02.03.1966
Sameinað þing: 29. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2748 í B-deild Alþingistíðinda. (2124)

Almennur lífeyrissjóður

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur nú gefið hér yfirlýsingar af hálfu Framsfl. um stuðning við þetta mál og rifjað upp sögu þess, og þarf ég engu við það að bæta, get undir það tekið að sjálfsögðu. Það var aðeins ein setning, sem hæstv. utanrrh. sagði, sem gaf mér tilefni til þess að segja hér fáein orð og ég vil ekki láta standa athugasemdalaust í Alþingistíðindunum. Hann sagði eitthvað á þá lund, að Framsfl. hefði þannig sögu í tryggingamálunum, að hann mætti ekki vel við því, að það væri dregið af honum, að því er mér skildist, það, sem hann gerði vel.

Ég verð að láta í ljós undrun mína yfir því, að hæstv. ráðh. skuli viðhafa þessi orð, og tel þetta mjög ósanngjarnt, og skal ekki segja hér langa sögu. En ég get ekki stillt mig um að upplýsa það, að í fyrsta lagi voru það Alþfl. og Framsfl., sem settu fyrstu löggjöfina á Íslandi um alþýðutryggingar gegn mjög harðri mótstöðu. Og það er eina tryggingalöggjöfin, sem hér hefur verið sett við verulega mótstöðu. Síðan hefur í raun og veru aldrei nein veruleg mótstaða komið fram í sambandi við endurbætur á alþýðutryggingunum. Og mér finnst satt að segja þetta vera dálítið ósanngjarnt af hæstv. ráðh. með tilliti til þess, sem þessir flokkar gerðu þá vel saman, því að það var ekkert smáræðis átak að koma þessu á þá, við þau skilyrði, sem þá voru, því að þau voru ekki ákjósanleg, þau skilyrði, langt í frá. Það var stórkostlegt átak og eitt það mesta. sem gert hefur verið í okkar þjóðlífi, að drífa alþýðutryggingalöggjöfina á við þau skilyrði, sem þá voru. Að því stóðu þessir flokkar saman tveir, og hefði ekki orðið gert, ef þeir hefðu ekki borið gæfu til að standa saman um það. En þá var hörð andstaða gegn málinu, og menn vita vel, hvaðan sú andstaða kom. Síðan hefur yfirleitt ekki verið um neina andstöðu að ræða við endurbætur á tryggingunum, því að þær hafa unnið sig áfram sjálfar.

Enn fremur vil ég geta þess, að Framsfl. hefur, eftir því sem ég man bezt, ævinlega stutt allar endurbætur, sem síðan hafa verið gerðar á tryggingunum, þ. á m. gengið fram fyrir skjöldu í samvinnu við þennan ráðh. um að setja á atvinnuleysistryggingar. En aðeins í eitt skipti, eftir því sem ég man bezt, hefur Framsfl. lagt til, að veigamiklu frv. um endurbætur á tryggingalöggjöfinni yrði frestað, vegna þess að þá höfðu framsóknarmenn ekki haft neina aðstöðu til þess að fylgast með í undirbúningi þess og töldu, að ýmis atriði þyrftu nánari athugunar við. Þá fylgdi þeirri frestunartill. frá flokksins hendi yfirlýsing um, að hann vildi styðja sem fyrst að fullkomnun tryggingakerfisins. En það var lagt til að vísa málinu frá og fresta því með tilliti til þess að athuga vissa kafla í því betur. En það kom þá í Ijós, að einn mikilvægur kafli í þeirri löggjöf, sem okkur fannst með fullmiklum skyndingi sett, hefur aldrei verið framkvæmdur. Við nánari athugun þótti ekki fært að framkvæma hann. Ég verð að segja, að mér þykja þessi ummæli hæstv. ráðh. í mesta máta ósanngjörn, þegar sagan er höfð í huga.