02.03.1966
Sameinað þing: 29. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2753 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

Almennur lífeyrissjóður

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hlýt að fagna þeim undirtektum, sem mál þetta hefur fengið nú við þessar umr. hér á hv. Alþ. og ættu að vera trygging fyrir því, að málið nái fram að ganga með svo skjótum hætti sem unnt er, þegar farið verður að vinna að lokaskrefinu í þeim efnum.

Það eru aðeins tvö atriði í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., sem ég vildi skýra nokkru nánar, umfram það, sem þegar hefur verið gert af hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. Þm. gerði sérstaka fyrirspurn til mín eða a.m.k. tók ég það sem fyrirspurn, hvort tilkoma þessarar álitsgerðar og skýrslu ríkisstj. nú væri að einhverju leyti í tengslum við þá fsp., sem nú var verið að samþ. að leyfa hér á hv. Alþ. í dag. Ég hygg, að það verði ekki vefengt, að hvorki ég né hv. fyrirspyrjandi þeirrar fyrirspurnar vissum hvor um annan. Hugmyndin var, að þessi skýrsla yrði flutt á síðasta fundi Sþ., fyrir viku. Hugmyndin var að prenta álitsgerðina, en vegna anna í prentsmiðju reyndist það ekki unnt, og urðu nokkrar tafir á því, að hægt væri að koma skýrslunni fjölritaðri til þingmanna. Álitsgerðin er því ekki til komin hér á Alþ. nú í neinum tengslum við þessa fsp.

Í öðru lagi lagði hv. þm. mesta áherzlu á það, sem þegar hefur verið svarað, að gengið væri fram hjá sögulegum staðreyndum og þá sérstaklega þeim, hverjir væru flm. þeirrar upphaflegu till. til þál., sem um þetta mál var á sínum tíma samþykkt. Ég lagði áherzlu á það við samningu þessarar skýrslu, að þar kæmi það fram í málinu, sem máli skipti og ekki hefði áður komið fram á Alþ. Forsaga málsins er til hér í þskj. og hverjir fluttu þessa þáltill. og þess vegna alger óþarfi að endurtaka það nú. En það annað, sem fram kom í minni skýrslu, hefur ekki verið rætt áður í sambandi við þetta mál, og ég lagði áherzlu á, að það kæmi fram nú.

Að öðru leyti ítreka ég svo þakklæti mitt fyrir þær góðu undirtektir, sem málið hefur fengið, og vænti, að þessar góðu undirtektir komi fram í góðu og einlægu samstarfi um að gera þessa löggjöf sem haldbezta, alþjóð til heilla.