02.03.1966
Sameinað þing: 29. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2739 í B-deild Alþingistíðinda. (2118)

Almennur lífeyrissjóður

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. félmrh. fyrir þá skýrslu, sem hann hefur hér gefið þingheimi. Um hana má segja það, að hún er ekki gefin vonum fyrr, því að satt að segja hafa býsna margir verið orðnir langeygðir eftir því að heyra eitthvað af þessu máli. Og nú fyrir nokkrum dögum var hér einmitt útbýtt fsp. á þskj. 130 frá 4. þm. Reykn., þar sem spurzt var fyrir; hvað liði framkvæmd þeirrar þál., sem samþ. var hér á Alþ. 13. maí 1964. Og þessi fsp. var lögð inn í síðustu viku, á miðvikudag, að ég ætla. Hvort sú skýrsla, sem hér er gefin, stendur að einhverju leyti í sambandi við þá fsp. eða ekki, skal ég láta ósagt, enda skiptir það í sjálfu sér engu máli. Gerð félmrh. er söm og jafngóðra gjalda verð, hvort sem það er að hans eigin frumkvæði eða að einhverju leyti fyrir þá ábendingu, sem fram hefur komið.

Skýrsla hæstv. félmrh. var að mörgu leyti fróðleg og sjálfsagt að mestu leyti í samræmi við staðreyndir málsins. En þó hefði ekki skaðað að hafa hana fyllri um sum atriði, og ég mun nú leyfa mér að bæta aðeins örfáum sögulegum atriðum við í þá skýrslu.

Það er rétt, sem hæstv. félmrh. sagði, að það var flutt hér á Alþ. árið 1957 till. til þál., og var hún flutt þar af nokkrum framsóknarmönnum, — sem fól í sér áskorun til ríkisstj. um það að athuga, hvort tiltækilegt væri að koma hér á fót lífeyrissjóði fyrir landsmenn alla. Þessi till. var þá samþ., og rétt var skýrt frá af hálfu hæstv. félmrh. um það, að hún hefði veríð samþ. Hins vegar held ég, að það hafi fallið niður hjá honum að geta þess, hverjir fluttu hana.

Það er svo rétt, eins og hæstv. félmrh. skýrði frá, að á árinu 1958 skipaði þáv. félmrh. n. 5 manna til þess að sinna því verkefni, sem fólst í þessari þáltill., og í þeirri n. áttu sæti þeir menn, sem hæstv. félmrh. las hér upp. Þessi n. athugaði þetta mál og skilaði allýtarlegu nál. um það í nóvembermánuði 1960. Áður en hún hafði gert það, hafði hún haft samband við ýmis stéttasamtök m.a. og leitað umsagna þeirra um málið. Enn fremur hafði hún fengið tryggingafræðing, Guðjón Hansen, til þess að athuga málið, og hafði hann þá skilað rækilegri grg. um málið, sem einnig mun hafa fylgt með því nál., sem fór til ríkisstj. Og réttilega var skýrt frá um niðurstöður þessarar athugunar. Niðurstöður þessarar n. voru sem sé þær, að hún teldi rétt, að sett væri löggjöf um lífeyrissjóð fyrir landsmenn þá alla, sem ekki ættu aðgang að öðrum lífeyrissjóðum, í öðru lagi, sú lifeyristrygging, sem væri í þessum lífeyrissjóði, skyldi vera viðbótartrygging við almannatryggingarnar, og í þriðja lagi, að sem fyrst skyldi horfið að því ráði að gera hina sérstöku lífeyrissjóði að viðbótartryggingu við almannatryggingakerfið. Þessu áliti var sem sagt skilað inn til hæstv. ríkisstj. í nóv. 1960, en svo leið og beið. Það gerðist ekki neitt. Það varð ekki séð og varð ekki kunnugt um, að af hálfu ríkisstj. væru gerðar neinar ráðstafanir til þess að sinna þeirri till., sem fólst í þessu nál., að láta semja löggjöf um lífeyrissjóð. Og ekki var leitað til þeirrar n., sem starfaði frá 1958–1960, um það, en hún hafði ekki talið það verkefni sitt, heldur hafði hún talið verkefni sínu lokið, þegar hún hafði skilað þessu áliti inn til ríkisstj. Og þegar svo var loks komið, að ekkert — ekki hósti eða stuna — hafði heyrzt frá hæstv. ríkisstj. um þetta mál, var það svo á Alþ. 1963 – 1964, að enn báru nokkrir framsóknarmenn fram till. til þál. um það, að kosin skyldi á Alþ. 5 manna n. hlutfallskosningu til þess að semja löggjöf um lífeyrissjóð fyrir landsmenn alla. Þrátt fyrir þriggja ára athugun sína á málinu mun þó ríkisstj. þá ekki hafa verið viðbúin því að samþykkja þessa till., því að í meðferð Alþ. og hjá þeirri n., sem hana hafði til meðferðar, var till. breytt á þá lund að fela ríkisstj. að láta kanna til hlítar, hvort tiltækilegt væri að koma á fót lífeyrissjóði fyrir landsmenn alla og semja löggjöf um það efni.

Nú má náttúrlega alltaf segja það, að ekki saki að athuga málvel og betur sjái augu en auga. En ég vil nú meina, að a.m.k. 3 af þessum nm., sem sátu í n. 1958–1960, hafi verulegan kunnugleika á tryggingamálum, svo að aðrir hér á landi hafi hann ekki meiri. Og þar til vil ég nefna forstjóra Tryggingastofnunarinnar, Sverri Þorbjörnsson, og í annan stað ráðuneytisstjórann í sjálfu félmrn., Hjálmar Vilhjálmsson, og í þriðja lagi Gunnar J. Möller hæstaréttarlögmann, sem um langt skeið hefur unnið að tryggingarmálum, og sleppi ég þá algerlega okkur Guðmundi J. Guðmundssyni og læt þessa þrjá nægja. En mér finnst það nokkuð hart að taka ekki meira mark á því, sem fram kom af þeirra hálfu, heldur en samþykkt till. frá 13. maí 1964 bar vitni um. Þegar sú till. var til lokaafgreiðslu hér í þinginu, tók ég til máls og lýsti einmitt þessari skoðun minni, að ég teldi þá athugun í sjálfu sér alveg óþarfa, hvort það ætti að setja hér löggjöf um þetta efni, það væri búið þegar að athuga það og það, sem nú þyrfti að gera, væri að vinda sér í það að semja slíka löggjöf. Vitaskuld væri það vandaverk, og öllum er ljóst, sem nokkuð hafa hugsað um þessi mál, að það tekur langan tima að semja slíka löggjöf, og þá fyrst þegar farið er að semja hana, vakna upp ýmis vandamál, sem menn verða að gera sér grein fyrir. En það var ekki tekið þá undir þessa ábendingu mína, og till. var afgreidd í því formi, sem hún var, 13. maí 1964.

Nú hefði mátt ætla, að hæstv. ríkisstj. hefði verið viðbragðsfljót og unnið skjótt að þessu máli. En þá ályktun mína dreg ég af því, að í eldhúsumr., sem fram fóru á Alþ. nokkrum dögum eftir að þetta skeði, sáu tveir hæstv. ráðh. alveg sérstaklega ástæðu til þess að undirstrika nauðsyn þessa máls, og þar fór fyrir hæstv. menntmrh. og lýsti með stórum orðum því þriðja verkefni, sem Alþfl. ætlaði sér á komandi árum, en það var að setja upp slíkan lífeyrissjóð. Og hann taldi það vera eitt allra stærsta verkefnið, sem fyrir lægi á komandi árum, og er ég honum út af fyrir sig alveg hjartanlega sammála um það. Og á eftir hæstv. menntmrh. kom svo hæstv. landbrh. og sagði með sínum hætti, að það væri vitaskuld alveg rétt, að það þyrfti að stofna lífeyrissjóð fyrir landsmenn alla.

Svo hefur ríkisstj. gert það í þessu máli, að hún hefur skipað ágætan mann, Harald Guðmundsson fyrrv. ráðh. og ambassador, til þess að kanna þetta mál, til þess að kanna til hlítar, hvort það væri tiltækilegt að koma slíkum lífeyrissjóði hér á fót og setja löggjöf um það, — ekki að setja löggjöfina, það er enn þá eftir, og að þessu verkefni hefur nú verið unnið í nærfellt tvö ár. Og þá kemur þessi skýrsla.

Um þessa skýrslu er það að segja, að ég hef náttúrlega ekki átt þess kost að athuga hana. Ég geri ráð fyrir, að hún sé ágætlega samin og í henni séu margar merkilegar upplýsingar og í henni muni út af fyrir sig vera mikið gagn fyrir framhaldsmeðferð málsins. Og ég vil taka það fram, að ég tel náttúrlega, að Haraldur Guðmundsson hafi verið ágætlega vel fallinn til þessa starfs vegna síns fyrri kunnugleika á þessum málum. En ég tel samt, eins og ég taldi strax 1964 í sambandi við þá þáltill., sem þá var afgreidd, að það hefði verið heppilegra þá strax að fara inn á þá leið að kjósa mþn. til þess að fjalla um þetta mál og til þess í beinu framhaldi af skýrslu og starfi n., sem skilaði af sér í nóv. 1960, að semja löggjöf um þetta mál. Það hefði verið leikur einn. Og ef þannig hefði verið staðið að málinu, gæti frv. að slíkri löggjöf verið til nú og því verið útbýtt í staðinn fyrir þá skýrslu, sem nú er útbýtt og sjálfsagt er merkileg á alla lund.

Ég hef aðeins talið rétt að rifja upp þessi atriði, vegna þess ekki hvað sízt, að mér hefur virzt bera á því að undanförnu, að sumum mönnum hætti dálítið við að gleyma forsögu þessa máls. Ég rak mig t.d. á það í annars ágætri grein eftir ritstjóra Alþýðublaðsins, hv. 5. þm. Vesturl., sem hann skrifaði um þetta mál í Alþýðublaðið 13. febr., að hann virtist vera merkilega ókunnugur forsögu þessa máls. Að vísu var auðsætt á yfirskrift greinarinnar, að hann hafði réttan skilning á því, hvernig í raun og veru hafði verið haldið á þessu máli, því að yfirskriftin var: Aðeins kominn hálfa leið. En í þessari grein sagði hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Haraldur Guðmundsson fyrrv. ráðh. fékk það hlutverk að gera fyrstu athugun á því, og hefur hann fyrir nokkru skilað ríkisstj. skýrslu.“

Þegar menn athuga það, sem ég hef hér sagt, og líka það, sem hæstv. félmrh. sagði í sinni skýrslu hér áðan, sjá menn, hve það er fjarri lagi, að þetta sé rétt, að Haraldi Guðmundssyni hafi verið falið að framkvæma fyrstu athugun á þessu máli. Það voru þvert á móti Sverrir Þorbjörnsson, Hjálmar Vilhjálmsson og Gunnar J. Möller ásamt tveim öðrum mönnum, sem framkvæmdu fyrstu athugun í þessu máli og skiluðu áliti um það í nóv. 1960, — mjög jákvæðu áliti. Og ég get ekki neitað því, að í annars mjög skemmtilegu viðtali, sem nokkrir ungir menn áttu við hæstv. núv. utanrrh. í ríkisútvarpinu fyrir skömmu, þá fannst mér brydda á því, að hæstv. fyrrv. félmrh., sem á í raun og veru allt í þessu máli, sem ég hef sagt, en núverandi félmrh. á þar ekki neitt, — hann lét brydda á því, að mér fannst, að Alþfl. hefði verið alveg sérstaklega mikið riðinn við þetta mál frá upphafi og eiginlega hefði ekkert í því gerzt, að mér skildist, fyrr en Haraldi Guðmundssyni hefði verið falið að athuga málið. Það er nú sjálfsagt, að þetta getur stafað af því, að tími hefur verið naumur til útskýringa þar, og mér dettur ekki í hug að vilja væna hæstv. utanrrh. um það, að hann hafi viljað fara þar með rangt mál. En mér virðist sem sagt bera á ofur lítilli tilhneigingu hjá Alþýðuflokknum að vilja eigna sér þetta mál sem einhverja séreign, og það vil ég ekki alveg á fallast, og það má kannske segja, að það sé einhver afbrýðisemi frá minni hálfu. En í annan stað vil ég segja það um Alþfl. í þessu sambandi, að mér finnst hann vel þola það, þegar rætt er um tryggingarmál, að sannleikanum sé algerlega fylgt um þetta mál, því að ég dreg enga dul á þá skoðun mína, að af öllum stjórnmálaflokkunum hér hefur Alþfl. unnið bezt að tryggingarmálum og á í þeim mestan þáttinn, þannig að hann þarf ekki á því að halda að vera að skreyta sig með neinum lánsfjöðrum. Þetta er mér ljúft að segja, um leið og ég tel sjálfsagt að hafa hið sanna í þessu máli, en vera ekki að reyna að brengla staðreyndunum í því. Ég verð hins vegar að segja það, úr því að ég minntist á grein ritstjóra Alþýðublaðsins, þá gladdi niðurlag hennar mig alveg sérstaklega, þar sem hann segir: „Hin nýja ellitrygging verður á komandi árum það mál, sem flokkurinn mun leggja hvað mesta áherzlu á.“ Þetta er gleðilegt. En sannleikurinn er sá, að það er ekki hægt að segja með sanni, að Alþfl. hafi lagt verulega áherzlu á þetta mál á undanförnum árum, því að það er búið að taka 9 ár að koma því á það stig, sem það þó nú er komið á. Þetta er rétt að komi fram.

Það má svo segja auðvitað út af fyrir sig, að það, sem ég hef hér verið að tala um, séu aukaatriði, en aukaatriði, sem samt er rétt að komi fram. Aðalatriðið er auðvitað að koma á þessum almenna lífeyrissjóði og koma honum á sem fyrst, án þess þar komi nokkur metingur til greina um það, hverjir hafi staðið mest að því að koma þessu máli á framfæri og hverjir hafi verið einna daufastir til framkvæmda þar. Og þá vil ég aðeins segja það í tilefni af þeirri skýrslu, sem hæstv. félmrh. gaf, að ég heyrði það mér til mikillar ánægju, að hann gerði ráð fyrir því, að nú yrði hafizt handa um að semja þá löggjöf, sem til þarf að koma um þennan lífeyrissjóð, og hann gerði enn fremur ráð fyrir því, að sú löggjöf mundi verða samin af nefnd, sem flokkarnir tilnefndu menn í. Þetta er út af fyrir sig mjög ánægjulegt. Hins vegar vildi hann ekki gefa nein sérstök fyrirheit um það, hvenær því löggjafarstarfi og löggjafarundirbúningi gæti verið lokið, og það skil ég út af fyrir sig mjög vel, því að sannleikurinn er sá, að þegar á að fara að semja löggjöf um þetta mál, munu þeir reka sig á það, sem það eiga að gera, að þar koma margar spurningar, sem þeir verða að svara og gera sér grein fyrir. Ég veit ekki, hvort skýrsla Haralds Guðmundssonar geymir svar við þeim spurningum, — má vera að svo sé, dreg það þó í efa. Það þarf t.d. að gera sér grein fyrir því, hvort lífeyrissjóðurinn á að vera allur í einu lagi eða hvort það á að vera deildaskipting og sú deildaskipting að vera þannig, að deildirnar hafi sérskilinn fjárhag o.s.frv. Það verður að gera sér grein fyrir því, hvort þarna á að vera frá upphafi um algera skyldutryggingu að ræða eða hvort það á að greina eitthvað niður og heimila að einhverju leyti frjálsar tryggingar til að byrja með. Og þannig mætti lengi telja. Þau verða mörg atriðin, sem þarna koma til og þarf að athuga.

Ég verð að fagna þeirri yfirlýsingu ráðh., að það skuli vera gert ráð fyrir því, að þetta frv. verði samið af n., sem flokkarnir eiga fulltrúa í, því að þannig álít ég og hef frá upphafi álitið að ætti að vinna að þessu máli. Og það var mín skoðun 1964, þegar þessi þáltill. var fram borin og afgreidd hér. Þá gekk hún í upphafi einmitt út á það, að kjósa skyldi 5 manna n. til þess að semja töggjöf um þetta efni. Það hefði verið miklu krókaminna að samþ. þá till. þá strax og kjósa þá n., í stað þess að eyða þessum tíma, sem síðan er liðinn, ég vil ekki segja til einskis, því að sjálfsagt eru margar gagnlegar upplýsingar í þessari skýrslu, en þeirra upplýsinga hefði sú n., sem kjörin hefði verið til þess að semja frv., hæglega getað aflað sér, eftir því sem á þurfti að halda. Og það hefði í raun og veru verið mjög auðvelt að fylgjast með í þessum málum og mikið efni verið um þau hægt að fá vegna þess, hvernig staðið hefur á hjá grannþjóðum okkar í þessu efni.

Það má náttúrlega segja kannske, að það sé form eitt, hvort n. er stjórnskipuð og með þeim hætti, að flokkarnir tilnefni fulltrúa sína í hana, en eðlilegast hefði ég þó talið, að það hefði verið gengið hreint til verks og þingkjörinni n. beinlínis falið þetta verkefni.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð öllu fleiri. Af því, sem ég hef hér sagt, kemur það náttúrlega fram, að ég hef verið mikill fylgjandi þess, að hér væri stofnaður slíkur almennur lífeyrissjóður, og ég tel á því mikla nauðsyn. Ég tel, að það hefði átt að vera búið að gera í raun og veru. Ég tel, að verkefnið hafi orðið og verði því erfiðara, sem fleiri sérsjóðir hafa verið stofnaðir. En það hefur einmitt verið unnið að því af kappi nú á undanförnum árum, að koma á fót ýmsum sérsjóðum. Hver stéttin á fætur annarri hefur stofnað slíka sérsjóði. Og það er í rauninni erfiðara við þetta allt að eiga, þegar þannig er komið, því að sannleikurinn er sá, að þá sitja þeir einir eftir, sem erfiðasta og versta hafa aðstöðuna. Það er náttúrlega ekki rétt, heldur mjög ranglátt. Það er þess vegna réttlætismál að koma þessu máli í höfn og að allir geti setið hér við sama borð og að öllum séu í ellinni tryggð sæmileg lífskjör. En þó að almannatryggingarnar séu út af fyrir sig ákaflega góðra gjalda verðar og þær hafi hjálpað mörgum og verið mörgum ómetanleg stoð, er auðvitað óralangt frá því, eins og allir vita, að fólk geti lifað af þeim ellilífeyri, sem það fær hjá þeim. En þetta er ekki aðeins réttlætismál, að stofna slíkan lífeyrissjóð, almennan lífeyrissjóð. Ég tel, að það sé líka og geti verið mikið þjóðhagslegt atriði að vinna að og stuðla að sjóðstofnun með þvílíkum hætti, og það geti haft sína miklu þýðingu ekki aðeins fyrir þá aðila, sem að slíkum sjóði standa, heldur og fyrir þjóðarbúskapinn í heild, að haldið sé þannig á málunum. Og það hefur sýnt sig og þarf ekki að hafa mörg orð um það, hversu þýðingarmiklir margir þeir sjóðir hafa verið, sem stofnaðir hafa verið. Og það vil ég að lokum taka fram, sem ég þó hljóp yfir og gleymdi áðan, að ég tel þá breytingu, sem gerð var á almannatryggingalögunum síðast, að gera hina sérstöku lífeyrissjóði að viðbótartryggingu við almannatryggingarnar, til mikilla bóta. Og það var einmitt eitt af þeim atriðum, eitt þeirra þriggja atriða, sem n., sem skilaði af sér í nóv. 1960, gerði að sinni till., og það er eina till. hennar, sem hefur þó komizt í framkvæmd enn, en hinar eru, ef dæma má af skýrslu hæstv. félmrh., á góðri leið með að komast í höfn. Og mér er óhætt að segja, að það mun ekki standa á stuðningi framsóknarmanna við þetta mál. Það hafa þeir sýnt með sínum tillöguflutningi í því hér á undanförnum þingum, þar sem þeir hafa orðið að ýta á málið með þeim hætti, sem ég hef hér gert grein fyrir.