15.12.1965
Sameinað þing: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2702 í B-deild Alþingistíðinda. (2109)

Aluminíumverksmiðja

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hlýt að lýsa undrun minni yfir því, hve ófullkomna og stutta skýrslu hæstv. iðnmrh. hefur flutt um það stórmál, sem hér er til umr. Hér er þó um eitt stærsta og þýðingarmesta mál að ræða, sem Alþ. hefur fjallað um. Í þessu máli er um það rætt að gerbreyta um þá stefnu, sem gilt hefur með þjóðinni um langan tíma varðandi réttindi og aðstöðu útlendinga til atvinnurekstrar í landinu. Skýrsla sú, sem ríkisstj. gaf Alþ. um mál þetta á s.l. vori, var að vísu allýtarleg, en þá var málið sagt á viðræðustigi og mjög talið óvíst, hvort úr samningum yrði við hið erlenda auðfyrirtæki. Nú liggur hins vegar fyrir samkv. tilkynningu frá ríkisstj. fyrir nokkrum dögum, að talið er nokkurn veginn víst, að samningar verði gerðir um byggingu alúminíumverksmiðjunnar og rekstur hennar, þar sem samkomulag hafi þegar náðst um öll meginatriði, eins og það hefur verið orðað. Þess var því fyllilega að vænta, að nú gæti ríkisstj. gefið Alþ. nákvæmari grg. um stöðu málsins en áður var gert og nú þætti ástæða til, að almennar umr. færu fram á Alþ. um helztu efnisþætti málsins. En svo virðist ekki vera. Ríkisstj. virðist vilja forðast umr. um málið á Alþ. fyrr en þá samningunum sé alveg að fullu lokið. En umr. við slík skilyrði mundu í rauninni þýða það, að alþm. væri ekki gefinn kostur á öðru en segja já eða nei við þeim samningum, sem þá lægju fyrir í rauninni fullgerðir. Ég tel, að þegar svo er komið málum, eins og komið er í þessu stórmáli, að það má telja, eins og hv. 5. þm. Vesturl. sagði hér, að samningunum sé nálega lokið, því að samkomulag hafi orðið um öll meginatriði, væri fyllilega kominn tími til þess, að málið yrði rætt á nokkuð breiðari grundvelli hér á Alþ. og tekin afstaða til þess, hvort rétt sé að hverfa að þessari samningagerð eða ekki.

Við vitum af því, sem fram hefur komið í þessu máli, að grundvöllur þeirra samninga, sem ráðgerðir eru, eru þeir, að byggja á mikið raforkuver við Búrfell og gert er ráð fyrir samkv. upplýsingum, sem komið hafa fram hér á Alþ., að þetta raforkuver muni kosta um 1690 millj. kr., miðað við kostnaðaráætlun yfir verkið, sem gerð var á árinu 1964. Ráð er gert fyrir því, að þetta orkuver eigi að geta framleitt um 210 þús. kw., og að alúminíumverksmiðja muni kaupa af þessari raforku um 126 þús. kw. eða um 2/3 orkunnar. Við það er miðað, að alúminíumverksmiðjan kaupi þessa raforku á föstu verði, 103/4 úr eyri á að greiða fyrir hverja kwst. og þetta fasta verð á að gilda um 25 ára tímabil og síðan á fyrirtækið að hafa möguleika á því að framlengja þessa samninga. Og nú er gert ráð fyrir því, að möguleiki fyrirtækisins til þess að framlengja samningana verði um 30 ár, þannig að heildarsamningstíminn spanni yfir 55 ár. Að öðru leyti er síðan gert ráð fyrir því, að byggð verði alúminíumverksmiðja við Straumsvík nokkuð fyrir sunnan Hafnarfjörð, og að verksmiðja þessi geti framleitt um 60 þús. tonn at alúminíum á hverju ári. Ráðgert er, að stofnkostnaður þessarar verksmiðju muni nema kringum 2500 millj. kr. Gert er ráð fyrir því, að fyrirtæki það, sem byggir alúminíumverksmiðjuna, Swiss Aluminium, fái að flytja inn allt, sem þarf til byggingarinnar, án þess að greiða tolla af þeim varningi og að síðan verði rekstur verksmiðjunnar með þeim hætti, að hún þurfi ekki heldur að greiða tolla af þeim vörum, sem hún þarf til síns reksturs. Þá er einnig upplýst, að þetta mikla verksmiðjufyrirtæki á að greiða skatta, þ.e.a.s. útsvör og tekju- og eignaskatt eftir sérstökum samningi, sem þar um er gerður. Þessi atriði, sem ég hef nú talið upp, eru grundvöllur þeirra samninga, sem nú er rætt um að gera. Og hverjar eru svo helztu röksemdirnar, sem eru færðar fyrir því, að rétt sé að gera þessa samninga? Af hálfu ríkisstj. hefur þetta komið fram:

Í fyrsta lagi er talið, að þessir samningar skapi Íslendingum aðstöðu til þess að ráðast í stærri raforkuvirkjun en þeir mundu geta ráðizt í annars, og að slíkt stærra raforkuver muni veita Íslendingum aðgang að ódýrara rafmagni en þeir gætu fengið með öðrum hætti. Í öðru lagi er því haldið fram, að bygging alúminíumverksmiðjunnar og rekstur hennar mundi breikka grundvöll atvinnulífsins og gera afkomu landsmanna öruggari en hún er nú. Í þriðja lagi er því haldið fram, að það sé okkur nauðsynlegt að efna hér til þessarar breikkunar í atvinnulífinu, vegna þess að nú séu óðum að koma inn á vinnumarkaðinn stærri árgangar en áður hafi komið, og því verði að sjá þessum stóru árgöngum fyrir nægilegri hagstæðri vinnu. Og í fjórða lagi er því svo haldið fram, að það muni vera þjóðhagslega hagstætt fyrir landsmenn að selja vinnuaflið til þessa erlenda fyrirtækis, sem hér ætlar að hefja rekstur, það muni fást tiltölulega meira út úr vinnuaflinu á þennan hátt heldur en ef vinnuaflið færi til þeirra atvinnugreina, sem landsmenn ráða yfir sjálfir.

Mér þykir full ástæða til þess á þessu stigi málsins að ræða nokkuð nánar einmitt um þessar röksemdir, hversu vel þær fá staðizt. Það er þá fyrst að snúa sér að raforkusölunni til alúminíumverksmiðjunnar. Það er augljóst af þeim upplýsingum, sem fram hafa komið, að það raforkuverð, sem ákveðið hefur verið, 103/4 úr eyri fyrir kwst., hlýtur að liggja nokkuð undir beinu framleiðslukostnaðarverði. Það mundi knapplega standa undir beinum framleiðslukostnaði, ef byggingarkostnaður orkuversins færi ekki fram úr þeim 1690 millj., sem áætlanir hafa verið gerðar um. En nú er alveg augljóst, að allar líkur benda til þess, að orkuverið muni kosta allmiklu meira en áætlanir hafa verið gerðar um. Þegar hefur komið í ljós, að það er ekki hægt að fara eftir ráðgerðu framkvæmdafyrirkomulagi. Það verður að ráðast í viðbótarframkvæmdir á virkjunarstað fram yfir það, sem í upphafi hafði verið reiknað með, og mér er sagt af verkfróðum mönnum, að þær framkvæmdir hljóti að kosta 200–300 millj. kr. Þá vita einnig allir það, að framkvæmdakostnaður er miklu meiri nú í lok ársins 1965 heldur en hann var á árinu 1964, þegar stofnkostnaðaráætlanir voru gerðar. Og allt bendir til þess, að framkvæmdakostnaður verði enn meiri á árunum 1966 og 1967 og 1968, en á þeim tímum á að vinna að framkvæmdunum. Ég held því, að það geti enginn vafi leikið á því, að stofnkostnaður mun verða meiri en gert hefur verið ráð fyrir, og þar af leiðandi fær þetta verð á orkunni ekki staðizt. Það er lægra en sem nemur beinum framleiðslukostnaði. Það kemur líka í ljós í þeim upplýsingum, sem fram hafa komið í þessu máli, að á sama tíma sem Íslendingar eru að gera samning við þetta svissneska fyrirtæki um raforkusölu fyrir 103/4 úr eyri fyrir kwst., á sama tíma hafa Norðmenn verið að gera samning við þetta sama fyrirtæki um raforkusölu. Og það er upplýst, að verð það, sem Norðmenn hafa lálið þetta svissneska fyrirtæki semja við sig um, er 20% hærra en það verð, sem þeim hefur tekizt að fá hér hjá okkur. Afsakanir fyrir þessu hafa engar fengizt aðrar en þær, að við verðum þetta til að vinna til þess að fá þá svissnesku til þess að eiga viðskiptin við okkur.

Það kemur líka fram í þeim skýrslum, sem lagðar hafa verið fyrir Alþ., að Alþjóðabankanum, sem hugsar sér að lána Íslendingum til raforkuversins, lízt ekki meira en svo á þetta rafmagnsverð, og hann hefur því gert sérstaka kröfu um það, að nokkur hluti af skattgreiðslum fyrirtækisins verði færður yfir í rafmagnsverðið og rafmagnsverðið verði reiknað út nokkru hærra á þann hátt fyrstu árin, vegna þess að það fé, sem á að koma inn fyrir rafmagnssöluna, á að ganga til greiðslu á lánunum við Alþjóðabankann. Það hefur einnig komið í Ijós, að Alþjóðabankanum lízt ekki betur á fyrirtækið en svo, að hann hefur þegar komið fram með óskir um það, að hið almenna raforkuverð á Íslandi yrði hækkað, til þess að gera það fyrirtæki nokkru fjárhagslega öruggara, sem hann er að lána fé til. Og einmitt nú þessa dagana hafa verið að koma til Alþ. upplýsingar um það, að hin nýja stjórn Landsvirkjunar er að tilkynna rafveitunum hér á sínu svæði um verulega hækkun á rafmagnsverði. Eins og fram kom hér í umr. á Alþ. í dag, þar sem einn rafveitustjórinn hér á Suðvesturlandi gerði grein fyrir þessu, segir hann, að hækkunin á rafmagnsverði í útsölu samkv. þessari hækkunarkröfu frá stjórn Landsvirkjunar muni nema í kringum 10%. Það bendir því ekkert til þess, að þessi samningur muni leiða, ekki a.m.k. í fyrstunni, til lækkandi rafmagnsverðs fyrir landsmenn, heldur þvert á móti til hækkandi rafmagnsverðs. Og ef litið er á þennan raforkusölusamning meira fram í tímann, verður dæmið sízt betra. Okkur er sagt, að þáð sé nokkurn véginn föst regla, að það megi búast við, að raforkunotkun muni aukast um helming á hverju 10 ára tímabili. Nú er það svo, að virkjað vatnsafl okkar Íslendinga nú í dag er í kringum 125 þús. kw. Ef við teljum með það afl, sem við eigum í diesel- og túrbínustöðvum, er okkar heildarraforka kringum 150 þús. kw. nú, en við skulum aðeins reikna með þessum 125 þús., sem er virkjað vatnsafl. Þetta mundi þá þýða það, að á næstu 10 árum þyrftum við að fá viðbótarorku upp á 125 þús. kw. og á næstu 10 árum þar á eftir þyrftum við enn að virkja 250 þús. kw. þar til viðbótar eftir þessari reglu eða m.ö.o., eftir 20 ár þyrftum við að hafa viðbótarraforku, sem næmi 375 þús. kw. til viðbótar við það, sem við höfum nú í dag, 375 þús. kw. eflir 20 ár. En hvað eigum við að fá út úr hinni miklu Búrfellsvirkjun, eftir að við höfum samið við alúminíumhringinn um sölu á h orkunnar til alúminíumframleiðslu? Við eigum að fá aðeins 84 þús. kw. eða 84 þús. kw. af þeim 375 þús. kw., sem við þurfum að afla okkur á næstu 20 árum. Það er því alveg augljóst, að á næsta 20 ára tímabili verðum við að ráðast í verulega stórar virkjanir. Og þá erum við búnir að selja á leigu hagstæðustu virkjun landsmanna við Búrfell, þá virkjun, sem á að geta veitt rafmagnið á hagstæðustu verði, við erum búnir að ráðstafa þeirri orku með fyrirframsamningi og verðum auðvitað sjálfir að leita til nýrra virkjunarstaða, sem eru nokkru óhagstæðari. Það er því alveg augljóst, að einnig ef litið er á málið til lengri tíma, er hér ekki um hagslæð raforkuviðskipti fyrir landsmenn að ræða. Það bendir allt til þess, að afleiðingarnar af þessu muni verða þær, að raforkan til landsmanna muni hækka meira en hún hefði þurft að gera, ef landsmenn hefðu ætlað sjálfum sér þann virkjunarstað, sem þarna er um að ræða. Það hefur svo einnig verið upplýst, að þó að við réðumst nú í virkjun við Búrfell fyrir okkur sjálfa upp á 210 þús. kw., sé það ekki meiri framkvæmd út af fyrir sig, miðað við breytta tíma nú, heldur en þær framkvæmdir, sem við höfum stundum áður ráðizt í, þegar við höfum verið í virkjunarframkvæmdum. Ég held því, að það sé enginn vafi á, að við séum ekki að gera fjárhagslega hagstæðan samning með því að semja á þessum grundvelli um raforkusölu til alúminíumverksmiðjunnar. Ég held því, að fyrsta og aðalröksemdin, sem fram hefur komið hjá ríkisstj. fyrir þessari samningagerð, sé fallin niður og hún fái ekki staðizt.

Ég vil þá víkja með nokkrum orðum að alúminíumverksmiðjunni sjálfri. Ráðgert er, að verksmiðjan muni kosta kringum 2500 millj. kr. Þar er um mikla fjárfestingu að ræða, ekki sízt, þegar það er haft í huga, að það verður að ráðast í þessa fjárfestingu á sama tíma sem ráðizt er í að reisa Búrfellsvirkjunina, sem sennilega mun kosta kringum 2000 millj. kr. Ég held því, að hér sé um að ræða fjárfestingu, sem verður að fara fram á 2–3 ára tímabili, sem muni nema kringum 4500 millj. kr., en til viðmiðunar má geta þess, að talið er, að öll fjárfesting Íslendinga á einu ári nú sé í kringum 5000 millj. Hér er því um gífurlega mikla fjárfestingu að ræða, sem hlýtur vitanlega að kalla til sín mikið vinnuafl. Talið er samkv. upplýsingum, sem borizt hafa, að reikna megi með því, að á talsverðu tímabili muni þurfa að vinna að byggingu alúminíumverksmiðjunnar kringum 1200 menn og ætla má, að við Búrfellsvirkjun þurfi að vinna 400–600 menn. Þegar svo er tekið með það fylgilið, sem þessu þarf jafnan að fylgja til ýmiss konar þjónustuverka, er alveg sýnilegt, að hér er um að ræða framkvæmdir, sem kalla á vinnukraft, sem nemur a.m.k. 2000 manns. Það er því ekki nema eðlilegt, að spurt sé um það, hvaðan þetta vinnuafi eigi að koma og hvaða áhrif það mundi hafa, eins og okkar efnahagsmál standa nú, að ráðast í slíka fjárfestingu sem þessa á tveggja til þriggja ára tímabili. Við vitum, að þannig er ástatt nú í okkar atvinnulífi, að það skortir svo að segja alls staðar vinnuafl. Við höfum ekki getað haldið uppi fullum rekstri nema með því að hafa í okkar þjónustu nú á síðustu árum nokkur hundruð Færeyinga og nokkur hundruð annarra útlendinga, sem unnið hafa að verulegu leyti að framleiðslustörfum. Þó hefur ekki verið hægt að koma áfram verkefnum, sem mjög hafa kallað að. Það er ofur eðlilegt, að þegar þannig stendur á í okkar efnahagskerfi, að sjávaraflinn eykst gífurlega frá ári til árs og sem betur fer eykst líka vinnsla aflans, þá vitanlega kallar slíkt á aukið vinnuafl. Það kallar á nýjar framkvæmdir í ýmsum efnum og það kallar einnig á vinnuafl. Bæjarfélög kvarta sáran undan því, að þau fái ekki vinnuafi til þess að þoka sínum framkvæmdum áfram. Það er ekki hægt að vinna að aðkallandi hafnarframkvæmdum víða á landinu. En einmitt þær miklu breytingar, sem orðið hafa í okkar fiskiskipaflota á undanförnum árum, kalla á verulegar framkvæmdir í hafnarmálum. Það á því ekki að þurfa að deila um það, að það er verulegur skortur á vinnuafli við framleiðslustörf og framkvæmdastörf í landinu, eins og nú háttar. En hvað er þá að segja um þessa stóru árganga, sem eru að koma inn á vinnumarkaðinn og sem áttu að vera ein meginröksemdin fyrir því, að það yrði nauðsynlegt, að við leituðum eftir nýjum atvinnustofnunum eins og þessum? Jú, yfirlitsskýrslur, sem birtar hafa verið um fólksfjölgunina í landinu, sýna það, að þjóðinni byrjaði verulega að fjölga eða árgangarnir fóru að stækka upp úr 1940. Þessir stærri árgangar fóru því að koma inn á vinnumarkaðinn á árinu 1955. Þeir hafa haldið áfram að koma inn á vinnumarkaðinn núna s.l. 10 ár og þeir hafa ekki farið stækkandi. Það er því ekkert nýtt hjá okkur, að þessir stærri árgangar hafa verið að koma inn á vinnumarkaðinn. Ég tók t.d. upp til athugunar í þessum efnum, hvernig þessu væri varið, ef maður bæri saman áætlaða fjölgun á vinnumarkaði milli áranna 1964–1965 og svo aftur frá 1965–1966, og tók þá aldursflokkana frá 15–50 ára. Og útkoman varð þessi, að frá árinu 1964 til ársins 1965 bættust við í þessum aldursflokkum frá 15–50 ára 1847 menn. En frá árinu 1965–1966 eða næsta ár á eftir er reiknað út samkv. sömu skýrslu, að þá muni bætast við 1839 eða aðeins nokkru færri heldur en á milli áranna 1964–1965 og þannig er þessu varið. Það er því mesta blekking að halda því fram, að á næstu árum séu að koma inn á markaðinn alveg óvæntir vinnuárgangar, sem hér muni breyta öllu frá því, sem verið hefur. Við vitum það mætavel, að vinnuaflsskorturinn hefur farið vaxandi núna ár frá ári á síðustu árum, sem er líka ofur eðlilegt á sama tíma sem framleiðsla þjóðarinnar vex jafnmikið eins og hún hefur vaxið og þegar þjóðartekjurnar aukast jafnmikið og þær hafa aukizt. Það er engin leið að koma þessu fram án þess, að það séu fleiri hendur til þess að vinna að þessum verkum. Hér er því ekki um það að ræða, að það sé einhver óvæntur fjöldi að koma inn á okkar vinnumarkað, sem muni leysa þennan vanda, sem geti risið undir þessum miklu kröfum, sem stafa frá þessum stórkostlegu framkvæmdum, sem hér eru ráðgerðar. Það þýðir því ekki annað en horfast í augu við það, að ef á að ráðast í þessar framkvæmdir með þeim hætti, sem ráðgert er, verður að draga úr einhverjum þeim framkvæmdum, sem nú er unnið að í landinu. Annaðhvort verður að draga úr sjávarframleiðslunni eða úr iðnaðarframleiðslunni eða það verður að fá fólk frá landbúnaði eða enn öðrum starfsgreinum í landinu. Öðruvísi er ekki hægt að leysa þetta verkefni nema þá með því, sem nú er farið að tala um í vaxandi mæli, að flytja þurfi inn nokkur hundruð útlendinga til viðbótar til þess að standa í þessum stofnframkvæmdum.

Það er að sjálfsögðu rétt, að vinnandi fólki í landinu fjölgar. En reynslan hefur sýnt, að undirstöðuatvinnuvegir landsins eru ekki betur staddir með vinnuafl nú en þeir voru fyrir nokkrum árum síðan. Reynslan hefur sýnt, að stærri og stærri hópur á aldursskeiðinu frá 15 árum upp í 22 ár er bundinn við skólanám en áður var og það er með eðlilegum hætti og stærri og stærri hluti af þjóðinni fer yfir í hvers konar þjónustustörf og því fjölgar ekki í undirstöðuatvinnugreinum landsins. Ég held því, að það geti enginn vafi leikið á því, að þessar stórkostlegu framkvæmdir, sem ráðgerðar eru með þessum samningum, eru stórhættulegar fyrir efnahagskerfið eins og nú er ástatt. Og þessar framkvæmdir geta ekki orðið þjóðarbúinu til hagsbóta út frá því sjónarmiði, að við þurfum að ráðstafa okkar vinnuafli á þennan hátt. Við höfum meira en nægileg verkefni fyrir okkar vinnuafl, og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að við höfum meira upp úr því að ráðstafa okkar vinnuafli á annan hátt en selja það í byggingarvinnu til þessara aðila. En hvað er þá að segja um rekstur alúminíumverksmiðjunnar? Yrði rekstur verksmiðjunnar ábatasamur fyrir landsmenn? Upplýsingar eru gefnar um það, að í þessari verksmiðju muni vinna 500–600 manns. Og að sjálfsögðu ætlar alúminíumfyrirtækið að borga þeim, sem vinna í verksmiðjunni, hliðstæðar launagreiðslur eins og greiddar eru í öðrum atvinnurekstri í landinu. Það er beinlínis gert ráð fyrir því. Það er því alveg augljóst mál, að það að selja vinnuafl, hvort heldur er til beinna byggingaframkvæmda eða til rekstursins, á sama verði eins og annar atvinnurekstur greiðir fyrir vinnuaflið, er enginn þjóðhagslegur vinningur nema um sé að ræða að selja vinnuafl, sem ekki hefði haft full störf að öðru leyti. Því er að vísu haldið fram stundum, að það muni fást meira í íslenzka þjóðarbúið út úr því vinnuafli, sem ráðstafað væri til vinnu í þessari verksmiðju, heldur en ef það vinnuafl færi í okkar eigin atvinnuvegi. Hér er auðvitað um algera blekkingu að ræða.

Það er gert ráð fyrir því, að alúminíumverksmiðjan greiði skatta í meginatriðum með sama hætti eins og innlendur atvinnurekstur gerir, þó að sérsamningur sé gerður um þessa skattgreiðslu. Verksmiðjufyrirtækið á að hafa rétt til að krefjast þess, að reikningar þess verði lagðir til grundvallar við útreikning á skattgreiðslu fyrirtækisins. Að vísu lofast verksmiðjufyrirtækið til þess að borga fast framleiðslugjald, en það er aðeins greiðsluform. Síðan á að gera upp hina raunverulegu skattgreiðslu eftir því, sem reikningar fyrirtækisins segja til um. Ef reikningarnir sýna, að afgangur hjá fyrirtækinu er lítill, á fyrirtækið ekki að borga nema sáralítinn skatt eða jafnvel engan. En fyrirtækið fær hins vegar rétt til þess að afskrifa eins og önnur fyrirtæki og það fær einnig rétt til þess, ef um ágóða er að ræða, að flytja þann ágóða jafnharðan úr landi. Sá ágóði sezt ekki upp í okkar landi. En hvernig er þessu háttað með okkar innlendu fyrirtæki? Okkar innlendu fyrirtæki verða að borga fyrir sitt vinnuafi eins og þetta fyrirtæki á að vera. Þau verða að borga sína skatta til jafns við þetta fyrirtæki, en þau skilja hins vegar eftir í landinu þann ágóða, sem til hefur fallið í þeirra rekstri, hvort heldur sem er í formi lögleyfðra afskrifta eða beins ágóða, sem fram hefur komið oft og tíðum í alls konar eignamyndun. Það er því auðvitað enginn vafi á því, að innlenda fyrirtækið er þjóðinni miklum mun dýrmætara í þessum efnum heldur en hið erlenda fyrirtæki og það er miklu hagstæðara fyrir þjóðina að ráðstafa sínu vinnuafli til innlendu fyrirtækjanna heldur en að selja vinnuaflið á þennan hátt til hins erlenda aðila. sem aðeins borgar fyrir vinnuaflið, en fer með allan þann hagnað út úr landinu, sem út úr vinnuaflinu hefur komið. Auk þess er svo það, að þegar málið er athugað nánar, er hinu erlenda fyrirtæki raunverulega ekki ætlað að borga jafnháa skatta og hinum innlendu. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því, að hið erlenda fyrirtæki sleppi við að borga alla tolla í sambandi við stofnkostnað fyrirtækisins. Ríkisstj. hefur upplýst, að þessir tollar mundu nema kringum 500 millj. kr. af stofnkostnaði fyrirtækisins, sem áætlaður er 2500 millj. Í fyrsta lagi á að gefa þessu fyrirtæki eflir tolla upp á 500 millj., sem okkar innlendu fyrirtæki verða öll að borga. Og síðan á að gefa þessu erlenda fyrirtæki ettir tolla af rekstrarvörum til verksmiðjunnar. Innlendu fyrirtækin verða að borga fulla tolla af sínum rekstrarvörum. Þegar þetta er athugað, er alveg augljóst, að hið erlenda fyrirtæki greiðir miklu minna til þjóðarbúsins heldur en innlendu fyrirtækin gera og jafnvel þó að reikningar þess sýndu eðlilega afkomu og þeir ættu að borga skatt samkv. íslenzkum skattal., er alveg ljóst mál, að þegar allt er athugað, eru heildargreiðslur þessa fyrirtækis til þjóðarbúsins mun minni en heildargreiðslur innlendra fyrirtækja eru. Það er því síður en svo vinningur fyrir okkar þjóðarbú að ráðstafa sínu vinnuafli í leigu til þessara erlendu aðila fram yfir það að beina vinnuaflinu til innlendra atvinnuvega.

En hvað er svo að segja um atvinnuöryggið, sem þessi alúminíumverksmiðja á að veita í íslenzkum þjóðarbúskap? Hvaða öryggi mundi þetta fyrirtæki veita, þegar til lengdar lætur? Það gefur auga leið, að eftir 25 ár getur fyrirtækið ákveðið að hætta öllum rekstri. Það gæti verið búið að fá sitt og flytja allan sinn nauðsynlega hagnað úr landi og þá gæti það hætt. Það er ekki skuldbundið til þess að halda rekstrinum áfram. En sá er aftur munurinn, að okkar eigin fyrirtæki, sem rekin hafa verið, leggja yfirleitt með sér nýtt stofnfjármagn til nýrra stofnfjárframkvæmda og á þann hátt auðnast okkur einmitt að halda áfram eðlilegri uppbyggingu í landinu. Þetta hefur komið mjög greinilega í ljós í þeim löndum, sem eru háð á þennan hátt erlendum aðilum að verulegu leyti í sínum atvinnumálum. Það er því síður en svo, að bygging þessarar alúminíumverksmiðju auki eitthvað á atvinnuöryggi þjóðarinnar, þegar til lengdar lætur. Og þó að ýmsum sé gjarnt að halda því fram, að aðalatvinnuvegur okkar, sjávarútvegurinn, skapi ekki nægilegt öryggi fyrir þjóðina, mega þeir þó fara nokkuð langt aftur í tímann til þess að finna það, að þegar litið er á sjávarútveginn sem heild, hafi hann ekki staðið fyllilega undir sínu í því að leggja í okkar þjóðarbú. Ef við tökum t.d. síðustu 25 árin, kemur í ljós, að okkar sjávarframleiðsla hefur verið að aukast allan þennan tíma, bæði að magni og verðmætum til mikilla muna. Og þó er það svo, að í þeim greinum, þar sem við höfum gert ráð fyrir því, að framleiðsluaukningin yrði sem minnst, eins og t.d. í okkar þorskveiðum, höfum við þó staðið frammi fyrir því fram til síðustu ára, að við Íslendingar veiddum ekki nema rétt um það bil helming af þeim afla, sem veiddur er á Íslandsmiðum af þessari fisktegund. Hinn helmingurinn hefur komið í hlut annarra, sem hafa sótt afla sinn á Íslandsmið.

Niðurstaða mín af þessu, sem ég hef sagt, er í stuttu máli þessi. Ég tel, að raforkusölusamningurinn, sem fyrirhugaður er, sé vægast sagt mjög hæpinn og sérstaklega sé hann varhugaverður, þegar litið er til lengri tíma. Ég held, að það sé enginn vafi á því, að sá samningur muni ekki leiða af sér lækkun á rafmagnsverði fyrir íslendinga, heldur þvert á móti muni hann leiða til hækkandi rafmagnsverðs. Ég held, að það sé enginn vafi á því, að slík stórkostleg fjárfesting, sem fyrirhugað er með þessum samningum, að fram fari hér á nokkrum árum, sé allt of mikil miðað við þol efnahagskerfisins, eins og það er nú, og það sé á engan hátt hægt að koma slíkri fjárfestingu fyrir, án þess að það gangi út yfir framkvæmdir og rekstur í atvinnuvegum landsmanna sjálfra. Ég held, að það sé heldur enginn vafi á því, að atvinnuöryggi landsmanna aukist ekki við tilkomu alúminíumverksmiðjunnar, heldur þvert á móti gæti tilkoma hennar orðið til þess að trufla okkar eigin rekstur á hættulegan hátt. En það, sem ég tel þó verst af öllu í sambandi við þessa samninga, er það, að með þeim er verið að fara inn á nýja braut í atvinnumálum landsmanna. Það er verið að skapa hættulegt fordæmi fyrir því að heimila erlendum aðilum að taka þátt hér í atvinnurekstri í landinu og það með sérstökum sérréttindum. Það má að vísu segja, að ef ekki kæmi meira til en bygging þessarar alúminíumverksmiðju einnar, væri mestur vandinn fólginn í þeim erfiðleikum, sem kæmu upp í sambandi við stofnframkvæmdirnar, því að reksturinn á eftir, sem kallar á 500–600 menn, skiptir hér ekki afgerandi máli. En hættan er fólgin í því, að þegar einu sinni er tekin upp þessi stefna að heimila erlendum auðfyrirtækjum að koma upp atvinnufyrirtækjum í landinu og það jafnvel á kostnað landsmanna sjálfra, verði haldið áfram á þessari braut, það komi nýir erlendir aðilar, sem sækja eftir sams konar fríðindum sér til handa, og þá þurfa ekki að koma fyrir mörg tilfelli, til þess að hinir erlendu aðilar hafi hér orðið úrslitaáhrifin um þróun atvinnumála á Íslandi. Og þá er hætt við því, að efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar fari að verða valt.

Við Alþb.-menn erum andvígir þessum samningum ríkisstj. við hinn erlenda auðhring um atvinnurekstur í landinu. Við teljum mikla hættu felast í því að veita erlendu auðfyrirtæki sérréttindi til atvinnurekstrar, en álítum, að áfram sé hollast fyrir þjóðina að treysta á eigin atvinnuvegi og treysta á eigin yfirráð og forystu í þeim efnum. Við vörum við hættulegum afleiðingum í efnahagslífi landsins af slíkum stórframkvæmdum á fáum árum, eins og nú er háttað um framkvæmdir og atvinnurekstur, þar sem yfirleitt vantar mjög tilfinnanlega vinnuafl. Við vörum sérstaklega við því vanmati á atvinnuvegum þjóðarinnar, sem fram kemur í þessari samningsgerð ríkisstj., og teljum, að aldrei áður hafi þjóðin haft jafnmikla og góða möguleika til mikilla framkvæmda og framfara, aðeins ef auðlegðir landsins væru hagnýttar og byggt á grundvallaratvinnuvegum landsmanna sjálfra. Við vörum við hættulegum tilhneigingum, sem fram koma hjá ríkisstj. í þá átt að opna allar gáttir fyrir erlendum áhrifum, og þá einnig fyrir þeim áhrifum, sem augljóslega eru hættuleg íslenzkri menningu og sjálfstæði þjóðarinnar, bæði efnahagslegu og pólitísku.