02.03.1966
Sameinað þing: 29. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2749 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

Almennur lífeyrissjóður

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja að neinu marki þær umr., sem hér hafa farið fram, og þar af leiðandi mun ég ekki blanda mér í þær deilur, sem hér hafa átt sér stað milli forystumanna stjórnmálaflokkanna um það, hver flokkanna eigi gylltasta fortíð í sambandi við tryggingamálin. En ég vil aðeins segja það, að ég fagna því, að þetta mál skuli vera komið á þann rekspöl, sem raun er á, og get tekið undir það með öllum öðrum, sem hér hafa talað, að ég tel æskilegt, að það verði leitt til lykta við fyrsta tækifæri, þó að ekki sé af öðrum ástæðum en þeim, að þetta er réttlætismál með tilliti til þess mikla misræmis, sem nú er orðið á milli kjara þeirra, sem aðeins hafa af ellilífeyri að lifa, og ýmissa annarra, sem njóta sæmilegra eftirlauna. Hitt er fullkomlega rétt, sem hæstv. forsrh. vakti athygli á, að málið er flókið og vandasamt. Það hefur valdið miklum deilum á Norðurlöndum, þó að þar hafi út af fyrir sig ekki verið um það ágreiningur, að æskilegt sé að efla tryggingalöggjöfina. En af hálfu þeirra, sem skemmra hafa viljað ganga í þessu efni, hefur verið bent á tvennt. Í fyrsta lagi, að það mundi leggja viðkomandi þjóðum á herðar of þungar byrðar að safna nauðsynlegum sjóðum til stóraukinnar ellitryggingar, og í öðru lagi mundi hin aukna kaupgeta, sem af tryggingunum leiddi, verða til þess að auka neyzluna verulega.

En það var ekki til að ræða þessa hlið málanna, sem ég stóð hér upp, heldur til þess að vekja athygli á öðru, sem ég hef hreyft áður við svipuð tækifæri hér á hinu háa Alþ., en það er þetta, að í einu efni er aðstaða okkar töluvert önnur og erfiðari í þessu máli heldur en hinna Norðurlandaþjóðanna. En það, sem ég á við í því efni, er hið háa verðbólgustig, sem verið hefur hér á landi miðað við það, sem annars staðar hefur verið. Undanfarinn aldarfjórðung eða frá því að seinni heimsstyrjöldin hófst, mun verðlag hér á landi hafa hækkað um ekki minna en 10% á ári að jafnaði. Samsvarandi tala fyrir hin Norðurlöndin er varla meira en 3–4%. En það er undirstaða allrar eiginlegrar tryggingarstarfsemi, sem byggist á söfnun sjóða, að verðbólgu sé þó haldið nokkuð í skefjum. Að vísu höfum við haft almannatryggingar hér á landi þrátt fyrir þetta, það er vitað, og þær hafa aukizt. En grundvöllur þeirra hefur fyrst og fremst verið sá, að auk framlaga úr sjóðunum eru það fyrst og fremst skattborgararnir, sem undir þessu hafa staðið. Auðvitað var það betri leið en að gera almannatryggingarnar að engu í skjóli verðbólgunnar. En hér er um alveg sérstakt vandamál að ræða, sem verður að leysa, ef á að stórauka tryggingastarfsemi hér á landi.

Ég gat ekki látið hjá líða, að þetta atriði kæmi fram, úr því að þetta mál hefur borið á góma hér í sameinuðu þingi.