendur í landinu.

Þegar svo allt hefur um þrotið hjá stjórnarandstöðunni í gagnrýni á ríkisstj., hefur þó jafnan eitt efni verið tiltækt og það er ádeilan á ríkisstj. fyrir það að hafa ekki getað stöðvað verðbólguna, og er það að vissu leyti rétt. En um það atriði má þó segja það, að það hefur engri ríkisstj. tekizt síðustu árin og áratugina.

Verðbólgan hefur vaxið um 12% á ári að meðaltali í tíð þessa stjórnarsamstarfs. Eða réttara sagt, ef heildarvexti vísitölunnar eða verðbólguaukningarinnar á þessum sjö árum er deilt á árafjöldann, sem liðinn er, þá verður útkoman út úr því 12% að meðaltali í tíð þessa stjórnarsamstarfs og má vitaskuld segja, að það sé of mikið, þó að verðbólguvöxturinn hafi stundum verið miklu meiri.

Hv. 3. þm. Vestf. (SE), sem talaði hér á undan mér, fullyrti raunar, að í hálfa öld hefði aldrei slík óðaverðbólga gengið yfir landið eins og í tíð núv. ríkisstj. Mætti ég minna hann á að leita eftir því, hver verðbólguvöxturinn var í stjórnartíð Framsfl. á árunum 1950–1953. Ég ætla, að verðbólguvöxturinn á því tímabili hafi a.m.k. verið tvöfaldur á við það, sem hann hefur verið nú, miðað við þann árafjölda, sem sú stjórn sat við völd.

Sem mótvægi á móti þeirri þróun verðbólguástandsins, sem raunar margar ástæður liggja til, hefur ríkisstj. leitazt við að styrkja vinnuhagræðingu til þess að koma í veg fyrir, að framleiðslukostnaður færi fram úr því, sem útflutningsverði fylgdi. Með verðtryggingu launa hefur launþegum svo verið tryggð launahækkun, sem svarar til þeirrar hækkunar, sem orðið hefur á lífsnauðsynjum, auk þeirrar grunnkaupshækkunar, sem orðið hefur og helgast að verulegu leyti af þeirri aukningu þjóðarteknanna, sem náðst hefur á þessum árum. Þeir, sem hins vegar hafa skaðazt mest á verðbólguaukningunni, eru sparifjáreigendur, en þeirra hlutur hefur í þessu sambandi verið mjög slæmur. Var komið svo á tímabili, að menn vildu allt annað frekar eiga heldur en sparifé, sem stöðugt varð minna og minna virði. Er augljóst, hvert sú þróun stefnir, þar sem sparifjársöfnunin er, eins og ég sagði áðan, hornsteinninn undir heilbrigðu efnahagslífi þjóðarinnar. Þessu hefur ríkisstj. leitazt við að mæta með tvennu móti, í fyrsta lagi með hækkun vaxta, sem gefur sparifjáreigendum nokkra bót fyrir verðbólguhækkunina, og í öðru lagi nú með því að undirbúa að verðtryggja spariféð eða skapa möguleika til þess með verðtryggingu skulda, sem nú á þessu þingi hefur verið heimilað að gera með l. Þetta hefur að vísu verið gert að nokkru leyti að undanförnu, en verður nú væntanlega gert almennt. Þetta er réttlætismál, sem samkomulag náðist að nokkru leyti um í júní-samkomulaginu 1964. Þetta samkomulag hefur sérstaklega Framsfl. reynt að gera tortryggilegt og skapa andstöðu gegn því, en hvort tveggja er, að með verðtryggingu launa eru sköpuð skilyrði fyrir því, að launþegar geti staðið undir þeirri hækkun vaxta og afborgana, sem af þessu leiðir fyrir húsbyggjendur og aðra smærri lántakendur, og svo hitt, að sparifjáreigendur, sem eru þeir raunverulegu lánveitendur, eiga á því fullan rétt, að verðbólgan gangi ekki út yfir þá eina. Er þetta eitt af mörgum dæmum þess, að stjórnarandstaðan fer í gagnrýni sinni langt út yfir öll mörk sanngirni og ég vil segja, út fyrir mörk velsæmis.

Allar aðgerðir ríkisstj. í efnahagsmálum hafa því orðið til þess að koma þessum málum á heilbrigðan, traustan og heiðarlegan grundvöll, enda verið viðurkenndar erlendis af öllum þeim aðilum, sem við höfum viðskipti við, sem réttar og heppilegar. Þessar aðgerðir ásamt með frjálsari verzlunarháttum og afnámi hafta hafa orðið til þess að auka álit Íslendinga út á við. Það, sem hins vegar veldur áhyggjum í sambandi við okkar efnahagsstarfsemi, er það, að við erum enn útilokaðir frá þátttöku í efnahagsbandalögum Evrópu. Þróunin færist nú meir og meir í þá átt, að þátttökulönd efnahagsbandalaganna hafa komið á innbyrðis sín á milli tollfríðindum, en út á við háum innflutningstollum, sem gerir þeim, sem fyrir utan standa, mjög erfitt fyrir um alla samkeppni við þátttökulöndin. Þetta mál hefur nú um alllangan tíma verið mjög til umr. í ríkisstj., án þess að því hafi þokað nokkuð verulega a.m.k. í áttina, þótt sýnilegt hafi verið, hversu erfitt það mundi vera að standa fyrir utan. Orsökin til þessa hefur fyrst og fremst verið sú, að menn hafa verið hræddir við tollalækkun hér, vegna hins íslenzka iðnaðar, sem talið hefur verið vafasamt að mundi þola erlenda samkeppni, ef aðflutningstollar yrðu lækkaðir verulega á sams konar vöru og íslenzki iðnaðurinn framleiðir. Hins vegar er augljóst, hver fjötur það mundi vera íslenzkum útflutningsatvinnuvegum um fót, ef þeir yrðu að búa við miklu hærri tollagreiðslur en keppinautar þeirra. Þetta er mikið vandamál, sem verður að leysa.

Íslendingar hafa nú fengið bráðabirgðaaðild að GATT, sem er alþjóðasamtök til lækkunar tolla og afnáms viðskiptahafta. Þessi samtök hafa nú um skeið haft uppi viðræður um verulegar tollalækkanir, sem kenndar eru við Kennedy Bandaríkjaforseta fyrrv. og haldnar eru í Genf í Sviss. Þó að útlitið um árangur af þessari ráðstefnu sé talið nokkuð vafasamt, hefur ríkisstj. að mjög vel athuguðu máli og eftir viðræður við aðila hér ákveðið að freista þess nú að bjóða 50% lækkun á innflutningstollum, samtals á nokkru árabili, ef tilsvarandi lækkun fengist á tolli á útflutningsvörum okkar. Hvað úr þessu verður, er ekki unnt að segja nú, en vera mætti, að þetta tilboð, ef tækist, gæti orðið byrjun að einhvers konar aðild að fríverzlunarbandalaginu, sem okkur er höfuðnauðsyn að ná einhverri aðild að. Tollalækkun er okkur örugglega nauðsyn, til þess að einhver möguleiki sé til þess að ná samkomulagi við bandalagið um lækkun tolla hjá aðildarríkjum þess á útflutningsvörum okkar. Viðskiptakjör okkar við útlönd hafa verið hagstæð undanfarin ár, þar sem verðlag á útflutningsvörum okkar hefur hækkað meira en verðlag á innfluttum vörum. Þess vegna hafa tollgreiðslurnar ekki verið eins tilfinnanlegar. En hversu lengi það ástand helzt, er ekki gott að vita, og ef það breytist verulega okkur í óhag, verður aðild okkar að markaðsbandalagi óumflýjanleg nauðsyn og raunar einnig, þó að svo verði ekki.

Einn af hornsteinunum undir heilbrigðu efnahagslífi er auðvitað, að atvinnuástandið í landinu sé heilbrigt, þ.e.a.s. næg atvinna handa öllum, þó þannig, að eftirspurn eftir vinnuafli og framboð á því standist nokkurn veginn á. Íslendingar hafa átt því láni að fagna mörg undanfarin ár, að atvinnuleysi hefur að heita má ekki verið til, en þjóðinni fjölgar ört og fjöldi nýrra manna og kvenna bætist við árlega. Þessu fólki verður að sjá fyrir atvinnu og það hefur tekizt að gera enn sem komið er. Gömlu atvinnuvegirnir hafa tekið til sín nokkurn hluta, en það eru takmörk fyrir því, hversu miklu þeir geta tekið við. Þjónustustörf ýmiss konar hafa líka getað tekið til sín mikið af ungu fólki, verzlun, samgöngur og önnur starfsemi í því sambandi. Ríkisstj. hefur þó verið ljóst, að fleira þarf að koma til. Hún hefur því átt hlut að og beitt sér fyrir þeim nýmælum í íslenzkum atvinnurekstri, sem nú eru að verða að veruleika, vinnslu kísilgúrs og alúminíumbræðslu, en lög um hvort tveggja hafa ýmist verið samþ. eða eru að verða að l. Er hér um merkilega nýjung að ræða, þar sem í öðru tilfellinu er um að ræða vinnslu innlends hráefnis með innlendri orku og í hinu tilfellinu hagnýting vatnsaflsins í stórum stíl og miklu stærri heldur en áður hefur komið hér til framkvæmda. Það merkilega hefur þó skeð, að stjórnarandstaðan hefur brugðizt hart við á móti því, að til þessara framkvæmda kæmi og ber fyrir sig, að mér finnst a.m.k., mjög annarlegar ástæður. Annars voru þau mál ítarlega rædd hér nýlega, bæði á Alþ. og í blöðum, og skal ég þess vegna ekki fara neitt að ráði út í þau. En um alúminíumbræðslu vildi ég segja það, að allt frá því, að hugsað var fyrst til virkjunar íslenzkra fallvatna í stórum stíl, hefur verið út frá því gengið, að slíkt væri þá fyrst mögulegt, að orkufrekur iðnaður yrði hér staðsettur, sem gæti tekið til sinna nota mikið af hinu virkjaða afli. Sú orka, sem býr í íslenzkum fallvötnum, er ein dýrmætasta eign Íslendinga og því þýðingarmikið fyrir afkomu íslenzku þjóðarinnar, að þessi orka verði notfærð. Það hefur líka komið í ljós við athugun málsins, að Íslendingar sjálfir mundu geta fengið hina heppilegustu og ódýrustu virkjunaraðstöðu fyrir sjálfa sig með því að fá svo stóran rafmagnsnotanda sem alúminíumbræðslan er inn í samvinnu um notkun rafmagns frá stórvirkjun. Aldrei hafa því verið gerðir skórnir hér, að sá iðnaður, sem þessarar miklu orkunotkunar þyrfti, yrði innlent fyrirtæki, heldur væri þar um svo fjárfrekan iðnað að ræða, að það væri tæpast á valdi Íslendinga að reka hann. Þegar stofnkostnaður fyrirtækisins er farinn að skipta þús. millj., er ekkert íslenzkt fyrirtæki eða íslenzkur aðili, sem getur átt hér hlut að. Hins vegar hefur verið út frá því gengið, að viðkomandi iðnfyrirtæki greiddi hér skatt til viðbótar raforkugjaldinu, sem svaraði til þess, að um íslenzkt fyrirtæki væri að ræða. Hefur nú verið um þennan skatt samið og er hann vissulega mjög verulegur, ákveðið gjald af hverri framleiðslueiningu frá 121/2 dollar á tonn til að byrja með og upp í 35 dollara á tonn síðar. Ríkisstj. hefur ákveðið, að þessi skattur renni til atvinnujöfnunarsjóðs til uppbyggingar atvinnulífi úti á landsbyggðinni að frádregnum þeim hluta, sem til heimasveitarinnar rennur, 25% fyrstu árin, en síðar 20%, svipað eins og um landsútsvar væri að ræða. Ef um 30 þús. tonna framleiðslu verður að ræða fyrstu árin, nemur skatturinn í heild þá um 16 millj. kr. á ári og þar af verður hlutur Hafnarfjarðar 4 millj. kr. Í lokin, þegar skatturinn hefur náð hámarki og framleiðslan einnig komin í hámark, mun skatturinn í heild af 60 þús. tonna framleiðslu nema um 90 millj. kr. á ári og þar af koma í hlut Hafnarfjarðar um 18 millj. kr. á ári, en 72 millj. renna í atvinnujöfnunarsjóð. Er af þessum tölum einum ljóst, að hér er um að ræða eitthvert þýðingarmesta fyrirtæki fyrir íslenzkt athafnalíf, ekki einasta á staðnum, heldur einnig með ákvörðun ríkisstj. um ráðstöfun skattgreiðslunnar fyrir alla landsbyggðina til eflingar atvinnulífi þar. Fyrir Hafnarfjörð kemur svo einnig höfn í Straumsvík, sem bærinn eignast skuldlausa eftir 25 ár, en hún er talin munu kosta 70–80 millj. kr., gatnagerðargjald o.fl., sem í framtíðinni mun verða bæjarfélaginu til mikillar styrktar.

Afstaða stjórnarandstöðunnar til þessa máls verður örugglega bæði Framsfl. og Alþb. til lítils sóma, þegar séð verður, hversu geysimikill ávinningur þessi starfsemi verður, ekki einasta fyrir þá einstaklinga, sem vinna þar, og byggðarlagið, þar sem hún verður staðsett, heldur fyrir þjóðarbúið í heild.

Ég vildi svo mega hafa það sem mín lokaorð hér í kvöld, að ráðstafanir ríkisstj. á sviði atvinnumála, efnahagsmáta, viðskiptamála og félagsmála hafa allar orðið til þess að búa landsmönnum öllum betri kjör heldur en nokkru sinni áður, sparifjáreigendum tryggingu nokkra fyrir sinni sparifjáreign og launþegum öllum tryggingu fyrir því, að hækkun framleiðslukostnaðar verði mætt með hækkun launa í samræmi við hækkun vöruverðs. — Góða nótt.