02.05.1966
Sameinað þing: 43. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2620 í B-deild Alþingistíðinda. (2086)

Almennar stjórnmálaumræður

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Heiðruðu áheyrendur. Allar ríkisstj. og stuðningsflokka þeirra verður að dæma af reynslunni, og það verður að bera reynsluna saman við loforðin, sem ríkisstj. og stjórnmálaflokkar þeir, er hana styðja, hafa gefið þjóðinni. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá, segir hið forna heilræði. Það stóð mikið til, og miklu var lofað í árslok 1959 og í byrjun ársins 1960, þegar núv. stjórnarflokkar voru eftir nokkurt tilhugalíf að ganga í þann brúðardans, þar sem Sjálfstfl. hefur síðan sveiflað sinni ástheitu dömu, Alþfl., á hálu svelli hins stórkapítalíska hagkerfis, sem ríkisstj. hefur verið að byggja hér upp á s.l. sex árum.

Á meðan þessi dans dunar og Alþfl. er í sínu ástríðuþrungna óminnisástandi og hefur gleymt sínum fornu hugsjónum, þá hafa gerzt og munu halda áfram að gerast þeir atburðir í þjóðlífinu á sviði efnahags- og atvinnumála, sem að er stefnt af Sjálfstfl., en hjá innsta kjarna þess flokks er takmarkið það að koma meginhlutanum af eignum og atvinnutækjum þjóðarinnar í hendur tiltölulega. fárra útvaldra manna, sem hafa hreina auðhyggju í brjósti.

Einfaldasta ráðið til að koma slíku í framkvæmd á sem stytztum tíma er það að láta verðbólgu og dýrtíð vaða lausbeizlaða um efnahagskerfið. Gengislækkanir, háir vextir, síhækkandi skattar og vísitölubinding eða svokölluð verðtrygging á lánum til íbúðabygginga handa unga fólkinu, allt eru þetta óbrigðul ráð til að færa eignir landsmanna í fárra hendur, sem aftur þýðir það, að allur fjöldi þegnanna verður háður peningavaldinu og getur ekki af sjálfsdáðum staðið í framkvæmdum og atvinnurekstri.

Draumur kavalerans, Sjálfstfl., í brúðardansinum í viðreisnarhöllinni er stórkapítalískt þjóðfélag með stóriðju og stórrekstur á flestum sviðum atvinnulífsins, sem auðvitað hlýtur alltaf að vera í fárra manna höndum.

Ef einhverjum dytti í hug að efast um þetta, þá er á að líta dæmin deginum ljósari, hvernig undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar, landbúnaður, sjávarútvegur og iðnaður eru að fara úr höndum margra og fremur smárra atvinnurekenda, og siðan safna nokkrir fjársterkir aðilar þessum atvinnutækjum og hinir fyrri gerast þeirra þjónar.

Það eru ekki mörg ár síðan algengasta form bátaútvegsins var þannig, að nokkrir menn áttu bát saman, unnu við fyrirtæki sitt, annaðhvort á sjó eða landi eða hvort tveggja og höfðu af því allgóð lífskjör. Þannig var einnig um iðnaðinn, en nú er þetta að færast í það horf, að hinum smáu útgerðarmönnum og iðnrekendum fækkar, en í staðinn koma stærri fyrirtæki rekin með stórgróðasjónarmið fyrir augum.

Þegar litið er til landbúnaðarins, þá er reynslan sú, að bændum fækkar og fólki í sveitum. Með hinni gífurlegu dýrtíð er búið að gera flestum einstaklingum ókleift fjárhagslega að stofna til búrekstrar. Ef menn vilja njóta nútíma vélvæðingar við búskapinn og lífsþæginda, sem nú eru talin nauðsynleg, og öðruvísi er auðvitað ekki hægt að búa í sveit fremur en annars staðar, þá þarf búið að vera mjög stórt, ekki minna en 30–40 afurðagæf kúgíldi, hvort sem stunduð er sauðfjárrækt eða mjólkurframleiðsla. Slíkur bústofn með tilheyrandi vélakosti til rekstursins getur varla fengizt fyrir minna verð en eina milljón króna. Hús yfir fólk, fénað, hey og vélar með þeim gífurlega byggingarkostnaði, sem nú er, getur ekki verið undir tveimur milljónum, og er þá eftir jörðin sjálf og ræktun sú, sem til þarf að bera það bú, sem hér um ræðir.

Til þess að hægt sé áð koma upp búi, sem nú í augnablikinu gæti fullnægt tekjuþörf venjulegrar fjölskyldu og staðið undir reksturskostnaði eins og viðreisnarhagkerfið hefur mótað þetta allt, þá er stofnkostnaðurinn ekki minni en þrjár til fjórar milljónir.

Hvar er nú það unga fólk, sem getur lagt slíka upphæð fram til bústofnunar? Hvergi er bústofns- né jarðakaupalán að fá, svo teljandi sé. Veðdeild Búnaðarbankans lánar kannske eitt hundrað þúsund krónur til að kaupa jörð. Út á dráttarvél er lánað í stofnlánadeild landbúnaðarins til fimm eða sex ára um 30% af kaupverði hennar. Þetta eru þau einu lán, sem nú er hægt að fá fyrir þann, sem er að byrja búskap. Ekki örlar á neinu frá valdhöfunum til að bæta úr þessu.

Með hinni síauknu fjármagnsþörf, sem viðreisnarhagkerfið margfaldar árlega, er hinum ungu og efnalitlu gert sífellt erfiðara að stofna til búskapar eða atvinnureksturs yfirleitt. Afleiðingin er sú í sveitum landsins, að á ári hverju fjölgar hinum auðu og yfirgefnu jörðum. Hvernig halda menn, að umhorfs verði í landbúnaðinum eftir nokkur ár, ef svo verður fram haldið sem horfir nú og ekkert verður gert af hálfu löggjafarvaldsins til að tryggja framtíð þessa elzta atvinnuvegar þjóðarinnar, sem hún ekki getur án verið, ef hún ætlar að lifa í landinu?

Við framsóknarmenn flytjum nú á hverju þinginu eftir annað frv. um nýjar leiðir til að leysa bráðustu þörfina á þessu sviði, en þau mál eru svæfð af stjórnarliðinu.

Þegar viðreisnarhagkerfið hóf göngu sína, voru vextir af framkvæmda- eða stofnlánum í landbúnaði hækkaðir úr 41/2, sem þeir höfðu verið í, og í 61/2. Hér var því um 45% vaxtahækkun að ræða. Bóndi, sem tók 100 þúsund króna lán í Búnaðarbankanum 1958, þurfti að borga af því í vexti 4500 krónur á ári, en sá, sem tekið hefur þar 100 þúsund króna lán síðan viðreisnarhagkerfið fór í gang, hann þarf að borga af því í vexti 6500 krónur á ári. En bændurnir, sem skv. skýrslum Hagstofunnar eru enn tekjulægsta stétt í landinu, þeir verða líka skv. ákvörðun valdhafanna að borga sérstakan skatt af tekjum sínum í stofnlánadeild landbúnaðarins. Af meðalbónda er þessi skattur nú nálægt 3000 krónum á ári. Sá sem er meðalbóndi og hefur á valdatíma núv. stjórnar tekið 100 þús. kr. lán í stofnlánadeild landbúnaðarins, hann verður ekki aðeins að borga 2000 krónum meira í vexti á ári en áður, heldur bætast nú um 3000 krónur við í lánaskatt. Viðskiptakjör bóndans við þá peningastofnun, sem á skv. tilgangi sinum að styðja hann til framkvæmda og til að byggja og nema landið fyrir alda og óhorna, eru þannig orðin okurkjör. Þetta sést bezt, ef borin er saman vaxtaupphæðin, sem bændur borga á ári til stofnlánadeildarinnar, og upphæð lánaskattsins,.en á s.l. ári innheimti stofnlánadeildin 33 millj. kr. í vexti og nokkuð yfir 15 milljónir í lánaskatt. Bændur borga þannig eina krónu í lánaskatt á móti hverjum tveimur, sem þeir borga í vexti af fjárfestingarlánum sínum.

Það hlýtur hver maður að geta séð, hvernig slíkur lánaskattur muni verka og hvort það sé líklegt, að fátækt fólk fýsi að ráðast í framkvæmdir, sem kosta þá refsingu, sem þessi lánaskattur er. Þegar svo þar við bætist, að framleiðsla sú, sem umfram er innanlandsnotkun og selja þarf úr landi, er orðin næstum verðlaus vegna hinnar taumlausu dýrtíðar, og útflutningsuppbæturnar, sem áttu að vera trygging handa bændastéttinni svo hún gæti haft nokkra afgangsframleiðslu handa þjóðinni, ef harðnaði í ári, eru nú orðnar ómegnugar að standa undir því hlutverki, sem þeim var ætlað.

Hæstv. viðskmrh. Gylfi Þ. Gíslason gerði þennan þátt mála að sérstöku umræðuefni í Nd. í dag og taldi, að framleiðniaukning í landbúnaði hér hefði ekki vegið upp á móti framleiðslukostnaðinum. Hann minntist ekkert á þátt verðbólgunnar, sem hann og félagar hans hafa lítinn vilja og því minni getu haft til að minnka, en sem allir vita, að hefur jafnharðan étið upp arðinn af striti bænda og framleiðniaukningu þeirra. Ráðh. þóttu störf bænda ekki vera arðbær og sagði, að útflutningur þeirra afurða landbúnaðarins, sem afgangs er innanlandsneyzlu, hafi rýrt þjóðartekjurnar. Hann vill fækka bændum og minnka landbúnaðarframleiðsluna. Það var mikil demba af orðaflóði um bændur og landbúnað, sem ráðh. hellti yfir þm. Það var engin gróðrarskúr, heldur var ræðan eins og krapademba. Ekki er enn vitað, hvort hann mælti fyrir munn allra ráðh. eða hvort hann talaði aðeins fyrir sig einan.

Ég vil minna á, að bændum var af núv. stjórn lofað, að þeir þyrftu engu að kvíða vegna þeirra afurða, sem afgangs yrðu innanlandsnotkun. Þeim var sagt, að þeir skyldu stækka búin og auka framleiðsluna. Útflutningsuppbæturnar mundu duga vel og tryggja verðið. Það fyrirheit er nú brostið. Flestar þjóðir, sem þurfa að flytja landbúnaðarafurðir á erlenda markaði, veita stórfé til þess að efla og auka sölu afurðanna. Hér hefur ríkið ekki lagt fram fé til slíks nema í smáum stíl á aðeins einum stað erlendis. Ekkert fé hefur fengizt hjá hinu opinbera til að auka hagræðingu í landbúnaði, svo að bændur ættu hægara með að beina framleiðslu sinni inn á hagkvæmari brautir, sem sífellt er þó verið að stagast á af mönnum úr stjórnarliðinu, að þeir þurfi og eigi að gera. Hér er nú árlega veitt fé af opinberri hálfu til hagræðingar í fiskverkun og iðnaði úr sjávarafurðum, og er það vissulega nauðsynlegt, en landbúnaðurinn er þarna settur hjá. Í engu máli hefur skilningsskorturinn, og ég vil segja lítilsvirðingin fyrir bændastéttinni, komið jafn greinilega í ljós hjá valdhöfum og með setningu bráðabirgðalaganna á síðastliðnu hausti, þegar A.S.Í. gerði framleiðsluráðslögin óvirk með því að neita að tilnefna fulltrúa af sinni hálfu í Sexmannanefnd. Skv. brbl. ríkisstjórnarinnar þá fengu bændur engu að ráða um sín kjaramál og voru þannig sviptir án allra saka rétti, sem þeim bar til íhlutunar og ákvörðunar um verðlagsgrundvöll afurða af búum sínum, og ekki mátti nú lengur miða kjör þeirra eftir sömu reglum og áður, með hliðsjón af tekjum þeirra stétta, er standa þeim næstar, verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, heldur var það nú eitt talið hæfa að miða kaupgjaldsliðinn í verðlagsgrundvellinum við bætur almannatrygginganna til örkumla fólks og gamalmenna. Lítil eru geð þeirra manna, sem geta sætt sig við slík lög, en sem betur fer eru þeir líklega fáir í bændastéttinni.

Á þeim örfáu mínútum, sem ég hef hér til umráða, er ekki hægt að drepa á fleira. Ég hef með nokkrum dæmum sýnt, hvernig stjórnarstefnan er að leika landbúnaðinn, þennan elzta atvinnuveg þjóðarinnar. Þó eiga áhrifin af þeirri stjórnarstefnu eftir að koma betur í ljós, því lengra sem líður. Það eru ekki bændur einir, sem munu súpa seyðið af þeirri stefnu, heldur þjóðin öll. Þjóðin þarf að gera sér grein fyrir eðli viðreisnarhagkerfisins. Þar dugar ekki að horfa aðeins til líðandi stundar, það er framtíð lands og þjóðar, sem hyggja þarf að. Ef atvinnutæki landsmanna lenda undir umráðum og í eigu fárra manna eða fyrirtækja og öll framleiðsla verður gerð á vegum stórreksturs, þá mun efnahagslegt frelsi almennings líða undir lok. Til þess að koma í veg fyrir slíkt, þarf við fyrsta tækifæri að minnka styrk stjórnarflokkanna. — Góða nótt.