03.05.1966
Sameinað þing: 45. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2634 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

Almennar stjórnmálaumræður

Helgi Bergs:

Herra forseti. Gott kvöld, góðir hlustendur. Það líður nú að þinglausnum. Um árabil hefur það verið siður að útvarpa eldhúsumræðum í þinglokin. Áður fóru eldhúsumræður fram í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna. Þá var þar gert upp, hversu mikið fé þjóðarheimilið hefði til ráðstöfunar og hvernig því skyldi varið. Þjóðarbúið á það sameiginlegt með heimilum landsmanna, að verja þarf takmörkuðum fjármunum til margvíslegra þarfa. Hversu mikið á að fara til daglegra útgjalda, hve mikið til að búa í haginn fyrir framtíðina, endurnýja og auka eignir, borga skuldir o.s.frv.? Það er eðlilegt, að sú venja hafi skapazt, að við þessar umr. séu aðferðir og aðgerðir í efnahags- og fjármálum teknar til rækilegrar meðferðar, eins og gert var hér í gærkvöldi og væntanlega verður gert aftur í kvöld.

Hverjir þættir fjármála og efnahagsmála skyldu nú helzt vera til umræðu í eldhúsum landsins um þessar mundir? Varla mun áhættusamt að geta sér þess til, að það muni vera dýrtíðarmálin. Húsmæður landsins berjast daglega hetjulegri baráttu til að láta eldhúspeningana endast, en það er við ofurefli að etja. Krónurnar, sem entust í marz, entust ekki í apríl og þær, sem entust í apríl, munu ekki endast í maí. Heimilisfeðurnir ganga til vinnu sinnar og einnig þeir berjast sömu baráttu við ásókn dýrtíðarinnar. Svör þeirra við ásókn hennar eru einbeitt og æðrulaus. Þeir lengja vinnutíma sinn og leggja meira á sig til að draga fleiri krónur í bú. Vinni þeir við framleiðsluatvinnuvegina, standa þeir einnig í sama stríði fyrir þeirra hönd. Dýrtíðin tærir í sífellu fjárhagslegan grundvöll framleiðslunnar og þar með framtíðaröryggi þeirra og fjölskyldna þeirra. Dýrtíðin hefur nú aukið svo tilkostnað við landbúnaðarframleiðsluna, að verðlagningargrundvöllurinn er hruninn og bændur sjá fram á rýrari hlut. Sjávarútvegurinn býr, þrátt fyrir mikil aflabrögð á síldveiðum, stórhækkandi verðlag á útflutningsafurðum og dugnað og ósérhlífni sjósóknara, við þau skilyrði, að árlega verður að gera skyndiráðstafanir til að veita uppbætur á fiskverðið. Iðnaðurinn býr við vaxandi erfiðleika og forustumenn hans draga ekki fjöður yfir orsakir þess. Í s.l. viku hélt formaður iðnrekendafélagsins ræðu, þar sem hann sagði m.a.: „Hin geigvænlega verðbólga hefur lent með öllum sínum þunga á íslenzkum iðnfyrirtækjum, sem með stórhug og bjartsýni hafa byggt upp framleiðslu sína með útflutning fyrir augum. Og ekki síður á þeim iðnfyrirtækjum, sem engrar eða lítillar tollverndar njóta og keppa við alfrjálsan innflutning. Tollvernd þeirra iðnfyrirtækja, sem hennar hafa notið, hefur farið síminnkandi og er sums staðar beinlínis orðin að engu af völdum hins sívaxandi innlenda tilkostnaðar. Iðnaður okkar hefur þurft að mæta hinum aukna innlenda framleiðslukostnaði eftir beztu getu með því að grípa til aukinnar hagræðingar, aukinnar vélvæðingar og sjálfvirkni. En með þeim hraða, sem kostnaðarhækkanir hafa átt sér stað að undanförnu, eru því takmörk sett, hversu lengi dugir að grípa til slíkra ráðstafana. Ég vil afdráttarlaust fullyrða, að verðbólgan sé aðalvandamál íslenzks iðnaðar í dag.“ Þetta sagði formaður iðnrekenda.

Þá verður dýrtíðarinnar ekki síður vart í ríkisbúskapnum, þó að erfiðleikar hans eigi, eins og kunnugt er, fleiri orsakir og þá fyrst og fremst þau efnahagslegu lausatök og fjármálalega fálm, sem tíðkazt hefur í seinni tíð. Árið 1964 var greiðsluhalli ríkissjóðs 258 millj. kr., þó ríkistekjurnar færu annað eins og það fram úr áætlun. Reikningar ársins 1965 liggja ekki fyrir, en gert er ráð fyrir nokkru minni halla á því ári, enda hefur í millitíð verið gripið til þess að skera enn niður fjárveitingar til opinberra framkvæmda, en einnig það hefur sínar afleiðingar á ýmsum sviðum. Á undanförnum árum, þegar viðskiptakjör okkar hafa farið stórbatnandi og þjóðartekjur þar af leiðandi sívaxandi, hrannast opinber framkvæmdaverkefni upp og bíða óleyst. Skólarnir í þéttbýlinu eru tvísettir og þrísettir og í dreifbýlinu skortir þá sums staðar alveg til ómælds tjóns fyrir skólaæskuna. Talsvert miklu fé hefur hins vegar verið varið til sjúkrahúsbygginga, enda ekki vanþörf á, en þessu fé hefur verið svo óskynsamlega dreift að þess sér fáa staði. Hálfbyggðir sjúkrahússkrokkar verða að vísu fleiri og fleiri, en fáum er lokið og þessi ónotuðu verðmæti standa fyrir allra augum og minna á þá óstjórn í framkvæmdamálum, sem við búum við. En þær kröfur, sem gera verður til þessa þáttar heilbrigðisþjónustunnar á síðari hluta 20. aldar, standa enn óuppfylltar.

Strandferðaþjónustan hefur smátt og smátt verið að fara í niðurníðslu á undanförnum árum. Skipin hafa verið að ganga úr sér og henta ekki nýjum verkefnum nýrra tíma. Af hálfu þingmanna Framsfl. hafa verið hafðar uppi kröfur um endurnýjun flotans, en þeim hefur ekki verið sinnt. Nú berast þau tíðindi að selja eigi tvö af skipum útgerðarinnar, án þess að nokkuð nýtt eigi að kaupa í staðinn. Ríkisútvarpið hafði það eftir sjútvmrh., að strandferðaþjónustan mundi eftir sem áður verða óbreytt, en það hefur ráðh. nú varla sagt. Hann er svo skarpskyggn maður, að hann sér það í einni sjónhendingu, að óbreytt geti hún ekki verið, ef skipunum fækkaði um tvö. Hins vegar mun hann hafa sagt eitthvað á þá leið, að það eigi að veita nægilega góða þjónustu með minni tilkostnaði. Þá er bara eftir að vita, hvað talin er nægilega góð þjónusta handa því fólki, sem þrjózkast við kalli viðreisnarinnar og heldur áfram að byggja strendur og eyjar þessa lands.

Útlitið í vegamálum er ekki björgulegt. Verkefni á því sviði eru mörg víðs vegar um landið. Stærst og fjárfrekust eru verkefni í hraðbrautunum, sem ekki verður með neinu móti undan ekizt að takast á við nú þegar, því sú fjármunasóun, sem er fólgin í því að eyða hundruðum millj. til viðhalds úrelts vegakerfis og að eyðileggja þúsundir farartækja fyrir aldur fram á hálfófærum vegum, er meiri en við eigum að leyfa okkur. Samt lét fjmrh. þess getið í skýrslu, sem hann flutti á Alþ. á miðvikudaginn var, að fjárhagsgrundvöll skorti að mestu til byggingar hraðbrautanna og óráðlegt væri að byrja nú á nýjum meiri háttar vegaframkvæmdum, þetta þyrfti allt að athuga betur. Í meðmælum, sem vegamálastjóri sendi fjhn. Ed. með frv., sem við framsóknarmenn fluttum um aukið fé til vegabygginga, segir hann m.a.:

„Í grg. með frv. er réttilega á það bent, að tekjustofn vegasjóðs skv. vegalögum hrökkvi mjög skammt til lausnar þess verkefnis, sem fram undan er í vegamálum og vegalög beinlínis mæla fyrir um, en það er lagning hraðbrauta með varanlegu slitlagi á þeim vegum, þar sem ætla má, að umferð yfir sumarmánuðina verði 1000–10000 bifreiðir á dag innan 10 ára. Þessir vegir eru í gildandi vegáætlun taldir alls um 148 km vegalengd, en af þeim eru taldar fullgerðar hraðbrautir um 42 km og í raun réttri þó aðeins um 37 km, en það er Reykjanesbrautin, en sá vegur er að mestu leyti byggður fyrir lánsfé. Umferðartalning s.l. 2 ár bendir til þess, að hraðbrautir skv. 12. gr. vegalaga muni við endurskoðun á vegáætlun lengjast um a.m.k. 200 km, þar sem við hraðbrautir munu bætast langir vegakaflar, eins og t.d. Vesturlandsvegur frá Þingvallavegamótum að vegamótum við Borgarnesbraut, enn fremur Borgarnesbraut, Akranesvegur, Þingvallavegur, Suðurlandsvegur frá Selfossi að Skeiðavegamótum, auk ýmissa stuttra vegakafla við Akureyri, Egilsstaði og víðar. Þá eru og óleyst óhemju verkefni við lagningu þjóðbrauta og landsbrauta og byggingu nýrra brúa og endurbyggingu gamalla brúa, eins og nánar var rakið í grg. með till. til vegáætlunar fyrir árin 1965–1968.“

Þetta var úr bréfi vegamálastjóra og þar segir enn fremur, að vextir og afborganir vegna lánsfjár, sem notað hefur verið til vegagerðar seinustu árin, nemi nú 54% af því fé, sem samkv. vegáætlun er varið til nýrra þjóðvega og brúargerða. Hvað verður með þessu sama áframhaldi langt þangað til það fer allt í vexti og afborganir? Af þessu er auðvitað strax augljóst, að stórauka verður framlög til vegamála. En fjmrh. segir nei. Það verður að bíða. Sóunin verður að halda áfram, það skortir fjárhagsgrundvöll til að hætta henni.

Þetta eru aðeins nokkrir þættir af sviði opinberra þjónustuframkvæmda. Og allt er það á eina lund. Einmitt núna eru verkefnin látin hrannast upp í stað þess að nota tækifærið í góðærinu til að leysa þau. Og kostnaðinum af því, sem gert er, er í vaxandi mæli velt yfir á framtíðina. 54% af fjárveitingum til nýbygginga vega fer til að greiða vexti og afborganir og þessi hluti fer sívaxandi ár frá ári. Svipaða sögu er að segja af öðrum þáttum opinberra framkvæmdamála. Einmitt núna telur ríkisstj., að við séum ekki menn til að borga fyrir verkefni samtímans af samtímatekjum. Þetta er allt svo erfitt og snúið einmitt núna. Í umr., sem fram hafa farið hér á Alþ. um þessi efni í vetur, hafa menn verið sammála um, að dýrtíðin ætti verulegan þátt í því, hvað þjóðarbúinu gengur illa að sinna skyldum sínum við þegnana. Menn hafa síður verið sammála um hitt, hvern þátt hin alkunna óstjórn í efnahagsmálum á í þessu, því stjórnarliðar hafa reynt að berja í brestina. En spurningin um það, af hverju dýrtíðin er svo taumlaus, leitar á. Orsakir dýrtíðarþróunarinnar eru að sjálfsögðu margvíslegar. M.a. er þær að finna í greiðsluhalla ríkisins undanfarin ár, en greiðsluhallinn hjá ríkissjóði á þenslutímum er jafnan alvarlegur verðbólguvaldur. Þessi greiðsluhalli hefur átt sér stað þrátt fyrir niðurskurð fjárveitinga til opinberra framkvæmda, sem aftur hefur leitt til þess, að hlutur erlends lánsfjár í framkvæmdum hér innanlands hefur farið vaxandi, en erlent fé til framkvæmda hér innanlands hefur einmitt hliðstæð áhrif á verðlagsþróunina og greiðsluhalli hjá ríkissjóði. Þannig ýtir efnahagsmálaóstjórnin undir dýrtíðarþróunina og vitahringurinn lokast nettlega í kringum okkur.

Ríkisstj. hefur ekki ráðið við það verkefni sitt, sem hún áður taldi það veigamesta, að stemma stigu við dýrtíðinni og þegar það er nú orðið svo ljóst, að ekki verður dulið, að hún hefur í rauninni gefið frá sér allt viðnám gegn dýrtíðinni, fara að gægjast fram nýstárlegar skoðanir. Er þetta nú svo með öllu illt, að það boði ekki nokkuð gott? Upp á síðkastið virðast sumir stjórnarliðar hafa öðlazt nýjan skilning á þessum vanda. Gleymd eru landsfleyg orð látins forustumanns um það, að allt sé unnið fyrir gýg, ef ekki takist að hemja dýrtíðina. Dýrtíðin er hreint ekki svo slæm, segja þessir brautryðjendur nýrra viðhorfa. Hún byggir hús fyrir fólk. Eitt stjórnarblaðanna birti fyrir nokkru í ritstjórnargrein lítið ævintýri, sem á að ylja landsmönnum um hjartað, því góðvilji þeirra til ungs og myndarlegs framtaksfólks er hafinn yfir vafa. Þar sagði frá ungri reykvískri húsmóður, sem varð fyrir þeirri bitru reynslu, að fógetinn barði að dyrum. Það átti að selja nýju íbúðina hennar, sem hún hafði ásamt manni sínum lagt nótt með degi til að koma upp í svita síns andlitis. Draumur margra ára um eigin íbúð fyrir ungu fjölskylduna hafði rætzt fyrir dugnað og þrautseigju þeirra hjóna, en það þurfti sífellt meira og meira til hnífs og skeiðar. Fjárhagurinn var erfiður og það hafði dregizt úr hömlu að borga af. Örvingluð leitaði þessi unga kona á vit bónda síns og sjá, hvað hann sagði: Hættu að gráta, hringagná. Þeir vísufeður,sem vaka yfir þörfum landsins barna, hafa séð við vandanum. Þeir hafa hækkað ýsuna um 54% og þorskinn um 79% og brauðin og smjörlíkið munu hækka líka. Vísitöluuppbótin mun stórhækka. Þá yrðu þau nú ekki í vandræðum með þessar afborganir og mundu skjóta fógetaskömminni ref fyrir rass. Og ungu hjónin féllust í faðma fögnuðu og sungu lof og dýrð. Þannig endaði þetta litla sólskinsævintýri.

Loks er hér fundin endanleg lausn á þeim vanda, hvernig ungt fólk á að eignast íbúðir. Hún er að vísu ekki alveg ný, en sjálfsagt tímabært að hún fái almenna og opinbera viðurkenningu, segja boðberar hins nýja skilnings. Það eru bara úrtölumennirnir, sem eru með efasemdir. Þeir spyrja: Hafa skapazt einhver ný verðmæti við vísitöluhækkunina? Hvaðan komu þeir fjármunir, sem hinum ungu húseigendum bættust? Hafði kannske einhver annar orðið fyrir tjóni? Þeir halda því fram, að það sé bæði hentugra og heiðarlegra að haga tekjuskiptingunni þannig, að ætla ungu fólki þær tekjur, að það geti greitt íbúðir sínar, en að láta dýrtíðina flytja fjármuni ómælda úr vasa eins í vasa annars. Þeir halda því enn fremur fram, að það sé þjóðhættuleg skemmdarstarfsemi, þegar þeir, sem betur vita, reyna að læða þeirri skoðun inn hjá fólki, að heil kynslóð geti grætt á dýrtíðinni. En burt með allar efasemdir, segja dýrtíðarpostularnir. Nýja fagnaðarerindið skal ríkja eitt. Hækkum ýsuna. En laun heimsins eru vanþakklæti. Þegar launþegar Reykjavíkur fylktu liði á hátíðardegi verkalýðsins í fyrradag, báru þeir engin spjöld, sem á voru letruð þakkarávörp til ríkisstj. fyrir dýrtíðina í landinu. Þvert á móti segir í ávarpi fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna, sem er þó að meiri hluta skipað flokksmönnum ríkisstj.:

„Því fer mjög fjarri, að verkafólk hafi fengið þann hlut, sem því ber, af stórhækkuðum þjóðartekjum í raunverulegum kauphækkunum fyrir eðlilegan vinnutíma. Því veldur verðbólgan, sem hefur fært til fjármuni í þjóðfélaginu verkafólki í óhag og raskar í sífellu öllum kjarasamningum. Verkalýðssamtökin líta það mjög alvarlegum augum, að margítrekuð loforð ríkisstj. um stöðvun verðbólgunnar hafa reynzt marklaus og má þar minna á síðustu verðhækkanir á brýnustu lífsnauðsynjum almennings, sem bitna harðast á tekjulágum barnafjölskyldum.“

Margítrekuð loforð ríkisstj. hafa reynzt marklaus. Skyldi það hafa verið þetta, sem Jón Þorsteinsson hafði í huga, þegar hann ræddi hér í gærkveldi um batnandi sambúð ríkisstj. og verkalýðsins? Og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja gerir það að einni sinni aðalkröfu 1. maí, að raunhæfar ráðstafanir séu tafarlaust gerðar gegn verðbólgunni, svo skilningslausar eru launþegastéttirnar á hinn nýja dýrtíðarboðskap. En þeim til huggunar, sem á hann kunna að trúa, en þó fyrst og fremst okkur hinum til viðvörunar, verður það að segjast, að ekkert útlit er fyrir það, að dýrtíðarflóðinu linni í bráð. Opnað hefur verið fyrir straum erlends fjármagns inn á fullskipaðan íslenzkan framkvæmdamarkað. Ofan á ýmsar bráðnauðsynlegar stórframkvæmdir okkar sjálfra, svo sem virkjunarframkvæmdir, sem með engu móti verður á frest skotið, er ráðizt í stórfelldar hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði og svo á að byggja útlenda verksmiðju suður við Straum fyrir 2500 millj. kr. Ekki munu þær kr. þó allar koma fram sem eftirspurn á innlendum framkvæmdamarkaði, því talsvert af þeim fer fyrir innfluttar vélar og tæki, en þó mun nægilega stór hluti þeirra koma þannig fram, til þess að dýrtíðarpostulunum verði tryggð gullöld og gleðitíð enn um árabil.

Við framsóknarmenn höfum alltaf talið og teljum enn, að erlend stóriðja sé í sjálfu sér engin lausn á vandamálum í atvinnuþróun okkar Íslendinga og komi því aðeins til greina sem liður í skipulagðri framkvæmd heildaráætlunar í atvinnu- og efnahagsmálum, þ. á m. áætlunar um skipulega dreifingu atvinnutækjanna um byggðir landsins. Nú liggur engin slík áætlun fyrir og ríkisstj. er stefnulaus í atvinnu- og efnahagsmálum, en verksmiðjuna á nú að byggja, þar sem eftirspurn okkar sjálfra eftir vinnuafli er mest. Við höfum talið og teljum enn, að erlendur aðili, sem leyfi fær til reksturs á Íslandi, eigi að lúta íslenzkum lögum í einu og öllu og þá um leið íslenzkri lögsögu. En nú eigum við að fá erlendan gerðardóm yfir íslenzkt ríkisvald og íslenzkar stofnanir. Við höfum alltaf talið og teljum enn, að raforkusala til erlendrar stóriðju yrði a.m.k. að standa að sínu leyti undir virkjunarkostnaði í landinu á hverjum tíma. En nú á hún aðeins að standa að sínu leyti undir ódýrustu virkjun, sem möguleg er á Íslandi, ef það þá stenzt, og á að njóta hennar í 45 ár, meðan við megum virkja dýrar fyrir okkur sjálf. Ekkert af þessum meginskilyrðum okkar er uppfyllt við þá samningagerð, sem nú er lokið. Við teljum samninginn í sjálfu sér mjög slæman og ýmis ákvæði hans hættuleg fordæmi í framtíðinni. Þess vegna greiddu allir þingmenn Framsfl. atkv. með því að vísa samningnum frá eða fella hann.

Við búum við alvarlegan skort á vinnuafli. Vinnuaflið nægir okkur engan veginn til að koma í framkvæmd því, sem gera þarf. Þetta stafar m.a. og ekki sízt af því, að við erum ekki nægilega vel búin tækni og vinnusparandi vélum til þess að geta afkastað eins miklu og þær þjóðir, sem lengst eru komnar í þessum efnum. Á undanförnum árum óvenjulegra aflabragða og hagstæðs verzlunarárferðis hefur okkur safnazt nokkur gjaldeyrisforði, sem að vísu er minni en aukning erlendra skulda á sama tíma, en hefur þó þann kost að vera handbær. Og það er hægt að kaupa fyrir hann fleira en súkkulaðikex. Það er t.d. hægt að kaupa fyrir hann fullkomnari vélar og tæki en við ráðum nú yfir til að auka afköst okkar og framleiðni, en til þess verður að haga fjármálastefnunni hér innanlands þannig, að menn geti keypt slík tæki, en því hefur ríkisstj. ekki fengizt til að sinna, þrátt fyrir ítrekaðar kröfur okkar framsóknarmanna. Það verður að efla og treysta atvinnulífið og laða og hvetja til djarflegra átaka í stað þess að drepa það í dróma með fálmkenndum og óskynsamlegum aðgerðum í peningamálum, meðan þúsundum millj. af erlendu fjárfestingarfé er dembt yfir innlendan framkvæmdamarkað. Ríkisstj., sem ekki vili skilja þetta, ríkisstj., sem slær slöku við opinber framkvæmdaverkefni samtíma síns, ríkisstj., sem gefið hefur frá sér seinustu slitrin af viðleitni til að veita dýrtíðinni viðnám, á að fara frá og rýma fyrir annarri nýrri.