03.05.1966
Sameinað þing: 45. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2687 í B-deild Alþingistíðinda. (2103)

Almennar stjórnmálaumræður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hv. þm. Matthías Mathiesen þuldi hér áðan upp allmikla lofgerðarrollu um framkvæmdir í íslenzkum sjávarútvegi s.l. ár og vildi þakka viðreisnarstefnunni þær framkvæmdir. Jafnframt reyndi hann að halda því fram, að á tímum vinstri stjórnarinnar hefði ríkt stöðnun í sjávarútvegi okkar. Hér er sannleikanum gersamlega snúið við. Það var einmitt á tímum vinstri stjórnarinnar, sem hafizt var handa um að kaupa hina stærri stálfiskibáta til landsins, bátana, sem bezt duga nú. En þegar þessir bátar voru að koma til landsins, fengu þeir þær viðtökur frá viðreisnarmönnum, sem stefna þeirra sagði glöggt til um. Hér á Alþ. fluttu 7 þm. Sjálfstfl. þá till. um það að skora á ríkisstj. að standa fyrir því, að þeir stálfiskibátar, sem keyptir hefðu verið til landsins og væru 150–250 rúml. að stærð yrðu sendir til Afríkustranda til fiskveiða, vegna þess að það væri ekki hægt að gera þá út við Ísland. Þetta var nú sú trú, sem Sjálfstfl. hafði þá á þeim fiskiskipastól, sem keyptur hafði verið til landsins og afkoma þjóðarinnar hefur bezt byggzt á nú að undanförnu.

Það væri freistandi að gera að umtalsefni hér pólitík núv. ríkisstj. í landbúnaðarmálum. Hann er ekki óskemmtilegur dansinn, sem þeir eiga saman í landbúnaðarmálum, hæstv. landbrh. Ingólfur Jónsson og hæstv. viðskmrh. Gylfi Þ. Gíslason. Alþfl. vill breyta stefnunni í landbúnaðarmálum, en Sjálfstfl. vill halda í stefnuna. Alþfl. er á móti öllum styrkjunum til bænda, en Sjálfstfl. hælir sér fyrir styrkina til bænda. Alþfl. er á móti útflutningsuppbótunum, Sjálfstfl. hælir sér fyrir að hafa komið þeim á. Hann er ekki óskemmtilegur, þessi dans. En það mætti kannske spyrja um það, hver er eiginlega stefna ríkisstj. í landbúnaðarmálum?

Við 1. umr. um alúmínmálið í Nd. Alþ. fyrir réttum mánuði síðan, flutti hæstv. forsrh. Bjarni Benediktsson athyglisverða ræðu. Hann sagði þá m.a. orðrétt það, sem hér skal greint:

„Vitanlega verður, eins og glögglega kom fram, t.d. hjá hv. l. þm. Austf., að líta á þetta mál út frá stórum eða háum sjónarhóli. Það verður að gera sér grein fyrir þessu máli í ljósi sögunnar og framþróunar. Það dugir ekki að líta á það eins og hv. 5. þm. Vestf. gerði eingöngu frá dægursjónarmiði vegna vinnuaflsörðugleika í bili. Við verðum“ sagði forsrh., „að skilja, hvaða þýðingu þetta mál hefur fyrir framþróun Íslands, ég vil segja, um aldir. Samningurinn gildir nærri því í hálfa öld, og ég hef trú á því“ sagði forsrh., „að þetta mál hafi mikla þýðingu fyrir framtíðarsögu íslenzku þjóðarinnar.“

Þetta voru orð forsrh. um alúmínsamningana. S.l. sunnudag skrifaði svo aðalstjórnmálaritstjóri Morgunblaðsins eftirfarandi um alúmínmálið:

„Þegar þetta er ritað, er ráðgert að 3. umr. um álfrv. ljúki í Ed. og það verði samþ. sem lög frá Alþ., áður en sunnudagsblað Morgunblaðsins kemur út. Er þar um að ræða mesta stórviðburð í atvinnusögu Íslendinga frá upphafi.“

Það munaði nú ekkert um. Þetta voru orð stjórnmálaritstjóra Morgunblaðsins um alúmínmálið. Forsrh. sér af sínum háa sjónarhóli inn í ókomnar aldir og skynjar strax af glöggskyggni sinni áhrifin af alúmínsamningnum á framtíð íslenzku þjóðarinnar. Ritstjóri Morgunblaðsins veit fullvel, að samningarnir við svissneska alúmínhringinn marka tímamót í sögu þjóðarinnar, þeir eru, eins og blaðið segir, mesti stórviðburður í atvinnusögu Íslendinga frá upphafi. Það eru engin smáræðisáhrif, sem alúmínsamningurinn hefur haft á þessa tvo forystumenn Sjálfstfl. Enginn skyldi halda, að forsrh. hafi látið ummæli sín falla að lítt hugsuðu máli eða dregið ályktanir sínar um mikilvægi málsins af byggingu einnar verksmiðju við Straumsvík, verksmiðju, sem í eiga að vinna 450 menn og sem ráðgert er, að lagt geti í þjóðarbúið 250–300 millj. kr. á ári eða eins og ein meðalstór síldarverksmiðja Íslendinga gerir nú í dag. Nei, slíkt kemur ekki til mála. Forsrh. hefur litið lengra. Hann hefur skyggnzt dýpra í málið. Hann hlýtur að hafa séð fleiri en einn erlendan verksmiðjustromp, fleiri en verksmiðjustrompinn í Straumsvík. Ritstjóri Morgunblaðsins hikar ekki við að telja atburði úr atvinnusögu þjóðarinnar eins og innlenda stórútgerð, verzlunina færast á innlendar hendur, tilkomu frystiiðnaðar í landinu eða síldveiðar landsmanna með tilheyrandi síldariðnaði þýðingarminni en samþykkt álfrv. Sá, sem ekki hikar við að telja slíka þætti í atvinnusögu landsins þýðingarminni en samþykkt álfrv. ríkisstj., finnur á sér eitthvað meira en áhrifin frá einni verksmiðju við Straumsvík. Þessir tveir forystumenn Sjálfstfl. vita vel, hvað þeir eru að fara. Í þeirra augum er Straumsvíkurverksmiðjan aðeins sú fyrsta, þeirra ætlun er að annar stórrekstur útlendinga fylgi á eftir. Þeir líta á alúmínsamningana sem fordæmi, sem ákvörðun um að taka upp nýja stefnu um að heimila erlendum auðfélögum réttindi til atvinnureksturs á landinu á mörgum sviðum. Þeir ætla með hinni nýju stefnu að gerbreyta íslenzku þjóðfélagi. Skoðun þeirra er sú, að ekki sé auðvelt að treysta á 600 íslenzka útgerðarmenn, ýmsa smáa og kröfuharða, að 100 íslenzkir frystihúseigendur geti verið erfiðir og jafnvel hættulegir og aðrir atvinnurekendur á Íslandi séu ekki til að byggja völd sín á í framtíðinni. Þeir treysta betur stórrekstri útlendinga og vita, að útlendingarnir þurfa sina umboðsmenn hér á landi.

Almennar bæjar- og sveitarstjórnarkosningar eru á næsta leiti. Í þeim kosningum fá kjósendur tækifæri til að gera að nokkru leyti upp við menn og flokka. Sveitarstjórnarkosningar snúast að vísu oft um önnur mál en þau, sem mest er um deilt í landsmálum, en veigamestu málin falla þó saman. Í komandi kosningum verður almenningur að láta afstöðu sína til dýrtíðarstefnu stjórnarflokkanna koma skýrt fram. Í des. s.l. hækkuðu flutningsgjöld skipa um 15% samkv. sjálfsákvörðunarrétti skipaeigenda. Nú 1. apríl eða fjórum mánuðum síðar hækkuðu þessi gjöld aftur um 7.5% samkv. sama frelsinu. Þessar fragtahækkanir koma að sjálfsögðu fram í vöruverðinu. Þær auka dýrtíðina. Verðhækkanir þessar stafa frá stefnu íhaldsins um álagningarfrelsi. Í júlí s.l. sumar hækkaði rafmagn til iðnaðarins um 8% og aftur í des. um 13%. Þessar hækkanir koma líka fram í verðlaginu og eru auk þeirra hækkana á rafmagni, sem heimilin verða að greiða beint. Það eru Sjálfstfl. og Alþfl., sem bera ábyrgð á þessum verðlagshækkunum. Benzín hækkaði um 19% í des. s.l. og enn eru í fersku minni 50–80% hækkanir á fiski og smjörlíki, sem nýlega áttu sér stað og þetta eru ekki einu hækkanirnar, hækkanir á vöru og þjónustu ganga yfir svo að segja daglega. Þessi dýrtíðarstefna verður að fá sinn dóm í komandi kosningum. Íhaldið í bæjarstjórnum og sveitarstjórnum og í borgarstjórn Reykjavíkur verður að taka út sinn dóm fyrir þessar íhaldssyndir. Annars forherðist íhaldið og heldur enn áfram herferð sinni gagnvart almenningi í landinu.

Í Danmörku fóru nýlega fram sveitarstjórnarkosningar. Þar töpuðu sósíaldemókratar miklu fylgi á því m.a., að þeir höfðu í ríkisstj. samið við íhaldið þar í landi um hækkun á húsaleigukostnaði. Hér verða kjósendur að bregðast við á sama hátt. Húsaleiguokrið og dýrtíðarstefnuna verður að kveða niður á þann hátt, sem valdhafarnir skilja. Það var blátt áfram ömurlegt að hlusta á talsmenn ríkisstj. í umr. hér í gærkvöldi tala um dýrtíðina og verðbólguvandamálin. Hæstv. forsrh. sagðist vita, að minnkun niðurgreiðslna á vöruverði væri óvinsæl ráðstöfun. En sú ráðstöfun væri eigi að síður prófsteinn á það, hvort menn í raun og veru vildu vinna gegn verðbólgunni. Þannig er forsrh. gersamlega blindaður af rökvillum viðreisnarstefnunnar. Þegar ríkissjóður er látinn halda áfram sköttum, sem lagðir voru á til þess að greiða niðúr vöruverð, en hættir niðurgreiðslunum, en verðlag á brýnustu lífsnauðsynjum er hækkað af þeim ástæðum um 50–80%, þá telst það ráðstöfun gegn dýrtíðinni að dómi þeirra viðreisnarmanna. Og þannig er öll þeirra dýrtíðarbarátta. Þeir hækka vexti og við það hækkar vöruverð. Þeir hækka söluskatt og við það hækkar verðlag. Þeir heimila kaupmönnum frjálsa álagningu og við það hækkar álagningin. Þeir heimila hækkun á frögtum og hækkun á rafmagni, hækkun á fargjöldum, hækkun á síma og hækkun á öllum hlutum og svo segja þeir á eftir, að þetta séu allt ráðstafanir til að vinna bug á verðbólgunni.

Birgir Finnsson, fulltrúi Alþfl. í þessum umr., spurði hér í kvöld, hverjir eiginlega kyntu undir dýrtíðarbálinu. Hann ætti nú ekki að þurfa að spyrja. Þarf nokkur að efast um það, að það er sú ríkisstj., sem samþ. hefur og leyft allar þær verðhækkanir, sem ég hef hér verið að greina frá? Núv. ríkisstj. hefur aldrei séð dýrtíð eða verðbólgu nema í einum hlut, í kaupgjaldi vinnandi fólks. Hækki kaupgjaldið, hrópar ríkisstj.: Verðbólga, verðbólga, mikil verðbólga. Það leyndi sér heldur ekki í umr. í gærkvöldi og heldur ekki hér í kvöld, hvert hugur stjórnarliða stefnir í þessum efnum. Sigurður Bjarnason sagði, að það væru stóru stökkin í kaupgjaldsmálunum, sem ólukkan stafaði af. Hann veit þó, að í kaupgjaldssamningunum sumarið 1964 var samið um óbreytt grunnkaup verkafólks. Hann veit líka, að s.l. sumar var aðeins samið um 4–5% grunnkaupshækkun, þegar vinnuvikustyttingin er ekki talin sem bein kauphækkun. Alþfl.-maðurinn Jón Þorsteinsson sagði umbúðalaust, að það, sem gera þyrfti í dýrtíðarmálunum, væri, að bændur og launafólk gæfu eftir af launum sínum. Og hann bætti við, að ef slík sanngirni, því að það var sanngirni að hans dómi, að þessir gæfu eftir, ef slík sanngirni fengist ekki fram með góðu, ætti bara að lögfesta kauplækkun eins og gert var árið 1959. Þannig talar fulltrúi Alþfl., og sami tónninn kom hér fram hjá Birgi Finnssyni í kvöld, þegar hann talaði um, að verkafólkið þyrfti að stilla kaupkröfum sínum í hóf. Það er vissulega alvörumál, ef launafólk í landinu áttar sig ekki á kjarna þessara mála. Það getur enginn launþegi, það getur enginn verkamaður, það getur enginn sjómaður og enginn bóndi, enginn fastur starfsmaður leyft sér að efla þá flokka til valda, sem miða stefnu sína við lækkuð launakjör vinnandi fólks eða vaxandi dýrtíð að öðrum kosti. Alþb. skorar á allt alþýðufólk að notfæra sér komandi kosningar og tala við valdhafana á þann hátt, sem þeir skilja. Launþegar í landinu hafa raunverulega átt í látlausri styrjöld við ríkisstj. Sjálfstfl. og Alþfl. á undanförnum árum. Þeir mega ekki og geta ekki stutt þá flokka til valda, hvorki í bæjarstjórnir eða sveitarstjórnir né til Alþ., sem með dýrtíðarstefnu sinni og nýjum og nýjum álögum eyðileggja það, sem áunnizt hefur í kaupgjaldsbaráttunni. Kaupgjaldsbarátta launastéttanna hefur verið réttlát, því að hún hefur byggzt á því, að þær fengju í sinn hlut eðlilegan hlut af vaxandi þjóðartekjum. Nú liggur fyrir, að meðaltalshækkun af útfluttum sjávarafurðum nam 12% á s.l. ári og hin almennu viðskiptakjör þjóðarinnar við útlönd batna á árinu um 10%. Þetta jafngildir því, að þjóðarbúið hafi fengið 600–700 millj. kr. meira fyrir framleiðslu ársins, aðeins vegna verðhækkana. Til viðbótar verðhækkunum kemur svo stóraukið aflamagn á árinu. þetta hagstæða útflutningsverð átti auðvitað að skapa grundvöll fyrir miklum nettólaunahækkunum til handa vinnandi stéttum. En dýrtíðar- og stjórnleysisstefna ríkisstj. hefur komið í veg fyrir það, að svo gæti orðið. Alþb. er stjórnmálasamtök íslenzkrar alþýðu á breiðum, pólitískum grundvelli. Það er stofnað af forystumönnum Alþýðusambandsins. Fulltrúar Alþb. eru því sérstakir fulltrúar launafólks í landinu. Allt launafólk í landinu þarf því í komandi kosningum að efla Alþb. Á þann hátt eflir það sín eigin samtök og fylgir bezt eftir hagsmunabaráttu sinni. — Góða nótt.