02.03.1966
Sameinað þing: 29. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2751 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

Almennur lífeyrissjóður

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það var einungis vegna þess, að hv. l. þm. Austf. vildi gera á því nokkurn mun, þeirri andstöðu, sem hann sagði að hefði verið á móti tryggingunum, þegar þær voru fyrst lögboðnar nokkuð almennt 1936, og svo þeirri andstöðu eða skorti á áhuga, skulum við segja, sem átti sér stað af sumra hálfu við stórbreytingar á þeim síðar. Nú skulum við auðvitað ekki vera að þeim barnaleik að láta svo sem það sé nokkur skömm eða nokkuð óvenjulegt, að flokkar breyti um skoðun og afstöðu til mála á heilum mannsaldri. Það væri mjög óeðlilegt og alveg fráleitt, ef menn breyttu ekki nokkuð sínum viðhorfum með breyttum tímum. En það er rétt að vekja athygli á því, að hv. þm. sagði um endurskoðun á tryggingalöggjöfinni — ég hygg 1964, þegar Páll heitinn Hermannsson gaf sína frægu yfirlýsingu og skar sig frá sínum flokksmönnum og greiddi atkvæði með endurbótunum í Ed., — hann sagði, að það hefði verið af sérstökum ástæðum, sem Framsfl. var þá almennt ekki með þeirri breytingu. Ég hygg, að hann hafi einnig verið mjög áhugalítill um endurbætur, sem gerðar voru á tryggingarlöggjöfinni, eftir að núverandi stjórn tók við, a.m.k. fyrir sumum breytingunum. Látum það vera. Flokkurinn hefur vafalaust getað fært fyrir því sérstakar ástæður, málefnalegar ástæður, sem hann hefur talið fullnægjandi á hverjum tíma. En þá vil ég einnig vekja athygli á því, að hið sama átti sér auðvitað stað af hálfu sjálfstæðismanna árið 1936. Hv. 1. þm. Austf. sagði, að það hefði verið nánast kraftaverk að koma tryggingunum þá fram, við þær erfiðu aðstæður, sem voru í þjóðlífinu. Og vitanlega voru það málefnalegar ástæður, sem þá voru fram færðar af hálfu þáverandi þm. Sjálfstfl. Það á enginn þeirra sæti á Alþ. lengur. Hv. 1. þm. Austf. sat þá á þingi ásamt hæstv. utanrrh. og nokkrum fleiri þm., sem voru fylgjandi þessari lagasetningu. Allir þeir sjálfstæðismenn, sem þá sátu á þingi, eru nú héðan horfnir, eiga ekki lengur setu á þinginu. Þeir fluttu málefnaleg rök fyrir sinni afstöðu, að því er ég bezt man, fyrst og fremst erfiðleika tímanna og annað það, sem andstæðingar mála oft bera fyrir sig og láta ráða úrslitum í sinni afstöðu. Hitt man ég mjög vel, að fyrir þann tíma höfðu ungir sjálfstæðismenn gert almennar samþykktir um stuðning sinn við víðtækar tryggingar.

Það fer eftir atvikum hverju sinni, hvort flokkur telur, eins og á stendur, vegna sérstakra aðstæðna í þjóðfélaginu, vegna erfiðleika, sem uppi eru, það vera rétt að vera með einhverju máli, þegar það fyrst er fram borið. Alþfl. hefur, alveg eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði, eflaust samfelldasta stuðningssögu við framgang trygginga. Ég held, að enginn geti efazt um það, það tjái engum þar að bera á móti. Þessu hefur oft verið lýst, a.m.k. af hálfu Sjálfstfl.

Hvort það hefði verið hægt að halda eitthvað örlítið öðruvísi á því máli, sem við ræðum nú, þannig að það hefði gengið eitthvað fyrr fram, eins og hv. þm. framsóknarmanna vilja nú halda fram, sennilega vegna sinnar aðstöðu, má ætíð deila um. Við hinir, sem berum ábyrgð á framgangi málsins, teljum, að við höfum haft allan skynsamlegan hraða á því og haldið þannig á málum, að það væri ekki líklegt, að það gæti gengið hraðar en gert hefur verið. Þannig verður auðvitað að skoða hvert mál út frá aðstæðum hverju sinni, en ekki vitna til aðstöðu og segja í öðru tilfellinu: Það voru erfiðleikar tímanna, sem réðu því, sérstakar aðstæður, að flokkurinn var á móti, en láta ekki sams konar skýringu gilda um andstæðinga, um leið og ég viðurkenni alveg fúslega og dettur ekki í hug annað en viðurkenna, að viðhorf sjálfstæðismanna hefur verulega breytzt til almannatrygginga á síðustu 30 árum.