02.05.1966
Sameinað þing: 43. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2624 í B-deild Alþingistíðinda. (2087)

Almennar stjórnmálaumræður

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Góðir hlustendur nær og fjær. Þegar á heildina er litið, er árabilið 1964–1966 eitt lengsta og samfelldasta góðæristímabil á þessari öld og þótt lengra væri jafnað. Aflafengur hefur verið með allra mesta móti og vaxið með hverju ári, búnaðarhagir hafa yfirleitt verið góðir. Náttúruauðæfi Íslands til lands og sjávar hafa ekki brugðizt vonum þeirra, sem trúa á gæði landsins og möguleika þjóðarinnar til þess að búa við farsæld í frjálsu landi. Þó skyldu menn sízt gleyma því, að mjög hefur góðærinu verið misskipt milli einstakra staða og landshluta. Aflabrestur á síldveiðum og þorskfiski hefur valdið miklum atvinnu- og fjárhagserfiðleikum um norðanvert landið, og því miður hafa ekki verið gerðar í nægilegum mæli tiltækar og framkvæmanlegar ráðstafanir til að milda erfiðleikana, sem þó eru, að ætla má, fyrst og fremst tímabundnir. Ég efast ekki um, að síldar- og þorskafli mun glæðast að nýju norðanlands og að sjávarplássin þar munu eflast ásamt nálægum sveitum.

En hjá því verður ekki komizt, að gerðar séu sérstakar ráðstafanir til viðnáms og varnar byggðunum, meðan atvinnuerfiðleikarnir vara. Það er auðvitað ekki á mannlegu valdi að stýra fiskigöngum, og enginn veit fyrir víst, hvernig þeim muni háttað í framtíðinni. En með flutningatækni nútímans er ekkert því til fyrirstöðu að flytja afla eins og síld, a.m.k. bræðslusíld, langar leiðir til vinnslu. Þeirra möguleika hefðu norðlenzku síldarplássin átt að njóta bæði fyrr og ríkulegar en raun ber vitni.

En þrátt fyrir hina tímabundnu atvinnuerfiðleika um norðanvert landið og þar af leiðandi minnkandi framleiðslu í þeim landshluta, þá hefur þjóðarframleiðslan vaxið hin síðari ár meira en almennt var hægt að gera ráð fyrir og viðskiptakjörin út á við hafa verið svo góð, að varla eru dæmi til slíks áður. Allar ytri aðstæður skapa því skilyrði fyrir blómlegum þjóðarhag og velsæld og traustu fjármálalífi.

Þeir, sem líta á yfirborðið eitt, sjá ekki annað en velmegun og gróandi þjóðlíf, en undir yfirborðinu gefur annað á að líta. Við Íslendingar búum við svo ógæfusamlegt efnahags- og fjármálaástand, þrátt fyrir framleiðsluaukningu og stórbætta afurðasölu á erlendum mörkuðum, að ástæða er til að óttast hinar verstu afleiðingar, ef ekki tekst að finna nýja leið til úrbóta. Efnahagskerfið er svo gegnsýrt af verðbólgu- og dýrtíðaráhrifum, að hagsmunum almennings, atvinnuveganna og ríkissjóðs er stefnt í bráða hættu.

Forustumenn í atvinnumálum hafa kveðið upp dóma sína yfir ástandinu og þeir eru aðeins á eina lund: Verðbólgan er að sliga atvinnureksturinn. Það er sama, hvort það er formaður iðnrekendasambandsins, sem talar, eða forvígismenn útgerðar og fiskiðjufyrirtækja eða bændastéttarinnar. Öllum ber saman um, að hin óhagstæða verðlagsþróun innanlands sé höfuðmeinvættur atvinnulífsins til sjávar og sveita. Og dýrtíðin, sem flæðir yfir landið og skellur með ofurþunga á almenningi og heimilum launamanna lætur sig ekki án vitnisburðar. Sjálfur ríkissjóður er svo hart keyrður af völdum verðbólgunnar, að ríkisbúskapurinn hefur verið rekinn með miklum halla, svo nemur hundruðum milljóna króna, a.m.k. tvö síðustu árin. Er þó hvorki hlífzt við að leggja á nýjar álögur í ýmsu formi né skera niður framkvæmdafé, sem ríkissjóði er jafnvel skylt að lögum að inna af hendi. Slíkt er ástandið, þegar skyggnzt er undir yfirborðið. Við blasir versta óstjórn á mikilvægustu þáttum efnahagslífsins og algjört forustuleysi af hálfu ríkisstj. fyrir nauðsynlegum úrbótum.

Ég hóf mál mitt með því að minna á góðæriskaflann 1960–1966. Það er heldur ekki úr vegi að minna á aðra staðreynd, en hún er sú, að á þessu sama tímabili hefur ein og sama stjórnarsamsteypan farið með völdin í landinu. Allan þennan tíma hefur verið samstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. og valdaskeið þessara flokka nær, að kalla, yfir tvö kjörtímabil. Þeim hefur því gefizt óvenjugott tækifæri til að sýna, hvers af þeim má vænta í stjórnarháttum, og þá sögu þekkir þjóðin eftir öll þessi ár. Það var því meira en lítið undarlegt að heyra talsmenn ríkisstj. hér í kvöld, m.a. hæstv. utanrrh., sem yfirleitt er gætinn í orðum, halda því fram, að hið langa samstarf stjórnarflokkanna hefði leitt til farsællar niðurstöðu í efnahagsmálum. Hann og fleiri ættu þó að vita betur. Hann veit, að hæstv. ríkisstj. ræður ekki við hinn stórkostlega vanda efnahagslífsins og hið eina, sem bjargað hefur frá gengishruni, er metafli úr sjó og síhækkandi verð á afurðum okkar erlendis. Þessi staðreynd breytist ekki, hversu oft sem talsmenn stjórnarinnar fullyrða hið gagnstæða, eins og Sigurður Bjarnason gerði hér í ræðu sinni áðan.

Þegar núv. stjórnarflokkar komu til valda, lýstu forvígismenn þeirra yfir því, með talsverðum fyrirgangi, að höfuðviðfangsefni ríkisstj. og aðalmarkmið væri að reisa við efnahagslífið, viðhalda hallalausum ríkisbúskap og gæta efnahagslegs jafnvægis. Til þess þurfti fremur öðru að hafa hemil á verðbólgunni, enda fóru þeir ekki dult með, að verðbólgan væri sú meinvættur efnahagslífinu á hverjum tíma, sem kveða yrði niður án hiks og tafa. En hver er svo árangur 6 ára viðreisnarstjórnar? Er ríkisbúskapurinn rekinn hallalaus? Er verðbólgan stöðvuð? Er jafnvægi í efnahagslífinu? Öllum þessum spurningum hef ég þegar svarað neitandi. Við búum við helsjúkt efnahagskerfi, hraðvaxandi verðbólgu og óðadýrtíð, sem ekki sér fyrir endann á. Þótt hæstv. ríkisstj. sé þaulsætin, hefur hún fyrir löngu misst tökin á stjórn mikilvægustu landsmála. Hafi hún einhvern tíma haft trú á upphaflegum efnahags- og fjármálaaðgerðum sínum, er sú trú horfin fyrir löngu. Stöðvun verðbólgunnar er auðsjáanlega ekki lengur á stefnuskrá núv. ríkisstj. Fyrirhugaðar slóriðju- og hernaðarframkvæmdir útlendinga benda sízt til þess, að ríkisstj. geri sér grein fyrir ástandi efnahagsmálanna. Getur varla hjá því farið, að framundan sé hið æðislegasta kapphlaup um vinnuaflið í landinu milli innlendu atvinnuveganna og erlendu stóriðjunnar, sem gæti endað með algeru stjórnleysi á kaupgjaldsmálum og verðbólgu, sem enginn veit, hvern endi hefur.

Ég kem enn að þeirri spurningu, hvað verði um hag þeirra landshluta, sem búa við atvinnuerfiðleika og alltof litla fólksfjölgun. Getur nokkrum dulizt, að hinar miklu framkvæmdir útlendinga á aðalþenslusvæði landsins hljóti að hafa bein og óbein áhrif til hins verra gagnvart framförum í öðrum landshlutum, sem þegar hafa dregizt aftur úr um mannfjölda, félagslega aðstöðu og atvinnulíf. Nýstofnaður atvinnujöfnunarsjóður breytir því miður litlu í því efni, þó hann sé góðra gjalda verður út af fyrir sig. Akureyringar munu m.a. spyrja þeirrar spurningar, hver verði framtíð iðnaðarins á Akureyri, sem fram á síðustu ár hefur verið í allörum vexti og aukizt að fjölbreytni, enda hornsteinn atvinnulífsins í bænum og sú atvinnugrein, sem veitt hefur Akureyrarbæ mesta vaxtarmöguleika. Því miður hefur iðnaðurinn þar átt við örðugleika að etja um nokkurt skeið, eins og iðnaður landsmanna í heild, sem fyrst og fremst má kenna verðbólguþróuninni og óhagstæðri stjórnarstefnu. Ef áfram heldur sem horfir, vofir hætta yfir útflutningi iðnvarnings frá Akureyri, sem hafinn var fyrir nokkrum árum og veitt hefur miklar gjaldeyristekjur og ágæta atvinnu í bænum, en þannig er um atvinnulífið almennt. Það fær ekki staðizt til lengdar skefjalausa verðbólguþróun. Saga núv. ríkisstj. er vissulega meiri háttar hrakfallabálkur, sem auðvitað er harmsefni, því að þjóðin geldur þess, þegar illa er á málum hennar haldið, og eftirleikurinn verður þeim mun örðugri, sem óstjórn og og forustuleysi varir lengur, en jafnframt hefur komið í ljós, sem e.t.v. er verst af öllu, að forustulið stjórnarflokkanna virðist ekki þekkja þá lýðræðislegu leikreglu, að ríkisstj. beri að víkja úr valdastóli, þegar henni mistekst að koma málum sínum fram, eins og þau hafa verið boðuð. Þessi grundvallarregla lýðræðis og þingræðis er hvarvetna í heiðri höfð, nema þar sem pólitísk spilling er á háu stigi.

Góðir áheyrendur. Það er löngu kominn tími til breytinga á stjórnarháttum á Íslandi. Það er brýn þörf fyrir nýja forustu í landinu. Það er þörf fyrir samstillt átak og heilbrigða samstöðu milli stétta og stjórnmálaflokka um varanlegar úrbætur í efnahags- og fjármálum. Vandamál efnahagslífsins eru sem betur fer ekki óleysanleg, en ég fæ ekki séð, að þau verði leyst án víðtækrar samstöðu innan og utan Alþingis. Nýir menn verða að koma til sögunnar, ný viðhorf að skapast. Það skiptir ekki máli að deila um fortíðina. Nútíð og framtíð er hið eina, sem nokkru varðar í stjórnmálum. Við búum í ágætu landi. Auðugu að margs konar gæðum, sem ekki eru nýtt nema að litlu leyti. Þjóðin er ung og dugmikil og fús til framtaks og mennta. Þessum góðu eiginleikum hennar þarf að beina inn á jákvæða framfarabraut undir nýrri og samstæðri forustu. — Góða nótt.