03.05.1966
Sameinað þing: 45. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2676 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

Almennar stjórnmálaumræður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér í þessum umr. að ræða álbræðslusamninginn, ég hef gert það mjög ítarlega hér áður í þingsölunum í alþjóðar áheyrn. En út af ræðu Alfreðs Gíslasonar, sem var að ljúka máli sínu rétt áðan, vil ég segja þetta.

Hann segir, að það sé vítavert gáleysi að haga ekki vörnum við álbræðsluna, eins og í öðrum siðmenntuðum löndum, gagnvart útblæstri frá henni. Hér á engan útbúnað að hafa, segir hv. þm. Þetta er rangt. Í 12. gr. álbræðslusamningsins segir, að íSAL sé skylt að gera ráðstafanir, eðlilegar ráðstafanir til þess að draga úr og hafa hemil á skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum.

Og 13. gr. segir á þessa leið: að ÍSAL skuli byggja, útbúa og reka bræðsluna og halda henni við, í samræmi við núgildandi og síðari lög og reglur á Íslandi varðandi öryggi í atvinnurekstri, heilbrigði og hreinlæti og skal í þessum efnum vera háð eftirliti opinberra stofnana, sem ábyrgð bera á framkvæmd á slíkum reglum. Þetta hef ég margtekið fram, bæði í Nd. og Ed. Það er mín skoðun, að það sé gáleysi hjá lækni að reyna að vekja að ástæðulausu ótta hjá almenningi um það, að til standi að láta yfir hann rigna banvænu eitri.

Bændurnir gefast upp og jarðirnar fara í eyði, var sagt hér í gærkvöldi af einhverjum talsmanni Framsfl. Það var ekki sami bölmóðurinn í bóndanum af Vatnsnesinu, sem benti með réttu á hinar almennu framfarir og efnahagsþróun í sveitum landsins, sem lýsa sér í vaxandi ræktun, fögrum húsum og bifreiðum til heimilisþarfa. En barlóminn höfum við mátt heyra hér í umr. frá stjórnarandstæðingum, jafnhliða hjartnæmum lýsingum á því, hversu innilegt dálæti ríkisstj. hefði á verðbólgunni, sem hún magnaði sí og æ, að því er virtist með einhverjum undraráðum, til þess að geta jafnan verið reiðubúin að sleppa þessari ófreskju lausri á alþýðu manna, svo að þeir ríku fengju matað krókinn á kostnað þeirra fátæku og annarra, sem minna mættu sín.

En ekki ferst þeim öllum eins, stjórnarandstæðingum. Form. Framsfl., Eysteinn Jónsson, sagði, að alls staðar biðu framtakssamir athafnamenn með viðfangsefni og áform til stórræða og framfara í atvinnulífi og uppbyggingu. En lengra komst hann ekki, þá var kominn þrándur í götu, ríkisstjórnin, sem gerði mönnum allt til miska, svo að framþróunin mætti mistakast. Hann væri að vísu alltaf að benda mönnum á hina leiðina, sem mundi reynast greiðfær, en þetta létu menn sér ekki skiljast.

Eftir að Hannibal hafði hér í gærkvöldi flutt sínar hjartnæmu sumaróskir um ýsuflökin, fræddi flokksbróðir hans, Ragnar Arnalds, okkur á því, að Íslendingar bæru nú úr býtum þriðju hæstu þjóðartekjur í Evrópu. Það hefur sjálfsagt verið til þess að árétta enn frekar vitnisburð form. þeirra, Lúðvíks Jósefssonar, í nál. hans um álmálið, með leyfi hæstv. forseta: „að aldrei áður hafi þjóðin haft jafnmikla og góða möguleika til mikilla framkvæmda og framfara,“ eins og þar stendur. Það slær út í fyrir öðrum stjórnarandstæðingum. Þeir segja, að viðreisnin sé rokin út í veður og vind. Ríkisstj. og hennar lið sé búið að gleyma áformum sínum. Samt áréttaði hæstv. forsrh. yfirlýsingu Ólafs Thors frá 20. nóv. 1959 hér á Alþ., um meginstefnu viðreisnarstjórnarinnar, þegar hún var mynduð, en þar segir svo:

„Það er meginstefna ríkisstjórnarinnar að vinna að því, að efnahagslíf þjóðarinnar komist á traustan og heilbrigðan grundvöll, þannig að skilyrði skapist fyrir sem örastri framleiðsluaukningu, allir hafi áfram stöðuga atvinnu og lífskjör þjóðarinnar geti í framtíðinni enn farið batnandi.“

Þetta var meginstefnan orðrétt. Enn fremur sagði Ólafur Thors í stefnuyfirlýsingunni fyrir nærri 7 árum: „Til þess að tryggja, að þær heildarráðstafanir, sem gera þarf, verði sem réttlátastar gagnvart öllum almenningi, hefur ríkisstj. ákveðið — — og nú eru taldir fjórir töluliðir.

Í fyrsta lagi að hækka verulega bætur almannatrygginganna, einkum fjölskyldubætur, ellilífeyri og örorkulífeyri. Kannast hv. þm. stjórnarandstöðunnar ekki við, að svo hafi verið gert?

Í öðru lagi að afla aukins lánsfjár til íbúðabygginga almennings. Um það vissi þó Hannibal, sem taldi tvo liði, sem ríkisstj. hefði lögfest og ykju eigin tekjur byggingarsjóðs nú um 130 millj. kr. árlega og að með öðrum ráðstöfunum ríkisstj. hefði verið tryggt, að húsnæðismálastjórn gæti nú sinnt lánbeiðnum með lánveitingum eftir hendinni, eins og hv. þm. orðaði það.

Þetta eru furðumikil umskipti frá því sem áður var. Í þriðja lagi að koma lánasjóðum atvinnuveganna á traustan grundvöll. Kannast nokkur við það? Ný löggjöf hefur verið sett um stofnlánadeild landbúnaðarins. Ný löggjöf og reglugerðir um stofnlánadeild sjávarútvegsins og nú sameining við Fiskveiðasjóð. Bæði varðandi landbúnað og útgerð er áður búið að breyta lausaskuldum í föst og hagkvæm lán. Stórefling iðnlánasjóðs og ný löggjöf hefur verið sett á þessu þingi með fimmföldun árlegs ríkissjóðsframlags og ráðagerðum um nýjan hagræðingarlánaflokk. Lög frá þessu þingi um stofnlánasjóð verzlunarinnar, lög um atvinnujöfnunarsjóð, sem er sérstakur framkvæmdasjóður strjálbýlis jafnframt öðrum stofnlánasjóðum.

Þá er fjórði liðurinn að endurskoða skattakerfið með það fyrir augum fyrst og fremst að afnema tekjuskatt á almennar launatekjur. Þetta veit almenningur, að gert hefur verið auk margháttaðra annarra endurbóta á sviði skattamála, bæði ríkis og sveitarfélaga.

Svona er meginstefnan og fjórir liðirnir til þess að tryggja réttláta framkvæmd gagnvart almenningi, sem Ólafur Thors boðaði þjóðinni í nóv. 1959, þegar viðreisnarstjórnin tók við, en það voru heitstrengingar um að ráða niðurlögum dýrtíðarinnar, hafa þm. verið að segja, og nú er þeim gleymt. Hvað segir þá um þetta í yfirlýsingu Ólafs Thors? Eftir að meginstefnu er lýst, segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Í því sambandi leggur ríkisstj. áherzlu á, að kapphlaup hefjist ekki á nýjan leik milli verðlags og kaupgjalds og þannig sé haldið á efnahagsmálum þjóðarinnar, að ekki leiði til verðbólgu.“ Þannig hljóðaði sá boðskapur, og sannarlega hafa stjórnarandstæðingar ekki ásakað ríkisstj. fyrir að hafa ekki þannig haldið á efnahagsmálum þjóðarinnar, að þær ráðstafanir væru ekki miðaðar við að draga úr verðbólgu. Hv. hlustendur hafa heyrt í þessum umr. og fyrr og siðar harmakvein stjórnarandstæðinga um vaxtaokur, sem þeir svo kalla, tilbúna lánsfjárkreppu ríkisstj., ef ekki lánsfjárbann til þess að hamla gegn verðþenslu. Bindingu sparifjár í Seðlabankanum gleyma þeir ekki að fordæma, en skyldi það hafa haft nokkur áhrif á verðbólguvöxtinn eða kannske dregið úr honum, að lagður hefur verið til hliðar nokkur hluti þeirrar sexföldunar sparifjár þjóðarinnar, sem orðið hefur í tíð viðreisnarstjórnarinnar? Mundi það vera til meins að hafa lagt til hliðar meira en tvö þúsund millj. króna í gjaldeyrisinnstæðu erlendis?

Þá má spyrja um kapphlaupið milli verðlags og kaupgjalds, sem í viðreisnaryfirlýsingunni er lögð áherzla á, að hefjist ekki. Það hefur því miður ekki stöðvazt, það er rétt, en er það ríkisstj., sem þar er hinn mikli sökudólgur? Hver skyldu hafa verið síðustu viðfangsefni Ólafs Thors í forystu á vettvangi stjórnmálanna haustið 1963? Var það ekki tilraun hans til þess að stöðva þetta kapphlaup með löggjöf og endaði sú tilraun ekki með sáttaorðum og settum griðum í bili, ef menn gætu náð sáttum á frjálsum grundvelli, áður en hann örþreyttur og farinn að heilsu lét af stjórnarforystu?

Upp úr áramótum 1963 og 1964 óttuðust margir um gengi íslenzku krónunnar eftir þær stökkbreytingar á kaupgjaldinu, sem átt höfðu sér stað á árinu 1963, og verðbreytingar fylgdu að sjálfsögðu í kjölfarið. Menn tala ekki nú um hættuna á gengisfalli. Fátt hefur átt meiri þátt í því, að svo er, en júnísamkomulagið svokallaða 1964, þegar forsrh. og öðrum fulltrúum ríkisstj. tókst að sætta saman sjónarmið atvinnurekenda og launþega, að sjálfsögðu vegna gagnkvæms skilnings og ábyrgðartilfinningar beggja aðila, en allir þeir, sem hlut áttu að máli, hafa hlotið fyrir verðskuldað lof. Júlísamkomulagið 1965 var spor á sömu braut, en náði skemmra. Það er alrangt hjá Þórarni Þórarinssyni, sem talaði hér áðan, að síðan Bjarni Benediktsson varð forsrh. hafi dýrtíðin vaxið hvað mest. Áhrifin frá júnísamkomulaginu slógu einmitt með verulegu afli á verðbólguvöxtinn og engum einum manni var það fremur að þakka heldur en einmitt hæstv. forsrh. En það benti enginn við þessar aðgerðir á hina leiðina hins vegar, enda leiðsaga Framsóknar víðs fjarri í báðum tilfellum, og þess varð heldur ekki vart, að hennar væri saknað. Þm. þess flokks ættu við þessar umr. að spara sér slóryrðin um verðbólguvöxtinn, sem sé ríkisstj. að kenna. Það kynnu að berast að þeim sjálfum böndin og ekki þyrfti nákvæma leit til þess að hitta þá sjálfa eða talsmenn þeirra fyrir í þeim till. og ráðagerðum undanfarinna ára, sem verst hafa gefizt og fram eru settar til þess að auka vandræði, en ekki til þess að miðla málum eða stuðla að jafnvægi og festu til hindrunar dýrtíð og verðbólgu.

Það hefur aldrei verið meiri gróska í sjávarútvegi landsmanna en undanfarin ár. Fer þar saman árgæzka, áræði og dugnaður samfara lánstrausti erlendis og efling fjárfestingarsjóða innanlands, sem reynzt hafa megnugir að rísa undir hinni miklu lánsfjárþörf. Á fimm ára tímabilinu 1954–1958 voru keyptir til landsins sem svarar 80 hundrað smálesta bátar, á næsta fimm ára tímabili, 1959–1963, sem svarar 240 hundrað smálesta bátar, en ekki 80 og 1964 voru keypt fiskiskip samtals 8000 smálestir, en það samsvarar 400 hundrað smálesta bátum á fimm ára tímabili. Það er ekki að furða, þótt hv. 1. þm. Austf. (EystJ) hafi í gærkvöldi verið að lýsa því fyrir hlustendum, að það væri eitt af aðaláhugamálum ríkisstj. að hindra menn í að kaupa fiskiskip.

Kaupskipaflotinn hefur aukizt um 20% á nokkrum síðustu árum. Stálskipasmíði er hafin með myndarbrag í landinu sjálfu, og hefur ríkisstj. stuðlað að því eftir föngum og mun stefna að því að efla þessa atvinnugrein. Gömlu dráttarbrautirnar eru í endurbyggingu og þróttmiklar nýbyggingar. Stórvirkar vinnuvélar leysa mannshöndina frá stritinu, og vélvæðingin heldur áfram hröðum skrefum. Flugflotinn hefur tvöfaldazt, bifreiðaeign landsmanna fer sívaxandi, sett ný vegalög og samgöngukerfið stórlega bætt og aukið. Byggðar hafa verið síldarverksmiðjur fyrir austan og sunnan fyrir 200–300 millj. kr. á einum þremur árum, og stórfelldar byggingarframkvæmdir nýrra verksmiðja og endurbætur ráðgerðar í sumar. Keypt síldarflutningaskip og ráðgert, að fleiri verði keypt. Verið að byggja síldarleitarskip, hafrannsóknarskip og tilbúið útboð í byggingu nýs varðskips til landhelgisgæzlunnar, sem kostað geti um 80–90 millj. króna. Nýtízkulegt sementsflutningaskip nýkomið til landsins og jafnframt ráðagerðir um skipulagðar stórframkvæmdir Sementsverksmiðju ríkisins við Ártúnshöfða á næstu fjórum árum, þar sem byggð verði birgðastöð og geymsla fyrir laust sement.

Framkvæmdir samkvæmt Vestfjarðaáætlun eru þegar hafnar og m.a. aflað erlends lánsfjár til þeirra frá viðreisnarsjóði Evrópu. Norðurlandsáætlun er í undirbúningi á vegum Efnahagsstofnunarinnar, en hvort tveggja er vottur nýrra vinnubragða um alhliða uppbyggingu í byggðum landsins, sem ætlað er að framkvæma að yfirlögðu ráði í samræmi við áætlunargerð, miðað við þarfir og getu og framtíðarmöguleika landshluta og fjórðunga.

Löggjöf hefur verið sett á þingi til að bæta úr fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins og tryggja áframhaldandi rafvæðingu landsins. Lögin um Landsvirkjun voru afgr. á síðasta þingi og nú eru að hefjast framkvæmdir við stórvirkjun í Þjórsá, stærsta fallvatni landsins.

Ég hef aðeins minnt hér á nokkur framfara- og framkvæmdamál til áréttingar vitnisburði stjórnarandstæðinga þeirra, sem vitnuðu um velgengnina og framþróunina í landinu, og ber að skoða það jafnhliða málflutningi stjórnarsinna í þessum umr. Verður þá svo ljóst sem verða má, að viðreisnin er ekki rokin út í veður og vind eins og framsóknarmenn bera sér í munn. Nei, þvert á móti, viðreisninni er lokið. Hin efnahagslega viðreisn, sem lofað var, er orðin að veruleika. Höft hafa verið afnumin, viðskipta- og athafnafrelsi tekið við, vöruval almennings er sívaxandi, tollakerfið endurbætt í grundvallaratriðum og stefnt að lækkun tolla, lánstraust erlendis er endurvakið. Á grundvelli þessarar efnahagsviðreisnar og velmegunar íslenzku þjóðarinnar, sem liggur fyrir, er nú hægt og verið að byggja bjartari framtíð. Stóriðja með byggingu álbræðslu við Straumsvík er að verða að veruleika með rafmagnskaupum úr hinu mikla orkuveri, sem byggja skal í Þjórsá við Búrfell, og byggingu stórskipahafnar í Straumsvík. Kísilgúrverksmiðja verður byggð við Mývatn, unnin útflutningsverðmæti úr botnleðjunni með varmaorku frá Námaskarði, lagður nýr vegur til þungaflutninga stytztu leið til Húsavíkur, sem verður afskipunarhöfn og þar heimilisfang sölufyrirtækis á heimsmarkaðinum. Ný tæknikunnátta flyzt inn í landið og verður aflgjafi nýrrar, almennrar iðnþróunar, járnbræðsla, stálbræðsla, álvinnsla, olíuhreinsun og efnaiðnaður, m.a. úr verðmætum sjávarins og náttúrunnar, verða verkefni framtíðarinnar samhliða vexti sjávarútvegs, iðnaðar, landbúnaðar, siglinga og flutninga á landi og í lofti og verzlunar, eins og við höfum átt að venjast og eins og þessar atvinnugreinar munu þróast við kall tímans til nýrra átaka til öryggis fyrir komandi kynslóðir Íslands.

Við blasir framtíð lítillar þjóðar, sem með áræði og framsýni ætlar sér ekki að verða eftirbátur neinna annarra þjóða og kvíðir engu í skiptum við þær, en treystir sjálfri sér, eigin menningu og réttarvitund og er staðráðin í að hagnýta sérhverja möguleika til aukinnar farsældar í trú á landsins gæði. — Góða nótt.