02.03.1966
Sameinað þing: 29. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2750 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

Almennur lífeyrissjóður

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir með þeim þm., sem hér hafa þakkað ríkisstj. fyrir þetta stórmerka spor, sem stigið er í félagsmálum þjóðarinnar. En það er enginn vafi, að á síðustu árum eru fá mál önnur, sem eru stærri fyrir allan almenning heldur en einmitt þetta. Mér fannst hins vegar í umræðum, sem hér hafa verið hafðar í frammi, að það legðist lítið fyrir suma þm. að minnast þess ekki, um leið og þeir hafa haldið því fram, að þetta mál hafi faktískt verið fundið upp með flutningi tveggja þáltill. hér innan veggja Alþ., að þetta mál er komið af stað hér á Íslandi utan veggja Alþ. Ég leyfi mér að minna hv. þm. á það, að á árunum 1953, 1954 og 1955 voru uppi mjög háværar kröfur í hópi margra stórra starfsstétta hér á landi um lífeyrissjóð fyrir sitt fólk. Á grundvelli þessara almennu krafna, sem ég vildi segja að hafi verið uppi, vil ég líka segja það, að það hefur fáum málum verið meir eða betur fagnað af þeim, sem vinstri stjórnin lét eftir sig, heldur en setningu l. um lífeyrissjóð togarasjómanna. Það fór líka á þann veg skömmu síðar, eftir að þau lög voru samþ., að félagssamtök sjómanna beittu sér fyrir stofnun lífeyrissjóðs fyrir farmenn, sem náðist fram í samningum nokkrum missirum síðar. Og þegar það atriði hafði fengizt í samningum, kom auðvitað strax upp, eins og komið hafði áður og talað var um í umr. um lífeyrissjóð togarasjómanna hér á Alþ. við setningu þeirrar löggjafar, krafan um lífeyrissjóð fyrir alla íslenzka fiskimenn. Þessari kröfu hefur alltaf verið haldið á lofti síðan af samtökum sjómanna og reyndar líka hér af einstökum hv. þm. innan veggja Alþ., og það hafa verið samin lagafrv. um þetta mál, að ég vil halda í a.m.k. tvígang, en m.a. hefur þetta mál stöðvazt vegna kröfu, sem fljótlega kom fram úr röðum útvegsmanna, að rétt væri, að smáútvegsmenn ættu kröfu á því að geta gerzt aðilar að slíkum lífeyrissjóði einnig. Á þessu voru hins vegar við athugun á þeim árum það miklir annmarkar, að talið var, að ekki þætti fært að ganga jafnlangt og nú virðist hugmyndin að ganga. En ég vil minna á það líka, að skref í þessa átt var stigið með setningu löggjafar á Alþ. fyrir nokkrum árum, í tíð núv. hæstv. ríkisstj., um sameiningu lífeyrissjóðanna, annars vegar þess, sem hafði verið myndaður með löggjöf hér frá Alþ. um lífeyrissjóð togarasjómanna, og hins vegar lífeyrissjóðs fyrir farmenn, sem náðst hafði fram í samningum.

Ég vil líka láta það koma fram vegna þeirra umr., sem hér hafa farið fram, að það fór ekki hjá því, að í röðum sjómanna kæmi upp sú skoðun, að þegar þáltill. framsóknarmanna var flutt í fyrra skiptið, hafi þessi till. jafnvel verið flutt til þess að drepa á dreif þeim sterku kröfum og óskum sjómanna um það, að þá þegar fengist lífeyrissjóður fyrir alla fiskimenn. Þetta hins vegar var skoðun, sem forystumenn samtakanna vildu ekki láta heyrast og börðu niður fljótlega, vegna þess að þeir voru frá fyrstu tíð fylgjandi því, að sem flestir landsmanna gætu átt aðild að lífeyrissjóði.

Ég vil svo að lokum aðeins endurtaka þakkir mínar bæði til félmrh. og hæstv. ríkisstj. fyrir þá yfirlýsingu, sem hér var gefin, og ég fullyrði, að þetta mál verður á seinni tímum talið eitt það almerkasta, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur látið frá sér fara.