15.12.1965
Sameinað þing: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2710 í B-deild Alþingistíðinda. (2110)

Aluminíumverksmiðja

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Mér þótti skýrsla hæstv. iðnmrh. ákaflega stutt og efnislítil, ekki sízt vegna þess, að öllu stærri hlutir hafa að undanförnu verið sagðir utan þessara veggja. Þegar síðasta fundi samninganefndanna lauk hér í Reykjavík fyrir skömmu, sendi iðnmrn. frá sér fréttatilkynningu og greindi þar frá því, að nú væri svo komið, að samkomulag hefði tekizt um öll aðalatriði málsins. Í framhaldi af því flutti hæstv. iðnmrh. skýrslu yfir trúnaðarmannasamkundu Sjálfstfl. og kvað endanlega mundu gengið frá aðalsamningi og fskj. á fundi í Sviss í byrjun janúar, að því er Mbl. greindi frá, en sjálfur kvaðst hann mundu undirrita samninginn með fyrirvara mánuði síðar. Það skýtur því ákaflega skökku við, þegar hæstv. ráðh. greindi frá því hér rétt áðan, að hæstv. ríkisstj. væri enn ekki búin að fara yfir þetta samningsuppkast. Mér er spurn, undir hvað ætlar hæstv. ráðh. að skrifa, hvernig getur hann tekið ákvörðun um það núna, áður en hæstv. ríkisstj. er búin að fara yfir málavextina?

Það verður ekki komizt hjá því að líta á þessa stuttaralegu og efnislitlu skýrslu ráðh. sem enn eina tilraun til þess að reyna að komast hjá almennum efnisumr. hér á þingi og meðal almennings, en það hefur verið hæstv. ríkisstj. sérstakt keppikefli frá upphafi vega. Mál þetta hefur alla tíð verið í höndum ríkisstj. og embættismanna hennar einvörðungu, og munu sumir embættismennirnir raunar hafa ráðið mestu um allan gang málsins. Allt til þessa dags hefur engin ákvörðun verið tekin á Alþ. um samningagerð þessa, og engin kjörin þn. hefur fjallað um málið. Alþm. hafa aðeins fengið að fylgjast með gerðum og ákvörðunum annarra. Gefnar hafa verið skýrslur, munnlegar og skriflegar, nokkrum sinnum auk þess, sem stjórnskipuð n. þm. úr öllum flokkum hefur fengið nánari kynni af málavöxtum. En þessi þmn. hefur ekki að neinu leyti haft ákvörðunarvald og ekki farið sjálf með neina samninga. Skýrslur þær, sem þm. hafa fengið, hafa langtímum saman verið trúnaðarmál, sem ekki var ætlazt til, að rædd væru opinberlega og almenningur fengi vitneskju um, og ég veit ekki betur en fulltrúarnir í þmn. séu enn bundnir þagnarheiti um ýmis atriði. Og ætlun hæstv. ríkisstj. er auðsjáanlega sú að halda þessum vinnubrögðum áfram allt til loka. Á Alþ. Íslendinga er einvörðungu litið sem afgreiðslustofnun. Hér á að lokum að fást formlegur stimpill á verk annarra. Slíkar starfsaðferðir eiga ekkert skylt við eðlileg, þingræðisleg vinnubrögð.

Það er vissulega rétt, sem sagt hefur verið, að 60 alþm. geta ekki átt sæti í samninganefnd og gengið þannig í einstökum atriðum frá jafnflókinni samningagerð og þeirri, sem unnið hefur verið að við svissneska alúminíumhringinn. En það eru einnig mjög óeðlileg vinnubrögð, að þetta mál komi fyrst til kasta Alþ. sem samningur við tiltekinn, erlendan auðhring. Hér er um að ræða gerbreytingu á meginstefnu í atvinnumálum og efnahagsmálum á Íslandi, fráhvarf frá þeim meginatriðum, sem menn hafa talið sjálfsögð og óhjákvæmileg til skamms tíma, að þróun atvinnuvega á Íslandi eigi að vera í höndum Íslendinga sjálfra, en erlendu fjármagni sé bannaður atvinnurekstur hér. Þegar hæstv. ríkisstj. hafði í hyggju að breyta þessari meginstefnu, bar henni að sjálfsögðu að bera þá hugmynd undir Alþ. í almennu formi, gera till. um lagabreytingar, sem óhjákvæmilegar væru í þessu skyni ásamt fyrirvörum og skilyrðum, sem tryggja ætti hagsmuni Íslendinga. Alþ. bar fyrst að taka ákvörðun um meginstefnuna, áður en farið væri að ganga frá tilteknum samningi. Hið almenna átti að koma á undan hinu sérstaka. Þannig hefur ekki verið á málum haldið, og ég sé ekki betur en ætlun ríkisstj. sé sú að láta almenna lagasetningu halda sér, en leggja samninginn við svissneska hringinn fyrir sem undantekningu, sem verður þá svo risavaxin, að hún yfirgnæfir almennu regluna.

Ástæðan fyrir þessum annarlegu vinnubrögðum er sú, að íslenzk stjórnarvöld hafa frá upphafi einsett sér, að samningar við svissneska alúminíumhringinn skyldu takast, og því vildi hæstv. ríkisstj. ekki binda sig fyrirfram við neina meginstefnu, sem gæti torveldað henni samningagerðina. Hún þurfti að vita, á hvaða kröfur svissneska hringsins hún yrði að fallast, áður en hægt væri að setja almennar reglur um aðstöðu erlends atvinnurekstrar á Íslandi.

Þær staðreyndir, sem nú blasa við úr samningagerðinni við Svisslendinga, sýna einnig, að almenn lagasetning um réttindi og skyldur erlends atvinnurekstrar á Íslandi hefði orðið að vera næsta kynleg, ef samningurinn við alúminíumhringinn hefði átt að rúmast innan þeirra. Ég er hræddur um, að hæstv. ríkisstj. hefði átt erfitt með að leggja fyrir Alþ. almennar till. um, að erlendur atvinnurekstur skyldi heimilaður á Íslandi og njóta stórfelldra forréttinda fram yfir íslenzkan atvinnurekstur á flestum sviðum. Hann skyldi fá raforku fyrir brot af því verði, sem íslenzkir atvinnuvegir eiga að greiða, hann skyldi njóta tollfrelsis, meðan íslenzkir atvinnuvegir verða að standa undir þungbærum álögum, hann skyldi fá fastan samning um skattgreiðslur, sem Alþ. hefði ekki heimild til að breyta, hann skyldi fá útkljáð deilumál við íslenzk stjórnarvöld fyrir alþjóðlegum dómstólum, eins og um ríki væri að ræða. Ég er sannfærður um, að engin íslenzk ríkisstj. hefði treyst sér til að gera till. um almenna löggjöf, sem fæli í sér þvílík skilyrði. Enda þarf ekki að gera því skóna, að slíkar hugmyndir hefðu fengið hljómgrunn hér á Alþ. eða verið framkvæmanlegar gagnvart þjóðinni. Þess vegna hefur málið ekki verið lagt fyrir Alþ. í almennu formi, heldur á að tryggja svissneska auðhringnum þessi forréttindi með sérsamningi, sem á að heita undanþága, en er svo risavaxin miðað við okkar aðstæður, að hann yfirgnæfir almennu regluna. Allt gengur þetta í berhögg við eðlileg, þingræðisleg og lýðræðisleg vinnubrögð og breytir engu, þótt þm. sé af náð leyft að fylgjast með einstökum atriðum. Sú afstaða stjórnarvaldanna, að samningar við svissneska hringinn yrðu að takast næstum því hvað sem það kostaði, hefur að sjálfsögðu orðið til þess, að aðstaða íslenzku samninganefndarmannanna héfur frá upphafi verið ákaflega erfið. Ekki skal ég draga það í efa, að þeir hafi lagt sig í framkróka til þess að ná hagstæðum samningum, en viðsemjandinn hefur allan tímann verið sterkari aðilinn af þessum ástæðum og gengið á það lagið. Sú afstaða ríkisstj. að ganga til samninga án þess að mynda sér fyrirfram skoðun um almennar reglur, hefur mótað alla þætti samninganna.

Kjarninn í hinum fyrirhugaða samningi við svissneska hringinn er sala á raforku, og í því skyni ællum við að ráðast í stórvirkjun á okkar mælikvarða við Búrfell. Eðlileg vinnubrögð hefðu verið þau, að sérfræðingar okkar hefðu gert áætlun um virkjunina, reiknað kostnaðarverð út á venjulegan hátt og gefið síðan svissneska hringnum kost á að kaupa raforku á kostnaðarverði að viðbættum hæfilegum ágóða. En að þessum samningum hefur verið staðið á þveröfugan hátt. Forsendan var sú, að svissneski hringurinn gaf upp það hámarksverð, sem hann væri reiðubúinn til að greiða, 10,75 aura á kwst. En síðan fól ríkisstj. sérfræðingum sínum að reyna að haga fyrirhugaðri Búrfellsvirkjun svo, að kostnaðarverð á raforku yrði í samræmi við hugmyndir hringsins. Af þessum ástæðum var breytt um tekjugrundvöll, þegar lög um landsvirkjun voru samþ. á Alþ. Þar var ákveðið, að í sambandi við Búrfellsvirkjun skyldi fella niður aðflutningsgjöld og söluskatt af öllu efni, tækjum og vélum til virkjunarinnar, en með því var stofnkostnaðurinn lækkaður um 200–300 millj. kr. En til þess að vega upp þennan tekjumissi voru jafnframt felld úr gildi ákvæðin um hámarksverð á raforku, og er ætlunin að leggja mjög stórfelldan neyzluskatt á raforkunotkun landsmanna sjálfra. Þannig á að verða tvöfalt raforkuverð frá Búrfellsvirkjun. Íslenzkir atvinnuvegir og almenningur eiga að greiða um það bil þrefalt hærra verð en svissneski hringurinn. Miðað við 60 þús. tonna alúmínbræðslu mundu þessi forréttindi hringsins nema hátt í 200 millj. kr. á ári.

En hér er ekki aðeins um breytingar á fjáröflunarkerfi að ræða. Bandaríska fyrirtækinu Harza Engineering Company International, sem gerði verkfræðiáætlanirnar um Búrfellsvirkjun, var falið að haga þeim svo, að kostnaðarverð yrði í samræmi við hugmyndir svissneska hringsins. Gerði hið bandaríska fyrirtæki áætlun um einfalda rennslisvirkjun í Þjórsá, og var talið, að stofnkostnaður við hana yrði ekki meiri en svo, að samningar við Svisslendinga gætu tekizt. En þótt hið bandaríska fyrirtæki hefði mikla reynslu af virkjunum víða um heim, gerðu sérfræðingar þess sér ekki grein fyrir hinum sérstöku virkjunaraðstæðum á Íslandi. En hér á landi er við að etja mjög stórfelld og næsta einstæð vandamál í ám vegna ísamyndana og aurskriðs, sem geta haft mjög veruleg áhrif á raforkuframleiðslu í sambandi við rennslisvirkjanir. Sættu áætlanir bandarísku verkfræðinganna mikilli gagnrýni, þegar þær sáu dagsins ljós, frá ýmsum þeim íslenzku sérfræðingum, sem bezt þekkja þessi vandamál. Ég minni á álitsgerðir Sigurðar Thoroddsens verkfræðings og Sigurjóns Rists vatnamælingamanns. Eftir allmiklar umræður fór þó einnig svo, að stjórnarvöldin neyddust til að viðurkenna, að óhjákvæmilegt kynni að vera að breyta áætlunum bandarísku sérfræðinganna. 1 lögunum um landsvirkjun segir svo í 6. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Landsvirkjun er heimilt að reisa allt að 210 þús. kw. raforkuver í Þjórsá við Búrfell ásamt aðalorkuveitum og gera nauðsynlegar ráðstafanir á vatnasvæði Þjórsár ofan virkjunarinnar til þess að tryggja rekstur hennar.“

En hverjar eru þessar nauðsynlegu ráðstafanir og hvað munu þær kosta? Um það hefur ekki verið birt nein greinargerð af hálfu íslenzkra stjórnarvalda og í skýrslu hæstv. iðnmrh. hér áðan var ekki vikið að þessu atriði einu orði. Hér er þó um grundvallaratriði að ræða, þegar meta skal hugsanlegan orkusölusamning við svissneska alúmínhringinn og þögnin um þetta atriði er þeim mun tortryggilegri sem fyrir liggur ný og mikilvæg vitneskja. Hér á landi dvöldust fyrr á þessu ári tveir norskir sérfræðingar, Kanavin og Devik, og rannsökuðu ísamyndunarvandamál á vatnasvæði Hvítár og Þjórsár á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þeir gáfu sérstakan gaum að virkjunarvandamálum við Búrfell í sambandi við þær áætlanir, sem gerðar höfðu verið. E. V. Kanavin, sem veitti rannsókninni forstöðu, skrifaði grein um niðurstöður þeirra félaga í tímaritið Forsekallen, 3. hefti, sem kom út í sept. í haust, en tímarit þetta er gefið út af norsku raforkumálaskrifstofunni og þar segir hann m.a., með leyfi hæstv. forseta, í lauslegri þýðingu:

„Samkvæmt þekkingu þeirri, sem við höfum öðlazt á eðli hinnar óvenjulega miklu ísamyndunar, sem á sér stað í Þjórsá, verður að okkar áliti að ráðast í víðtæk miðlunarvirki sem óhjákvæmilegan hluta af hverri virkjunarframkvæmd á þessu vatnasvæði, ef tryggja á örugga orkuframleiðslu með vatnsafli. Með hefðbundinni virkjun eiga menn á hættu erfiðleika, sem eru svo miklir, að þeir eiga naumast sinn líka í öðrum löndum. Ég vil yfirleitt leggja ríka áherzlu á það, að náttúruskilyrði á Íslandi eru að mörgu leyti svo sérstæð, að það er hættulegt að færa sér umsvifalaust í nyt reynslu eða aðferðir frá öðrum löndum. Þegar nú taka við virkjanir og iðnvæðing landsins, hvílir mesta verkefnið á Íslendingum sjálfum, og undirstöðuna verður að leggja með kerfisbundnum athugunum og vísindarannsóknum.“

Norsku sérfræðingarnir telja þannig, að mjög víðtæk miðlunarvirki verði óhjákvæmileg, ef tryggja eigi örugga orkuframleiðslu. Að öðrum kosti vofi yfir hætta á örðugleikum, sem naumast eigi nokkurn sinn líka annars staðar. Í samræmi við þetta benda norsku sérfræðingarnir á það sem lausn í skýrslu, sem þeir hafa þegar afhent Sameinuðu þjóðunum, að ráðizt verði í miðlunarvirki svo sem hér segir: Gerð verði 30 til 40 m há og mikil stífla fyrir neðan Sultartanga, ein lægri stífla í Þjórsá og tvær lægri stíflur í Tungná og enn fremur grjótgarðar út í ána frá báðum bökkum með 600–700 m millibili niður að virkjunarstað. Tillaga þessi er í samræmi við hugmyndir þær, sem íslenzkir verkfræðingar, sem athugað hafa málið, hafa einnig gert sér um lausn þessa vanda. En framkvæmdir þessar munu kosta ekki undir 200 millj. kr., en sú viðbót við virkjunarkostnaðinn raskar að sjálfsögðu öllum fyrri áætlunum um kostnaðarverð á raforku miðað við einfalda rennslisvirkjun, eins og bandaríska fyrirtækið gerði upphaflega tillögur um.

En það eru fleiri atriði, sem ekki eru reiknuð inn í virkjunarkostnaðinn. Eins og kunnugt er, er áformað að koma upp varastöðvum til öryggis, ef truflanir verða við Búrfell, og eru slíkar stöðvar m.a. skilyrði frá alúmínhringnum, því að bræðslan verður að fá örugga lágmarksorku, svo að aldrei storkni í pottunum. Þær stöðvar, sem um er rætt, eiga að kosta 160–180 millj. kr., en sá stofnkostnaður er ekki reiknaður inn í heildaráætlunina, heldur er Íslendingum einum ætlað að bera hann. Er þessi óeðlilegi háttur á hafður til þess að hægt sé að reikna út kostnaðarverð á pappírnum, sem jafngildir hugmyndum hringsins. Þá er augljóst mál, að kostnaðartölur þær, sem reiknað er með í áætlununum, fá engan veginn staðizt vegna verðbólguþróunarinnar á Íslandi. Áætlanirnar eru frá því í febrúarmánuði 1964, en framkvæmdum á ekki að vera lokið fyrr en 5 árum síðar en byggingarkostnaður var reiknaður út. Síðustu 5 ár hefur byggingarkostnaður hækkað um a.m.k. 10% á ári, og sízt mun draga úr þeirri verðbólguþróun, ef ráðast á í stórframkvæmdir þær, sem nú er rætt um. Því munu jafnvel þær heildarkostnaðartölur, sem reiknað hefur verið með, ekki fá staðizt, heldur hækka mjög verulega, vafalaust um 100–200 millj. kr.

Ég vil enn nefna eitt atriði af hliðstæðu tagi. Hvarvetna par sem alúmínbræðslur hafa verið reistar í nágrenni okkar að undanförnu, hefur verið talið sjálfsagt að búa þær hreinsunartækjum til þess að koma í veg fyrir flúoreitrun á jarðvegi og gróðri í nágrenninu. En svissneski hringurinn tilkynnti íslenzku samninganefndinni, að slíkur hreinsunarútbúnaður yrði þá að vera á kostnað Íslendinga og birtast í lægra raforkuverði, en hreinsunarútbúnaður er talinn kosta um 100 millj. kr. Til þess að losna við þetta vandamál er um það rætt, að alúmínbræðslan verði án hreinsunartækja í námunda við þéttbýlustu svæði á Íslandi, þar sem m.a. er stunduð matvælaframleiðsla til útflutnings. Fæ ég með engu móti skilið, að þar sé um raunsæjar áætlanir að ræða. En allt er þetta til marks um vonlausa baráttu stjórnarvaldanna til þess að reyna að sanna það á pappírnum, að verð það, sem alúmínhringurinn býður, 10.75 aurar á kwst., sé í samræmi víð raunverulegt kostnaðarverð. Þær tilraunir hafa mistekizt fyrir löngu og endanlega nú, þegar fyrir liggur, að óhjákvæmileg eru stórfelld miðlunarvirki fyrir ofan virkjunarstaðinn, og í umr. um þessi atriði hefur það verið athyglisvert, að stjórnarvöldin hafa aldrei fengizt til þess að nefna tölur um kostnaðarverð á raforku frá Búrfellsvirkjun. Um það atriði hefur ríkt óvissa, en í staðinn hefur verið sagt stundum með almennu orðalagi, að tilboð hringsins muni vera fyrir ofan kostnaðarverð. Virðist sannarlega ekki seinna vænna, að hæstv. ríkisstj. geri fullkomna og ýtarlega grein fyrir þessu atriði og dragi ekki undan neina kostnaðarliði. Komi þá í ljós, eins og full ástæða virðist til að ætla, að tilboð svissneska hringsins nær ekki raunverulegu kostnaðarverði, væri fróðlegt að fá skýringar stjórnarvaldanna á því, hvernig samningur af því tagi getur verið hagkvæmur Íslendingum, hvernig hægt er að ætlast til þess, að Íslendingar borgi hreinlega með raforku til hins erlenda fyrirtækis. Sú röksemd heyrist stundum, að hér sé um að ræða afgangsorku, sem Íslendingar þurfi ekki að hagnýta á næstunni og því séu tekjurnar af viðskiptunum við alúminíumhringinn fundið fé, þótt verðið sé lágt og létti okkur það stórvirki að beizla Þjórsá við Búrfell. En ekki þarf að líta langt fram í tímann til þess að átta sig á því, að þessi röksemd stenzt engan veginn. Af 210 þús. kw. virkjun ætlar hringurinn sér 126 þús. kw., en okkur verða aðeins eftir skilin 84 þús. kw. Raforkunotkun Íslendinga eykst hins vegar mjög ört. Hún hefur tvöfaldazt á hverjum áratug að undanförnu og samkvæmt orkuneyzluspá Raforkumálaskrifstofunnar verða Íslendingar búnir að fullnýta alla þá orku, sem þeim verður eftir skilin frá Búrfellsvirkjun, 1976–1977. Þá yrði ný virkjun að vera komin í gagnið í okkar þágu, þannig að framkvæmdir við hana yrðu að hefjast mjög fljótlega eftir að Búrfellsvirkjun væri lokið. Sérfræðingar telja, að Búrfellsvirkjun sé hagkvæmasta virkjun, sem finnanleg sé á Íslandi, svo að næsti áfangi verði mun dýrari.

Bilið milli þess raforkuverðs, sem Íslendingar eiga að búa við, og þess, sem alúmínhringurinn greiðir, heldur áfram að stækka. Ef kaup alúmínhringsins á umframorku ættu að vera hagkvæm Íslendingum, yrðum við að eiga kost á því að taka þessa umframorku í okkar þágu, þegar er við þyrftum á henni að halda, en því er sannarlega ekki að heilsa. Hringurinn áskilur sér möguleika til þess að halda orkuviðskiptunum í hvorki meira né minna en 55 ár. Þegar að þeim tíma kemur, blasir sú staðreynd við, að Íslendingar verða búnir að beizla alla þá vatnsorku, sem unnt er að nýta í landinu, og verða farnir að leita fyrir sér að öðrum orkulindum. Allan þennan tíma á alúmínhringurinn sem sé að njóta þeirrar virkjunar, sem hagkvæmust er og ódýrust. Oft er talað um, að orka sú, sem í vatnsföllunum býr, sé mikil auðlind fyrir Íslendinga. Hitt má virðast nokkurt álitamál, hvernig rétt sé að meta auðlind þessa til fjár, ef við eigum að fara að stunda sölu á henni til annarra. Á umræðufundi um þessi mál, sem stúdentar gengust fyrir í vor, benti einn ræðumanna, Jakob Björnsson verkfræðingur, á það, að Íslendingar mundu nota raforku til flestra þeirra þarfa, sem raforka er notuð til nú, jafnvel þótt engin vatnsföll væru til í landinu, en við yrðum að flytja inn eldsneyti, eins og t.d. Danir gera. Sé vatnsorkan metin á þessum forsendum, kemur í ljós, að hún er mjög hagkvæm þjóðhagslega, hún sparar okkur svo sem 20 aura á kwst., miðað við það, að við flytjum annars inn eldsneyti. Þetta er hinn hreini þjóðhagslegi ágóði okkar eða ágóðavonir, sem bundnar eru við framtíðina, af þeim vatnsföllum, sem enn eru ekki virkjuð. Sé þessum mælikvarða beitt á samningana við alúminíumhringinn, kemur glöggt í ljós, hversu óhagkvæm þau viðskipti eru. Jafnvel meðan menn gerðu sér vonir um, að svissneski hringurinn greiddi hærra en kostnaðarverð, voru hugmyndirnar kannske einn eyrir eða brot úr eyri. En eins og áðan var rakið, bendir nú allt til þess, að kostnaðarverðið náist engan veginn. Því felur samningurinn við alúminíumhringinn það í sér, að ágóðinn af meiri hluta Búrfellsvirkjunar, hinn þjóðfélagslegi ágóði af meiri hluta Búrfellsvirkjunar rennur út úr landinu. Sá stórfelldi möguleiki, sem ég minntist á áðan, kemur erlendu auðfélagi til góða, en ekki okkur fyrr en þá eftir 55 ár.

Vissulega eru mörg vandamál tengd virkjun íslenzkra vatnsfalla, ekki sízt sú staðreynd, að sumar virkjanir okkar verða mjög stórar í samanburði við hið litla íslenzka þjóðfélag og getur því verið um að ræða umframorku, sem við nýtum ekki árum saman. Eðlilegt er, að menn velti því fyrir sér, hvernig unnt sé að leysa þennan vanda. Á það hefur verið bent í þessu sambandi af sérfróðum mönnum, að nú væri tæknilega framkvæmanlegt að leggja sæstreng til Skotlands til orkuflutninga. Um slíkan streng gætum við flutt út afgangsorku, þegar svo stæðu sakir hjá okkur, og annað kastið flutt inn orku erlendis frá. Slík framkvæmd væri mjög mikið og kostnaðarsamt fyrirtæki, einnig í samanburði við þær framkvæmdir, sem nú er rætt um. En engu að síður hefði verið mjög fróðlegt að fá gaumgæfilega skýrslu um þennan möguleika.

Eins og ég sagði áðan, verðum við búnir að taka í notkun alla vatnsorku okkar nokkru eftir næstu aldamót og þurfum þá að hagnýta aðrar orkulindir. Búast má við, að þá verði kjarnorkan umfram allt á dagskrá. en eins og nú horfir, virðist þurfa risastórar kjarnorkustöðvar til þess að skila ódýrri raforku. Slík stöð kynni að verða Íslendingum ofviða, en þá væri hægt að kaupa orku frá slíkri stöð í Bretlandi eða á meginlandi Evrópu. Sæstrengur, sem nú væri lagður til að auðvelda okkur stórvirkjanir, gerði okkur þá kleift að flytja inn orku. Væri fróðlegt að heyra frá hæstv. iðnmrh., hvort þessi möguleiki hefur eitthvað verið ræddur og kannaður af stjórnarvöldunum og borinn saman við samninginn við svissneska hringinn. Í raforkumálum okkar er án efa skynsamlegt að reyna að gera sér einhverja grein fyrir þróuninni marga áratugi fram í tímann.

Ég hef hér einkanlega rætt um raforkuverðið og væntanlega orkusölusamninga við svissneska alúminíumhringinn, vegna þess að það er hinn efnahagslegi kjarni þessa stórfellda vandamáls, enda þótt málið hafi aðra og mjög veigamikla þætti, eins og hér hefur einnig komið fram að nokkru. En þetta mál er ekki eintóm viðskipti og hagfræði. E.t.v. er það alvarlegasta staðreyndin, sem nú blasir við okkur í þessu máli, af hvílíku ofurkappi stjórnarvöldin sækja það, að slíkir samningar verði gerðir, jafnvel þótt hinar efnahagslegu hliðar málsins hafi stöðugt orðið óhagkvæmari. Samningarnir virðast hafa verið stjórnarvöldunum sáluhjálparatriði frá upphafi. Í því birtist í verki viðhorf, sem á undanförnum árum hefur orðið æ ljósara í fari valdhafanna, vantrú þeirra á því, að Íslendingar séu þess megnugir af eigin rammleik að halda uppi til frambúðar öflugu og blómlegu þjóðfélagi. Árum saman hefur verið unnið markvisst að því; að Íslendingar tengdust öðrum og stærri heildum, eins og það hefur verið kallað. Í hvert skipti, sem slíkir möguleikar hafa opnazt, hefur mikill áhugi kviknað hjá valdhöfunum, og nægir í því sambandi að minna á löngunina til þess að komast í viðskiptabandalögin í Evrópu. Sú ótrú, sem fram kemur í þessu á möguleikum Íslendinga til þess að tryggja af eigin rammleik öra og hagstæða hagþróun, er háskalegri en allt annað, því að í efnahagsmálum og stjórnmálum er vilji og þjóðleg stefnufesta ekki síður mikilvægt atriði en kaldar, hagfræðilegar tölur. ótrú valdhafanna á getu okkar er einnig gersamlega ástæðulaus. Við þurfum sannarlega ekki að blygðast okkar í samanburði við aðra fyrir þá efnahagsþróun, sem hér hefur orðið á undanförnum áratugum. Og efnahagslega séð erum við betur færir til þess en nokkru sinni fyrr að ráðast í ný verkefni. Það er vissulega rétt, að við þurfum að gera íslenzkt atvinnulíf fjölbreyttara, taka upp nýjar atvinnugreinar og efla útflutningsiðnaðinn, en á því sviði gætum við án efa fundið fjölmörg verkefni, sem við réðum við af eigin rammleik, án þess að hlíta forsjá erlendra auðfélaga. Ég minnist til að mynda athyglisverðrar greinar, sem Ásgeir Þorsteinsson verkfræðingur birti í Morgunblaðinu fyrr á þessu ári um hugsanlega efnaiðnaðarframleiðslu, sem Íslendingar réðu við. En rannsóknir á þeim sviðum hafa verið vanræktar með öllu, vegna þess að stjórnarvöldin hafa einblínt á erlenda aðila, sem ættu að leysa verkefnin í okkar stað. Þegar farið er að treysta á erlenda forsjá um hin veigamestu atriði, dregur þrótt og þor úr landsmönnum. Þess sjást þegar merki, hvernig þessi afstaða smitar út frá sér. Nú þykir helzt ekki gerlegt að ráðast í nokkra framkvæmd nema með erlendri þátttöku allt niður í bjórbruggun. Hin fyrirhugaða alúminíumbræðsla er risafyrirtæki á okkar mælikvarða. Ekki verða fundin dæmi um jafn umfangsmikla, erlenda fjárfestingu hjá nokkru fullvalda ríki í víðri veröld. Til samanburðar þarf að leita uppi nýlendur og hálfnýlendur. En í kjölfarið munu koma erlend ítök á flestum sviðum, þar sem ábatavon er að finna. Komist þessi stefna í framkvæmd, mun íslenzkum atvinnurekendum fljótlega finnast þröng fyrir dyrum, enda hlýtur hæstv. ríkisstj. að vera fullkunnugt um hina víðtæku andstöðu við málið meðal atvinnurekenda í sjávarútvegi og fiskiðnaði, þeim atvinnurekstri, sem nú er undirstaða efnahagslífsins.

Ég minntist á það í upphafi, að ég teldi það mjög óeðlilegt, að málið kæmi til kasta Alþ. á þann hátt, sem hæstv. ríkisstj. hefur fyrirhugað, sem fullfrágenginn og undirritaður samningur við svissneska alúminíumhringinn. Fyrst ber að leggja sjálft vandamálið fyrir Alþ. Íslendinga sem meginstefnu, sem grundvallarbreytingu frá þeirri afstöðu, sem verið hefur í gildi allt til þessa, og ræða það mál gaumgæfilega með þjóðleg og efnahagsleg sjónarmið í fyrirrúmi. Komist Alþ. að þeirri niðurstöðu, að breyta beri þeirri grundvallarstefnu, sem nú er í gildi, og gefa erlendu fjármagni rétt til atvinnurekstrar á Íslandi, þá og þá fyrst er tímabært að leggja fyrir Alþ. þá framkvæmd slíkrar stefnubreytingar, sem felst í samningunum við svissneska hringinn. Ég vil mjög eindregið skora á hæstv. ríkisstj. að hafa þennan hátt á.